1.10.2010 | 19:47
Átök við endurreisn samfélagsins eða átök við ríkisstjórnina
Það urðu fjöldamótmæli við setningu Alþingis í dag. Það var brotin rúða í Dómkirkjunni við ævagamla helgiathöfn. Alþingismenn, ráðherrar og annað tignarfólk fékk eggjaslettur á viðhafnarfatnaðinn og okkar indæla Dorrit eiginkona forseta lýðveldis varð óttaslegin og ráðvillt.
Líklega eru svona uppákomur ekki venjubundin viðbrögð bresku þjóðarinnar við þingsetningar.
Enda eiga svona atburðir ekki að tengast löggjafarþingi.
Alþingismenn eiga ekki að þurfa að óttast að ganga til helgistundar í Dómkirkjunni og þeir eiga ekki að þurfa að ganga inn í Alþingishúsið bakdyramegin vegna hræðslu og það á ekki að vera þörf á að fresta setningu Alþingis á meðan alþingismenn og tignargestir þurrka fúlleggjaslettur af fatnaði sínum.
Og það er raunalegt að fyrsta skjaldborgin margumrædd varð skjaldborg lögreglunnar til varnar alþingismönnum og ríkisstjórn fyrir þjóðinni.
Ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms fylgdu miklar væntingar í upphafi og þjóðin vonaði að þeim orðum þeirra mætti trúa að nú yrði stjórnað með þarfir þeirra verst settu að leiðarljósi.
Ríkisstjórn sem á upphafdögum kenndi sig við norræna velferð sveik öll sín loforð og þá þó verst sem hún hét að byggja um skjaldborg og halda verndarhendi yfir.
Það varð efnahagshrun af óhugnanlegri og óþekktri stærð. Það urðu hamfarir líkastar þeim sem náttúruöflin hafa valdið þegar hamfarir elds og ísa gerðu þetta land nær því óbyggilegt.
Þessar hamfarir urðu af völdum stórglæpamanna sem fengu ráðrúm til að fara ránshendi um eigið samfélag.
Þjóðin vissi þetta og hún var reiðubúin til að takast á við það að byggja þetta land sitt upp að nýju.
Þjóðin var vissulega reiðubúin til að taka á með þeim stjórnvöldum sem hún hafði kallað til starfa.
En það var ekki boðið upp á þá leið.
Þess í stað er þjóðinni skipað að taka á fyrir Alþjóðagjaldeyrissjóðinn; taka á fyrir Samfylkinguna og ESB drauma hennar. Taka á fyrir pólitíska tignar - og valdastöðu Steingríms J. Sigfússonar.
Og taka á fyrir stórþjófana sem hafa keppst um það sín á milli hver fengi mest niðurfellt af þeim milljarðaskuldum sem þeir stukku frá í felur til útlanda.
Þetta ætlar íslenska þjóðin ekki lengur að láta yfir sig ganga.
Sá fjöldi sem fylkti liði á Austurvelli framan við Alþingishúsið í dag var að senda ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar þau skilaboð frá þjóð sinni að nú væri þolinmæði hennar þrotin. Og að dagar ríkisstjórnar þessa gæfusnauða fólks væru taldir.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:12 | Facebook
Athugasemdir
Góður að vanda. Takk.
Björn Birgisson, 1.10.2010 kl. 20:08
Snilldarpistill, Árni, eins og þín var von og vísa.
Jóhannes Ragnarsson, 1.10.2010 kl. 20:31
Sérðu einhvern flöt á hvað eða hverjir tekið gætu við af núverandi stjórn Árni ?
hilmar jónsson, 1.10.2010 kl. 20:37
Takk Árni
Vel skrifað, beint í mark.
Jón Kristjánsson, 1.10.2010 kl. 20:41
Þakka innlitið og vinsamleg orð Björn, Jóhannes og Jón Kristjánsson.
Árni Gunnarsson, 1.10.2010 kl. 21:18
Mjög hnitmiðuð og góð grein sem hittir beint í mark. Takk fyrir.
Jóhann Elíasson, 1.10.2010 kl. 21:20
Hilmar Jónsson: Í dag sé ég ekki fremur en aðrir að neitt stjórnmálaafl okkar í dag sé líklegt til að ná stuðningi þjóðarinnar við endurreisn samfélagsins. Stór hluti alþingismanna hefur setið nokkurn tíma á Alþingi og sumir alllengi. Kjósendur hafa ekki góða reynslu af þessum pólitíkusum og treystir þeim ekki lengur að minni hyggju né þeim stjórnmálaflokkum sem þeir heyra til.
Með vísan til færslu minnar hér næst á undan sýnist mér nokkuð ljóst af viðbrögðum að Lilja Mósesdóttir sé nú sú pólitíska vonarstjarna sem kjósendur virðast bera mest traust til.
Sjálfur er ég í þeim hópi og vil geta þess að auki að mér hugnast þingflokkur Hreyfingarinnar til muna betur en allir aðrir.
Það er ævinlega nokkur aðdragandi að alþingiskosningum og sá tími ætti að nægja ef vinna færi að hefjast.
Mér sýnist atburðir dagsins senda okkur kjósendum skýr skilaboð um að nú verðum við að takast á við okkur sjálf og hafa vit til að kalla til liðs við okkur nýjan leiðtoga og velja gott, heiðarlegt og dugmikið fólk honum til fulltingis.
Árni Gunnarsson, 1.10.2010 kl. 21:41
Nokkuð sammála Árni. Er þó ekki alveg að kaupa Hreyfinguna, það er ekki eins og mikið hafi mætt á þeim, nema ef vera skyldi í fáheyrðum ósmekklegheitum gagnvart Þráni Bertelsyni.
Þess utan, þá er auðvelt að standa á hliðarlínuni og skítkastast við stjórn sem er á kafi í því að fást við það erfiðasta hlutverk sem nokkur ríkisstjórn hér á landi hefur þurft að glíma við.
En eitthvað þarf vissulega að breytast. Það átti svo sem að blasa við hversu fáránlegt það var að Safylkingin skyldi eiga innkomu inn í stjórn, eftir vægast sagt vafasamann viðskilnað frá stjórnarsamstarfinu við hinn hrunflokkinn.
kv.
hilmar jónsson, 1.10.2010 kl. 22:04
Jóhann. Ég vona að þú hafir eitthvað til þíns máls og þakka.
Því má svo bæta við að eftir nýliðna atburði hefur aukinn þróttur bæst ofan á þá elda sem áður loguðu inni á Alþingi og jafnvel hafa heitingar verið hafðar í frammi. Við slíkar aðstæður er ekki liklegt að þingmenn sameinist um lausn þeirra mála sem mestur ágreiningur hafur verið um.
Stefna þessarar ríkisstjórnar er skýr um öll efni og sú stefna hefur reist ókleifa múra milli stjórnvalda og þjóðar.
Auk þess er meirihlutinn á bak við ríkisstjórnina sýnilega sprunginn og aðeins spurning um hvenær það verður staðfest.
Að því ógleymdu að nú blasir það við að innan fárra vikna mun ríkisstjórnin - í boði AGS staðfesta þá ákvörðun lánastofnana að svipta þúsundir fjölskyldna aleigunni og hrekja þær út úr híbýlum sínum á komandi vetri.
Það er stefna þessa ógæfulega tvíeykis að styrkja bankana á móti þeim ótöldu milljörðum sem þeim hefur verið leyft að afskrifa af skuldum siðlausra ræningja og vanhæfra stjórnenda.
Árni Gunnarsson, 1.10.2010 kl. 22:06
http://www.ruv.is/frett/motmaelunum-lokid-3000-toku-thatt Hér sést elítan stika stórum til og frá krkju! Þar sést að forsetafrúin er hvorki óttaslegin né ráðvillt!
Og lýður hrópaði saman "vanhæft Alþingi." Þjóðin er búin að fá nóg af öllu þessu slekti, "yfirstéttinni" allri! Þessi ríkisstjórn er jafn vond og sú sem hún tók við af! Fjármálaelítan situr enn að sínum kjötkötlum og verkalýðsforystan slíkt hið sama. Alþýðan situr í neyð sinni, en "elítan" lætur sér fátt um finnast!
Auðun Gíslason, 1.10.2010 kl. 22:14
Þakka kraftmikinn pistil Árni
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 1.10.2010 kl. 22:43
Auðun. Látum það liggja á milli hluta hvaða hugarástand stýrði viðbrögðum Dorritar.
Og vissulega er það rétt að öll valdastéttin og þar meðtaldir lífeyrissjóðir, launþegaforystan og hvaða aðskiljanlegum nöfnum sem allt það sameiginlega djöfuls móverk heitir sem alþýða þessa lands hefur falið í hendur framtíð sína og barna sinna. Allt hefur það brugðist sínum umbjóðendum en kappkostað að hygla sér og sínum og taka sér girnilegustu bitana af kökunni.
Upp úr stendur að sú "félagshyggjustjórn" sem tók við af hrunstjórn græðginnar fetaði sömu slóð og fyrrirrennararnir.
Ekkert breyttist - Ekkert!
Og ég held mig við þann skilning að allur þorri þess mikla fjölda sem sýndi fyrirmönnum þjóðarinnar andúð sína í aðdraganda þingsetningarinnar hafi stjórnast af þeim skilningi að það er Alþingi og ríkisstjórn sem setur leikreglur samfélgsins og á að standa vörð um að þær séu virtar.
Og jafnframt að þær leikreglur séu ekki samdar með hagsmuni fjármagnseigenda og fésýslustofnana að leiðarljósi.
Árni Gunnarsson, 2.10.2010 kl. 00:11
Jakobína, þakka innlitið og undirtektirnar. En það skiptir minnstu þótt hálfdauður karl skrifi kraftmikinn pistil takist honum ekki að virkja þann kraft sem mótmælendur dagsins sýndu. Og virkja hann til samstöðu um þær breytingar sem nú verður að vinna að hratt og skipulega.
Vinna við nýtt og öflugt framboð þarf að hefjast með næsta degi.
Árni Gunnarsson, 2.10.2010 kl. 00:25
Hilmar. Ef þér sýnist þessi ríkisstjórn hafa tekist á við sín erfiðu verkefni í samræmi við þær yfirlýsingar sem hún gaf í aðdraganda síðustu kosninga til Alþingis þá skaltu fá að eiga hana í friði fyrir mér.
Ég man ekki til þess að það hafi vafist fyrir forystusauðum hennar að tíunda allan þann vanda og greina kjósendur jafnframt frá því að þeirra skilgreinda markmið væri að ráðast gegn honum með breyttum vinnubögðum og nýjum áherslum.
AGS var ein mesta ógnin við íslenskt samfélag að mati Steingríms J. og þau örlög sem hann hét þeirra kumpánum ef þeir ekki hypjuðu sig á brott tafarlaust voru ekki tilhlökkunarefni gæfist honum vald til þess.
Og síðan var hin "óbilandi" andstaða hans við aðild þjóðarinnar að ESB ekki neitt feimnismál. Og út á það málefni sópaði hann fylgi til Vinstri grænna jafnvel frá flokksbundnum Sjálfstæðismönnum!
Þau erfiðu verkefni sem þessi vanburða ríkisstjórn fékk í hendur komu henni á enga lund á óvart Hilmar.
Árni Gunnarsson, 2.10.2010 kl. 00:53
Heill og sæll Árni, þetta er frábær pistill hjá þér eins og svo oft áður. Ég get tekið undir hvert orð sem þú skrifar þarna og hafðu þökk fyrir.
Kær kveðja
Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 2.10.2010 kl. 12:05
Tek undir þetta.
ThoR-E, 2.10.2010 kl. 13:22
Þakka þér bara fyrir komuna Sigmar. Auðvitað er full þörf á því að taka saman lýsingu á því skelfingarástandi sem hér hefur þróast af mannavöldum og sér ekki fyrir endann á öllum þeim ósköpum.
Í þetta skiptið er varla hægt að kenna þjóðinni um að hafa kosið ástandið yfir sig.
Árni Gunnarsson, 2.10.2010 kl. 13:25
Þakka, AceR!
Árni Gunnarsson, 2.10.2010 kl. 13:41
Sæll Árni, ég tók mér það bessaleyfi að setja greinina þína inn á andlitsbókina,(facebook) ég þakka þér fyrir góða grein, og ég hjartanlega sammála þér.
kær kveðja frá Eyjum.
Helgi Þór Gunnarsson, 2.10.2010 kl. 17:11
Mín er ánægjan Helgi Þór og ég þakka heiðurinn.
Kveðja til baka!
Árni Gunnarsson, 2.10.2010 kl. 20:53
Ég hugsa að slagorðið "vanhæft alþingi" hafi kannski reynst áhrifameira á alþingistrúðana en eggin. Fram til þessa hafa eflaust margir þeirra vonað að mótmælin beindust að flokkum eingöngu. Síðan hafa ýmsir þeirra gert sig enn óhæfari en ella með því að útiloka persónulegt samstarf við trúða úr öðrum flokkum eftir stóra tertuslaginn um daginn. Þeir skilja ekki að þeir geta ekki eftir eigin geðþótta valið sér samstarfstrúða.
