Þegar oflætið stýrir för er voðinn vís

Ég er gull og gersemi,/ gimsteinn elskuríkur./Ég er djásn og dýrmæti/Drottni sjálfum líkur.

Þessi vísa er ekki eftir Davíð Oddsson þó ýmsum gæti komið það í hug. Hún er ekki heldur eftir Geir.H. Haarde, ekki Árna Mathiesen og hún er ekki eftir mig. Og til að leysa allan vafa sem komið gæti upp þá er þessi vísa eftir Sölva Helgason eða í það minnsta eignuð honum.

Sölvi var kunnur landshornaflakkari fæddur norður í Sléttuhlíð í Skagafirði árið 1820 og dó 1895. Sölvi var fyrirmynd Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi að söguskáldsögunni Sólon Íslandus. Sölvi var ógæfumaður og marghýddur fyrir þjófnaði og önnur misyndi. Ógæfa hans fólst að mestu í þeirri geðrænu veilu sem birtist í slíku ofmati á eigin gáfum og hæfileikum að hann fór með himinskautum í öllum sjálfslýsingum sem margar eru skráðar á bækur. Hann var hvergi aufúsugestur og lenti um skeið í fangelsi í Danmörku þar sem hann heimkominn breytti sögunni í að hafa dvalist með lærdómsmönnum og numið vísindi. Mér skilst að þessi geðræna veila Sölva taki nafn af frönskum keisara og kallist Napoleonsheilkenni. Að sjálfsögðu er þessi ógæfa á misjafnlega háu stigi hjá þeim sem það bera en er talinn voðalegur förunautur öllum þeim sem hafa með höndum stjórnunarstörf. Færðar hafa verið líkur til að þetta heilkenni hafi orðið þess valdandi að þjóðveldistíma lauk á Íslandi upp úr miðri þrettándu öld og hélst svo allt fram á þá síðustu.

Nú stendur þessi þjóð lýðræðisstjórnar frammi fyrir skelfilegri framtíðarhorfum en nokkrir þekkja og má líkja að nokkru við þrengingar fyrri alda þó við ólík ytri skilyrði sé.  

Í dag erum við í tilvistarkreppu sem hvergi á hliðstæðu í okkar sögu. Þrátt fyrir strangar viðvaranir fjölmargra erlendra sérfræðinga til stjórnvalda og efnahagslegra stjórnsýslustofnana höfðust stjórnvöld ekki að en flutu sofandi að feigðarósi með umbjóðendur sína innanborðs. Þau afneituðu staðreyndum með hroka og að tilhlutan heimskra bankastjórnenda og óheiðarlegra spákaupmanna græðginnar brotlentu þau þjóðarskútunni. Þau afneita enn. Þau segjast engar aðvaranir hafa fengið- "enginn sá þetta fyrir" segja þar núna allir í kór.

Þetta er auðvitað skelfilegt ástand. Ísland er komið á svartari lista en nokkur önnur þjóð af öllum þeim sem hin alþjóðlega kreppa hefur hitt. Og orsökin er einfaldlega sú að ekki var brugðist við aðvörunum. Þetta tel ég mér fært að segja vegna þess að ég hef heyrt upprifjanir af orðum þeirra manna sem gerðu gys að varnaðarorðunum. Og þetta höfum við flest heyrt að minni hyggju. Nú er hér staddur einn þeirra manna sem ég er að vísa til. Og hann kemur fram á fjöldafundi og hann kemur fram í Sjónvarpinu og segir frá þessu öllu. Og rétt eins og fjölmargir aðrir erlendir greinendur og stjórnmálamenn er hann agndofa yfir því að enn situr sú valdstjórn sem ábyrgðina ber. Og engum er sagt upp störfum sem gegndi lykilstöðum í kerfinu. Enginn segir af sér; enginn rekinn!

Er þetta þá allur vandinn? Nei. Stór hluti þjóðarinnar hefur lýst vantrausti á ríkisstjórnina í skoðanakönnunum. Fjöldasamkomur eru haldnar vikulega þar sem þúsundir reiðra Íslendinga krefjast þess að ríkisstjórnin víki og fagleg neyðarstjórn taki við völdum. Þessu er auðvitað? mætt með þeim hroka að ráðamenn segjast ekki hafa brugðist þjóðinni á nokkurn hátt og þeir hafi lýðræðislegt umboð til að fara sínu fram óáreittir. Ráðamenn varðar ekki um álit umbjóðendanna. Þeirra lýðræði er að þröngva sínni pólitísku aðkomu upp á þjóðina og nýta sér skjól frá lögreglu.

"Þið eruð ekki þjóðin" er hrokafullt svar formanns ríkisstjórnarflokks og eins af veigamestu ráðherrunum á fjölmennum borgarafundi þegar ríkisstjórninni eru borin þau skilaboð að þjóðin treysti ekki stjórnvöldum og krefjist afsagnar. Sú ríkisstjórn sem hældi sér með orðalagi sem vísað gæti til Sölva Helgasonar fyrir trausta efnahagsstjórn fyrir fáum missirum og lýsti skuldlausu þjóðarbúi skýrir í kvöld frá 2000 milljarða skuld sem hefði verið hægt að miklum hluta að afstýra ef hlýtt hefði verið hollum ráðum sérfróðra manna!

Vandinn er tvíþættur: Annars vegar sá að ríkistjórn okkar sem komið hefur okkur í stöðu sem liggur neðan við þjóðargjaldþrot segir okkur að þegja og hegða okkur vel.

Hinn vandinn felst í hundslegri flokkstryggð þeirra fjömörgu sem segja okkur það sama og í viðbót það að við megum skammast okkar fyrir að mæta okkar traustu valdhöfum með skrílslátum.

Í þeirra augum eru valdhafar "Drottni sjálfum líkir" og eigi að fá að sökkva okkur enn dýpra ef þeim býður svo við að horfa. Þá klæjar í lófana að mega veita átrúnaðargoðum sínum tilhlýðilega hollustu. Í skjóli þessa hóps leyfa stjórnvöld sér að níðast á okkur með afneitunum og hroka.

Í dag er það eitt í boði að grípa til þeirra neyðarráða að biðja alþjóðasamfélagið ásjár og koma okkur til hjálpar við að losa okkur undan oki "lýðræðisins!"

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Ég er sammála þessari færslu þinni í mörgu en tel þig samt of svartsýnan. Flokkstryggðin hefur aldrei verið minn en einmitt núna. Þetta er tími til að skapa.

Sigurður Þórðarson, 15.1.2009 kl. 20:01

2 Smámynd: Ragnar Eiríksson

Sæll Árni og þakka þér fyrir bloggvináttuboðið - ég fer mér nú svo hægt í þessum tölvumálum að ég er ekki enn búinn að átta mig á hvernig maður gerir slíkt.  Þegar ég fór að skoða málin nánar ver mér allt í einu boðið að faðma þig - sem ég að sjálfsögðu þáði ekki, hvur vill faðma gamlan karlfausk?!!!!

Það var annars "fyndið"/sorglegt að heyra viðtölin í útvarpinu við Geir og Árna Matt.!      Geir sagði í gær að þeir hefðu haldið fund með Wade þessum og það væri ljóst að maðurinn hefði alls ekki nægar upplýsingar eða þekkingu til að dæma um ástandið hér!!!!      Bara nokkuð skýrt.      Í morgun var Árni Matt spurður um hvort hann hefði aldrei hugleitt að segja af sér?       Það hefur nú svo margt flogið manni í hug en ég get ekki neitað því að hafa hugleitt það.     Það er bara svo að ég finn enga ástæðu í gerðum mínum sem ættu að verða þess valdandi!    (Þetta er nú ekki orðréttar tilvitnanir en þetta sögðu mennirnir samt)       Ég held þeir slái báðir Sölva við þó alveg sé vist að þeir geti ekki reiknað barn í konu eins og hann! 

Og nú stefna grænu mennirnir héðan með tilhlökkun á framsóknarþing til að láta flokkinn endurfæðast hvítan og syndlausan eins og nýskýrðan hvítasunnumann!   Halleluja - Hósíanna!   Blessaðir veri allir hinir hreinu og frelsuðu! 

Kveðja

Ragnar

Ragnar Eiríksson, 15.1.2009 kl. 20:37

3 Smámynd: Þór Jóhannesson

Skemmtilegur lestur Árni - hverju orði sannara. Þetta "Sölva heilkenni" er sannarlega ágætis útskýring á sérplægninni og sjálfsmiðuninni sem hrjáir siðblinda valdhafa þessa lands.

Þór Jóhannesson, 15.1.2009 kl. 20:42

4 Smámynd: Júlíus Björnsson

Árni ! Heyr! Þetta er einmitt málið. Tækifærisinnarnir eru með allt niðri um sig: alheimsatlagi.

Eins og þursinn heimskur. Stritast við að reisa upp vitfirringuna. Skera niður Heilbrigði. En viðhalda verðlausri Kauphöll, seðlabanka og öllum þeirra fylgi fiskum.

Nýju fötin keisarns. 

Júlíus Björnsson, 15.1.2009 kl. 21:06

5 Smámynd: Árni Gunnarsson

Siggi: Ég er svona hóflega bjartsýnn þó einhverjar vísbendingar um óróa séu merkjanlegar í skoðanakönnunum. En ég les bloggfærslur sem orð mín vísa til og það vekur mér ugg að sjá að flokkstryggð er hjá bráðgreindu fólki orðin traustari en kristindómur hjá öldruðum biskupi. Afstaðan er rökheld. 

Ragnar: Velkominn í hópinn sem er kannski dálítið sundraður í skoðunum annað slagið eins og ég sjálfur. Mér fannst gremjulegt að sjá svona skemmtilega máli farinn háskakjaft skrifa hverja síðuna eftir aðra án þess að fá viðbrögð og svona smávegis pústra á sviðin annað veifið. Framsóknarmennirnir fyrir norðan eru horfnir yfir móðuna miklu og heiðurskarlinn Guttormur fór síðastur. Þeir sem sækja flokksfundinn eru auðvitað ekki að fara þangað til að hitta framsóknarmenn þó þeir trúi því sjálfir. Þeir fara langt yfir skammt og ættu að láta sér nægja að rölta upp á Nafir inn á afgirt svæði og lesa á krossa og legsteina. Þangað til þeir leggja í langt og þægilegt ferðalag sem við öll eigum fyrir höndum. 

Það kemur mér ekki á óvart að Geir efist um Wade líkt og aðra þá sem efast um hann sjálfan. Hann efaðist líka um Aliber garminn sem þurfti ekki annað en að telja byggingakranana í Reykjavík til að komast að hefðbundinni niðurstöðu erlendra hagfræðinga um stjórnvisku íslenskra hagspekinga.

Árni Gunnarsson, 15.1.2009 kl. 21:11

6 Smámynd: Júlíus Björnsson

Geir efist um Wade líkt

Það er allveg rétt upplýsingar um innviði íslenskrar mafíuspillingar ligga ekki upp á borðum hagfræðinga almennt. Wade virðist grein rétt það sem sér utanfrá.

