Sigurður Gísli Pálmason með páskahugvekju

Þetta sinnið ætla ég ekki að reyna að vera gáfulegur á eigin forsendum. Ég vil hinsvegar vekja athygli á viðtali í laugardagsblaði Fréttablaðsins. Þar ræðir Björn Þór Sigurbjörnsson við Sigurð Gísla Pálmason framleiðanda heimildarmyndarinnar Draumalandsins. Sigurður Gísli er sem kunnugt er sonur Pálma í Hagkaup og auk þess vel þekktur um langt skeið úr íslensku fjármála-og viðskiptalífi.

Í viðtalinu fer Sigurður Gísli ítarlega yfir helstu þætti þeirrar hugmyndafræði sem unnið var eftir á landi voru á útrásarskeiðinu svonefnda og í aðdraganda þess allt til þessa dags. Þetta er eins konar Íslandssaga 21. aldarinnar á breiðum grunni. Í stuttu máli gleggsta og skarpasta úttekt um þetta flókna efni sem ég hef séð. Og þó viðtalið nái yfir nokkuð á þriðju síðu í blaðinu er þar hvergi orði né setningu ofaukið. Lengst staldraði ég við stuttar hugleiðingar S.G. um hagvöxtinn, þetta skondna hugtak sem grínarar í hagfræði fundu upp til að glæða pólitík græðginnar vísindalegu yfirbragði og alþjóðlegu.

Meistaraleg og auðskilin leiðsögn til skilnings á aðalatriðum þegar horft er yfir rústir efnahags þjóðar með sjálbærar leiðir til þróttmikils samfélags í öllum góðum skilningi.

Þessi grein er skyldulesning og það á að lesa hægt og vandlega orði til orðs.

Þetta eru lög og þeim á að hlýða skilyrðislaust.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jens Guð

  Síðast þegar ég vissi - fyrir mörgum árum vel að merkja,  var Sigurður Gísli frjálshyggjumaður og virkur í flokksstarfi hjá Sjálfstæðis-FL-okknum.  Nú hefur hann gengið af trúnni á Mammon.  Hvað ætli Hannes Hólmsteinn segi um þetta?

Jens Guð, 12.4.2009 kl. 22:17

2 Smámynd: Pétur Þorleifsson

Hérna er viðtalið í Fréttablaðinu.  Hann var líka í Vikulokunum á RÚV í gær.  Þar brýndi hann alla til að hafa á því áhuga t.d. hverjum þjóðin skuldar og hversu mikið.  Allir kynni sér málin og taki afstöðu.  Ekki bara á fjögurra ára fresti.

Pétur Þorleifsson , 12.4.2009 kl. 22:42

3 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Sammála þér Árni, ég sá myndina og las viðtalið.

Já Jens, batnandi mönnum er best að lifa.

Sigurður Þórðarson, 12.4.2009 kl. 23:07

4 Smámynd: Árni Gunnarsson

Myndin er auðvitað mikið listaverk og gengur nærri mörgum rétttrúuðum stóriðjusinnum. Einn stærsti kosturinn við svona heimildarmynd er auðvitað sá að allir bláeygu aularnir sem leika þar stærstu hlutverkin setja nöfnin sín undir eigin niðurlægingu og fyrir allra augum um alla framtíð.

Sagan er algerlega miskunnarlaus skepna.

Árni Gunnarsson, 12.4.2009 kl. 23:25

5 Smámynd: Baldur Hermannsson

Sigurður Pálmason er vænn maður eins og hann á kyn til. Viðtalið er eins og kaupfélögin gömlu úti á landi þegar þau voru og hétu - þar fékkst allt milli himins og jarðar. Ég man enn eftir rauðköflóttu skyrtunni sem ég fékk í Kaupfélagi Héraðsbúa. Undursamlegri skyrtu hef ég aldrei átt um ævidagana. Slíkar kaupfélagsskyrtur hafa gert margan veiklundaðan sveininn að forhertum Framsóknarmanni.

Það er margt seiðandi í þessu viðtali. Flestir ættu að fá þar eitthvað fyrir sinn snúð. Þarna eru þær allar, gömlu góðu klisjurnar - allt frá Hayek til Schumachers. Mér féll vel við þessar klisjur í gamla daga en það er með þær eins og skyrtuna mína góðu: þær tilheyra liðnum dögum. Nú bíð ég þess að æskan tefli fram einhverjum ferskum, spánnýjum hugmyndum. Ég vona að æskan fari ekki að hlusta á gamlingjana.

Baldur Hermannsson, 12.4.2009 kl. 23:51

6 Smámynd: Árni Gunnarsson

Baldur. Þetta viðtal var uppgjör í bókhaldi heilbrigðar skynsemi í mínum huga. Það var líka úttekt á gildismati fólks á einum áratug og afeiðingum þess. Ákaflega einfalt og auðskilið. Síðan kemur að hverjum og einum hvort honum sýnist að ástæða sé til að læra af fortíðinni eða gera eins og alkinn sem á ekki í neinum vandamálum út af drykkju, heldur asnaðist til að drekka ekki réttu sortina.

Og ég held að það sé misskilningur hjá þér kæri vinur að í þessu viðtali fái allir eitthvað fyrir sinn snúð. Ég held að margir fái ekkert og sumir komi út í skuld.

Kárahnjúkavirkjunin er stærsti bautasteinn sem heimskunni hefur verið reistur- ennþá á Íslandi. Vonandi rís hún ekki upp frá dauðum í sinni fyrri mynd.

Árni Gunnarsson, 13.4.2009 kl. 00:17

7 Smámynd: Baldur Hermannsson

Ég er eins ósammála þér um Kárahnjúkavirkjun og unnt er að vera. Sú herlega framkvæmd bjargaði heilum landsfjórðungi frá örbirgð. Og sú framkvæmd kemur bankahruninu nákvæmlega ekkert við. Billegt hjá Sigurði að draga hana inn í það mál.

Baldur Hermannsson, 13.4.2009 kl. 00:37

8 identicon

Komið þið sælir; piltar !

Baldur !

Fyrir það fyrsta; hvar Austfirðinga fjórðungur er fámennastur landshluta - hvar komið var nægilegt fyrir; af álverum, í landinu - og; hvar, til eru góðmálmar, eins og Kopar og Silfur (reyndar; helmingi meiri mengun, af Silfurreyk, segja staðkunnugir), og þurfa kannski ekki, viðlíka orku, sem spanderað var, í eina álversstöð, hjá Reyðfirzkum, hefði mátt dreifa, að nokkru, þeim fjármunum, sem austur fóru, til almennilegrar atvinnu uppbyggingar, á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra - þar hefi ég, í huga / Áburðarverksmiðju við Hrútafjörð, í huga, meðal annars.

Einnig; nefni ég, stóraukin sóknarfærin, með nýbýla mundun, í landbúnaði, sem og stór aukna trilluútgerð, á ný. Heima; á Stokkseyri, í gamla daga, voru þessir 15 - 20 tonna bátar, og ívið stærri, að skila drjúgu að bryggju, á góðum dögum (ólst þar upp; 1961 - 1971).  

Svo; ofan í kaupið, fækkar þeim Hrafnkells Freysgoða niðjum, með hverju andskotans misserinu, í búsetu; þar eystra, sem líður - þrátt fyrir, allt það, sem búið er að bjástra, fyrir Mið- Austurland, piltar ! 

p.s. Á eftir; að lesa greinina - og hending ein, hvenær ég sé myndgerðina, ágætu drengir.

Með beztu kveðjum; sem oftar og fyrri, úr Árnesþingi /

Óskar Helgi Helgason

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 13.4.2009 kl. 00:59

9 Smámynd: Baldur Hermannsson

Óskar, Jónas heitinn frá Hriflu var stórhuga maður og hafði sýn á tilveruna sem tekur langt fram bullinu í Draumalandinu. 50 000 bændabýli á Íslandi og engar refjar! Alltaf hef ég dáðst að Jónasi og nenni ekki að fara í launkofa með þá aðdáun. Hann er einn af risum Íslandssögunnar. Ég keypti ritin hans og finnst notalegt að rýna í þau á nokkurra ára fresti.

Baldur Hermannsson, 13.4.2009 kl. 01:16

10 identicon

Heilir og sælir; á ný !

Baldur ! Þessi síðustu orð þín sýna; að það er þá mann ræna, umtalsverð, í þér, ágæti drengur. Og; efaðist ég reyndar aldrei, um það - þá á reyndi, Baldur minn.

Misminni mig ekki; stóð Jónas, gegn inngöngu Íslands, í NATÓ, meðal annars, og segir það, eitt og sér, talsvert, um þann skörung.

Þessar flygsur; hverjar fylla bekki Framsóknarflokksins í dag, eru ærið hjárænulegar - til samanburðar, við skörungs hátt, hins gengna Þingeyings.

Með hinum beztu kveðjum; sem fyrri /

Óskar Helgi Helgason   

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 13.4.2009 kl. 01:33

11 Smámynd: Baldur Hermannsson

Hehe Óskar, nú rak Sjálfstæðismaður upp skellihlátur og þessa dagana þarf kraftaverk til að þurrka armæðusvipinn af trýninu á þeim. Sem sagt: Jónas frá Hriflu varð til þess að sýna fram á snefil af mannrænu í garminum honum Katli! En hefurðu annars komið að Hriflu? Það voru nú ljótu vonbrigðin að koma á þann stað.

Ég held reyndar að þig misminni um afstöðu Jónasar til NATÓ en það er önnur saga.

Baldur Hermannsson, 13.4.2009 kl. 01:43

12 identicon

Sælir enn !

Baldur ! Nei; að Hriflu hefi ég ei komið. Þú leiðréttir mig; hvar þú ert, að hálfu, meiri grúskari, í gömlum gögnum, hygg ég vera - með NATÓ meiningar Jónasar gamla, Baldur minn.

En; ég hugði þig, fremur, Íhaldsmann (Íhaldsflokkurinn - annar forvera Sjálfstæðisflokks, 1927/1929) vera, eftir kárínur Sjálfstæðisflokks, undanfarna daga, sem misseri og ár, ágæti drengur.  

Með; hinum beztu kveðjum, sem áður /

Óskar Helgi Helgason

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 13.4.2009 kl. 01:52

13 Smámynd: Baldur Hermannsson

Já ég hef alltaf verið íhaldsmaður og mun aldrei verða neitt annað. Mér þætti notalegt að mega kalla sjálfan mig Kristilegan demókrata en þá þyrfti ég víst að eiga heima í Þýskalandi. En það verður ekki á allt kosið, kæri Óskar.

Baldur Hermannsson, 13.4.2009 kl. 01:58

14 Smámynd: Óskar Arnórsson

Ertu Sjálfsstæðismaður Baldur? Ég trúi ekki að svona skunsamur maður eins og þú ert, sért í liði með stærstu mafíu á íslandi. Og Samfylkinginn hangir í rassinum á þem.

Ég hélt alltaf að þú vildir alla spillingu í burtu! Annar þekki ég ekki hlutabréfi frá klósettpappír, né stjórnmálaflokka frá sértrúrarsöfnuðum.

Tek undir með nafna mínum Helgasyni.

Hann er þó jafn skynsamur og Árni pislahöfundur.  

Óskar Arnórsson, 13.4.2009 kl. 07:49

15 Smámynd: Óskar Arnórsson

..og enga íslénskukennslu takk!. kann þetta forneskjumál ekki almennilega lengur.

Óskar Arnórsson, 13.4.2009 kl. 07:51

16 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ánægjulegt fyrir gestrisinn mann eins og mig að búa svona nærri þjóðvegi. Ég læt mér nú ekki koma til hugar að allir verði sammála enda færi nú mesti glansinn af umræðunni við það. Skemmtilegast hefði verið að setja mönnum þær húsreglur að hér leyfðist ekki annað málfar en það sem Óskar frá Gamla - Hrauni temur sér. Það gengur bara ekki vegna þess að það kunna ekki aðrir en hann og ekki einu sinni  húsbóndinn sjálfur treystir sér til inn á það hættusvæði. (Er þó annálaður kjarkmaður líkt og Óskar Arnórsson)

En við þig Baldur vil ég segja að ég átti aldrei von á að við yrðum sammála um Kárahnjúkavirkjun. Kemur þar til bernska þín í pólitískum þroska sem auðvitað tekur sína skýringu í því óhappi hversu seint leiðir okkar lágu saman. En mikið hefur þér nú farið fram síðan þú fórst að heimsækja mig hingað á bloggið.

Árni Gunnarsson, 13.4.2009 kl. 08:27

17 Smámynd: Jón Kristjánsson

Já Árni. Þetta var mjög merkilegt viðtal og kom reyndar flatt upp á mig að maður með þennan bakgrunn, lifandi í því umhverfi sem hann er í, skyldi hafa þessa yfirsýn og skoðanir. Sá fyrir atburðarásina og varaði við henni þegar árið 2000.
þá sér hann eins og við plottið á bak við kvótakerfið.

Það þurfti að taka veiðiheimildirnar og vinnuna frá sjávarplássunum til að fá "annað" í staðinn. Eftir að Austfirðingar fengu ekki að fara á sjó var Kárahnjúkaleiðin greið. Fisklausir Húsvíkingar heimta sína plöntu, Suðurnesjamenn með sínar tómu hafnir vilja líka vera með í dansinum, bora sundur Reykjanesskagann til að reisa álver í Helguvík. Vestfirðingum er boðið olíuraffínerí eftir að síðasti flatningshnífurinn týndist.

Nú fer ég að skilja hverjir stjórna Hafró-um heimsins. Auðhringarnir verða að hafa apparat sem skapar og viðheldur ótta (um ofveiði) svo halda megi við kvótakerfum, skömmtunum og atvinnuleysi til að ryðja veginn fyrir álverin og virkjanirnar.
Taktu líka eftir því, að núna (Mbl. laugardag) hafa báðir stóriðjuflokkarnir (B og D) á stefnuskrá sinni að auka fjárframlög og stórefla fiski og hafrannsóknir. Væntanlega svo Skúlagötuliðið fari ekki að glopra út úr sér að "ekki þyki lengur ástæða til að að friða þorsk um hrygningartímann", fari að leggja af skyndilokanir, auka veiðiheimildir eða eitthvað enn skelfilegra.
Já Árni, eru ekki línurnar ögn farnar að skýrast ?  

Jón Kristjánsson, 13.4.2009 kl. 12:20

18 Smámynd: Baldur Hermannsson

Jón Ingi, hefurðu nú verið að lesa Da Vinci Code?

Baldur Hermannsson, 13.4.2009 kl. 12:23

19 Smámynd: Árni Gunnarsson

Jón. Eiginlega er það undarlegast í þessari afstöðu Sigurðar Gísla að hún er svo einföld niðurstaða að hún ætti að vera sjálfsögð í hugum okkar allra. Stjórnmálamenn og fjölmiðlar hafa verið svo samstiga við að afflytja staðreyndir að fólk sem ekki fylgist með aðdraganda pólitískra ákvarðana telur í einfeldni sinni að heilindi hafi verið notuð en sumar ákvarðanir séu þess eðlis að þær hljóti að verða umdeildar- sem að vissu leyti er rétt.

Ég hef oft látið í mér heyra um það sem ég kalla ranglætið í kvótakerfinu og snýr fyrst og fremst að sjávarþorpum sem skilin voru eftir án möguleika til bjargræðis. Snjallir áróðursmenn hafa svarað þessu með því að benda á að þessi byggðarlög hafi selt frá sér kvóta og það sé lítil sanngirni að krefjast þess að þeim sé færður kvóti aftur og ókeypis!

Þarna er vitnað til þess m.a. að þegar trillubátar voru settir á kvóta myndaðist seljanlegt verðmæti fyrir eigendur þeirra. Ekkert sveitarfélag sem ég veit um átti trillubát. En þegar allir trillukarlar í einhverju sjávarþorpi seldu ríkum útgerðum trillurnar sínar fyrir háar fjárhæðir hét það á máli verjenda kvótakerfisins að "nú hefði eitt þorpið enn á Vestfjörðum selt frá sér kvótann!" Og þegar Geiri á Guggunni seldi Gugguna þá hét það að Ísfirðingar hefðu selt frá sér aðal atvinnutækið. Það skipti engu máli í áróðrinum að Ísfirðingar fengu ekki eina krónu fyrir skipið enda áttu þeir það aldrei. Sannleikurinn er stundum háður því hvað honum er ætlað að upplýsa. Og sannleikurinn sem Hafró segir og ráðuneyti LÍÚ þarf að nota er stundum ofurlítið undarlegur í laginu.

En nú er öllum boðið upp á að leiðrétta rangfærslur mínar, Jóns Kristjánssonar og Sigurðar Gísla Pálmasonar hér á minni bloggsíðu.

Baldur. En svo er það þetta með æskuna og gamlingjana. Þar ætla ég að verða þér ósammála. Ég hvet æskuna til að taka fullt mark á gamlingjum og hlusta á ráð þeirra með opnum huga en ekki gagnrýnilaust t.d. ef um gamlan sjálfstæðismann er að ræða. En fyrst og fremst vonast ég til þess að æskan krefjist þess að pólitíkusar láti hana í friði við að bjarga sér á eigin forsendum eins og fólkið í sjávarþorpunum vildi en fékk ekki.

Og ég vona að unga fólkið hætti að hlusta á pólitíska sendimenn kommúnista í Orkustofnun og hjá Landsvirkjun sem bjóða upp á verksmiðjustörf fyrir stóra skammta af fólki með grímur fyrir vitunum og öryggishjálma á hausnum.

Árni Gunnarsson, 13.4.2009 kl. 21:38

20 Smámynd: Baldur Hermannsson

Árni, þú ert alltof hallur undir Jón Baldvin, þú vilt fá allt fyrir ekkert. En samfélag þarfnast orku. Það gengur ört á olíubirgðir heimsins. Sú stund mun renna að olía verður hrikalega dýr og alls ekki á færi almennings að kaupa hana. Við getum að miklu leyti reitt okkur á orku fallvatna og varmaorku næstu áratugina en þar mun koma að engin umtalsverð  fallvötn verða á Íslandi vegna hlýnunar Jarðar - það gæti orðið innan 100 ára. Við skulum virkja núna eins og bandóðir menn, hverja einustu sprænu sem hægt er að virkja. Þegar fram líða stundir munum við vafalaust nota kjarnorku eins og aðrar þjóðir - það er ekki víst að það sé svo ýkja langt í það.

Baldur Hermannsson, 13.4.2009 kl. 21:47

21 Smámynd: Árni Gunnarsson

Baldur. Nú hefur þú niðurlægt mig hér á minni bloggsíðu fyrstur manna. Þegar svo verður komið fyrir mér að ég þurfi að hallast undir skoðanir íslenskra pólitíkusa mum ég hætta að taka til máls á opinberum vettvangi. Ég hef verið þátttakandi i íslensku samfélagi lengur en flestir þeir aðrir sem hér tjá hug sinn og fylgs með þróun þess. Og ég hef óbilandi sjálfstraust þegar kemur að því að taka afstöðu til þjóðmála og geri það án þess að skima svo mikið eftir skoðunum annara. Þess vegna hef ég aldrei verið neinum flokki trúrri liðsmaður en mér hefur þótt hann vinna til. Enda er það hámark lítilmennsku og hverjum manni til vansæmdar. Íslenskt samfélag er ekki flókið í eðli sínu og væri draumaveröld ef það fengi að þróast á eigin forsendum og án mikilla og stöðugra truflana pólitíusanna. Þeir hafa nefnilega ekki flóknari skyldur við fólkið í landinu en þær að láta það í friði. Og þeim er borgað fyrir það að gera okkur kleift að bjarga okkur sjálf ef við erum fær um það.

Stjórnmálaflokkar okkar virðast mér vera gripahjarðir flokkseigendafélaga sem eru litlir og ómerkilegir mafíuhópar sem skipta með sér hagnaði eftir kosningar. Fyrir mér er enginn stjórnmálaflokkur óhultari en annar og allir fá sína ofanígjöf eftir verkum sínum.

Og hvað orkuna varðar þá hefur engin þjóð sem ég veit um beislað meiri hreina orku í hlutfalli við fólksfjölda en við. Áreiðanlega hefur engin þjóð nýtt hana heimskulegar en við gerðum með Kárahnjúkavirkjun. Það er bara svo augljóst að ég nenni ekki að eyða orku í umræðuna. Svo vel vill nú reyndar til að þeim fer fækkandi með hverjum degi sem verja þá glópsku í dag.

Stærstu uppeldisstöðvar álftarinnar eru í kínverska hluta Mongóliu. Þar eru lífskjör fólks harðari og óvægnari en við náum að skilja. Þau eru meira að segja harðari en á Reyðarfirði og nágrenni fyrir daga álvers. Mongólar nýta álftina ekki til matar. Þeir segja að hún sé fugl Guðs.

Mongólar hafa ekki heyrt getið um Sjálfstæðisflokkinn. Ekki Orkustofnun og ekki Össur Skarphéðinsson. Og þeir myndu ekki þekkja Friðrik Sófusson þó þeir sæju hann.

Árni Gunnarsson, 13.4.2009 kl. 23:59

22 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Ég hef aldrei kynnst Sigurði Gísla. Hinsvegar kynntist ég pabba hans í gegnum uppeldis- og fóstbróðir hans. Fyrrverandi tengdaföður. Sem var boðið að verða yfirgjaldkeri Hagkaupa en kaus frekar að vinna hjá ríkinu. Á mikið lægri launum. Pálmi í Hagkaup sýndi samt þessum uppeldisbróðir sínum að hann kunni að meta hann. Með bílkaupum, beygluðum niðursuðudósum ofl. Á tímabili gekk ég í skóm af Pálma sem hentuðu ekki hans fótum. Á tímabili áttum við ég og mín fyrrverandi borðstofuborð það sem hafði prýtt Viðey í tíð Skúla Magnússonar. Komið frá Pálma.

Það eru nokkur ár síðan að Sigurður kom fram sem málsvari sjálfsbærar þróunar og eldri gilda og mér finnst það frábært.  Greinin í FBL er góð og segir margt um þennan dreng sem einu sinni sagði í Mannlífsgrein (Ef ég man rétt) að hann væri ekki fæddur með silfurskeið í munninum sé núna loksins búinn að fatta að hann var fæddur með silfurskeið og beri þess vegna ábyrgð.

En aðkoma hans að Draumalandinu er aðdáunarverð.

Ævar Rafn Kjartansson, 14.4.2009 kl. 00:23

23 Smámynd: Óskar Arnórsson

Má ekki selja Japönum og Rússum Hvalakvóta. Þeir eru þo með skip sem geta veitt þessa hvali í einum grænum. Rússar eru með risaskip. Hverm fjandan eru Íslendingar að fóðra 10.000 hvali af öllum stærðum og gerðum á fiskimiðum landsins?

Og selururinn, sellaveiki hafsins. Það þyrfti nú bara herflugvelar að henda sprenggjum á þessa "minka hafsins". Vill einhver bóndi hafa friðaða tófu í hænsnahúsinu sínu?

Ég er ansi hræddur um að þég myndi ekki hlusta á Ráðherra eða friðunarsinna ef ég væri hænsnabóndi með friðaða tófu í hænsnahúsinuþ Hef núlega heyrt að það sé búið að friða tófur einhversstaðar á Íslandi!

Er menn ekki með viti sem ráða málum þarna á Fróni? Friða tófur?

Og í smbandi við fiskivernd. Hefur einhver af þessum herramönnum sem tjá sig um allt mögulegt hér að ofan, Baldur beini ég mér sérstaklega að, staðið við rúllunnuna á línubát og tekið á mótu bara fiskhausum á meira enn öðrum hverjum krók,  kílómetra eftir kílametra löngum línum?

Selir þurfa ekki einu sinni að hafa fyrir því að veiða sér til matar. Línu bátarnir gera það oft fyrir þá.

Tihvers að hafa sjávamálútvegsráðherra sem ekki gefur hundsvit á fiskivernd, frekar enn hann HAFR'O, þegar Paul Watson fjarstýrir öllum sjávariðnaði á Íslandi frá útlöndum. Og ESB foprdæmir hvalveiðar. Íslendingar eiga að fordæma ESB opinberlega!

Bara mín skoðun.   

Óskar Arnórsson, 14.4.2009 kl. 04:36

24 Smámynd: Óskar Arnórsson

..afsakið! Þetta áttu að vera 10.000 hvalir af öllum stærðum, og gerðum....

Óskar Arnórsson, 14.4.2009 kl. 04:38

25 Smámynd: Óskar Arnórsson

..enn ein stafsetningar villan sem er mikilvæg. Hundrað þúsund hvalir eru á fiskimiðum Íslands..eða á landgrunninu....

Óskar Arnórsson, 14.4.2009 kl. 04:43

26 Smámynd: Þorsteinn Briem

Gleðilegt sumar, Árni minn!

Þorsteinn Briem, 23.4.2009 kl. 21:55

27 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Árni, mér finnst athyglisvert það sem þú segir um álftina í Mongólíu. Um lífsskilyrðin þar vissi ég. En þetta er svona svipað eins og þú myndir segja að mongólum myndi aldrei detta í hug að selja vafasömum stórfyrirtækjum náttúruauðlindir sínar á undirverði sem markaðssetur heila þjóð sem rassasleykjur auðkýfinga. Ég held að Baldur Hermannsson sé ekki að meina það sem hann er að segja. Hef allavega aldrei til þess talið hann heimskan. Kárahnjúkavirkjun er orsök þenslunnar þó hún eigi kannski bara óbeint sök á hruninu. Það að vegsama þessa virkjun og áframhaldandi niðurgreidda álframleiðslu er aumkunarvert.

Þessir menn sem eru að bjóða sig fram til að hafa vit fyrir okkur hinum hafa reynst frekar grunnhyggnir og frasakenndir. Hálfgerð fölsk framhlið eins og það sem ég er að smíða núna sem er leikmyndin fyrir Fangavaktina. Fronturinn er kópía af raunveruleikanum en á bakvið eru stífur sem halda falska frontinum uppi. Svona upplifi ég íslensku stjórnmálaflokkana og þeirra framsetningu í dag.

Þess vegna ætla ég að greiða gersamlega óreyndum stjórnmálamönnum mitt atkvæði. Fólki sem er komið í stjórnmál af því að það treystir ekki lengur stjórnmálamönnum. Ég ætla að greiða Borgarahreyfingunni mitt atkvæði. 

Reynist þau svo eins og öll hin þarf ég bara að lifa við það. En hinir flokkarnis hafa sjálfir markaðssett sig frá mínu atkvæði.

Ævar Rafn Kjartansson, 24.4.2009 kl. 23:10

28 Smámynd: Baldur Hermannsson

Takk Ævar, í hreinskilni sagt held ég að hvorugur okkar geti talist verulega heimskur, amk ekki nautheimskur, en við höfum ábyggilega gerólíka sýn á lífið.

Baldur Hermannsson, 24.4.2009 kl. 23:27

29 identicon

Ævar Rafn, mæltu manna heilastur!

Lund Hervars (IP-tala skráð) 25.4.2009 kl. 00:11

30 Smámynd: Árni Gunnarsson

Merkilegur samræðuvettvangur þetta Moggablogg. Ekki þætti mér ólíklegt að það kæmi í ljós að nokkrum árum liðnum að einhver háskólaneminn tæki sér fyrir hendur að rita prófritgerð um hugarheim okkar sem hér skiptumst á skoðunum. Erindi okkar hingað eru misjöfn eins og við er að búast. Einkennilega mörg okkar eru að sligast undir þeirri hugsjón að hafa vit fyrir öðrum. En þó meiningin sé auðvitað góð þá sýnist mér eins og ótrúlega margir kunni bara ekki að meta það.

Þeim mun oftar sem þið heimsækið mig hingað því betur finnst mér ég þekkja mörg ykkar. Og eiginlega hef ég komist að dálítið skemmtilegri niðurstöðu um okkur þennan hóp. Mér er hinsvegar ljóst að það er oftar en ekki stórhættulegt að komast að niðurstöðu. En niðurstaða mín er sú að líklega séum við ekki nærri því eins vitlaus og við lítum út fyrir að vera.

Gleðilegt sumar og takk fyrir veturinn!

Árni Gunnarsson, 25.4.2009 kl. 20:20

31 Smámynd: Baldur Hermannsson

Þér skjátlast um vitsmuni okkar, þeir eru alls ekki eins miklir og sýnist. Það sem þú feilar á er súð staðreynd að við förum öll í sparifötin þegar við göngum inn í baðstofuna þína og setjumst við langeldana, við setjum líka upp sparisvipinn og virkjum spariheilann.....

Baldur Hermannsson, 25.4.2009 kl. 20:47

32 Smámynd: Óskar Arnórsson

Baldur! Svakalega ertu gáfaður! Þig vantar bara vitið og viskuna!... Næs að eiga spariheila. Ég á bara spariföt en enga spariskó..

Óskar Arnórsson, 25.4.2009 kl. 21:13

33 Smámynd: Baldur Hermannsson

Óskar, my man....!

Baldur Hermannsson, 25.4.2009 kl. 21:46

34 identicon

Takk sömuleiðis Árni, hér er gáta fyrir þig frændi, höfuð 7, ári seinna 9, hver er hryssan? Þú mátt gjarnan skrifa meira um hross kæri Árni því fáir gera það eins vel og þú.

Lund Hervars (IP-tala skráð) 25.4.2009 kl. 23:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband