25.5.2011 | 16:26
Góð loftgæði í Reykjavík
Það er auðvitað fagaðarefni ef íbúar höfuðborgarsvæðisins ná því að lifa sólskinsdag án teljandi hættu af útgeislun hagvaxtar frá Hengilssvæðinu svonefndu.
En hvenær varð það góð málnotkun að tala um góð gæði?
Hún er falleg fegurðin á vorin!
Hann er óvenju heitur hitinn í hvernum!
Hann er óvenju hraður hraðinn á bílnum!
Óskaplega er löng lengdin á veginum!
Dæmalaus andsk. vitleysa er farin að sjást í rituðu máli.
Mikil loftgæði í Reykjavík | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.5.2011 | 11:37
Pólitísk sýn bæjarmálaráðs VG í Hafnarfirði á lýðræðislegar leikreglur stjórnmálaflokka
Þegar formaður flokksins víkur frá samþykktum landsfundar og leiðir hann inn í ríkisstjórnarsamstarf þar sem gengið er í þveröfuga átt við pólitíska stefnu ganga þrír alþingismenn út á miðju kjörtímabili. þeir hafa fengið nóg af ofbeldinu og telja sig ekki hafa umboð kjósenda sinna til stuðnings við ríkisstjórnarstefnuna.
Þetta kallast á máli bæjarmálaráðs að þeir hafi; "brugðist...herfilega lýðræðislegum leikreglum flokksins;" til þess er svo mælst að þeir; "sýni auðmýkt, snúi af villu síns vegar, og fylki sér í raðir lýðræðissinna."
Freistar þessi lýðræðisskilningur einhverra sem lesa?
Án gamans, það er ástæða til að spyrja margra spurninga.
Fyrr hverja er svona yfirlýsing gefin út?
Hverskonar fólk semur svona yfirlýsingar og ákveður að birta þær fyrir alþjóð?
Er þetta kannski einhvers konar "gerningur" í tengslum við Listahátíð?
Að lokum er spurt:
Mun þessi flokksráðsfundur ekki gefa út pólitíska yfirlýsingu um að þessi samþykkt sé Vinstri hreyfingunni grænu framboði óviðkomandi og að svona lýðræðisskilningur sé engri stofnun innan raða VG þóknanlegur, hvað þá sæmandi.
Ein aukaspurning: Gengur ekki fram af neinum nema mér við lestur þessarar dæmalausu og skelfilegu yfirlýsingar?
Þremenningarnir snúi aftur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
14.4.2011 | 17:00
Um hvað er verið að ræða við fulltrúa Evrópusambandsins?
Í Bændablaðinu 7. apríl er skýrt frá því að það hafi afdráttarlaust komið í ljós á rýnifundum í Brussel að undanförnu að ekki sé í boði að Ísland fái varanlega heimild til að banna innflutning á lifandi búfé og plöntum frá öðrum löndum ESB.
Þetta eru tíðindi sem lítið hafa verið rædd undanfarna daga.
Nú sýnist mér það komið í ljós að þessar þreifingar við framtíðarland Samfylkingarinnar séu komnar á endastöð og ekki annað eftir en að þakka fyrir sig, pakka niður og halda heimleiðis.
Þetta virðist jafnframt vera skoðun meirihluta utanríkismálanefndar Alþingis.
Ísland hefur samkvæmt EES samningnum verið á undanþágu hvað varðar þetta mikilvæga mál og okkur hefur leyfst að banna innflutning lifandi dýra og plantna. Samkvæmt umfjöllun Bændablaðsins telur umræddur meirihluti utanríkismálanefndar rétt að kröfu um innflutningsbann verði haldið til streitu í mögulegum viðræðum.
"Ef litið er til viðbragða fulltrúa ESB á nefndum fundi er ljóst að slík kröfugerð mun ekki halda. Þar með má halda því fram að forsendur fyrir umsókninni séu brostnar."
Hvað á þessi þráhyggja Samfylkingarinnar að ganga langt?
4.4.2011 | 11:25
Pásan er búin!
Jæja, börnin mín góð, nú er pásan búin og við tökum til þar sem frá var horfið. Kannski náum við svona 7 - 8 árum áður en næsta dýfa hefst.
Mestu máli skiptir þó að við samþykkjum greiðslurnar til Breta og Hollendnga svo við getum fengir meiri lán. Þið munið hvað sagt var hérna um Ice safe 1:
Ef við borgum ekki þá verða flugvélarnar okkar bara kyrrsettar erlendis og Ísland verður Kúba norðursins.
Vaxandi einkaneyslu spáð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
29.3.2011 | 11:13
Hvort er það atvinna eða glæpur að veiða fisk?
Um hvað snýst þetta verkefni embættismannsins sem fangar alla athygli hans þessa dagana? Er voðinn vís ef þorskur kemur í löglegt og þróað veiðarfæri eins og grásleppunet? Heldur þessi lærði embættismaður að þorskstofnunum við Ísland sé ógnað eða langar hann bara til að sýna vald sitt og gerast lögregla?
Mér er næst að halda það.
Hvers vegna mega grásleppunetin ekki veiða þorsk og annan þann meðafla sem flækist í netin án þess að kaupa sér aflaheimildir af einhverjum sem hefur fengið þær án endurgjalds?
Dettur þessum marhnútum hjá Hafró virkilega í hug að svona hringavitleysa bendi til þess að þeir séu að vinna vísindalegt verndunarstarf í þágu auðlindarinnar?
Það er hlegið að þessum flónum og myndugleikinn klípur þá í bossann. Það dettur engum trillukarli lengur í hug að bera virðingu fyrir inngripi þessarar stofnunar í afkomu hans þegar ljost er að starfsmenn hennar búa hvorki að þekkingu né þeim þroska að leiðbeina fremur en að standa eins og lögregla og banna fiski að synda í net. Það er nefnilega engin minnsta ástæða til að krefjast kvóta fyrir meðafla við löglegar veiðar og þjóðhagslegar eins og grásleppuveiðarnar eru.
Og þegar það er orðið glæpsamlegt að hirða meðafla þá er honum fleygt.
Það er bara mannlegt, eðlilegt og sjálfsagt.
En það er aldrei eðlilegt eða sjálfsagt þegar stjórnsýslustofnun býr til glæpi og þar með glæpamenn.
23.3.2011 | 10:19
Fiskurinn á miðum okkar er ekki lengur handa þurfandi fjölskyldum
Fjölskylduhjálpin biður um fisk handa þurfandi fólki og nú má segja að ræfildómur pólitíkusa og embættismanna sé nú orðinn altækur og vonlaust að komast neðar.
Fjölskylduhjálp Íslands mun hafa sent svipuð tilmæli fyrir síðustu jól og tveir trillusjómenn boðist til að veiða fiskinn ef leyfi fengist hjá ráðuneytinu sem leyfir eða bannar Íslendingum eftir boðvaldi Hafró að nýta auðlind sjávarins. Þessum tilmælum mun hafa verið hafnað.
Það er viðurkennt að brottkast sjávarafla á miðum okkar er hundruð - og þó fremur þúsundir tonna árlega vegna aflamarkskerfisins sem skilar lénsgreifunum drýgri tekjur af leiguþrælum.
Það er hefð fyrir því að drepa á dreif umræðu um þetta og ástæðan sögð vera sú að lénsherrarnir greiði svo vel í kosningasjóði alþingismanna.
Þær eru ekki nema nokkurra áratuga gamlar frásagnirnar af því þegar förufólki svonefndu var úthýst á á sveitabæjum á Íslandi.
Er þetta eitthvað skárra?
Af hverju kjósum við heimskt fólk og mannleysur til stjórnsýslunnar?
Biðja um að fá fisk að gjöf | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.3.2011 | 22:58
Eru sárustu svikin óbirt ennþá?
......."Séu þær fréttir réttar er hér um að ræða hrikalegustu svik við íslenskan almenning; lokaskrefið í mesta þjófnaði Íslandssögunnar."
Eru þessi orð tekin úr tölvupósti sem barst mér fyrir nokkrum mínútum eða er mig að dreyma?
En óneitanlega fer þeim nú fjölgandi sem halda því fram að ríkisstjórnin muni bregðast öllum væntingum um breytingar til einhvers teljandi gagns á stjórn fiskveiða í óbirtu frumvarpi.
Enn er ég þó ófáanlegur til að trúa því að Jón Bjarnason standi að slíkum svikum við þjóð sína og þá allra síst fólkið úti á landsbyggðinni.
17.3.2011 | 13:07
Eiga íbúar á Akureyri allt í einu svona mikið undir hraðari samgöngum til Reykjavíkur?
Það er fréttaefni í dag að nú þurfi bæjarstjórn Akureyrar að eiga mikilvægan fund með forráðamönnum tveggja hreppa í Húnaþingi. Annað eins hefur heyrst. En efni þessa fundar er undarlegt í mínum huga. Nú stendur það nefnilega til að flytja Þjóðveg 1 frá Blönduósi og stytta þar með leiðina milli Reykjavíkur og Akureyrar um fáeina kílómetra.
Þegar þjóðvegur milli Norður- og Suðurlands var lagður gegndi þorpið Blönduós mikilvægu hlutverki hvað margþætta þjónustu við fólk og farartæki áhrærði. Margir komu þreyttir á Hótel Blönduós eftir langa hrakninga í illviðrum vetrar og þáðu kærkomna aðhlynningu. Nú er þetta breytt.
Nú eru nýir tímar og það er í tísku að segja: "Við gerum þá kröfu!"
Kannski er Ísland bara reikningsdæmi sem gera skal upp að kvöldi hvers dags og án allrar tengingar við fólkið í landinu.
En nú er talað um að hagvöxtur okkar sé neðan við öll viðunandi mörk og hann þurfi að auka hið bráðasta. Og nú lesum við um styrkingu japönsku myntarinnar vegna þess að uppbygging eftir hamfarirnar 11. mars muni auka hagvöxtinn svo gífurlega í því hrjáða samfélagi.
Ég legg til að við höldum Blönduósi í byggð áfram og tryggjum þjóðinni í bráð og lengd áfram þann hagvöxt sem það skapar að aka örlítið lengri leið frá Reykjavík til Akureyrar.
Og vel á minnst: Skammist ykkar þið þarna bæjarfulltrúar á Akureyri og farið að gera eitthvað af viti!
12.3.2011 | 18:24
Þarna slapp ég þó með skrekkinn
Í einhverri fljótfærni hrökk ég við og óttaðist að annað hvort Ragnari Árnasyni eða Helga Áss hefði verið rænt af andstæðingum kvótakerfisins.
Hugsið ykkur hvilíkt slys það hefði verið?
Rændu háskólaprófessor | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 13.3.2011 kl. 14:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
6.3.2011 | 15:10
Annáll Páls Vídalíns árið 1701 (brot)
Harðnaði mjög á jólum og fram eftir. Mánudaginn í þriðju viku góu (7. mars) féll svo mikill lognsnjór fyrir vestan kvíslir í Húnavatnsþingi, að á þriðjudagsmorgun óðu menn þar í geirvörtur.....
8. Aprilis kom áhlaupaveður og gerði víða í Húnavatnsþingi fjártjón; þá urðu og úti þar í héraði 9 eður fleiri fátækir menn. Í Þingeyjarsýslu norðan Vöðlaheiði féll fólk í hungri; var fallið í einum hrepp yfir 50 á Hallvarðsmessu (15. maí). Á Suðurnesjum var fiskileysi svo mikið, að enginn þóttist slíkt muna né heyrt hafa; þó féll þar ekki fólk, því af steinbíti og smáþyrsklingi reittist til matar. Lögmaður Lauritz átti þar sjö menn í veri og ekki einn fisk eftir þá alla að vertíðarlokum.
(Mikið hafa þeir verið snemma á ferðinni með ofveðina þarna á Suðurnesjunum!)