26.1.2009 | 01:08
Afsögn ráðherra
Sú ákvörðun Björgvins G. Sigurðssonar sem hann tilkynnti í morgun, að ganga út úr ríkisstjórn Geirs H. Haarde kom mörgum nokkuð á óvart. Og af viðbrögðum ýmsra bloggritara sýnist mér fólk vera ofurlítið ráðvillt í afstöðu sinni til þessara pólitísku tíðinda. Þetta virðist hafa virkað líkt og höfuðhögg á marga enda eru þetta óvænt tíðindi og setja margt það úr skorðum sem fólk var búið að byggja upp í eigin hugarheimi um næstu atburðarás í íslenskri pólitík. Einörð stefna formanna stjórnarflokkanna í þá veru að mæta kröfum fólksins með hroka og orðhengilshætti eins og að það "væri ábyrgðarhluti fyrir ríkisstjórnina að stíga frá borði við þessar aðstæður" varð að engu. Ríkisstjórnin gliðnaði og nú sitja Geir og Ingibjörg ráðvillt og ósamstíga og vænta þess að forsjónin sendi þeim vitrun í nótt.
Ráðvilltir eru greinilega líka margir okkar ágætu bloggara sem telja sig þurfa að finna einhverja merkilega hliðarskýringu á þessari ákvörðun ráðherrans. Líklegasta skýringin þykir vera sú að Þetta sé helvítis klækjabragð hjá ráðherranum sem sjá sér leik á borði og svíki alla sína samstarfsmenn með það lúalega hugarfar að vegvísi að leika nú pólitískta afturbatapíku og tryggja sér fyrsta sætið í kjördæmi sínu í næstu kosningum. Vel má vera að hann hugsi til þess og hefur reyndar lýst yfir að svo muni verða.
Ég kýs að líta þetta öðrum augum. Ég trúi því að Björgvin hafi komist að þessari niðurstöðu eftir samræður við eiginkonu sína og nánustu vini. Fjölskyldumaður með eiginkonu og sex börn lifir ekki ekki í pólitískri tilveru einvörðungu. Sú tilvera er raunar varla eftirsóknarverð að starfa í fullri óþökk þjóðar sinnar og óvild sem snúist hefur upp í hatur og heift. Vera ekki óultur fyrir líkamsmeiðingum og hrakyrðum er ekki eftirsóknarvert í eigin samfélagi. Hann veit, og lýsir yfir að markmið ríkisstjórnar hafi ekki tekist að uppfylla og skilur að rof milli valdstjórnar og þjóðar er dauðadómur yfir öllum góðum áformum. Hann ákveður að rjúfa þennan vítahring og hann gerir meira. Jafnt og hann skilar umboði sinu uppfyllir hann eina af áleitnustu kröfum þjóðarinnar og hreinsar út úr híbýlum Fjármálaeftirlitsins ásamt því að senda þau tilmæli að fara eins að með Seðlabankann.
Geri aðrir betur einum morgni!
Ég ætla að trúa á einlægni ráðherrans fráfarandi um allar ástæður þessarar ákvörðunar. Ákvörðunar sem marka tímamót í langri raunasögu. Kannski er ég auðtrúa og það hef ég áður heyrt.
Þurfum við kannski að leitast við að afeitra hugarfar okkar dálítið- svona í áföngum?
Ég spyr?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Aldrei þessu vant get ég verið sammála einhverjum!
Auðun Gíslason, 26.1.2009 kl. 01:20
Kæri frændi, ég ætla að halda mig við hið fornkveðna: Lofa mey að morgni og dag að kveldi.
Ég hef annars enga sérstaka ástæðu til að vantreysta Björgvin.
Sigurður Þórðarson, 26.1.2009 kl. 01:22
Ég hef fullan skilning á tortryggni fólks eftir það sem undan er gengið. Það er ómögulegt að átta sig á fyrirætlun sem tengjast ákvörðunum ef maður trúir ekki skýringu viðkomandi.
Björgvin lýsti því starx yfir í haust að hann teldi það það ætti að verða uppstokkun. Ég hef nokkuð staðfasta trú á heiðarleika hans en hins vegar held ég að hann hafi ekki haft það sem þarf til þess að gegna stöðu sinni en það hefur hann gert mjög illa.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 26.1.2009 kl. 01:24
Ég trúi því að þetta hafi verið heiðarleg ákvörðun hjá honum og virði hann fyrir að stíga þetta skref.
sandkassi (IP-tala skráð) 26.1.2009 kl. 01:28
Góður pistill hjá þér. Persónulega finnst mér hann hafa tekið rétta ákvörðun. Enginn getur svarað því nema hann sjálfur hvort um var að ræða raunverulega ábyrgðartilfinningu en ég held að það sé rétt hjá þér að svo sé. Hef af þessum manni ekkert nema gott að segja og hann er vafalaust einn af framtíðarmönnum flokksins. Engu að síður slær hann tvær (ef ekki fleiri) flugur í einu höggi því þessi ákvörðun hans styrkir hann að mínu mati fyrir komandi prófkjör innan samfylkingarinnar í suðurkjördæmi.
Ásmundur Einar Daðason (IP-tala skráð) 26.1.2009 kl. 01:32
Ég trúi alltaf því sem að gamalmennið segir mér hérna enda hefur það reynst mér bæði hollt & gott að hlýða & hlusta á mína öldúnga, sem Áddni er nú óviljandi innvínklaður í sem einn slíkur.
Já. & svo deili ég líka skoðunninni, ZÓ ?
Steingrímur Helgason, 26.1.2009 kl. 01:32
Árni, ég kvitta 100% undir þína túlkun á tíðindum dagsins.
Jens Guð, 26.1.2009 kl. 01:48
Takk fyrir góðan pistil! 'eg er algjörlega sammála þessu í pistlinum og fannst mér það vel gert hjá Björgvin að reka fyrst stjórn FME og svo sjálfan sig á eftir.
Það þyrftu fleiri að taka hann sér til fyrirmyndar.
Óskar Arnórsson, 26.1.2009 kl. 01:54
Heill og sæll; Árni, líka sem þið önnur !
Megi niðurstaða ályktunar þinnar; rétt vera, spjallvinur góður. Sé svo; er pilti þá ekki alls varnað, eftir allt saman.
En; ....... á móti kemur, Árni, sem þið önnur, að Björgvin verður, héðan í frá, að sverja sig; alfarið, frá frjálshyggju óhæfuverkum Samfylkingarinnar, sem ESB fyrirætlunum öllum, eigi hann, að öðlast einhverja tiltrú, til allrar framtíðar litið.
Sé svo - þá er vel, um hans hagi, og vonandi Íslendinga allra, á komandi tíð.
Með beztu kveðjum /
Óskar Helgi Helgason
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 26.1.2009 kl. 02:47
Árni þín skýring gengur upp að öllu öðru óreyndu. Þín hún er sú eðlislegasta. Ég hef aldrei skilið, ef fer fram sem horfir um þær hörmungar sem blasa við, að nokkur aðili fyrir hrunið ætti sér þá ósk heitar en fá að vera leystur af. Kannski áætlun um að endurreisa trúverðugleika krónunnar og fjármálgeirans blessist fljótlega og þá er gott að eiga heiðurinn af því.
Júlíus Björnsson, 26.1.2009 kl. 03:04
Björgvin hefur það gram yfir marga aðra ráðherra, að hann blaðrar ekki bara um "að axla ábyrgð", hann sýnir það í verki. Bara það gerir hann trúverðugan og traustari mann. Svo er hann kjarkaður og það getur oft komið sér vel. List stórvel á þennan Björgvin.
Óskar Arnórsson, 26.1.2009 kl. 03:06
Mér finnst ákvörðun hans góð og í mínum huga finnst mér ekki skipta máli af hverju hann loksins áttaði sig á stöðinni.
Guðrún Þóra Hjaltadóttir, 26.1.2009 kl. 06:29
Ég er sammála þér. Er ekki ekki ofurseld samsæriskenningunni. Mér líkar maðurinn vel og trúi honum.
Held hins vegar að Ingibjörg og Geir hafi í gærkvöldi sagt minna en þau hafa vitað en þannig er pólitíkin enn. Vonandi sjáum við ferskari pólitík í framtíðinni.
Hallgerður Pétursdóttir (IP-tala skráð) 26.1.2009 kl. 06:58
Það hefur verið marg oft óskað eftir því við Björgvin Sigurðsson að hann segði af sér.
Honum hefur ekki fundist ástæða til þess fyrr en núna.
Enda mótmælin í þjóðfélaginu komin á það stig nú varð að bregðast við.
Láta reka sig eða segja sjálur upp.
Er fólk er búið að gleyma því hvernig hann er búinn að vera að verja þessar stofnanir og ráð á undanförnum mánuðum? Það hefur ekki komið til greina að axla neina ábyrgð fyrr.
Mér er í raun alveg sama hver hvatin af afsögn hans er núna bara gott að hann hafði loksins þennan kjark.
Guðmundur Óli Scheving, 26.1.2009 kl. 07:50
Ég hef alltaf haft mikla trú á Björgvini en engu að síður viljað að hann segði af sér. Samsæriskenningarnar má fólk eiga fyrir sig en ég gæti vel trúað að áhyggjur eiginkonunnar og barnanna hafi ráðið miklu um þetta mál. Þó að hann hafi sagt af sér of seint þá gerði hann það með glæsibrag með því að losa okkur við yfirstjórn Fjármálaóeftirlitsins og setti pressu á aðra í vanhæfu ríkisstjórninni. Fyrir það á hann virðingu skylda.
Og jú það má fara fram nett afeitrun.
Ævar Rafn Kjartansson, 26.1.2009 kl. 11:17
Ég myndi kvitta undir þetta hjá þér Árni, ef hann hefði gert þetta, þó ekki væri nema viku fyrr. Trúverðugleikinn er ekki fyrir hendi þegar hann sér að ráðherraembættið er hvort eð er farið. Hann vissi eins og aðrir þingmenn Samfylkingarinnar að Sjálfstæðisflokkurinn léti ekki stilla sér upp við vegg eins og plan Ingibjargar og Össurar gerði ráð fyrir.
Þetta er allt saman sjónarspil hjá Samfylkingunni, enda hefur hún ekki orð á sér fyrir "Populisma" fyrir ekki neitt.
Gunnar Th. Gunnarsson, 26.1.2009 kl. 16:11
Gunnar: Stundum þarf greinilega að stilla upp við "vegg." Ég aftengi ESB heilkennið þessu máli en staldra við þar sem kemur að erlendum álitsgjöfum um uppgjör stjórnvalda við eigin mistök og vítaverða vanburði Seðlabanka og Fjármálaeftirlits sem enn sinnti störfum án athugasemda og ofanígjafa. Og ég staldra við dómgreind forsætisráðherrans sem staðhæfði allt til síðasta dags fyrir hrun að allt væri hér í stakasta lagi. Og ég staldra ofurlítið við ástandið í höfuðborginni þar sem allt stefndi í fjöldauppþot vegna andúðar á stjórnvöldum. Og ég spyr hvort Geir forsætisráðherra hafi í einhverju sannað það að dómgreind hans hafi skerpst til muna og vísa til þeirra orða hans að hann sjái ekki að honum hafi orðið á mistök í neinu efni í aðdraganda allra þessara atburða.
Fyrst og fremst staldra ég þó við þá staðreynd að bæði Ingibjörg og Geir eru í mjög ótrúverðugu líkamlegu ástandi til að takast á við næstum óleysanleg verkefni. Veikindi þeirra eru alþjóð kunn og auka ekki á traust fólks. Ásamt því að meirihluti þjóðarinnar er beinlínis andvígur þeirra pólitísku afskiptum og krefst þess að þau víki. Mér er meira en lítið til efs að ríkisstjórn Ingibjargar og Steingríms lægi öldur samfélagsins að mun.
Árni Gunnarsson, 26.1.2009 kl. 23:50
Varaformaður Samfylkingarinnar sagði í Kastljósinu í kvöld að stjórnarliðum hafi verið ljóst snemma á síðasta ári að í óefni stefndi og hafnar voru strax ákveðnar aðgerði til að sporna við, bara of seint og of lítið.
Það er mikill ábyrgðarhluti að tala niður til bankanna á krítískum augnablikum, eins og við þær aðstæður sem voru uppi, megnið á síðasta ári. Hvað heldurðu að hefði gerst ef Geir hefði sagt að bankakerfið væri að fara til helvítis í mars á sl. ári? Það hefði getað skapað glundroða, svokallað "run", eins og það heitir á bankamáli. Menn héldu í veika von um að "þetta reddaðist", en það gerðist auðvitað ekki.
Gunnar Th. Gunnarsson, 27.1.2009 kl. 02:05
Og þessi "veika von" endaði í því miskunnarverki að setja í gang neyðarlínu sem hringdi í sparífjáeigendur og boðaði þá á fund við "ráðgjafa" í bönkunum" þar sem þeir voru vélaðir til að flytja innistæður af sparireikningum inn á trausta verðbréfareikninga sjö mínútum fyrir hrun. Á meðan voru eigendur bankanna og góðvinir þeirra að flytja sína fjármuni út úr landi í öruggt skjól /að því er virðist.)
Á þessu efni hef ég minna vit en þú Giunnar og viðurkenni það. En ég tek mikið mark á erlendum hagpekingum sem mér virðist segja einum rómi að hér hafi allar ákvarðanir verið teknar af aulum. Og þetta á við alla pósta fjármálastjórnar.
Árni Gunnarsson, 27.1.2009 kl. 10:15
Hagspekingar eru mistækir, ekki síður en stjórnmálamenn eða aðrir. Að þeir séu erlendir gerir þá ekki merkilegri. Það sama virðist vera að gerast erlendis, og þar hlýtur að vera krökt af erlendum hagspekingum.
Ég efast um að þú hafir neitt minna vit á þessu en ég Árni. Ég hef aldrei haft áhuga á peningasýsli.
Gunnar Th. Gunnarsson, 27.1.2009 kl. 12:31
Þakka þér fyrir Gunnar. Ég lít svo á að þessum skoðanaskiptum okkar sé lokið. Báðir vitum við að á milli okkar er nokkur gjá í flestu því sem snýr að pólitískum vangaveltum. Í mínum huga breytir það ekki því að mér finnst vænt um bloggvináttu þína og met hana mikils. Ef ég man rétt þá varst þú fyrstur, eða í það minnsta í hópi þeirra fyrstu sem óskuðu eftir bloggvináttu minni og það gladdi mig þegar ég var að feta mín fyrstu skref á þessum vettvangi samskipta. Og þetta gerðir þú þrátt fyrir að ég væri búinn að rangfeðra þig!
Með góðri kveðju!
Árni Gunnarsson, 27.1.2009 kl. 13:10
26.1.2009 | 14:44
Frábær tímasetning Björgvins G. Sigurðssonar á afsögninni
Afsögn Björgvins viðskiptaráðherra hlýtur að vinna titilinn: Afsögn ársins, ef ekki aldarinnar. Tímasetningin var algjörlega frábær. Hann vissi auðvitað ekkert að stjórnin væri að falla, eða hvað?
En hann axlaði ábyrgð, það er aðalatriðið
Hann var bara einum of fljótur á sér að afsala sér biðlaunum ráðherra. Ætli hann geti ekki endurskoðað það mál? Hann sem er með svo stórt myntkörfulán og fullt hús af börnum!
Björn Birgisson, 27.1.2009 kl. 16:44
Ánægjulegt að við gátum orðið sammála Björn. Já það er reyndar svolítið furðulegt þetta með að afsala sér þessum aurum!
Kannski er skýringin sú að hann líklega ekki í hverersrjálfumsérnæsturflokknum? Þá er ég að meina flóttamannaflokk ræningjanna sem tóku til fótanna og forðuðu sér með peningana úr bönkunum rétt fyrir hrunið.
Árni Gunnarsson, 27.1.2009 kl. 17:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.