Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
24.4.2007 | 14:05
Mikill öldungur fallinn
22.4.2007 | 18:34
Þjóðaratkvæði og forsetakosningar
22.4.2007 | 10:55
Hin nýja ásýnd kommúnismans
Ég held að kommúnusnisminn í Sovétríkjunum hafi verið illskárri en kommúnismi Hannesar Hólmsteins og Sjálfstæðisflokksins. Þeir þarna í Sovétinu tóku eignir stórbænda og annara auðmanna og úthlutuðu til fátækra. Þetta var fallegt í meiningunni en tókst bölvanlega svo allt kerfið leystist upp. Þetta kom frjálshyggjumönnum ekki á óvart, þeir sögðust alltaf hafa bent á þetta og báðu þess að aungvum dytti svona vitleysa í hug aftur. Þeir sögðust hafa það eftir sínum spekingum að það eina sem gilti handa fólki til bærilegrar afkomu það væri frelsi einstaklingsins til athafna.
Þess vegna tóku þeir réttinn til lífsbjargar af fólkinu í sjávarbyggðunum og gáfu hann til öflugra útgerða. Svo ljósrituðu þeir hagfræði áætlunarbúskapsins í Sovét og sögðu þessu fólki sem stóð uppi allslaust eftir auðlindarránið að Ríkið ætlaði að búa til störf handa því. Og þeir byggðu álver á Reyðarfirði handa Austfirðingum. "Þið eruð okkar fólk og við gleymum ykkur ekki. "Nú gerum við ykkur að bjargvættum í baráttunni gegn mengun í heiminum og ykkar verður getið í gervallri mannkynssögunni." Þarna höfðu sjálfstæðismenn fundið sniðugt afbrigði af sovéska kerfinu með atbeina framsóknarmanna.
Nú komu "þessir svokölluðu umhverfissinnar" til skjalanna og mótmæltu. Þeir sögðu að þetta væri úrelt starfsemi sem aðrað þjóðir væru sem óðast að hrinda af sér, sem auðvitað er hárrétt. Þeir voru beðnir um að benda á aðrar leiðir í atvinnu, "bara eitthvað annað." Þetta gekk í augun á tvíflokknum sem sögðu að nú væri það á hreinu að "þessir svokölluðu umhverfissinnar" væru glópar og ekki mark á þeim takandi.
Frjálslyndi flokkurinn hefur frá sínum fyrstu dögum einn flokka bent á að vandi sjávarbyggðanna væri fólginn í ráninu á lífsbjörginni og með öflugri útgerð yrði byggt undir bjartsýni og nýsköpun í öðrum og óskyldum atvinnutækifærum. Þessi skýlausa pólitíska atvinnustefna ætti að vera flestu fólki skiljanlegri en "eitthvað annað." Nú er Ómar Ragnarsson, nýr spámaður umhverfissinna búinn að stofna flokk til höfuðs Frjálslynda flokknum sem hann segir að sé stóriðjuflokkur. Engin gjöf hefur stóriðjuflokkunum borist dýrari en þessi nýi flokkur. Enda sýnist hann nú um stundir vera helsta von þeirra um að halda völdum næstu fjögur ár.
20.4.2007 | 15:46
Ábyrgð kjósendanna I. hluti
Stundum finnst mér eins og umræðan í okkar ágæta þjóðfélagi sé dálítið þokukennd þegar kemur að illskunni út í stjórnvöld. Engum ætti að blandast hugur um að á hverjum tíma starfa stjórnvöld í umboði kjósenda sem því samkvæmt bera sjálfir mesta ábyrgð þegar upp er staðið. Þar ber þó þess að gæta að hér á landi eru ekki dæmi um annað en samsteypustjórnir þar sem flokkar semja um heildarstefnu í veigamiklum málum við stjórnarmyndun. Þess vegna er vandi kjósenda meiri en ella. Verst í þessu máli er þegar stjórnmálamönnum tekst að rugla kjósendur með því að segja þeim fyrir kosningar að þeir séu öðruvísi stjórnmálaafl en raun ber vitni. Þarna eru talnaleikir gjarnan settir upp ásamt vottun frá einhverjum "óháðum álitsgjöfum." Kjósendum er vorkunn þótt þeir verði svolítið ringlaðir af öllum þeim þulum.
Nú segir formaður Framsóknarflokksins að flokkur hans sé "þjóðhyggjuflokkur." Fyrir svona 40 árum hefði þetta nálgast að vera satt. Þetta vekur hjá mér spurningu um breyttan skilning á þessu annars auðskilda orði. Þjóðhyggjuflokkur þessi byggði undir gömul samfélagsgildi með því að ræna fólkið í sjávarplássunum réttinum til nýtingar þeirrar auðlindar sem hafði verið órofa hluti af sögu þess, menningararfi og auk þess helsta forsenda afkomunnar í beinum skilningi. Nú er svo komið að það fólk sem enn þraukar þarna situr í verðlausum og nánast óseljanlegum íbúðum en þeir sem við þessari auðlind tóku til nýtingar hafa fengið leyfi til að eigna sér allt dæmið og nú gengur það kaupum og sölum fyrir 20falt verðmæti afurðanna. Þjóðhyggjupostularnir gerðu sjávarbændur að viðskiptavinum fiskbúðanna því dauðamenn refsilöggjafarinnar eru þeir bændur sem sækja sér björg í bú frá lendingunni nema þeir hafi áður greitt svonefndum sægreifum skilvíslega fyrir áður, og sama er með rauðmagann og grásleppuna sem gapir úti í þaranum. Þjóðhyggja framsóknarmanna birtist í eiturspúandi álbræðslu sem á að sameina austfirskt vinnuafl í háðulegri eftirlíkingu af evrópskri verksmiðjuborg. Íslenskum bændum er meinað að slátra lambi og reykja það til að rækja vináttu við fjárlausa fjölskyldu í þéttbýlinu. Þess í stað var sauðfjárbændum gert að loka hið snarasta öllum litlu sláturhúsunum sem höfðu lífgað upp á mannlífið í hinum dreifðu byggðum haust hvert og skapað fólkinu þar góða atvinnu. Nú eiga fjárbændur að reka sláturlömbin sín upp á þriggja hæða flutningavagna að Ný sjálenskri og ástralskri fyrirmynd og senda þau 700-800 k.m. leið í nýtísku sláturhús vegna reglugerðar sem við undirgengumst af þeim góða skilningi að öll vor upphefð kemur að utan.
19.4.2007 | 23:28
Afturhaldslygin
18.4.2007 | 18:03
Útskriftarferð til Kaliforníu
Ósköp er ánægjulegt að vita að íslenska þjóðin sér sóma sinn í að þakka nokkrum af fráfarandi alþingismönnum vel unnin störf á viðeigandi hátt. Útskriftarferðin til Kaliforníu minnir okkur á að fólk sem fórnað hefur þjóðinni starfskröftum sínum í áraraðir á allt gott skilið. Náttúrlega er ég ekki að meina flakara og strætóbílstjóra eða svoleiðis lágstéttir.
Þó er ég ekki sáttur. Mér finnst óþarfi að makar þessa fólks þurfi ævinlega að draga upp veskið ef þeim dytti nú í huga að fá sér hamborgararæfil eða kannski viskísjúss fyrir svefninn. Þetta þarf að endurskoða svo þjóðin verði sér nú ekki til skammar rétt einu sinni enn fyrir nirfilshátt. Og ég sé lausnina enda á hún nú reyndar að blasa við. Við skellum öllum kostnaði vegna maka þessa fólks einfaldlega á Framkvæmdasjóð eldri borgara. Hvað getum við svosem gert þarfara við þá aura?
18.4.2007 | 10:00
Afreksmenn að verki.
Var að lesa bloggsíðu um björgunarafrek umhverfisráðherrans Jónínu Bjartmarz. Höfundurinn er Þórður Víkingur Friðgeirsson og samkvæmt eigin lýsingu verkfræðingur, háskólakennari og stjórnunarráðgjafi. Þórður fer ekki dult með að ráðherrann hafi undirbúið björgun skipins á Hvalnessfjöru og stjórnað verkinu!! Hann fer heldur ekki dult með aðdáun sína. Eitthvað fer þetta öfugt ofan í mig og mig grunar að svo muni vera um fleiri. Mér fannst Jónína komast vel frá viðtalinu við Pál Ketilsson og átti ekki á öðru von. Ekki finnst mér hún hafa á neinn hátt unnið til þess að vera gerð hlægileg. Þetta verk var unnið af fagmennsku, vaskleika og góðri yfirvegun byggðri á reynslu og þekkingu.
Og við skulum láta þá njóta lofsins af þessu verki sem til unnu.
14.4.2007 | 19:19
Landsfundurinn og kýrin í Sumarhúsum
Þær smátínast inn fréttirnar af landsfundi Sjálfstæðisslokksins. Nú var ég að hlýða á boðskapinn um Stjórnarskrána. þar er það brýnast í efni að fjarlægja ákvæðið um synjunarvald forsetans. Þetta ákvæði hefur verið fleinn í holdi sanntrúaðra síðan Ólafur Ragnar vísaði fjölmiðlafrumvarpinu "heim í hérað" sællar minningar. Davíð brá litum og honum rann í skap. Halldóri Blöndal rann líka í skap og svo var um fleiri í þeim flokki sem trúðu á lýðræðið! eins og þeir orðuðu þetta. Frumvarpið hafði verið borið fram af þvílíku offorsi að engu var líkara en þjóðin stæði frammi fyrir afsali mannréttinda. Alþingi hafði verið í hlutverki hænsnahúss vikum saman og þjóðin var agndofa.
Forsetinn hafði ráðist á lýðræðið í landinu, hafði ráðist á Alþingi. Flestum var þó ljóst að forsetinn hafði ákveðið að löggjafarþinginu bæri að vinna lögin með ofurlítið burðugri aðferðum og hugnanlegri en þarna hafði verið gert. Synjunarákvæðið var þarna og tími til að fulltrúar þjóðarinnar gæfu því gaum að þetta ákvæði var hluti lýðræðisins. Alþingi hafði ráðist gegn réttlætisvitund umbjóðenda sinna sem aldrei fyrr. En sjálfstæðismenn litu þetta öðrum augum.
Ýmsir muna líklega skelfilega andúð Bjarts í Sumarhúsum á kúnni sem át heyið frá rollunum og stefndi sjálfstæði heiðarbóndans í óefni. Tíkin hafði ævinlega sömu skoðanir og Bjartur. Og tíkin lét einskis ófreistað við að bíta kúna í hælinn. Kýrin brást auðvitað hin versta við og sparkaði frá sér. "Aldrei getur beljudjöfullinn séð tíkargreyið í friði", varð bóndanum þá að orði.
Það er líklega margt líkt með tíkarbjálfanum í Sumarhúsum og pólitíkinni í Sjálfstæðisflokknum
14.4.2007 | 09:18
Góðan daginn elskurnar!
Það er ljómandi veður, nú lagast ég bráðum í skrokknum,
labba út í vorið og brosi til vina og granna.
Já, lóan er komin til okkar í Frjálslynda flokknum
en fálkinn er hnípinn á landsfundi sjálfstæðismanna.