Júlíus Björnsson, 15.1.2009 kl. 21:37

7 Smámynd: Ragnar Eiríksson

Vitleysa hjá þér með framsóknarmennina - Einar vinur þinn á Skörðugili er ódrepandi (þrisvar sinnum krabbi í  lifur og a.m.k. eitt hjartaáfall) er að fara á sinn fyrsta Landsfund og hlakkar mikið til og ég var hjá Hafsteini áðan - manni sem ég hélt ég hefði kristnað en nú ljómar hann eins og sól á sunnudegi yfir fyrirsjáanlegri upprisu!  Hann þorir þó ekki á landsfundinn!

Ps. Góð grein hjá Ragnari Önundarsyni í gær í Mogganum um "féfletta" (nafnorð!).  Lokaorðin eru: "Nú þurfa forystumenn Sjálfstæðisflokksins aðsegja hátt og snjallt skilið við frjálshyggjuna. Hún var aldrei samþykkt á landsfundi, en læddist hins vegar inn um bakdyrnar.   Ég legg til og vona að henni verði sparkað út um aðaldyrnar á næsta fundi."       Ætli það verði þá gert með því að sparka Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni út?    Það er nú eiginlega lágmarkið finnst mér

Ragnar Eiríksson, 15.1.2009 kl. 21:49

8 identicon

Heill og sæll; Árni, líka sem þið önnur, hver hér hafa viðkomu !

Allra sárust er þó; hundstryggð allt of margra spjallsíðu hafa, hér á Mbl. vefnum, sem og víðar, úti í samfélaginu, gagnvart þessum flokkum frjálshyggjunnar, og vita skuluð þið Árni, sem mörg ykkar önnur, að hér í spjallheimum eru persónur ýmsar, hverjar gengju frekar á bálköstinn, fremur en að víkja af trygglyndis brautum, í garð þessa fólks, hvert grafið hefir, undan okkur öllum, og grefur enn, meðan ei tekst, að koma böndum á, óskapnaðinn.

Þarf ég nokkuð, að nefna nöfn hinna þræls- og ambáttar lyntu, svo sérstaklega, gott fólk ?

FLOKKURINN - er sumum; öllu öðru æðra, sem víða má sjá, fyrir og eftir hrun samfélags okkar !!! 

Með baráttukveðjum vísum, sem fyrr /

Óskar Helgi Helgason 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 15.1.2009 kl. 22:00

9 Smámynd: Júlíus Björnsson

Almennir gamalgrónir Sjálfstæðis menn í öllum stéttum eru óðum að vakna upp af vondum draum og gera sér grein fyrir að þeir af verið hafðir að fíflum. Sjálfstæðisflokkurinn var ekki krata eða sósíalístíkur í upphafi.

Júlíus Björnsson, 15.1.2009 kl. 22:07

10 Smámynd: Óskar Arnórsson

Sæll Árni og þakka fyrir snilldarfærslu! Alveg ótrúlegt hvað þú kemur vel fyrir þig orði og beint að kjarnanum. Þú ert alla veg með mig sem aðdáenda fyrir skrifin þín.

Það vill svo til að ég veit heilmikið um skítabrögðinn í bönkunum. Lærði það í fangeslsum sem starfsmaður og þetta er allt hárrrétt hjá þér.

Algjör snilld þessi pistill. 'eg kann ekki að kommentera á svona pistil. Allt er safg sem þarf.

Óskar Arnórsson, 15.1.2009 kl. 22:39

11 Smámynd: Diesel

Það má með sanni segja að forverar þeirrar ríkisstjórnar er nú situr, þ.e ríkisstjórnir sjáfstæðisflokks og framsóknarflokks hafi keppst við að grafa okkur þá fjöldagröf sem við erum nú öll stödd í (fyrir utan auðmennina sem stungu af með sitt til einhverra eyja og aldrei það kemur til baka) með kvótagjöfinni og nú síðast með því að gefa bankana.

Það er þó ekkert launungarmál, að núverandi ríkisstjórn ætlar að moka yfir gröfina með því að neita að horfast í augu við sannleikann, staðreyndir og hypja sig frá svo að þjóðstjórn geti tekið við. Hún situr sem fastast í eigin hroka, neitar lýðræðinu um að fá sínu framgengt.

Ég las um daginn pistil í fréttablaðinu eftir Njörð P. Njarðvík þar sem hann lýsir nýju Íslandi með nýju lýðræði.
Eftir að hafa lesið greinina sá ég að þar talaði hann um það Ísland sem mig langar að búa í. Þar sem fólkið hefur í raun vald yfir því hverjir ráða. Þar sem ríkir lýðræði en ekki ráðherraræði. Þar sem fólk getur lifað mannsæmandi lífi af 8 tíma vinnudegi. Þar sem auðurinn safnast ekki á fárra hendur. Þar sem náttúran fær að njóta sín. Þar sem allir eru ánægðir. 

Það er Íslandið sem ég vil

Diesel, 15.1.2009 kl. 22:39

12 Smámynd: Níels A. Ársælsson.

Flott færsla hjá þér Árni eins og allt sem frá þér kemur.

Bestu kveðjur frá Tálknafirði.

