22.11.2008 | 23:57
Norðurreið Skagfirðinga 1849 og mótmæli á Austurvelli á haustdögum 2008
Mótmæli gegn valdstjórn er ekki nýmæli á Íslandi þó engin dæmi þekki ég um jafn tíð og fjölmenn mótmæli sem undangengnar vikur. Mótmælin á Austurvelli hafa farið fram með mikilli prýði undir öruggri stjórn Harðar Torfasonar sem þar á aðdáun mína alla. Nokkur órói ungmenna að loknum fundum hefur vakið athygli siðlátra og forystuhollra ritara á þessum vettvangi og verið kallaður skrílslæti.
Norðurreið Skagfirðinga 1849 og mótmælin á Austurvelli eiga sér samhljóm í neyðarviðbrögðum gegn valdkúgun þó fyrri atburðurinn hafi dregið með sér alvarlegri afleiðingar en þær sem nú eru fyrirséðar á landi voru og vonandi er að forðast megi.
5.maí. Fyrri hluta vetrar ákváðu nokkrir Skagfirðingar að boða til fundar til að ræða ýmis héraðsmál. Hinn 5. maí komu um 60 Skagfirðingar saman á Kalláreyrum.....í Gönguskörðum. Fundarstjóri var Jón Samsonarson alþingismaður. Meðal fundarmanna voru margir helztu forustumenn Skagfirðinga vestan Héraðsvatna, nágrannar þeirra, bændur og búalið: Gísli Konráðsson sagnaritari og hreppstjóri frá Húsabakka og Indriði sonur hans. Þorbergur Jónsson hreppstjóri frá Dúki, Sigurður Guðmundsson fyrrum hreppstjóri á Heiði í Gönguskörðum, Bjarni Bjarnason á Meyjarlandi, Egill Gottskálksson á Völlum, Sigvaldi Jónsson skáld frá Syðra-Vallholti, Jónas Jónsson hreppstjóri á Syðra-Vatni, Sölvi Guðmundsson hreppstjóri í Skarði. Gunnar Gunnarsson hreppstjóri á Skíðastöðum í Laxárdal og Sveinn Símonarson í Efranesi í sömu sveit. Fundurinn átti að fara leynt og var rík áherzla á lögð. Fyrst var rætt um væntanlegt jarðamat, tíundir til presta og kirkna, en aðalmál fundarins og það, sem síðast var rætt, var óánægja með valdstjórnina, einkum festu, sem komin var á klausturjarðir, og umboðsstjórn Einars Stefánssonar á Reynistað, svo og "ýmis vandkvæði", er þeir töldu sig verða fyrir af hálfu stjórnarinnar eða Gríms amtmanns Jónssonar á Möðruvöllum. Ákveðið var að blása til annars fundar síðar til að ræða amtmannsmálin. Sá fundur var haldinn við Vallalaug, hinn forna þingstað, 22. mái. Talið var að þar kæmu saman um 160 manns, og má nærri geta, að margur ungur maðurinn fór til þessa fundar sér til skemmtunar, aðrir af þægð við húsbændur, og var síðar látið opinberlega að því liggja af sumum. Hitt er þó jafnvíst, að alvara bjó að baki hjá forustumönnum og ýmsum öðrum. Á Vallalaugarfundi var ákveðið að ríða norður að Möðruvöllum og "afbiðja" amtmanninn. Reyndar kom síðar í ljós, að forustumenn hefðu ákveðið á Kallárfundi eða litlu síðar, að þessi för yrði farin. Meginástæðu hennar töldu forsprakkar þá, "að Grímur amtmaður hafði boðið að byggja allar klausturjarðir á uppboðsfundum og skyldi sá einn fá þær leigðar, er mesta byði landskyld og flest kúgildi vildi taka." Er Jón Samsonarson hafði "mælt fyrir bóninni", snöruðust ýmsir hinna yngri fundarmanna á bak hestum ínum, sviptu þeim um völlinn, létu ófriðlega og hrópuðu: "Lifi þjóðfrelsið! Lifi félagsskapur og samtök! Drepist kúgunarvaldið!" Meðan þessu fór fram, sat Gísli Konráðsson við skriftir og samdi svohljóðandi orðsendingu til amtmanns, næðu þeir ekki fundi hans: "Þessir fáu gestir, sem nú að þessu sinni heimsækja þetta hús, eru eitt lítið sýnishorn af þeim stóra mannflokki, sem að miklu leyti hefir misst sjónar á tilhlýðilegri virðingu og trausti á amtmanns embætti því, sem nú er fært á gömlu Möðruvöllum, og eru þess vegna hingað komnir: Fyrst til að ráðleggja og því næst biðja þann mann, sem hér nú færir þetta embætti, að leggja það niður þegar í sumar með góðu, áður en verr fer. Lifi þjóðfrelsið! Lifi félagsskapur og samtök! Drepist kúgunarvaldið!" Fimm menn voru kosnir fyrirliðar í förinni: Indriði Gíslason, Egill Gottskálksson, Bjarni Bjarnason, Sigurður Guðmundsson og Sigvaldi Jónson. Norður fóru úr Skagafirði 40-50 menn( tölum ber ekki saman), og höfðu allir nesti og tvo, sumir þrjá, til reiðar. Í Norðurárdal var liði skipt. Sumir riðu Hörgárdalsheiði, aðrir Öxnadalsheiði. Á leiðinni til Möðruvalla slógust nokkrir Eyfirðingar í hópinn. Á Lönguhlíðarbökkum voru menn nætursakir og héldu ferðinni áfram að morgni 23. maí. Heimildum ber í sumum atriðum ekki saman um, hvað gerðist á Möðruvöllum. Grímur amtmaður hafði lengi verið sjúkur, stundum dregizt á fætur til að sinna embættisverkum, en var rúmfastur og fársjúkur, er Norðurreið var farin. Amtmanni var gert viðvart, er flokkurinn birtist fylktu liði í halarófu í heimtröðinni. Flýtti hann sér að klæðast, en varð ekki nógu fljótur til að verða við beiðni komumanna, er höfðu þá fest upp orðsendinguna og voru að ríða úr hlaði, er amtmaður birtist á þrepunum og kallaði: "Nei, bíðið þið við, piltar, ég ætla að tala við ykkur!" Þeir flýttu sér burt, og enginn virti amtmann viðlits. Hálfum mánuði síðan lézt hann, hinn 7. júní.
Þessi frásögn er tekin úr Skagfirskum annál 1847-1847 eftir Kristmund Bjarnason fræðimann á Sjávarborg, fyrra bindi. Ég hef reynt að halda öllum textanum óbreyttum og biðst afsökunar á ef þar hefur útaf brugðið. Kristmundur er sannur meistari stíls og málvísi og síst vildi ég afbaka hans handbragð og hugsmíð.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 23.11.2008 kl. 00:11 | Facebook
Athugasemdir
Heill og sæll; Árni !
Þakka þér; þessa gagnlegu upprifjun Norðurreiðarinnar. Víst; má telja skaða að, að þeir sendimenn næðu ekki fundi, með Grími Amtmanni, en svo verður að vera, sem fara vill, stundum.
Vonum; að þessi frásaga stappi enn frekar stáli, í núlifandi Íslendinga, hverjir heyja baráttu illvíga, við meinvætti samtíma okkar.
Með baráttukveðjum, sem oftar /
Óskar Helgi Helgason
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 23.11.2008 kl. 00:51
Þakka þér undirtektirnar og kveðjuna félagi Óskar Helgi.
Líklega hefðu okkar siðprúðu og undirgefnu lyddur í dag, kallað höfðingja á borð við Sigurð hreppstjóra og skáld á Heiði, Jón alþingismann í Keldudal, Gísla sagnaritara Konráðsson, föður Konráðs Fjölnismanns, Egil á Völlum og ýmsa fleiri slíka,-"skríl" sem kæmi óorði á kyrrláta og þögla andófsmenn.
"Það eru verst hin þöglu svik/ að þegja við öllu röngu."
Árni Gunnarsson, 23.11.2008 kl. 01:02
Þú ert sagnfræðileg gerzemi, Árni, takk fyrir þetta.
Steingrímur Helgason, 23.11.2008 kl. 01:11
Gott að fá upprifjun á þessu, Árni, og í nákvæmara formi. Pereatið við Reykjavíkurskóla var nálægt þessu í tíma, en 1848 kraumuðu byltingarhreyfingar víða á meginlandinu og höfðu sín áhrif í Danmörku til afnáms konungseinveldis.
Ég bið þig ekki að þegja við röngu, en kann illa við sóðaskap og vil ekki, að táknmynd okkar þingbundna lýðræðis sé svívirt eins og nú er gert hvern laugardag. Þeir menn gera það í skjóli fjöldans – virðast ekki þora því einir síns liðs.
Aðförinni að lögreglustöðinni verður engin bót mælt – það hefur enginn kosið þessa árásarmenn fulltrúa þjóðarinnar til að leiðrétta eitthvert meint ranglæti. Hér er réttarríki, og menn geta sótt rétt sinn með lögum, ekki ofbeldi og örugglega ekki til lengdar. Vertu viss, meirihluti þjóðarinnar aðhyllist ekki þessa aðför að laganna þjónum, sem eru okkar þjónar og lýðveldisins, þegar þeir láta ekki undan háreystinni í æstum hópi, sem er í allra stærsta lagi um 1 pró mill af þjóðinni (talað var um 100–200, 200–300 og 500 manns fyrir utan lögreglustöðina; árásarliðið hefur trúlega verið langtum fámennara, því að alltaf mæta forvitnir á slíkan vettvang).
Með kærri kveðju,
Jón Valur Jensson, 23.11.2008 kl. 01:18
Sælir enn !
Má til; að leiðrétta ambögur Jóns Vals, svo sem þá, að vaktarar (lögregla) séu þjónar okkar og ''lýðveldisins''. Reginfirra; Jón minn, því miður eru þeir þjónar andstyggilegrar valdastéttarinnar, unz þeir sýni af sér þá mennsku, að ganga til liðs, við byltingaröfl alþýðunnar.
Og; ''réttarríkið'' er einungis í þágu þeirra, sem betur mega, og eru lítt fjárþurfa, að kalla.
Jón Valur Jensson ! Ég; perónulega, er búinn að fá upp í kok, af yfirgangi og stærilæti og svikum og lygum hvítflibba stéttarinnar, og vil hana helzt, út í hafsauga, áður en hún gengur af mér og mínum dauðum.
Svo einfalt er það !!!
Með ágætum baráttukveðjum, sem fyrr /
Óskar Helgi Helgason
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 23.11.2008 kl. 02:22
Þetta er snilldarlega vel framsett og nákvæm lýsing á hvernig fólk fór að hér áður fyrr að mótmæla. Virkilega áhugavert.
Ég mæli aldrei ofbeldi bót. Enn ef á þig og þína er ráðist verur að svara í sömu mynt. Annað er bara aulaskapur og þrælsótti.
Þetta er ekki réttarríki lengur þegar skurkarnir eiga dómstólanna og eru bara notaðir fyrir suma. Það er ekki lýðræði lengur þegar sumum er gert að fara eftir lögum og öðrum ekki.
Það eru svik þegar maður eins og Davíð Oddson er ekki með meiri ábyrgðartillfinningu enn það, að hann segir ekki af sér, þrátt fyrir mótmæli hér á landi og erlendis.
Egf yfirvöld fara ekki að sjá að sér, er hætta á blóðugum átökum og er það líka furðuleg hegður af stjórnvöldum að taka þann þátt með í reikninginn. Vikkinga-sveit, þó hún væri þúsund manns, yrði afvopnum að fólki með öflugri vopn enn þeir eru með. ég tala nú ekki um fjöldan.
Það á að taka völdin af valdhöfum, setju og þjóðstjórn, og læsa inni aðalvaldhafa meðan verið er að laga málin á Íslandi.
Mannfall er ásættanlegt með hliðsjón hversu mikið er í húfi. Þetta mál þolir enga við og allra síst þar til næstu kostningar.
Það er nog af vopnum komið til Íslands til að framkvæma valdatöku.
Óskar Arnórsson, 23.11.2008 kl. 06:16
Árni: Þakka þér þessa upprifjun á sögu okkar.
Við lestur þessa pistils sést að norðurreið þessara manna var hótun um að ef ekki yrði breitt um stefnu, þá yrði önnur norðurreið farin og sú yrði varla jafn friðsamleg og sú fyrri, því vissulega var för þeirra friðsamleg mótmæli af lýsingunni að dæma, því það eina sem þeir skildu eftir sig á Möðruvöllum var yfirlýsing og spor hestanna sem þeir voru á.
Þeir vígreifu nafnar hér að ofan, mætu nú aðeins hugsa sin gang, það ástand sem nú ríkir er vægast sagt undarlegt, en men þyrftu helst að geta fundið hinn raunverulega sökudólg, áður en farið er á stað með heilhvíslar og önnur vopn, því fát er vera gert en að kenna einum um gerðir margra.
Magnús Jónsson, 23.11.2008 kl. 10:02
Sæll fyrrum sveitungi, þú ert greinilega hafsjór af fróðaleik, takk fyrir þetta. ég var búin að svara þér mín megin, þar vantar mig upprifnum
(IP-tala skráð) 23.11.2008 kl. 10:15
fyrirgefðu en þetta átti auðvitað að vera "upprifjun"
(IP-tala skráð) 23.11.2008 kl. 10:16
„Það er nog af vopnum komið til Íslands til að framkvæma valdatöku!“ Það er verið að skrifa nýja Íslandssögu. Hvernig hún endar er óljóst en ég held að hún verði ekki eins friðsæl og frásögnin hér að ofan. Ég sagði að ef lögreglan færi að beita piparúða á mannskapinn væri kominn tími á grjót. Sá tími virðist vera kominn. Því miður. Stjórnvöld virðast algerlega ómeðvituð um reiðina í fólki. Reiði sem magnast með hverjum deginum meðan aðgerðir ríkisstjórnarinnar til aðstoðar fjölskyldum eru eins og plástur á svöðusár eins og Gunnar Tómasson (ef ég man rétt) orðaði það. Ingibjörg Sólrún segir ekki tíma fyrir kosningar. Geir að meirihlutinn sé tryggur. Fréttablaðið að ríkisstjórnin sé með 30% stuðning. Veruleikafyrrt er það eina sem mér dettur í hug um óráðamenn landsins.
Ævar Rafn Kjartansson, 23.11.2008 kl. 13:11
Komið þið sæl; á ný !
Magnús Jónsson ! Víst; erum við nafnar vigdjarfir, þótt svo ekki væri, nema sökum æsku okkar. Ég sjálfur; er fæddur árið 1958, og hefi samt, á ekki lengri æfi, marga fjöruna sopið. Fyrst og fremst; hefi ég tekið þátt í atvinnu lífinu, til styrkingar sjávar og sveita, en þó; af takmörkuðum tíma, sinnt miðaldafræða grúski ýmsu, sem seinni tíma, jafnframt.
Magnús ! Þú misskilur hrapalega; haldir þú, að ég telji einn mann, umfram annan bera ábyrgð, á hruni atvinnulífs og þjóðlífsins; almennt. Fjarri því: mætti ég benda á, að Alþingi - Stjórnarráð - Fjármálaeftirlit - Seðlabanki og ''útrásar'' hyskið. Allir þessir; ættu að sæta grimmilegri refsingu, svo ekki sé nú talað um, færibanda framleiðendur óþarfa húsnæðis, hér á Suð- vesturlandi, hverjir fremur hefðu átt, að eyða tíma - fé og fyrirhöfn, í uppbyggingu sauðfjárveikivarna girðinga, sem hólfa, inni á hálendi Íslands, í þágu bænda, sem okkar hinna allra. Svo dæmi sé tekið, að nokkru !
Vil svo; að endingu, þakka þeim nafna mínum, sem og Ævari Rafni góðar tölur sínar, sem mælskunnar þrótt, í þeirra bezta tilgangi, sem jafnan.
Með ágætum baráttukveðjum, sem fyrr /
Óskar Helgi Helgason
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 23.11.2008 kl. 14:20
Ævar Rafn, skammsýnn ertu, ef þú hvetur til múgæsingar og ofbeldis. Og gerðu þér grein fyrir, að þarna er um örfámennan hóp ungra róttæklinga og 'aðgerðasinna' að ræða.
Óskar Helgi, stilltu þig, strákur! Það verður sannarlega tekið á yfirsjónum þeirra, sem þær hafa á samvizkunni, en það er hvorki gert með 'mob rule' né 'lynching'. Sá, sem bregður sverði, á það á hættu að falla fyrir sverði – ætti að hyggja að því í tæka tíð! Framgangur réttlætis með lögformlegum leiðum tekur oftast tíma, sýnum þolinmæði og bætum ekki gráu ofan á svart. Þetta nær vonandi til ykkar, því að ykkur ætti að vera ljóst, að þið eruð a.m.k. komnir á grátt svæði lögmætis og réttlætis, ef þið takið þátt í aðgerðum órepresetatífs og umboðslauss upphlaupshóps.
