16.11.2009 | 22:32
Dagur íslenskrar tungu og háttatíminn mikli
Það hefur verið ákveðið á Íslandi að heiðra "listaskáldið góða" Jónas Hallgrímsson með því að gera afmælisdag hans að degi íslenskrar tungu og að fullum verðleikum. Nú er hinsvegar svo komið á þessu landi að tunga þjóðarinnar nýtur ekki meiri virðingar hjá ráðuneyti menntamála en svo að móðurmálskennsla er orðin afgangsnámsgrein í kennaranáminu og verður tæpast betur lýst sinnuleysi skólayfirvalda um þessa undirstöðu menningar okkar. Reyndar er nú langur tími liðinn síðan fólk með þokkalega málkennd tók að óróast undir fréttaflutningi fjölmiðla vegna ógætni í málfari, kunnáttuleysi og ambögusmíða fréttastjóra og jafnvel útvarpsþula. Varla er ofsagt að nú sé þarna komið í hreint óefni. Langt mál yrði upp að telja. Nú heyrir til undantekninga að fólk komist þurrum fótum yfir minnstu vatnsföll. Í stað þess að rölta yfir brúna þrælast nú flestir yfir brúnna svo eitthvað sé nefnt. Ærin og kýrin eru löngu horfnar úr högum og í stað þeirra komnar þær frænkur áin og kúin. Margir reyna að skreyta málfar sitt en oft af litlum burðum og þegar gripið er til gamalla máltækja eða spakmæla versnar staðan yfirleitt að mun því oftar en ekki er farið rangt með orð ellegar þá merkingunni snúið við. Margir hlógu að leikpersónunni "Binnu á Brávallagötunni" þegar hún nagaði sig í handarkrikana! Í dag væri ekki tiltökumál að heyra málfar á borð við það. Blásaklaus ungur maður Gylfi Gíslason að nafni fékk þá umsögn í útvarpsfrétt fyrir allnokkrum árum að hann væri helsti vonarpeningur Alþýðuflokksins á Vestfjörðum. Varla hefði höfundur fréttarinnar sent þetta frá sér hefði hann lesið sig til um orðið vonarpeningur sem merkir að gripur sé kominn svo af fótum fram að bóndi telji að brugðið geti til beggja vona með afdrif hans.
Ekki er ástæða til að vanmeta tilburði fólks við að skreyta málfar sitt, en þegar tekið er ástfóstri við einhver orð eða orðasambönd getur það farið úr böndum og um það eru mörg dæmi. Hvergi nema í einum rituðum texta hef ég rekist á orðasambandið "að berja augum" , en það er þegar Laxness lætur Björn gamla í Brekkukoti segja frá "biflíunni" sem hann hafi barið augum í kirkjunni. Nú brá svo við að þegar á fyrstu dögum eftir útkomu Brekkukotsannáls hættu margir málskrúðsvinir að sjá nokkurn skapaðan hlut af því sem fyrir augu þeirra bar. Nú fóru menn að segja frá því hver um annan þveran hvar þeir hefðu barið elskuna sína augum fyrsta sinnið. Undraðist ég oft hvernig elskurnar þeirra hefðu komist óskaddaðar frá allri þeirri voðalegu barsmíð.
Eitt skelfilegasta dæmið sem nú kemur upp í hugann og jafnframt það síðasta sem ég mun gera hér að umræðuefni er það óstöðvandi "háttatal" sem tröllríður allri opinberri umræðu okkar í dag. Nú leyfir sér enginn að bera sér í munn í opinberri umræðu að eitthvað sé; svona, með þessu móti, á þessa lund, á þennan veg, hinsegin, á einvern hátt- svo eitthvað sé nú nefnt af öllu því sem okkar fjölskrúðuga tunga býður upp á, nei. Ævinlega finnst ræðumanni að þágufallið vinsæla sé eini kosturinn." Að maðurinn skuli tala með þessum hætti, með hvaða hætti við komumst út úr þessum þrengingum, með hvaða hætti nú skuli bregðast við, ef við höldum áfram að haga okkur með þessum hætti," o,s.frv. o.s.frv. sem langt mál yrði upp að telja. Ég lék mér að því eitt sinn að telja í stuttri orðasnerpu á Alþingi hversu oft tveir andstæðingar notuðu þessa þágufallsdrullu og hætti þegar ég var kominn upp í töluna nítján! Það ótrúlega er að ég man varla eftir neinum inni á Alþingi okkar í dag sem er ósýktur af þessum andskota. Og mér kemur í hug vísan góða eftir hann Gísla Ólafsson frá Eiríksstöðum sem verðskuldaði reyndar langan pistil til að halda minningu hans á lofti:
Lífið fátt mér ljær í hag,
lúinn þrátt ég glími.
Koma máttu um miðjan dag,
mikli háttatími.
Líklega hef ég áður nefnt eitthvað það sem hér hefur verið dregið til dæma en reyni bara að hafa ekki áhyggjur af því.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 17.11.2009 kl. 22:04 | Facebook
Athugasemdir
Árni, kærar þakkir fyrir þessa færslu.
Með kveðju, BB
Björn Birgisson, 17.11.2009 kl. 17:53
Þakka innlitið Birgir. Gott að sjá að einhver er mér sammála.
Árni Gunnarsson, 18.11.2009 kl. 10:28
Sæll!
Þótt mér sami svo sem ekki að bera í bætifláka fyrir nóbelsskáldið má þó geta þess að fræðimenn telja að orðalagið „að berja augum“ sé ekki viljandi hjá því; Björn gamli ætlaði að bera biflíuna augum en eitthvað andskotans joð læddi sér inn í orðið utan laga og réttar. Svo gripu blekbullarar villuna á lofti eins og kaþólskir meint bullið úr páfanum um hitt og þetta.
Þorvaldur frá Hróarsdal (IP-tala skráð) 22.11.2009 kl. 10:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.