Níels A. Ársælsson., 15.1.2009 kl. 23:17

13 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ragnar: Lýsing þín á þeim Einari á Skörðugili og Hafsteini L. segir segir mér nú enga sögu. Einar er sá óvenjulegi gæfumaður um skapferli að mæta hverri nýrri reynslu með tilhlökkun og gildir þá einu þó um sé að ræða erfiða reynslu á borð við krabbamein, hjartaáfall eða pólitíska stólpípu í salarkynnum framsóknar. Hvenær hann Hafsteinn okkar talar í alvöru er svo getraun sem ég er ekki viss um að þú ráðir í hasti.

Júlíus. Robert Wade er sæll að hafa ekki kynnst að ráði hugarheimi Mafíunnar á Íslandi. Grun hef ég þó um að hann skynji þar meira en hann hefur orð á.

Óskar og Níels og Óskar.  Þakka góðar kveðjur og hvatningarorð!

Ásgeir. Tek undir þetta allt. Ég bíð líka eftir þessu Íslandi. Og ég bíð eftir því að náttúran fái að njóta sín í friði fyrir þeim sem eiga að vernda hana.

Árni Gunnarsson, 16.1.2009 kl. 00:47

14 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Stórskemmtilegur pistill Árni, eins og þér er von og vísa. Þú ert góður penni.

Gunnar Th. Gunnarsson, 16.1.2009 kl. 01:12

15 Smámynd: Júlíus Björnsson

Við fáum ekki að vita hvaða lánskjör á að skrifa upp á fyrir okkar hönd.  Fyrir þann hluta þjóðarinnar sem ber ekki skynbarð á slíkt skiptir leyndin ekki máli en fyrir meirihlutann er grófur dónaskapur af hendi frænda. Sá sem ekki treystir mér er ekki traustsins verður að mínu mati.

Júlíus Björnsson, 16.1.2009 kl. 02:45

16 Smámynd: Vilberg Tryggvason

Það er eðli íslendingsins að vera með stærðarinnar skuldafjall fyrir framan sig. Þetta er nánast eins og trúarbrögð. Fyrir vikið erum við orðin ofnæm fyrir allri umföllun og myndum af því hvað við skuldum mikið. Við einfaldlega höldum áfram að borga.

Ég þakka þér fyrir góða grein. Ég á von á að íslendingurinn fari í gegnum þennan skuldastafla á ferðinni eins og hann hefur alltaf gert, burt séð frá því hverjir ráðamennirnir eru. Nú er bara að bretta um ermar og eyða ekki of miklum tíma til að horfa fyrir aftan sig, tiltekt skal fara fram. Treystum nú á gömul spakmæli: Nýjir vendir sópi best.

Vilberg Tryggvason, 16.1.2009 kl. 08:10

17 identicon

Þakka þennan góða pistil.

Sveinn hinn Ungi (IP-tala skráð) 16.1.2009 kl. 09:47

18 Smámynd: Óskar Arnórsson

Ég veit ekki af hverju ég er buin að lesa þennan pistil þrisvar. Ég vann einu sinni á geðdeild sem er riusa stór og er í Bollnäs í Svíþjóð.

þar voru deildir sem í voru Napólear, Jesúsar og Hitlerar. Og allir sjuklingarnir voru sannfærðir. Suma var ekki hægt að hafa saman svo þeir voru fluttir á sérstakar öryggisdeildir. Margir voru afbrotamenn.

Sumir af þessum sjúklingu voru mjög sannfærandi. þ'eg hef átt í svona samtölum í 25 ár og það var að sjálfsögðu mikill munur á þessu fólki.

Níbyrjaður sálfræðingur (ung kona) sem var með gott hjarta og gat ekki beðið egtir að "frelsa " einhverja af þessu liði frá geðveikinni. Hún vildi ekki hafa öryggisvörð í samtali við einn "erfiðan".

Þó hann væri í handjárnum sitjandi á stól, náði hann samt að drepa hana á 10 mínútum með því að bíta hana á háls. Byrjandi sem byrjaði skakkt.

Einn strákur sem ég var kallaður til, ekki með neitt nema vesti. Var hann með .22 cal skammbyssu sem þykir ofboðslega lítil byssa. Í miðju samtalai tók hann út úr sér skammbyssuna óg skaut mig. Sem betur fer í vestið.

Ég hefði aldrei trúað að óreyndu að .22 cal gæfi svona mikin slagkraft. Ég missti andan og var í nandræðum með að anda. Lögregla ruddist inn og skutu hann til bana. Það voru þeir sem báðu mig að koma.

Tveim mánuðum seinna var ég kallaður í stigablokk þar sem einn sat blindfullur með afsagaða tvíhleypu uppi ínn í munninum á sér. Var það út af skilnaðarmáli sem hann sætti sig ekki við.

Ég talaði við hann í hálftíma og var orðin viss um að hann myndi afhenda mér vopnið. Hann náði að skjóta úr báðum hlaupum upp í munninn á sér, og andlitið á honum datt fram á bringuna 1/2 meter fyrir framan mig.

Maður venst þessu eiginlega aldrei. Ég var búin að lofa konunni minni að hætta að vinna í þessu árum saman, enn sveik hana alltaf.

Enn ég hugga mig við að ég bjargaði mörgum frá að frenja sjálfsmorð. Ég segi þetta vegna þess að ég yrði ekki hissa á að margir taki til þessa "úvegar" þegar allt er komið í klessu í þeirra lífi.

Þjóðinn vill ekki þessa Ríkistjórn. Geta þeir haft á samviskunni menn sem hengja sig, skjóta sig og taka sjálfan sig af lífi vegna þessd ástands sem ríkir nú á Íslandi? 

Það má alveg hugsa sér þessi stjórnmál út frá þessaru staðreynd.