Förum frekar hina farsælu leið Færeyinga, sem Kristinn Ásgrímsson benti á hér, 22.11. kl. 22:27, og hér: Þjóðfélag í uppnámi.
Jón Valur Jensson, 23.11.2008 kl. 14:40
Jón Valur, ég er ALLS EKKI að hvetja til ofbeldis heldur benda á að það virðist ætla að verða sú leið sem verður farin. Sem ég held að skili bara meiri sárum og reiði. Ég er hins vegar fullur skilningi á því að fólk skuli vera reitt og með stuttan þráð. Og þegar ég sagði, kominn tími á grjót var ekki hugsunin hjá mér að fara sjálfur að grýta neinn. Hvað svo sem seinna gerist.
Ævar Rafn Kjartansson, 23.11.2008 kl. 15:11
Jón Valur býður bara hina kinnina ef hann verður slegin. Ef hann verður rændur, biðir hann ræningjan að koma heim og taka meira. Góður maður
Ég er anti-ofbeldismaður, enn myndi samt vilja manna eins og 500 manns með almennilegum vopnum og taka völdin af þeim sem hafa þau núna, og mynda þjóðstjórn.
Það geta orðið blóðsúthellingar, slys og þ.h., enn það er of mikið í húfi til að setja það fyrir sig.
Að henda steinum er gamaldags og það skeður ekkert við það. Þú verður MINNST að vera með jafnmikið af skotvopnum og andstæðingurinn, og helst 3svar sinnum meira.
Þetta er það eina rétta.
PS. hvaða neikvæð komment á þetta er allataf sama svarið: OK! og svo ekkert meira.
Óskar Arnórsson, 23.11.2008 kl. 15:26
Og komið þið sæl; enn á ný !
Jón Valur ! Ég er ágætlega hófsamur; þrátt fyrir kringumstæður, þakka þér fyrir. Jú; víst er það, strákum; eins og mér, getur hlaupið kapp í kinn, í ungæðishættinum, en,......... vel að merkja, Jón minn. Þetta snýst ekkert lengur, um hópa aðgerðasinna, fremur en annarra, miklu fremur, um alla aldurshópa, hverjir eru að líða nauðir, sökum skemmdarverka hvítflibba skarans, utan Alþingis, sem innan.
Það er meinbaugurinn, í okkar samtíma. Og gættu að; Jón Valur !
Meira að segja; í hinni svörtustu Afríku, sem og í Rómönsku Ameríku - Asíu, sem víðar, væri búið; af alvöru mikilli, að taka úr umferð, skaðvalda þá, sem eru að grafa undan mér, sem þér, með óhæfuverkum sínum. og hafa stórspillt öllum búsetuskilyrðum venjulegra Íslendinga, til verulega langs tíma.
Reiknar þú með; Jón Valur, að Geir H. Haarde og Ingibjörg S. Gísladóttir komi hlutunum í lag, hér á Fróni, á ný ? Varla !
Til þess; ertu of skynsamur maður, og lífsreyndur.
Hvet þig því; til þess að ganga í raðir okkar byltingarsinna, sem allra fyrst.
Með ágætum baráttukveðjum, sem oftsinnis áður /
Óskar Helgi Helgason
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 23.11.2008 kl. 16:23
Hófsemi er að taka óhófsseggina úr umferð strax. Með öllum tilteknum ráðum.
Ég er búin að tala um hvaða ráðum ég mæli með.
Fínt komment hjá þér nafni!
Óskar Arnórsson, 23.11.2008 kl. 16:53
Þakka þér fyrir; nafni minn, og sömuleiðis !
Með baráttukveðjum góðum, sem fyrr /
Óskar Helgi Helgason
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 23.11.2008 kl. 17:27
Þakka þér fyrir þessa skemmtilegu og fróðlegu færslu
Jón Magnússon, 23.11.2008 kl. 19:56
Það er nokkur ánægja fyrir mig að sjá hvernig lesendur þessa annálsbrots hafa tengt þessa tvo atburði á líkan hátt og ég gerði. Ég leyfi mér þó að vona að ekki þurfi að óttast að við þennan lestur hafi losnað úr læðingi nein þau öfl sem valda muni slysum í nokkra veru. Það er ljóst að eftir þessa leiftursnöggu eldingu sem laust niður í okkar sjálfsánægða samfélag lamaðist þjóðin um hríð. Síðan tóku við angist og reiði sem beindist að hinum ýmsu gerendum í hraðri og klaufalegri atburðarás sem nú hefur skilið eftir þinglýsta skuld sem nemur 5 milljónum á hvern íslenskan þegn og bætist ofan á fyrri skuldir sem mörgum voru þegar orðnar ofviða vegna okurvaxta og verðtryggingar. Þessar nýju skuldir eru afleiðing stjórnlausrar græðgi nokkurra tuga spilasjúklinga sem buðu sér til glórulausra veisluhalda í boði þjóðarinnar. Óáreittir hafa nú sömu menn getað valsað með og sukkað þær eigur sem sagðar voru standa sem veð fyrir ábyrgðinni og daglega birtast fréttir af þessu sem flestar eru svo staðfestar af rannsóknarblaðamönnum.
Jón Valur: Ég velti nú vöngum yfir því svona með sjálfum mér hvort það kallast skrílslæti að krefjast þess með vaxandi þunga að valdsmenn þjóðarinnar hlusti á þau skilaboð frá henni að þess sé óskað að þeir skili tafarlaust af sér því- að sönnu -"lýðræðislega" umboði sem þeim var fengið í hendur við allt aðrar aðstæður en nú blasa við.
Þegar stjórnvöld og regluverk fjármála sameinast í ofbeldi og misbeitingu lýðræðis skapast ástand sem ég sé fyrir mér í dag sem hættuástand.
Íslenska þjóðin er þrotin af umburðarlyndi á borð við það sem birtist í svari Þjóðreks biskups við hneykslun Steinars bónda í Hlíðum þegar sá fyrrnefndi hafði verið hrakinn og barinn á sveitarfundi og sagt er frá í Paradísarheimt Laxness: "Ég hef nú sjaldan verið barinn svona lítið!", var svar guðsmannsins þegar hann stóð upp og lagfærði klæði sín. Mörgum finnst í dag að hann hafi verið barinn fullnóg, og nú sé mál að linni.
Árni Gunnarsson, 24.11.2008 kl. 00:58
Heyr heyr Árni Gunnarsson!
Ef valdstjórn, dag eftir dag, pissar framan í launþega og venjulegt fólk, er þá ekki hætta á að kurteisi þeirra og daglegar siðareglur fari úr böndunum?
Það kemur hér hver um annan þveran sem heldur að hægt verði að breyta þessu með lýðræðisreglum! Það er af og frá! Það þarf a.m.k. sama afl og þeir hafa yfir að ráða.
Og þeir ráða nokkrum vopnuðum lögreglumönnum, (120) og þá þarf 300 manns með vopn svo hægt sé að takmarka slys. Venjulega spreybrúsalögreglu tel ég ekki með. Enda myndu þeir hlaupa allir með tölu.
Taka völdin og mynda þjóðstjórn. Allt annað er að samþykkja ríkjandi ástand.
Óskar Arnórsson, 24.11.2008 kl. 13:07
Mjög skemmtileg frásögn og athyglisverð. Nýverið sjáum við átök við Seðlabanka og litlu má muna að uppúr sjóði við Austurvöll. Fólk er hissa á þessu og kannast ekki við slíkt áður. Fyrir ekki mjög svo löngu urðu langar óeirðir í Frakklandi þar sem kveikt var í bílum og byggingum. Þetta fók var svo sem ekki að mótmæla öðru en algeru vonleysi í nútíð og framtíð. Vonleysi tengt fátækt og tilbreytingarlausri fratíð sem bar enga von í sér. Ég held að við munum sjá meira óeirðum hér þegar fram í sækir og fjöldi fólks sér enga framtíð fyrir sig eða afkomendur. Þessi kreppa er bara rétt að byrja. Enginn heiðvirður aðili hvetur til ofbeldis og óeirða en, það er hægt að skapa slíkar aðstæður og þannig þjóðfélag að slíkt komi sí og æ fram. Og ef slík skilyrði eru sköpuð skal engan undra að reiðin brjótist fram.
Ein spurning Árni, Jón Samsonarson, Samsonarnafnið, hvaðan kemur það, er það frá Samsonarættinni í Haukadal við Þingeyri?
Lund Hervars (IP-tala skráð) 3.12.2008 kl. 20:18
Takk fyrir notalega samúðarkveðjuna
Marta B Helgadóttir, 6.12.2008 kl. 16:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.