Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
13.5.2007 | 20:42
Hvað varðar kjósendurna um þetta?
Úrslit kosninganna eru ljós hvað þingstyrk flokkanna varðar. Jafnframt kosningunum fjölgaði stjórnmálafræðingum á Íslandi umtalsvert svo sem venja er. Þar taka margir til máls og túlkar hver fyrir sig en þó flestir fyrir þjóðina alla sem væri mikill kostur og tímasparnaður ef ekki væru erfiðar misvísanir í þeim úrlausnum. Það, útaf fyrir sig er slæmt því allir segja að úrslitin séu skýr skilaboð um vilja þjóðarinnar. Ég tel mér skylt að upplýsa að ég er einn af þessum nýju spekingum og var nú kominn tími til að ég fengi vitrun eins og aðrir.
Stjórnin hélt velli með eins litlum meirihluta og orðið getur. Kjósendur Sjálfstæðisflokksins lýstu góðum stuðningi við meirihlutasamstarfið og vænta þess nú að á þessu kjörtímabili takist þeim að ná til sín því sem eftir er af fylgi samstarfsflokksins í framlengdu samstarfi. Þetta er í senn göfugt markmið og metnaðarfullt. Enginn vafi á því heldur að þetta muni þeim takast haldi samstarfið áfram.
Stór hluti kjósenda Framsókarflokksins sendi þau skilaboð til forystunnar að nóg væri komið og pólitiskar áherslur hans væru þeim langt frá því hugnanlegar. Fulltrúar hinna gömlu gilda flokksins skipuðu efstu sæti flokksins á Suðurlandi og náðu því að halda sínum hlut sem telja má tíðindi í mesta fylgishruni flokksins í allri sögu hans. Þetta eru nokkuð skýr skilaboð um að flokkurinn hafi tekið stefnu sem fylgjendur hans mótmæla og kannast ekki við. Hin harða og óbilgjana fjármagnshyggjustefna Sjálfstæðisflokksins hefur skipt þjóðinni í tvær andstæðar fylkingar gagnkvæmrar óvildar og hér er mikið sagt. Flokkurinn lítur á auðlindir þjóðarinnar sem bráð til að hremma og hefur tekist það með atbeina þeirra afla innan samstarfsflokksins sem nærst hafa á sömu hugsjónum. Ekkert er undanskilið í því efni og þetta er öllum ljóst.
Nú er gullið tækifæri til að breyta um þær pólitísku áherslur sem skipta sköpum um ásýnd lands og þjóðar. Verði ekki samkomulag um það hjá stjórnarandstöðunni og þeim Framsóknarmönnum sem eru sama sinnis að snúa bökum saman og sýna pólitískan þroska nú í byrjun næstu viku er það tækifæri gengið þjóðinni úr greipum í eitt skipti fyrir öll.
Nú er ekki annað í boði en það að slíðra sverðin og binda saman fjögra flokka ríkisstjórn án Sjálfstæðisflokks. Það er blátt áfram skylda við land og þjóð og undan henni má enginn víkjast.
9.5.2007 | 15:25
Óttinn við málefnaumræðuna
Óttinn er eðlishvöt og hverri dýartegund nauðsynlegur eiginleiki til að lifa af. Óttinn er að sama skapi skelfileg fötlun þegar hann ræður öllum viðbrögðum.
Tyrkneskum kaupsýslumanni að nafni Halim Al tókst á einni nóttu að gera íslensku þjóðina að rasistum. Þetta vita allir sem muna Sophiu Hansen málið. Við höfum aldrei haft þroska til að ræða pólitísk mál án þess að skoða fyrst hvaða stjórnmálaflokkur græði eða tapi á skoðunum okkar. Það er ekki heppileg leið að skynsamlegri niðurstöðu. En vegna þessa hefur umræðan um stefnuleysið í málefnum innflytjanda snúist upp í svo heimskulegan rökhyggjuótta sem raun ber vitni.
Þegar talsmenn Frjálslynda flokksins opnuðu umræðuna með varnaðarorðum hrukku hinir stjórnmálaforingjarnir við, þetta kom flatt upp á þá, þeir voru ekki viðbúnir. Og skoðanakannanir sýndu fylgisaukningu Frjálslyndra um nokkur hundruð prósenta svo nú varð að hafa hratt á hæli með viðbrögð. Allir þekkja þá sögu síðan.
Eftir stendur mál sem er stærra með slæmar afleiðingar ef illa fer en mörg þau mál önnur sem hæst er nú galað um í okkar pólitísku samkórum, misjafnlega hljómfögrum svo sem jafnan verður og sá ber auðvitað mesta ábyrgð á sem á tónsprotanum heldur.
Engin auðlegð er ómerkilegum pólitíkusum dýrari í kosningum en atkvæði heimskingjanna enda fast á þau miðað. Það skýrist með þeirri bitru staðreynd að þau eru aðgangsmiðinn að öðrum auðlindum.
Þetta er sýnilegt í dag í mörgu pólitísku efni. Líklega þó skýrast í umræðunni um stjórn fiskveiða og innflytjendamálinu.
En þessi atkvæði heimskingjanna? Þið megið nú bara eiga þau greyin mín. Ég held að okkur í Frjálslynda flokknum langi bara ekki í þau.
8.5.2007 | 17:33
Á heimskan sér ekki takmörk þegar illskan ræður för?
það sannast betur með hverjum degi sem nær dregur kosningum að vanmetnasti þátturinn í sálum kjósenda er heimskan. Nú hefur einhverjum pólitíska bjálfanum hugkvæmst að reyna að vega að trúverðugleika Ómars Ragnarssonar. Ómar er sá vökumaður íslenskrar náttúru sem ötulast hefur og af mestum heilindum barist fyrir verndun mestu verðmæta þjóðar okkar. Þeirri orrustu tapaði hann fyrir ómerkilegum hagsmunasamtökum hverra skömm mun lifa meðan þessi þjóð tala íslensku og þó vonandi mun lengur. En það eru margar orrustur eftir í farvatni þessarar. Og nú sjá þeir svarabræður Otkell og Skammkell að við þurfi að bregðast og eyða þeirri vá sem af manni þessum stafar. Flestum verður það fyrir ósjálfrátt að velja sér vopn við hæfi svo það ætti ekki að koma neinum á óvart þó Ómar fengist dæmdur fyrir umhverfisspjöll. Nú er það ferli allt sett af stað og fylgt eftir með nokkrum gusugangi svo sem jafnan fylgi réttum trúnaði og makalausri réttlætiskennd. Það hefur ævinlega verið kært með þeim systrum heimskunni og illskunni þegar atkvæði eru í húfi.
Þeir sem að baki þessari fræknu sókn standa sáu þó líklega ekki afleiðingarnar fyrir. Nú er það nefnilega flestum ljóst að framboð Ómars var mesti óvinafagnaður sem í boði var þeim sem vildu núverandi rikisstjórn feiga. Kannanir benda til að fylgi framboðsins geti orðið stjórninni til lífs og ættu nú stóriðjugriðungarnir að kætast. En við því var auðvitað ekki að búast að vitsmunir þeirra bæru innrætið ofurliði.
Ég játa að ég er ekki maður til að óska stjórnmálamanninum Ómari velfarnaðar í þessum kosningum þó engan bandamann eigi hann vísari en mig í öllu sínu öfluga starfi fyrir náttúru okkar lands og komandi kynslóðir. Enginn Íslendingur minnar samtíðar hefur vakið jafn mörgum lítilsigldum sálum jafn mikinn ótta á jafn skömmum tíma. Ekki við öðru að búast af manni sem honum.
Engum ætti að koma á óvart þó nú færi af stað ný útgáfa Baugstíðinda. Á meðan það moldviðri geisar mætti hafa hratt á hæli og afgreiða þjóðlendulögin landi og þjóð til hagsældar. En hún verður orðin ótrúlega stór bláfíflabreiðan áður en þessum kosningaslag lýkur.
5.5.2007 | 00:21
Skipstjórinn í Kastljósi
Brást ekki fremur en endranær. Öllu svarað af einurð og án undanbragða. Hefur líklega ekki lært að beita orðhengilshætti til að drepa vondum spurningum á dreif. Þarf þess ekki vegna þess að allar hans skoðanir eru afar skýrar og settar fram á mannamáli.
Fullt hús stiga og til hamingju Guðjón!
3.5.2007 | 12:47
Hvað sagði ekki Arnar?
Ég veit að ég var ekki einn um að opna á Stöð 2 núna í hádeginu. Mikil tíðindi höfðu verið boðuð í fréttum. Ég beið sveittur af spenningi og réttlætiskenndin sauð í blóðinu. Loksins, loksins! yrðu hroðalegustu glæpamenn samtíðarinnar teknir þeim tökum sem þeir áttu skilið fyrir að hafa sölsað undir sig mestallar eigur þjóðarinnar, velt sér í vellystingum erlendis fyrir sparifé aldraðra og öryrkja og sýnt réttlætiskennd okkar Sjálfstæðismanna slíkan hroka að ekki eru dæmi um annað eins síðan Jón sálugi á Rein spottaði réttlætið.
Aldrei hef ég orðið fyrir meiri vonbrigðum. Ég verð lengi að ná mér. Sigurði Tómasi var líka brugðið og ég sé ekki fyrir mér að hann nái sér til fulls.- og svo mun verða um fleiri í okkar flokki. Auðvitað sáu þessir glæponar ekki ástæðu til að hlusta á dómsorðin og ekki við slíku að búast. En þeir eru ekki sloppnir, sanniði til! Nú byrjum við á því að krefjast framsals. Svo sjáum við bara til.
En aldrei hefði ég trúað því óreyndu að Arnar Jensson yrði svona sannapár þegar hann varaði við því að ríkir menn ættu kost á lögfræðingum. Þá væri voðinn vís.
1.5.2007 | 18:26
Voðalega ljótt af manninum að upplýsa þetta
![]() |
Segir að byrjað sé að undirbúa sölu Landsvirkjunar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
28.4.2007 | 14:06
-Hvar sem festir kjaft á sneið, kenna flestir bitið
Ótrúlega margir hafa undanförnu sýnt elsku sína til innflytjenda. Skýrasta mynd þess er sú heiftarlega andúð margra bloggskrifara á Frjálslynda flokknum sem vill setja skorður við óheftu flæði fólks af erlendum uppruna til landsins. Ekki verður farið nánar út í það hér en vissulega ástæða til að fagna alþjóðlegri mannhyggju þjóðarinnar.
Nú urðu þeir pólitísku atburðir að fréttamenn þefuðu uppi atvik sem bent gat til þess að einn af ráðherrum okkar hefði beitt áhrifum sínum í þingnefnd til að hjálpa tengdadóttur sinni við að ná íslensku ríkisfangi. Íslendingar eru löghlýðin þjóð og öskraðu einum rómi að þarna væri um að ræða pólitíska spillingu, allir ættu að vera jafnir fyrir lögunum, sem ég er auðvitað hjartanlega sammála. Fréttinni fylgdi þjóðin eftir af samviskusemi og innblásinni réttlætiskennd og tóku Jónínu Bjartmarz ráðherra af lífi tafarlaust hvar sem tveir menn eða fleiri komu saman. Þetta tók enga stund og þjóðin kastaði mæðinni meðan hún bjó sig undir næstu hengingu.
Til að tryggja að sýnilegt væri að aftakan hefði heppnast var konan (þetta er nefnilega mannleg persóna með kennitölu og allt) tekin til yfirheyrslu í sjónvarpi og spurð hvort hún hefði ekki iðrast fyrir dauðann? Jónína var forherðingin holdi klædd og neitaði að hafa unnið að þessu máli umfram það að hafa leiðbeint stúlkunni á hinum krókótta vegi teoriunnar. Einu gilti þó fréttamaðurinn legði sig allan fram og svitinn sprytti fram af allri réttlætisóþreyjunni. "Hún barasta lýgur þessu"! öskraði þjóðin agndofa yfir forherðingu manneskjunnar.
Ef ég ætti þess kost að hjálpa einhverjum nákomnum úr mínu sifjaliði í afar þýðingarmiklu máli; málið varðaði lausn þessa einstaklings frá þrúgandi ótta við aðstæður sem hann hafði fæðst til að mega þola, færi ég eins að og Jónína Bjartmarz. Og ég léti mig þá jafnvel einu gilda þó ég yrði að bera fyrir mig ótrúverðugar skýringar eftirá. Ég er bara svona frjálslyndur þrátt fyrir, allt enda í tilheyrandi flokki.
Sennilega verð ég tekinn af lífi einhvern daginn
. Titill þessa pistill er fenginn að láni frá Gissuri Jónssyni bónda og hagyrðingi í Valadal og er seinni hluti vísu sem allir ættu að kunna.
26.4.2007 | 16:23
Hræsnin krossmark gerði
Forsætisráðherra Geir Haarde harmar mistök í vinnuumhverfi Kárahnjúkavirkjunar. Kemur ekki á óvart. Alltaf hafa hjörtu frjálshyggjumanna slegið í takti við kjör vinnandi fólks. Allt frá átökunum um vökulögin á togurunum sem flestir eru nú líklega búnir að gleyma. Árni Magnússon fyrrverandi félagsmálaráðherra Framsóknar var nú jarðbundnari þegar hann skoðaði aðbúnaðinn þarna forðum tíð. Hann harkaði af sér og sagði að þetta væri ekki alslæmt. Auðvitað væru þarna nokkur atriði sem þyrfti að lagfæra. Minnir hann kalla þetta vaxtarverki.
Hagvöxturinn á alltaf undir högg að sækja þegar bölvaðir kommarnir fara í gang með lygaáróðurinn.
Vonandi að enginn þurfi að lokum að harma mistök í samningnum við ítalska fyrirtækið sem þeir Davíð og Berlusconi lögðu drögin að.
26.4.2007 | 09:35
Bravó! Bravó! Bravó!
Var að hlusta á morgunútvarpið á Rúv. Fylgdist með lærðri úttekt stjórmálafræðingsins Baldurs Þórhallssonar á Frjálslynda flokknum. innflytjendastefnu hans og "yfirtöku" Nýs afls á honum. Baldur slapp að þessu loknu án þess að þurfa að leiða rök að neinu orði úr öllu bullinu sem frá honum lak. Nú var Guðjón Arnar formaður flokksins leiddur fram til aftökunnar. Hún mistókst. Hún mistókst svo voðalega að fórnarlambið flengdi aftökusveitina meira en ég man dæmi um.
Í stuttu máli fór Guðjón Arnar á þeim kostum í þessu viðtali að ég var farinn að öskra og klappa eins og sauðdrukkið fótboltaidjót á úrslitaleik. Með flónskulegum og illa heppnuðum spurningum tókst fréttafólkinu að hrófla hæfilega við rósemi gamla skipstjórans sem gekk nú ákaflega hreint til verks og eftirminnilega. Eldmessu slíka sem Guðjón flutti þarna af mátulegum skaphita hef ég ekki í annan tíma heyrt og er nú mikið sagt.
Mér komu í hug lokaorðin úr kvæðinu "Messan á Mosfelli" eftir Einar Benediktsson:
Það voru hljóðir og hógværir menn- sem héldu til Reykjavíkur.
Til hamingju Guðjón! Til hamingju við öll í áhöfninni!
25.4.2007 | 18:20
Alþingismaður flengdur á kosningaferðalagi um Vestfirði
Hefur einhver séð þessa frétt? Sennilega ekki og ekki hef ég séð hana ennþá. En oft hef ég leitað að henni vegna þess að mér finnst alltaf fyrir Alþingiskosningar að þessi frétt sé í sjónmáli.
Fyrir hverjar kosningar kemur hvert þingmannsóbermið öðru óburðugra í sjávarplássin vestur á fjörðum og boðar sókn til atvinnutækifæra með sértækum aðgerðum. Kjósendur hlýða á boðskapinn opnum munni og fer að líða betur. Af hverju geta þessir menn ævinlega sótt sér umboð fólksins sem þeir rændu og sviku í stað þess að ná sér í ærlega hýðingu? Mér er þetta alveg óskiljanlegt.
Mig rámar í gamla sögu af því þegar sýslumaðurinn á Ísafirði var settur af vegna meintra mistaka í erfiðu dómsmáli. Annar var skipaður í hans stað en í óþökk heimamanna sem vildu hafa sinn fyrri sýslumann, hann var þeirra maður. Og nú urðu þau fáheyrðu tíðindi á Ísafirði að nokkrir skapmenn sóttu hinn nýja sýslumann í hús á næturþeli, drógu hann út og flengdu. Sá hafði þó ekkert til saka unnið annað en að verða fórnarlamb heitra tilfinninga í erfiðri deilu skapmikilla sævikinga við kansellíið í Reykjavík. "Já, það er kjarkmaður Kolbeinn í Dal", sagði Magnús sýslumaður Torfason á Ísafirði í frægu barnsfaðernismáli snemma á síðustu öld.
Það er almenn skoðun að öðru jöfnu sé ósiður að berja menn. Ég er ekki viss um að þetta þurfi endilega að vera algilt viðhorf. Ég er nefnilega fastur á þeirri skoðun að það sé hverjum misheppnuðum alþingismanni hollt að vera flengdur af umbjóðendum sínum í kjördæminu svona í það minnsta einu sinni, -bara til reynslu og öðrum slíkum til viðvörunar
Eiga þeir enga afkomendur lengur fyrir vestan, þeir Kolbeinn í Unaðsdal og Alexander á Dynjanda? Aldrei held ég að þeir hefðu látið lögin um stjórn fiskveiða yfir sig ganga andmælalaust.