Óskar Arnórsson, 16.1.2009 kl. 11:09

19 Smámynd: Árni Gunnarsson

Mínum ágætu gestum hér sem ég hef ekki nefnt þakka ég góð orð og góðar kveðjur. Sannarlega er mér ánægjuefni að finna að mér tekst að vekja fólk til umhugsunar og jafnframt finnst mér vænt um þann samhljóm þá miklu samstöðu sem ég skynja á minni síðu sem og fjölmörgum öðrum. Það er ekki vandalaust að virkja þetta afl til góðra verka en þó er það brýnt verkefni. Takist okkur það ekki þá hefur orðið mikið slys

Árni Gunnarsson, 16.1.2009 kl. 15:17

20 Smámynd: Árni Gunnarsson

Nú varð mér sjálfum á að styðja á rangan takka áður en ég lauk þessum ályktunum mínum. "Þeim getur nú skjátlast þó þeir séu í kórnum," eins og hann Marka-Leifi sagði forðum í Stafnsrétt þegar bassamaðurinn í Heimi nefndi rangan eiganda að kindinni. Og það sannast hér á okkur Bjarna Harðarsyni sem ég er viss um að syngur í einhverjum kór eins og ég.

Við minn ágæta bloggvin Óskar Arnórsson vil ég segja þetta: Ekki met ég þig minna en aðra sem heiðra mig með heimsóknum á þessa síðu, því skaltu trúa. En ég hef hneigð til þess að forða því að hún verði vettvangur sem tengist frásögnum af óhæfuverkum sjúkra einstaklinga þó finna megi samhljóm þar við það sjúka þjóðfélag sem við erum farin að finna fyrir hér- illu heilli. Þess vegna bið  ég þig nú að koma öllum slíkum reynslusögum þínum fyrir annarsstaðar en hér. Ég þykist sjá að þinn reynsluheimur sé óvenjulegur um mörg efni og jafnvel að ástæða gæti verið til þess að safna því efni til bókar í fyllingu tímans. Kannski gætum við hjálpast að við það seinna ef við lifum þá af þessar hamfarir.

Bestu kveðjur!

Árni Gunnarsson, 16.1.2009 kl. 15:33

21 Smámynd: Auðun Gíslason

Snilld!  Hvað er langt síðan íslenska lýðveldið var urðað í leitinu hér fyrir ofan?  Er kannski besta róksemdin fyrir umsókn í Evrópusambandið ómerkilegir og óheiðarlegir stjórnmálamenn og flokkar?  Ég er farinn að halda, að það sé eina leiðin til að losna við þetta spillta sjálftöku hyski!

Auðun Gíslason, 16.1.2009 kl. 15:42

22 Smámynd: Jón Þór Ólafsson

Gaman að lesa góða íslensku. Takk fyrir pistilinn.

Fyrir 745 árum hlupu Íslendingar, sem ekki kunnu að greiða úr sínum eigin málum, undir verndarvæng Noregskonungs og festu komandi kynslóðir í 680 ára vist erlends tilskipunarvalds.

Í dag vilja sumir Íslendingar, sem ekki sjá hvernig við getum greitt úr okkar málum, hlaupa undir verndarvæng Evrópusambandsins og festa komandi kynslóðir í aldalanga vist erlends tilskipunarvalds.

Það eru ekki nema 65 ár síðan Jón Sigurðsson og fleiri forfeður okkar endurheimtum sjálfstæði okkar. Hér er linkur á nýútkomna bók um hvernig megi vinna pólitísk völd og vilja til að skipta út stjórn ríkisins og spilltri stjórnskipan án þess að semja frá okkur og komandi kynslóðum sjálfstæði Íslands: "The Game of Politics - Game Manual"

Jón Þór Ólafsson, 16.1.2009 kl. 17:04

23 Smámynd: Gunnar Þór Ólafsson

Mikill snilldar pistill er þetta hjá þér Árni minn  og ekki eru andsvörin lakari.

Gunnar Þór Ólafsson, 16.1.2009 kl. 17:39

24 Smámynd: Auðun Gíslason

Einhver gárungi fann út, að lýðveldisstofnunin hefði verið næst mestu (ekki næst bestu) mistök Íslandssögunnar.  Hin mestu hafi verið að konur hafi fengið kosningarrétt!  Eða kannski var það á hinn veginn.  Við virðumst allavega ekki kunna fótum okkar forráð að heitið geti...

Auðun Gíslason, 16.1.2009 kl. 20:53

25 Smámynd: Jón Þór Ólafsson

Kannski þá kominn tími til að læra: "The Game of Politics - Game Manual"

Jón Þór Ólafsson, 16.1.2009 kl. 22:36

26 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Takk fyrir góðan pistil

Hólmdís Hjartardóttir, 16.1.2009 kl. 22:36

27 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Þið eruð ekki þjóðin syngur í hausnum á mér. Ég ætla að leggjast til svefns og jafna mig á þessarri lesningu og vonandi segja eitthvað vitrænt um hana á morgun. Færslan ein og sér er verðug til umhugsunar en sumar athugasemdirnar eru að valda mér meltingatruflunum.

Ævar Rafn Kjartansson, 17.1.2009 kl. 00:50

28 Smámynd: Óskar Arnórsson

Geri það Árni! Við skulum ekki gleyma okkar eigin sögu. Það voru borin út börn og einn faðir montaði siga af því að hafa höggvið hausin af þræl sem var að kveikja upp í eldstónni.

Var hann bara 10 eða 12 ára þegar hann tók sverð föðurs síns. Aðrir feður urðu öfundsjúkir í "hetjudáð" þessa drengs. Minnir að ég hafi lesið þetta sem krakki í skóla á Reykjanesi við Ísafjarðardjúp.

Þess vegna vil ég minna íslendinga á að það sem hægt er að gera með sverði, er hægt að gera líka með penna. Staðan á Íslandi er þannig fyrir allt of marga á Íslandi í dag, því miður.

Óskar Arnórsson, 17.1.2009 kl. 03:12

29 Smámynd: Óskar Arnórsson

...montaði sig að sonur sin....

Óskar Arnórsson, 17.1.2009 kl. 03:13

30 Smámynd: Anna Einarsdóttir

"Enginn segir af sér; enginn rekinn !"

Mig langar svo ofboðslega að fá svör ráðamanna við því hvaða atburður, hugsanlega gæti orsakað afsögn þeirra ?  Fyrst algjört efnahagshrun Íslands dugir ekki til..... hvað gæti þá verið nógu slæmt ?

Anna Einarsdóttir, 17.1.2009 kl. 13:46

31 Smámynd: Árni Gunnarsson

Anna: Góð spurning!

Árni Gunnarsson, 17.1.2009 kl. 16:56

32 Smámynd: Óskar Arnórsson

Ríkisstjórninn verður að eyða öllum sonnunargögnum þar til hún segir af sér...um það sníst heila málið Anna!

Óskar Arnórsson, 17.1.2009 kl. 16:56

33 Smámynd: Snorri Magnússon

Frábær pistill.....

Penninn er margfallt máttugri en sverðið.  FLEIRI BEITTA PENNA Í BLÖÐIN!!!

....."Helvítis, fokking, fokk!!"

Snorri Magnússon, 17.1.2009 kl. 23:18

34 Smámynd: Baldur Hermannsson

Eftirminnileg og djúp hugvekja Árni minn, og henni verður ekki svarað í neinum fljótheitum, hvað þá örstuttum athugasemdum. Reyndar stendur hún algerlega fyrir sínu og þarfnast engra svara. Ég leggst undir feldinn góða.....

Baldur Hermannsson, 18.1.2009 kl. 18:12

35 Smámynd: Óskar Arnórsson

Þú ert algjör listamaður með orð. Ég er skemmdur eftir vinnu. Kann enga íslensku af viti lengur. Enn þvílík ánægja að lesa pistlanna og kommentin þín!

Þó þu skammir mig öðru hvoru, sem ég tek til greina þegar ég man eftir því. Því er ekki fólk eins og þú í stjórnmálum og tekur til hendinni?

Þú ert bæði heiðarlegur og heiðursmaður. Skelltu þér í stjórnmálinn!

Óskar Arnórsson, 19.1.2009 kl. 05:37

36 Smámynd: Steingrímur Helgason

Árni, þú ert meistari.

Ef ég gæti lagt nú eitthvað vitrænt til málanna sjálfur, væri mér sá heiður helztur að benda á þig & lauma út um hægra munnvikið; "Nei, hlutztið frekar á þennann, hann bæði kann & veit..."

Steingrímur Helgason, 20.1.2009 kl. 00:21

37 Smámynd: Óskar Arnórsson

Innilega sammála þér Steingrímur Helgason. Það vantar svona fólk til að stjórna þessu landi...

Óskar Arnórsson, 20.1.2009 kl. 02:37

38 Smámynd: Baldur Hermannsson

Ég hef verið að hugsa. Ég held það sé gott að hafa stjórnmálaflokka. Ég held líka að hófleg flokkshollusta sé góð. Það er mikið lýðræði á Íslandi. Er til eitthvert land í heiminum sem býr við meira lýðræði? Ég vil ekki mála skrattann á vegginn. Hér er gott að búa. Við erum í smávegis öldudal en ég hef alltaf verið fátækur og þekki ekki munað. En ég kann að njóta lífsins í fátæktinni. Ég þarf ekki peninga til að vera ánægður. Ég seilist bara í Kristmund á Sjávarborg og þá birtir í kytrunni minni. Ég þurfti ekki að kaupa þessa bók, ég fékk hana á safninu.

Baldur Hermannsson, 20.1.2009 kl. 09:48

39 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Það er rétt hjá þér Baldur að það þarf oft lítið til að gera mann hamingjusaman.  Jafnvel bara góða bók og kertaljós.  Hins vegar er illmögulegt að vera hamingjusamur á kafi í spillingu og óréttlæti.  Það getur maður einungis með því að loka af umheiminn - sem er ekki mjög farsælt til lengdar.  Mín ósk er sú að við Íslendingar stöndum saman og hefjum vegferð okkar til framtíðar með heiðarleika, réttlæti og sterka siðferðiskennd í nestispokanum.  Skítt með peninga en mannorð þjóðar er verðmætara en svo að við getum látið kyrrt liggja.   

Anna Einarsdóttir, 20.1.2009 kl. 21:07

40 Smámynd: Eyþór Árnason

Góður pistill Árni minn... og svo fór allt í háaloft í dag...

Eyþór Árnason, 20.1.2009 kl. 21:16

41 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Flott skrif! Ég held að flokkstryggð sé enn algeng hjá þeim sem lengi hafa haft áhrif í flokkunum og ráðið mestu um mál þeirra en minni hjá venjulegu fólki sem hefur haldið upp á flokkana sína en fáu ráðið. En nú er komið að því að það fólk fái einmitt að ráða.

Sigurður Þór Guðjónsson, 21.1.2009 kl. 17:10

42 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Nú er ég búinn að meðtaka þennan pistil 2svar og hef engu við að bæta öðru en að núna lítur loksins út fyrir að áætlunarverk no. 1 sé að takast þe. að koma ríkisstjórninni frá. Svo er það í okkar höndum að láta komandi Napoleonsheilkennissjúklinga taka töflurnar sínar. Já og vista á öðrum stofnunum en Alþingi.

Ævar Rafn Kjartansson, 22.1.2009 kl. 15:38

43 Smámynd: Óskar Arnórsson

NÝ KYNSLÓÐ viðskiptamanna; siðblindir (Psychopatar:

kallað í réttarkerfinu geðvilla) spretta upp í viðskiptalífinu víða um heim ef marka má grein í viðskiptablaðinu "Fast Company".

Greinin heitir "Is your Boss a Psychopath?" Þar er vitnað í 71 árs gamlan prófessor við UBC háskólann í Vancouver Kanada, Robert Hare.

Hann er þekktur glæpasálfræðingur og hefur stundað rannsóknir á nýjum tegundum glæpa, viðskiptaglæpum.

Hare hefur unnið náið með FBI og lýsir hann forstjórum á borð við Enron og World Com, hinum dæmdu, Bernard Ebbers og Andrew Fastow, sem siðblindum, kaldrifjuðum einstaklingum.

"Þeim er sama um tilfinningar annarra. Í þessum mönnum finnst hvorki sektarkennd né eftirsjá. Þeir sjá ekki sársaukann sem að þeir hafa valdið öðru fólki og sjá ekki að þrátt fyrir að einstaklingar missi aleiguna hafi það haft eitthvað með siðleysi þeirra sjálfra að gera.

" Siðblindir raða svo öðrum "veikum" einstaklingum svo sem starfsmönnum, eiginkonum og kærustum í kringum sig. Alltaf er það fólk með lágt sjálfsmat. "Fólk á að haga sér vel og af virðingu gagnvart þeim.

Leikarahæfileikar þeirra eru einstakir og þeir hrífa okkur með sér til þess eins að hafa okkur að leiksoppum," segir Hare, "þeir eru nefnilega svo "likable", Psycopatarnir!

Þeir setja upp grímur og laða að sér fólk eins og í dáleiðslu. Þeir eru hjartalausir tækifærissinnar sem eins og listamenn laða fram myndir sem eiga sér enga stoð í raunveruleika heilbrigðs fólks.

Þeim leiðast rútínur, þurfa stanslausa örvun og að eignast fleiri fyrirtæki, tæki og tól sem koma þeim hraðar en öllum öðrum á toppinn. Tilgangurinn er annar en okkur virðist í fyrstu nefnilega sá að ganga frá öðrum í leiknum, að sigra "leikinn"!

Siðleysinginn er nefnilega ekki í viðskiptum, hann er í leik!!

Mesta nautnin er að ná valdi á öðru fólki oft til þess eins að svívirða það síðar. Það er nautn að niðurlægja annað fólk, jafnvel þá sem að þeir þykjast elska. Þeir elska ekki, en þrífast á illskunni og hatrinu í sjálfum sér.

Hare skilgreinir nýja kynslóð manna í viðskiptaumhverfi 21. aldarinnar. "Þeir eru snöggir, njóta almenningshylli en búa yfir eyðandi, rótlausum, samviskulausum, siðlausum eiginleikum sem koma þeim áfram í viðskiptum.

" Lygar, bakstungur, svik, undirförli, kvenfyrirlitning, sjálfhverfa og illska hafa engar merkingar í þeirra hugarheimi aðrar en þær að komast áfram á toppinn og eignast meira og ná lengra í viðskiptum.

Þeir kaupa starfsmenn og konur og eru samkvæmt uppskriftinni, "Fast Company" mjög áhrifamiklir í því... þeir ná gríðarlegum árangri í að sannfæra hinn auðmjúka lýð um að þeir séu snillingar, að þeim sé treystandi og að þeir vinni af góðmennsku, en ekki græðgi.

" Undirlægjurnar, Lögfræðingar, endurskoðendur, forstjórar sem og stjórnarformenn, stjórnir og fjölmiðlamenn leggjast undir siðblindingjana eins og auðmjúkir þjónar!

Það reynir verulega á samfélags- og siðferðisþroska þeirra sem ákveða að vinna fyrir, búa með eða giftast slíkum mönnum.

Martha Stout sálfræðingur hjá Harvard Medical School sem rannsakað hefur útmörk mannlegrar hegðunar segir að það sé frísku fólki ekki tamt að trúa að til séu menn svona langt frá því sem heilbrigður maður kallar að vera "góð manneskja".

Að einhver geti villt svona á sér heimildir, verið svona "illræmdur" en samt verið opinberlega virtur er óhugsandi frísku fólki.

Spennan og leikurinn hjá siðleysingjanum snýst um ánægjuna yfir því að særa og skemma fyrir öðrum. Hann notar fyrirtækið sem tæki til þess að mata sjúkdóminn en hefur sjaldnast hagsmuni fyrirtækisins sjálfs í huga.

Það skiptir ekkert annað máli en "illmennið" í honum sjálfum sem öskrar á spennu og viðskiptasigra. "Láttu ekki hól og smjaður þeirra virka djúpt á þig! Þeir eru að leika á þig.

Þegar þeir setja á þig titil (svo sem framkvæmdastjóri, vaktstjóri, grænmetisyfirmaður, sölustjóri, fjármálastjóri, símastjóri eða bílstjóri) láttu það ekki á þig fá það er engin innistæða önnur en sú að þú þrælir þér út fyrir þá áfram.

Ef vald þeirra gengur út yfir það sem þér finnst heilbrigt, forðaðu þér. Taktu aldrei þátt í að mata sjálfhverfu og illsku siðleysingjans. Ef þú óttast manninn, ekki rugla því saman við virðingu!

Komdu í veg fyrir persónulegt heilsufarstjón og forðaðu þér en mundu að hann (psychopatinn) mun aldrei þola að sjá að þér líði vel hafir þú sýnt þann styrk að yfirgefa hann eða fyrirtækið.

Hann mun gera allt til þess að rústa mannorði þínu," segir Martha. Svona menn eru víða í viðskiptalífinu. Þú vinnur jafnvel fyrir þá eða ert svo óheppin að vera gift einum.

Börn alkóhólista þurfa að vera sérstaklega á varðbergi því sjálfsmat þeirra er oft á tíðum brenglað. Dæmt fólk eða ólánsfólk leitar að upphefð hjá svona psychopötum vegna eigin vanmáttar.

Psychopatar virka svo góðir og klárir og með því að drepa samkeppnina og stela og svíkja verða þeir oft efnamiklir. Þeir eru öflugstu rándýr viðskiptanna.

Þeir óttast ekkert, og drepa hiklaust þann sem ógnar þeim á enhvern alvarlegan hátt. Sem dæmi um kalrifjaðan siðblindan mann fyrri tíma má nefna Rockefeller sem Hare telur einn spilltasta mógúl spilltustu tíma sögunnar.

Rockefeller opinberaði sjúklegt ástand sitt með orðunum: "God gave me my money."!

Þetta eru "karakterarnir" sem toppar Ríkisstjórnar Íslands eru orðnir dáleiddir af.  Annars væri búið að taka af þeim peninganna og þá líka. En þeir eru hræddir við þá. 

Óskar Arnórsson, 23.1.2009 kl. 08:27

44 Smámynd: Júlíus Björnsson

Psychopatar virka svo góðir og klárir . 

Ofgott til að vera satt. Sjálfselska er sjálfsögð og forsenda til að elska aðra. Sjúkt að gefa tilkynna að maður elski aðra meir en sjálfa sig.  

Ég las ævisögu Rockefeller sem krakki. Og sá strax á atferli aðila í upphafi ofurgróðatímabils við hverju var að búast.

Júlíus Björnsson, 23.1.2009 kl. 10:21

45 Smámynd: Óskar Arnórsson

Þeir eru slípaður. Hálir sem álar ;) Eg hitti þá bara í fangelsum í Svíþjóð. Þeir myndu margir hverjir getað dáleitt fangavörð til að afhenda sér lykla og vopn. 'eg veit ekkert um Roccefeller, las samt eitthvað um að hann hefði fjármagnað Hitler í byrjun og mest fyrir stríðið. Svo lánaði hann tugi jarýtuverksmiðjur, sem breytt með einu handtaki í skriðdrekaverksmiðjur. Psykopatar ná oft gríðarlegum völdum. Enn hann hefur innræti. Ekkert of móralskt samt. Eiginlega er ég bara tala um talibana. Þeir hljóta að hugsa eitthvað svipað. Kanski er þetta bara þroskaskeið...

Óskar Arnórsson, 23.1.2009 kl. 20:50

46 Smámynd: Júlíus Björnsson

Hann byrja víst á því að rústa öllum samkeppni aðilum á olíusvæðunum með [aðstoð glæpamanna] og var mjög hataður. Svo gekk hann alltaf mörg silfur/gull cent og alltaf þegar hann sá lítinn dreng í vagni gaf honum eitt. 30 árum síðar urðu þetta allt frammámenn sem elskuðu jú manninn sem gaf þeim fyrsta centið.  Svo var því komið í kring að skattar til einkasjúkrahúsa voru frádráttarbærir og í kjölfarið reisti hann mörg sjúkrahús sem hann rak með bullandi hagnaði.

Þetta er svona það sem lifir í minningunni

Júlíus Björnsson, 23.1.2009 kl. 21:07

47 Smámynd: Óskar Arnórsson

Það sem ég er að reyna að benda á, er að fólk skilur ekki þessa tegund af fólki. Þegar svona karakterar eru búnir að skipuleggja sig, verða þeir stórhættulegir.

Í USA eru sérstök fangelsi fyrir þessar týpur og fangaverðir ganga með spegilsólgleraugu til að verða ekki fyrir dáleiðsluáhrifum þessarra manna. Fólk þarf að vakna upp og sjá hver er hvað og hverjum er hægt að treysta. Ég er ekki hræddur við þá. Og bara það atriði kemur þeim í illt skap. 

Þess vegna er ég með einn auðjöfur á eftir mér núna. Og verði honum að góðu.

Óskar Arnórsson, 24.1.2009 kl. 04:11

48 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það hvarflaði að mér eitt augnablik Óskar, að spyrja þig hver þessi auðjöfur væri sem er á eftir þér, en svo sá ég að mér

Gunnar Th. Gunnarsson, 26.1.2009 kl. 16:16

49 Smámynd: Óskar Arnórsson

Það var fallega gert Gunnar Th.. Pirrandi að láta skjóta á sig. Það hefur verið gert.

Óskar Arnórsson, 27.1.2009 kl. 05:23

50 Smámynd: Björn Birgisson

Gríðarlega góður pistill hjá þér Árni. Hafðu þökk fyrir.

Björn Birgisson, 27.1.2009 kl. 16:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband