23.2.2020 | 13:55
Að hafa asklok fyrir himin
Það var löngu fyrir alla mengunarkvóta og nokkru fyrir teljandi mengun, sem það var haft á
orði um þröngsýnt fólk að það hefði asklok fyrir himin.
Þetta orðtæki kom mér í hug eftir samtal núna á dögunum við góðvin minn sem hringdi og var
mikið niðri fyrir vegna fréttar sem hann var að lesa
Um var að ræða nýjar tölur af hitastigi á þremur stöðum hér við land.
Þessar tölur sýndu óbreytt ástand um áratugaskeið.
Viðmælandi minn var bæði himinlifandi og hróðugur vegna þeirrar gæfu að geta SANNAÐ fyrir mér
að ég hefð haft rangt fyrir mér þegar ég mótmælti þeim fullyrðingum hans að hattræn hlýnun
væri hvorki fyrir hendi á láði né legi og alls ekki í andrúmslofti.
Þessi afneitunarskelfing er auðvitað læknisfræðilegt viðfangsefni og ástæða til að sýna henni
tilhlýðilegan skilning.
En þá skyldu á ég bara svo erfitt með að uppfylla.
21.11.2017 | 16:19
Snýst ekki um völd eða ráðherrastóla
Eitthvað á þá lund voru yfirlýsingar Bjarna Beneditssonar við fréttamann í síðdegisfréttatíma Rúv núna áðan.
Hann vildi leiðrétta þann leiða misskilning sem væri í gangi væri, að dráttur á frágangi stjórnarsáttmálans stafaði af einhverri ásókn í völd.
Það væri fyrst og fremst takmarkið að þetta yrði þjóðinni til heilla.
Þetta fannst mér fallegt.
Og mér varsð eiginlega samstundis ljóst að það er deginum ljósara að 5 ráðherrar af D lista í
stað - t.d. þriggja - er þjóðinni mikilvæg niðurstaða.
Einkum þegar þess er gætt að það skapar umtalsverð aukaútgjöld
27.8.2017 | 13:19
Flokkur fólksins
Megum við ekki leyfa okkur ofurlitla tilhlökkun eftir innreið þessa flokks á Alþingi eftir næstu kosningar, fari svo að skoðanakannanir sanni kjörfylgið?
Mér heyrðist Inga Sæland formaður vera allvel undirbúin, eftir að hafa hlýtt á hana spjalla við
fréttamanninn Hallgrím Thorsteinsson.
Því miður verð ég að játa að mér hefur fundist eitthvað verulega skorta á þann eldmóð í umbótakröfum sem ég hafði vænst af Pírötunum.
Reyndar er það nú svo með þessa stjórnarandstöðu að hún minnir alltaf jafnmikið á köngulóna í
súrmjólkurskálinni.
Næg verkefni hefur hún þó í höndunum þó ekki sé lengra seilst en í heilbrigðiskerfið.
Það er auðvitað slæmt hversu slæma fortíðarfötlun þeir búa við þar reynsluboltarnir úr Vinstri grænum og Framsóknarflokknum hvað kvótakerfið áhrærir.
11.6.2017 | 13:19
Sjómannadagur
Til hamingju með daginn ykkar íslensku sjómenn!
Líklega er óvenju miklu skrökvað að íslensku þjóðinni á þessum hátíðardegi sjómanna sem nú er haldinn í áttugasta sinn.
Og mestu er skrökvað þar sem síst skyldi - í hátíðaræðum framámanna þjóðarinnar, að ógleymdum ræðum prestanna sem segja oftast það sem til er ætlast af þeim.
Það er nefnilega ósatt sem einlægt er haldið fram, að pólitísk nýtingarstefna (verndarstefna) undir stjórn Hafrannsóknarstofnunar hafi virkað af snilld og skapað okkur þann ábata sem til var ætlast. Framfarir í sjávarútvegi og framfarir í nýtingu og meðferð hráefnis hafa orðið verulegar og hafa tengst þeirri þekkingu og tæknibyltingu sem orðið hefur í flestum eða öllum atvinnugreinum.
Glæpavæðing útgerðar og sjómennsku er svo sjálfstæður glæpur sem alfarið er á pólitískri ábyrgð stjórnvalda okkar um áratugi.
Síðan má ekki gleyma því tjóni sem orsakast hefur af vísindalegri ráðgjöf þeirrar stofnunar sem falið var að greina ástand og nytjaþol fiskistofnanna.
Afleiðingarnar eru skelfilegur byggðaflótti svo að til landauðnar horfir á stórum svæðum við strendur landsins.
Lokaorðin eru tekin úr formála bókarinnar Fiskleysisguðinn sem gefin var út af Nýja Bókafélaginu ehf árið 2001 og er samantekt blaðagreina úr Morgunblaðinu sem Ásgeir heitinn Jakobsson rith. og blaðamaður skrifaði um mistök fiskifræðinganna hjá Hafró.
Umræddur formáli sem er snilld - er ritaður af Jakobi F. Ásgeirssyni sem er sonur höfundar.
Skylt er að biðja höfund afsökunar þegar texti er slitinn úr samhengi.
,,Faðir minn kvað Hafrannsókn engan lærdóm vilja draga af fiskveiðisögunni sem sýndi hvað íslenzk fiskislóð væri viðkvæm fyrir of stórum stofni. Hann benti á skrif erlendra fiskifræðinga sem héldu því fram að mesta hindrunin í verndun fiskistofns væri ekki sóknin heldur fiskurinn sjálfur og að of lítil sókn gæti ekki síður verið fiskistofni skaðleg en of mikil.
Tilraun Hafrannsóknar hefði mislukkast vegna þess að að hrygningarstofninn 1971 var stór og fiskislóðin þoldi ekki hvort tveggja, stóran stofn af ætisfrekum stórfiski og of mikla nýliðum vegna of mikillar verndunar ungfisks.
Í skrifum sínum lagði faðir minn áherslu á að fiskifræðingar gætu engu spáð um aflabrögð og sagði:
Það leiðir af sjálfu sér að fiskifræðingum okkar gangi illa að ná upp fiskistofni miðað við þá þekkingu, sem þá vantar til þess. Þeir geta í engu bætt sjávarhagana fyrir fiskinn, engin áhrif haft þar á æti, ekki verndað fisk fyrir hitabreytingum sem örva eða tefja vöxt, engu ráðið um göngur fisks, að eða frá landinu, engu ráðið um fisksjúkdóma, engu ráðið um áhrif eins fiskistofns á annan, engin áhrif haft á hvað selur og hvalur og súla étur af fiski og átu.
Af þessu getuleysi í undirstöðuþáttum og vanþekkingu á öðrum þáttum geta þeir ekki sagt með neinni vissu hvort á þessu eða hinu tímaskeiðinu sé fremur rétt að grisja á slóðinni með aukinni sókn eða reyna að auka ásetninginn með minnkun sóknar, og stofnmælingar þeirra þykja ótraustar og hafa reynst það."
Þessi endursögn Jakobs F. Ásgeirssonar á fáeinum ályktunum föður hans segir margfalt meira um fáviskuna sem þessari þjóð hefur verið seld af hennar mikilvægustu visindamönnum en margar ræður innblásnar af oflæti og vanþekkingu.
Í stjórnlausri sókn árin 1962 - 1971 veiddum við að meðaltali á ári 403 þúsund tonn af þorski.
Árin 1972 - 1975 veiddum við undir takmarkaðri stjórn 380 tonn til jafnaðar á ári.
Það voru kostnaðasöm mannréttindabrot þegar stjórnmálamönnum hugkvæmdist að hygla sjálfum sér og nánustu vinum og fjölskyldum með því að glæpavæða sinn elsta atvinnuveg.
Og afleiðingarnar eru skelfilegar.
Þrátt fyrir að fáeinar moldríkar fjölskyldur græði á tá og fingri á skortstöðu og vannýtingu.
En að baki þeim ábata er engin snilld.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
26.5.2017 | 08:22
Hugveita Sigmundar Davíðs
FRAMFARAFÉLAGIÐ er hugmynd Sigmundar Davíðs og kallast "hugveita".
Ef fyrirbærinu er ætlað það hlutverk að knýja Framsóknarflokkinn inn í skilgreiningu á sjálfum sér og því erindi sem stjórnmálaflokkur á ævinlega að eiga við kjósendur - þjóðina - er hugmyndin góð.
Sé hugmyndin hinsvegar aðeins sú að fá hreint uppgjör flokksmanna á milli hans og núverandi formanns sem Sigmundur telur sig með réttu eiga eftir að koma á hreint, verður ákvörðunin að skoðast í öðru ljósi.
Af því að þá sýnist mér ljóst að í augsýn er nýr stjórnmálaflokkur.
Hugveitan mun án mikils vafa verða að stjórnmálaflokki undir stjórn Sigmundar Davíðs sem er um marga hluti afburðamaður hvað varðar skarpa sýn á samfélagsmál. Hvort Framsóknarflokkurinn lifir af þennan klofning fer eftir því hvort Lilja Alfreðsdóttir kemur inn sem formannsefni í stað Sigurðar Inga.
Ljóst má vera að dagar hans sem stjórnmálaleiðtoga eru taldir eftir fundinn hans Sigmundar.
Mér er kunnugt um að þar hyggjast mæta einhverjir utan raða flokksins.
1.1.2016 | 16:24
Yfirlýsing forsetans
Þá hefur forsetinn leyst upp allar vangaveltur okkar um framtíð hans í embætti. Margir fagna nú með fyrirferðarmiklum yfirlýsingum og upphrópunum, þessari ákvörðun hans.
Ég er á hinn bóginn í flokki með þeim sem kveðja þennan þjóðarleiðtoga okkar með nokkrum söknuði.
Ólafur Ragnar breytti forsetaembættinu eftir nokkrar sviptingar og þrátt fyrir gildishlaðnar fullyrðingar af pólitískum toga um að til þess væri engin stoð í lögum.
En með þessu breytti hann vissulega stöðu embættisins og staðfesti að mínum dómi jafnframt hversu brýnt það er að breyta stjórnarskrá lýðveldisins og festa í lög ákvæði um heimildir tilgreinds minnihluta Alþingis og einnig tilgreinds hluta kjósenda, til að vísa umdeildum tilskipunum og lögum Alþingis til þjóðaratkvæðagreiðslu.
Öllum má vera ljóst að það er ótækt að eiga þennan synjunar-og málskotsrétt undir geðþóttaákvörðun eins embættismanns eftir heiftúðug átök og illdeilur.
Ólafur Ragnar átti að baki nokkurn feril pólitískra átaka í stjórnmálum er hann settist í embættið. Og ásamt því að vera hvorki geðlaus né gallalaus, hlaut það að afla honum nokkurs mótbyrs í pólitísku andrúmi samfélagsins þegar mestur varð gusturinn.
Sameiningartákn varð Ólafur forseti aldrei í þeim hefðbundna skilningi og sóttist kannski ekki svo mjög ekki eftir því.
Ég þakka honum fyrir mig og óska honum góðs farnaðar um ókomin ár.
Ég vona jafnframt að við fáum góðan forseta í hans stað á Bessastaði.
Ekki þarf hann að verða gallalaus.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 2.1.2016 kl. 23:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
29.8.2015 | 16:58
Framboð aldraðra og öryrkja
Til að ganga endanlega milli bols og höfuðs á völdum þess tvíeykis sem lengst og mest hefur gengið erinda voldugra hagsmunahópa á kostnað almúgafólks þarf sameiginlegt og skipulegt átak. Gífurleg fylgisaukning Pírata virðist vera orðin staðreynd og ótti tvíeykisins er orðinn utanáliggjandi lasleiki sem dylst engum.
Óþreyja fer nú greinilega vaxandi í röðum aldraðra og öryrkja vegna síendurtekinna svika við að leiðrétta lífeyrisgreiðslur sem áttu að fylgja hækkunum lægstu launataxta. Og nú er jafnvel rætt um framboð í næstu alþingiskosningum og/eða málsókn gegn ríkinu til leiðréttingar á kjörum þessara hópa sem eru fyrir löngu komin niður fyrir stjórnarskrárvarin réttindi hvað lífeyri varðar.
Flestum er nú orðið ljóst að baráttan við ríkisstjórnarflokkana snýst fyrst og fremst um:
1. Að opna fyrir aðgang að fiskimiðum okkar, dýrmætustu auðlind þjóðarinnar sem ekki einungis hefur verið einokuð, heldur vannýtt að auki svo skelfilega að það hefur nánast eytt mörgum byggðakjörnum,haldið niðri almennri hagsæld og nú síðast lamað velferðis-og heilbrigðiskerfi okkar svo að í óefni er komið og vandséð um lausnir. Þarna er fyrsta verkefnið að gefa handfæraveiðar frjálsar. Með því er því fólki sem býr við sjávarsíðuna, færð á ný þau mannréttindi sem það var svipt vegna heimsku og stjórnlyndis okkar pólitíska vanburðafólks. Engin áhætta fyrir fiskistofnana felst í þessu. Um það eru allir sammála sem vita hvernig þessum veiðum er háttað. Og handfæri ógna aldrei vexti og viðgangi fiskistofna.
2. Að leiðrétta kjör aldraðra, öryrkja og tryggja þeim búsetuúrræði í viðunandi húsnæði.
Nokkuð víst má telja að einhverjir úr hópi eldri borgara sem fengið hafa nóg af fjórflokknum muni komast í vanda ef þeir eiga ekki aðra kosti en Píratana. Tungumál þeirra er líklega á margan veg með öðrum brag en við höfum vanist sem heyrum til kynslóðinni sem óx upp skömmu eftir eða fyrir lýðveldistöku.
Baráttan við fjórflokkinn og þó ekki síst þá tvo sem nú stýra samfélaginu, verður hörð og óvægin og þar er mikið í húfi. Nú er það von mín að eldri borgarar taki á sig rögg og fari að undirbúa framboð til næstu alþingiskosninga.
Það framboð gæti vel sameinast stjórnmálaaflinu Dögun sem hefur á að skipa mörgu afbragðsfólki. Nægir þar að nefna fyrrum alþingismennina og baráttujaxlana Guðjón Arnar Kristjánsson og Sigurjón Þórðarson. Jóna Valgerður Kristjánsdóttir formaður L.E.B. ásamt Helgu Þórðardóttur formanni Dögunar eru einnig álitlegir frambjóðendur ásamt okkar óþreytandi baráttumanni Björgvin Guðmundssyni og fleiri mætti nefna s.s. Karl Matthíasson fyrrv. alþm.
Þessu er skotið fram hráu, svona til umhugsunar en ekki er ráð nema í tíma sé tekið.
21.3.2015 | 13:08
Rangur misskilningur
Niðurstöður tveggja skoðanakannana á jafnmörgum dögum eru ekki tilviljun.
Þær segja, svo ekki verður misskilið að þjóðin er búin að fá sig fullsadda af stjórnsýslu Sigmundar Davíðs og Bjarna Benediktssonar.
Þjóðin er búin að átta sig á því að þessir menn eru ekki að gera það sem nýir tímar kalla á handa nýjum kynslóðum.
Píratarnir eru hópur fólks sem krefst þess að stjórnvöld vinni af heiðarleika og í sátt við þjóðina sem á að geta treyst þeim sem hún afhendir umboð sitt í kosningum.
Nú kalla kjósendur pírata til verks í fullkominni andúð á fjórflokkinn með fimm andlitin.
Sigmundur Davíð er stálgreindur og klókur. Hann töfraði kjósendur sem voru í örvilnunarástandi, með gylliboðum um léttar og þægilegar lausnir sem margir höfðu efasemdir um og ýmsir hafa enn efasemdir um.
Sigmundur tók til máls um skoðanakannanirnar og undraðist!
Áttaði sig svo og sagði skýringuna vera þá að fólk væri orðið langeygt eftir lausnum! en sagði þó að vissulega væru þær farnar að koma í ljós.
Það er ljótt af Sigmundi að gera sig að þessu flóni af því að hann veit betur. Fólk er ekki langeygt eftir lausnum. Fólk er farið að sjá í hvað stefnir og það ÓTTAST þær lausnir sem ríkisstjórnin nefnir því nafni og kappkostar að koma sem fyrst í verk.
Fólkið í þessu landi vill vera án þeirra lausna sem ríkisstjórnin stefnir að.
Það er Óttinn - með stórum staf - Óttinn við lausnir ríkisstjórnarinnar sem stýrir þessum niðurstöðum.
Það dylst nefnilega engum að ríkisstjórnin hefur ekki átt vinsældum að fagna.
Það sýna allar kannanir.
Og það sýnir sig í skelfilegri ÓBEIT kjósenda í garð stjórnvalda.
Einkum yngra fólks.
8.12.2014 | 14:38
Kemur þetta á óvart?
Afskaplega er þetta undarlegt mál!
Eftir 30 ára gagnslausa baráttu Hafró og margítrekaðar yfirlýsingar ráðherrans um að hann muni ekki auka aflaheimildir.
En núna, þegar allt samfélagið er farið að loga af heift út í fyrirhugað frumvarp LÍÚ-flokkanna um fiskveiðistjórn, kemur þessi "vitrun" í hádegisfréttum!
Það er komið í ljós að HAFRÓ HAFÐI RÉTT FYRIR SÉR allan tímann!
Það er bráðsniðugt að GEYMA óveiddan fisk í sjó - passa að veiða ekki ungfisk og leyfa þeim gamla að éta hann eða bara láta hann drepast úr sulti!
Og það var hárrétt að veiða bara helming þess sem við veiddum á tíma 3ja og fjögra mílna lögsögunnar.
Trúir einhver þessari vel tímasettu vitrun Hafró?
Ekki sá sem hér skrifar.
Ekki meiri þorskur frá upphafi mælinga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.9.2014 | 14:18
Er það virkilega?
Í dag býr stærstur hluti þjóðarinnar, líklega 2/3 hlutar í jaðrinum á eldvirku svæði.
Á þetta hef ég margsinnis drepið í pistlum og athugasemdum en viðbögð vægast sagt daufleg.
Og í dag er fjöldi byggingakrana að aukast svo að eftir er tekið víðs vegar um borgina. Þó líkega mest hér í gömlu miðborginni þar sem reist er hvert fjölbýlishúsið við annað, en samgöngur að sama skapi í öngþveitisástandi.
Það er engin minnsta ástæða til bjartsýni með flóttaleiðir frá Tjörninni fyrir seinfæra borgarfulltrúa ef skyndilega færi nú að gjósa í nánd við borgarmörkin.
Hvaða náttúruvá steðjar að Reykjavík? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |