8.4.2010 | 00:23
Íþróttakeppni hagfræðinnar og Ögmundur Jónasson
Vel man ég þá tíma þegar hagfræðingar voru svo fámennur hópur með þessari þjóð að flestir mundu nöfn þeirra allra. Nú er önnur tíð og hagfræðingar orðnir fjölmenn stétt jafnt í oinberum störfum sem einkafyrirtækjum.
Engin stétt fræðimanna hefur orðið meira áberandi jafnt fyrir hrun sem eftir og hagfræðingarnir ásamt auðvitað öllum viðskiptafræðingunum sem sátu í þéttum röðum í öllum okkar mörgu og heimsþekktu fésýslustofnunum þar sem þeir drýgðu fólki ráð til ábatasamrar framtíðar á gullnum vængjum hagvaxtar.
Að lokinni þeirri metvertíð pappírslyga sem gerði allnokkra siðlausa óþverra í viðskiptum að auðjöfrum en íslenska alþýðu örbjarga viðundur meðal þjóða hófst ótrúlega metnaðarfull og hatrömm íþróttakeppni hagfræðinga. Sú keppni stendur enn og sér ekki fyrir endann. Þessi keppni snýst um að sanna með óyggjandi dæmum að allur aðdragandi hrunsins hafi átt rætur í hinum og þessum aðgerðum eða aðgerðarleysi. Og leiðin út úr öllu sé reyndar nokkuð ljós- eiginlega borðleggjandi og lausnin handan við hornið að uppfylltum mjög einföldum skilyrðum og afar ljósum.
Galli er þó all nokkur á þessu. Ég nefndi íþróttakeppni. Það er nefnilega svo undarlegt að það sem einn hagfræðingur segir okkur í dag segir annar á morgun að sé fásinna. Og þegar hagfræðingarnir eru orðnir svona margir og auk þess erlendir íþróttakappar í viðbót; keppa sem gestir á mótinu þá verður þetta spurning um dómgæslu.
Okkur vantar alþjóðlega dómara til að úrskurða hvort upphæð sem nemur tvöfaldri þjóðarframleiðslu sé mínustala eða plústala. Það skiptir ótrúlega miklu máli. Það skiptir miklu máli hvort þeir jakkaklæddu gapuxar sem ryðjast óðamála inn í sjónvarpsþætti til að greina vanda þjóðarinnar ljúga vegna heimsku eða pólitískrar illgirni þvílíkum ógnartölum að þegar einn er búinn að reikna tap um þúsundir milljarða komi annar að vörmu spori og tilkynni að tapið hafi verið fáránleg lygaþvæla því eins og hann muni nú sýna fram á þá sé ekkert sem geti hnikað því að botnlaus hagnaður sé blátt áfram sú rétta niðurstaða.
Hann Ögmundur Jónasson tekur til máls um þetta í Fréttablaðinu í gær og mér hugnast hann betur en þessir íþróttakappar sem ég nefndi í reiðkastinu hér að framan.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Alveg rétt hjá þér Árni. Ég er hættur að leggja nokkurn trúnað á bullið frá hagfræðingum flestum hverjum, hvað þá stjórnmálamenn. Eina von almennings er að kasta af sér oki fjórflokksins og fjármálakerfisins með því að taka málin í eigin hendur. Hvernig sem farið er að því.
Kveðja úr Eyjafirði.
Arinbjörn Kúld, 8.4.2010 kl. 01:57
Gamalt máltæki og sígilt segir: "Það bylur hæst í tómum tunnum." Annað í sama dúr og bæði sígild viska okkar tíma: "Þeir gusa hæst sem grynnst vaða."
Þau Lílja Mósesdóttir og Ögmundur Jónasson hafa leyft sér að efast um að áherslan á tenginguna við IMF og lántökur hjá þeirri illræmdu stofnun verði þjóðinni til þess bjargræðis sem mest er geipað um af flokssystkinum þeirra sem og stjórnarandstöðu.
Lilja er að vísu bæði hagfræðingur og viðskiptafræðingur en lítur út fyrir að vara óskemmd. Ögmundur sagnfræðingur og stjórnmálafræðingur ef ég man rétt. En Ögmundur er af Torfalækjarættinni í Húnaþingi og hún bilar sjaldan.
Heimsþekktur gestur á Íslandi sá Seðlabankann í byggingu og spurði um hlutverk þessa veglega og rándýra húss í hjarta borgarinnar.
Honum var sagt sem var að þarna væru Íslendingar loksins að byggja yfir þessa mikilvægu stofnun sem fram til þess hafði haft aðsetur í skúffu á kontór.
"Líklega er Ísland fyrsta þjóðin sem reisir böðli sínu musteri !" sagði þá þessi spakvitri útlendingur með undrunarsvip.
Árni Gunnarsson, 8.4.2010 kl. 08:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.