Einhverjir töluðu meira að segja um að nú þyrfti að fara að vinna saman...
Haraldur Rafn Ingvason, 2.10.2010 kl. 21:45
Helvíti ertu góður að skilgreina þetta Árni! Frábær grein! Ef ég fengi að skrifa það sem ég vildi segja á sænsku í staðin fyrir íslensku myndi ég láta móðin mása. Ég kann ekki að þýða sum orð almennilega. Ferrlega hallærislegt að vinna með gangstera alla daga, lesa um glæpi, glæpasálfræði og hvernig er hægt að láta fólki batna og horfa á það gerast fyrir framan sig sem hægt er að lesa endurtekningu á aftur á aftur. Eini munurinn er stærðin, þetta gæti aldrei hafa gersð í neinu öðru landi. Fólk skilur ekki þetta alveg. Það skilur ekki drifkraftana á bakvið, sukkið, þessa fársjúku þörf, kókaín, stelpur og líf sem engin nema innvígður hefur séð í geggjuðustu bíómyndum...
Enn ef þú nennir Árni að kíkja á nokkur orð, lesa til um þau á Google og sníða saman grein, væri gaman að sjá hvað kæmi út úr því. Alla vega sníst það um "Con Fíkil" sem hljómar ótrúlega á íslensku. "Con Artist" sem stundar efnahagslegt "Con Game" i s.k. "Boilerrooms" i einhverju herbergi. "Boilersrooms" er gruppa af "fjármálaséníum" sem setja dýfur á t.d. hlutafémarkaði, gengi ýmissa mynta og þess háttar. Innherjaupplýsingar eru hluti af þessu. Allt bannað og ólöglegt að sjálfsögðu.
Það má líkja ConGamer" við efnahagslega nauðgara. Þörfin fyrir sex er orðin forskrúfuð og einhver getur ekki riðið nema nauðga. Þú setur bara peninga í staðin fyrir sex, og út kemur sama þvælan og í efnahagsfíklunum. Þeir eiga peninga sem munu endast þeim allt þetta líf og 100 næstu ef þeir neiddust ekki til að skipta um kennitölu eftir dauða sinn.
Virkar alveg eins og hver önnur fíkn. Nema þeir heita ekki dópistar. Heldur ConArtis. Sá sem fer á kunnáttufyllirí. Og verður háður völdum meira enn peningum. Völd og bara aukin völd yfir hverju sem er, þjóðum, sýstemum, fólki, fjölskyldu og bara öllu. Sjarmerandi, fínir, velsmurðan talanda, sleipir eins og sápa og vilja bara stöður þar sem hægt er að stjórna einhverju. Hverju sem er.
Þessi blessu börn sem sitja sem ráðherrar, sem búið er að snúa í 10 hringi hverri einustu heilasellu, hafa engan möguleika til að verja sig gagnvart þeim sem græða síðan á þessu. Þetta efnahagshrun er ekki venjuleg skák.
Uppleggið var gert svona til að gera spilið meira spennandi. Sjálft spilið sníst um að græða og ná völdum. Bara keppni um að kreista úr einhverjum banka allt sem þar er, setja í fyrirtæki, töfra burtu peninginn og henda fyrirtækinu er daglegt brauð. Það sem menn sækjast í er spnningurinn. Þeir eru gjörsneiddir allri samúð. Hafa engar tilfinningar í lagi enn vita nákvæmlega til hvers er ætlast af þeim. Þetta eru ekki psykópatar. Enda er það fyrirbæri eins og smá flensa í samanburði við Con sem gerir allan heimin að leikvelli.
Ég hef oft ætlað að reyna að þýða þennan heim vitstola heim þessara efnahagslegra pedofíla (finn ekkert betra orð í bili, sorry) sem eru engu lagi líkur. Ef einhver kann að snara svona 15 A4 síðum frá sænsku yfir á íslensku, geta þeir lesið um heim sem er til við hliðinna á raunveruleikanum, sem ég hef haft í höndunum í 20 ár. Það lýsir þessri fíkn og drifkrafti í smáatriðum.
Þetta er ekkert ósvipað og ef menn væru að uppgvötva að svartidauði væri ekki vegna illra anda. Þannig var alla vega hugsunarátturinn í den. Vandamálið er að fólk kann ekki hugsanaháttinn, aldrei lært hann og hefur aldrei haft ástæðu til þess.
Það væri helst að heróínisti sem hefur þurft á öllum sínum klækjum að halda til að fá næsta skammt, gæti útskýrt sína þörf, og svo væri bara að setja peninga í staðin fyrir heróín og lesa úr munstrinu.
