15.9.2010 | 21:09
Voru þá útrásarvíkingar allan tímann að "barna á kostnað hreppsins?"
Mikil og orkufrek kappsemi ungra manna til ábata og velsældar hefur stundum verið kölluð gredda. Þetta er auðvitað yfirfærð merking og þá vísað til óseðjandi og orkufrekrar fíknar í kynlíf sem lengi vel var skilgreind með þessu groddalega málfari.
Enn einu sinni berast fréttir af "afrekum útrásarvíkinganna" þar sem milljarðahundruðum hefur verið týnt í bókhaldflækjum sem enginn botnar ennþá í.
Nú sýnist mér að ótrúlega margir þessara garma sem í dag mega flokkast til dreggja samfélagsins hafi stundað þá iðju sem vísað er til í titli þessarar færslu.
Þegar sveitarómagar fóru að þreyta hreppsnefndir með óhóflegri frjósemi var haft á orði að þeir væru að barna á kostnað hreppsins.
Orkan/gredda útrásarþjófanna kom nefnilega aldrei innan frá en var öll sótt til hreppsins og kostnaðurinn við afleiðingarnar að sama skapi hirtur úr vösum gjaldenda.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:10 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.