'islendingar eru svo kurteisir og friðsamir að þeir eru fábjánar í augum þessarra manna. Þeir hafa andstyggð á fólki sem lætur plata sig í peningamálum og fyrirlíta fólk sem er blankt. Það fylgir þessari hugsýki sem kallast Con á ensku.
Eins og fjölskýlda heróínistans sem missir allt sitt vegna fíknar einhvers í fjölskylunni, gerist ekkert fyrr enn það er sagt stopp. Mesta hlátursefnið í dag hjá þeim sem leika sér og hafa gaman af þessu efnahagshruni, er ákæran á Geir Haarde. Þvílík djöfulsins þvæla. Hann er alltof mikið barn til að nokkur trúi því að hann hafi gert neitt sem hann var ekki plataður til að gera. Notaður af þessu rándýrum efnahagskerfissins.
Jafn sorglegt og að það ætti að kæra allar mömmur fyrir að ala upp börnin sín vitlaust þega kemur í ljós að þeir berja fólk, eða drekka sig hauslausa, stela bílum eða dópa. Nákvæmlega sama. Hugsið bara peninganna sjálfa sem fíkniefni. Eins og hvaða spil upp á peninga verður fíkn fyrir marga.
Sama tóbakið. Ef það eru einhverjir enn edrú í efnahagsmálum á Íslandi, endilega láta þá stoppa verstu efnahagsrónanna svo allt verði ekki vitlaust á heimilinnu...
Óskar Arnórsson, 2.10.2010 kl. 22:02
Og hvað skyldi það nú vera sem sannar betur vanhæfni þessara ólánsgarma en einmitt tilvitnuð orð ónefnds flokksleiðtoga Haraldur Rafn?
Árni Gunnarsson, 2.10.2010 kl. 23:49
Heill og sæll Árni; æfinlega - og þið önnur, gestir hans, hér á síðu !
Því miður; er aðeins um þrennt að velja, úr þessu, Árni Skagfirðingur !
Eitt er; að beygja sig í duftið, fyrir gróða öflunum - og þegja.
Annað; að hafa sömu háttu á, og bræður mínir; Síkhar, austur í Khalistan (Indlandi og nágrenni) eða þeir EOKA menn, suður á Kýpur forðum gagnvart fjendum sínum, það er;; að lúberja ófétin sem fyrstu viðvörun, hver; komu okkur í þessa stöðu.
Þriðja er; að dæma þá, af Alþýðudómstóli - og senda þá, í varanlega útlegð, frá Íslands ströndum, fornvinur góður - og þið önnur; gott fólk.
Persónulega; tæki ég annan kost, sem hinn vænlegasta, ykkur; að segja.
Með beztu kveðjum; sem jafnan /
Óskar Helgi
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 3.10.2010 kl. 00:56
Þakka þér fyrir þessa fjandi góðu samlíkingu og skilgreiningu á sjúklegu ástandi Óskar Arnórsson.
Og hér hafa því miður sannast þau vísdómsorð skáldsins frá Fagraskógi að
"menn sýkjast jafnvel af sjúkra orðum
svo plágan fer hraðar en pestin forðum."
Hliðarsjúkdómarnir afneitun og meðvirkni birtast okkur hér á bloggsíðunum í sinni átakanlegustu myndum.
En það setti nú að mér hlátur þegar ég las bráðsnjalla skilgreiningu þína á "fórnarlambinu Geir Haarde!"
Árni Gunnarsson, 3.10.2010 kl. 08:33
Þó Geir Hardde sé fórnarlamb, þá er hann jafn ábyrgur vegna stöðu sinnar. Enn ég persónulega bara vorkenni honum því hann kemur aldrei til með að vita hvernig hann var plataður. Hann hefur einfaldlega ekki gáfur til þess. Og hann er samt ekki bjáni þannig séð. Mest einfaldur og ferkantaður í hugsun. Og hefur ábyggilega enga glæpahneigð í sér að neinu vit.
Það er ótrúlega skrítið að vera vitni að því í fjarlægð að menn eru að rembast við að "finna upp hjólið" í málum sem eru fyrir löngu orðin staðreynd í öllum löndum fyrir 20 árum, enn íslendingar láta eins og vandamálið sé ekki til í landinu. "Jävla korkad synsätt" myndu Svíar segja um allt málið og það gera þeir líka. "Eru bara bændur á Íslandi spyrja þeir" sem von er. Þá er ekki átt við að bændur séu neitt illa gefnir, frekar að þeir eru oft með einfaldari skoðun á fólki. Ég ólst upp í sveit sjálfur og faðir minn var bóndi. Hann var engin bjáni, enn hefði aldrei skilið þessa veröld með nokkru móti.
Til að skilja "CON" fíkn með einhverju viti er það kanski svona einfaldað: "CON" fíkli vantar þúsundkall. Honum stendur til boða að vinna í tvo daga til að eignast þúsund kallinn. Enn það gengur ekki. Hann verður að plata hann til sín. Fullþróaður "CON" gerir flókna hluti í tvær vikur til að fá þúsundkallinn. Það gefur honum tillfinningalega ánægju sem ekki er h´gt að fá öðruvísi.
Spilafíkill sem er háður tapi virkar svipað. Ef hann fyrir tilviljun vinnur stóra upphæð í spili, fær hann "ranga" tilfinningu. Hann fer inn aftur og spilar þar til hann tapar öllu og meira enn það. Þá fer hann heim með "rétta" tilfinningu og er "ánægður" mitt í óánægjunni.
Þess vegna er þetta kölluð hugsýki eða fíkn.
Óskar Arnórsson, 3.10.2010 kl. 10:46
Ég held að þetta sé hárrétt athugað Óskar. En þetta með bændurna og svo þetta með Geir. Ég ólst upp í sveit og var eyndar sjálfur bóndi fram að þrítugu. Bændurnir voru ekki heimskir og ekki einfaldir umfram annað fólk. Sumir fluggáfaðir og fæddir heimsborgarar eins og í öllum stéttum á Íslandi og hvar sem er í heiminum. En bændurnir voru fæddir inn í raunveruleikann og þeir gátu ekki flúið raunveruleikann því þeir sem það reyndu stóðu daginn eftir frammi fyrir miklu verri raunveruleika en þeim sem þeir höfðu reynt að flýja.
Og sú heimska sem almenningsálitið hefur átt til að hengja við þá var kannski helst sú "heimska" að hleypa ekki að sér neinu því sem gat truflað þá við að takast á við ríkustu skyldu okkar allra sem er að eiga við dagslok þá vissu að hafa dugað og mæta nýjum degi með sama hugarfari.
Árni Gunnarsson, 3.10.2010 kl. 11:42
Það er enn í gangi svona "boiler room" þankagangur og þeir sem vita hvað það þýðir eiga bara ef hægt er að stoppa þetta. Peningar fljóta frá landinu sem aldrei fyrr. Sum bankarán eru þannig að fengurinn er geymdur í sjálfum bankanum og tekin síðan í rólegheitunum eftirá. Eða notaður til að fjárfesta með innan bankans. Það eru sérfræðingar í þessum málum með sérþekkingu sem þurfa að sitja við bankatölvurnar til að skilja bókhaldið þeirra.
Á Íslandi eru ræningjarnir sjálfir næstum látnir stýra rannsókninni. Efnahagurinn á líklegast eftir að hrynja meira. Það þarf meiri krísur og vesen til að fólk skoði þetta öðruvísi. Menn þurfa bara að skoða þetta öðruvísi. Góður lygari þarf aldrei að segja ósatt. Og um það snýst málið að stórum hluta. Margir eru innblandaðir án þess að hafa um það neina hugmynd. Panikinn sem varð við heimskreppuna varð til þess að ábyrgir bankastjórnendur skildu eftir "sviðna jörð".
Í gamaldags bankaránum er það ekkert óalgengt að starfsmaður stingi á sig búnti í óðagotinu því engin veit fyrirfram hversu mikið var tekið. Komist bankar´ningun undan er engin hætta á því að hann gefi upp fengin sem tekjur. Og vilji mann þvo illa fengna peninga er bara að fara til Ísland. Það vita allir gansterar Evrópu í dag. Það er alveg með ólíkindum að sitja á rassgatinu upp á þingi og bulla um hverjur er eitthvað að kenna. Bankaránið stendur yfir enn, og það skilur bara einstaka maður almennilega.
Óskar Arnórsson, 3.10.2010 kl. 15:17
Og nú erum við búin að fá skýrslu um hin góðu samskipti AGS og ríkkistjórnarinnar. Svo nú fer að verða erfiðara að ljúga um það hvað raunverulega sé í gangi í þeim samskiptum sem og samskiptunum við stjórn ESB..
Árni Gunnarsson, 4.10.2010 kl. 20:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.