7.10.2010 | 21:33
Hvers konar stjórnsýsla er þetta?
Þegar forsætisráðherra flytur stefnuræðu sína á Alþingi mótmæla 8000 einstaklingar á Austurvelli og Alþingishúsið er víggirt. Forsætisráðherra er skipaður lífvörður að því búnu. Forsætisráðherra kemst að þeirri merkilegu niðurstöðu að það þurfi að gera eitthvað fyrir heimilin í landinu!
Góðan daginn!
Forsætisráðherra heldur stefnuræðuna sama daginn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn fagnar því í opinberri yfirlýsingu að hann hafi fengið staðfest hjá ríkisstjórn Íslands að nú eigi ekki að fresta uppboðum á íbúðum fólks í skuldavanda nema til mánaðamóta!
Hvur andsk. er eiginlega að þessari manneskju; varð hún allt í einu fyrir þeirri vitrun að eitthvað hefði farið úrskeiðis og að ríkisstjórn hennar hefði einfaldlega skyldur til að bregðast við?
Hefur JÓHANNA sIGURÐARDÓTTIR á yfir 30 ára stjórnmálaferli sínum kannski heyrt talað um að fjölskyldurnar,- heimilin væru hornsteinar samfélagsins,- og hefur hún kannski einhvern tímann borið sér þau orð í munn sjálf?
Hrár samanburður og ekki smekklegur:
Bóndi verður fyrir því að fjárhúsið, hlaðan og heyið brennur á haustnóttum og allt er ótryggt. Hann gerir það upp við sig að annað hvort fargi hann fénu og bregði búi eða byggi upp að nýju og kaupi hey.
Ef hann tekur seinni kostinn er hann þá að gera það fyrir blessaðar kindurnar af því hann er svo góður?
Íslensk stjórnvöld þurfa ekki að "gera neitt fyrir" fjölskyldurnar í þessu landi.
Íslenskum stjórnvöldu ber skylda til þess að vernda fjölskyldurnar, heimili og börn fyrir hörmungum sem þau urðu fyrir af annara völdum. Og m.a. af völdum íslenskra stjórnmálamanna sem buðust til- báðu, grátbáðu um að þeim væri sýnt það traust að halda dyggan vörð um þetta samfélag.
Lítur ríkisstjórn Íslands kannski eftir allt svo á að hornsteinar samfélagsins séu pólitíkusarnir, bankarnir og embættismennirnir?
Það skyldi þó aldrei vera?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þetta er náttúrulega alveg hárrétt hjá þér, hér snýr allt á haus! Og það sem verra, þá eru líkindi til að Jóka meini ekki eitt einast orð af því sem hún sagði! Hér snýst allt um auðvaldið og ekkert mun breytast. Hér verða engin lán færð niður. Ég þori nærri að lofa að éta hattinn minn gerist það, að lán annarra en braskara verði afskrifuð að hluta eða að fullu! Þessi ríkisstjórn vinnur ekki fyrir alþýðuna frekar en aðrar ríkisstjórnir hafa gert í þessu landi!
Auðun Gíslason, 7.10.2010 kl. 21:43
Jóhanna er geggjuð. Ef hún er það ekki, þá er geggjun ekki til og hefur aldrei verið til...
Óskar Arnórsson, 7.10.2010 kl. 21:52
Já, góðann daginn.
Axel Jóhann Hallgrímsson, 7.10.2010 kl. 21:57
Hvernig í ósköpunum er hægt að losna við þetta lið sem fer áfram á þrjóskunni einni saman, ekki eru leiðtogahæfileikarnir að þvælast fyrir svo mikið er víst. Þau eru á mjög góðri leið að koma þjóðinni á bólakaf í drullufen sem erfitt verður að komast uppúr aftur á næstunni.
Edda Karlsdóttir, 7.10.2010 kl. 22:03
Auðun. Mér er bara óskiljanlegt þegar stjórnmálamenn verða fyrir svo skyndilegri vitrun sem raun ber vitni og best sannaðist núna í kvöld. Ég var tæplega búinn að ljúka þessari færslu og senda hana þegar "sú þvermóðskufulla" sendi frá sér þessa nýju yfirlýsingu.
Og nú spyr ég eins og Skúli Alexandersson forðum í frammíkallinu á Alþingi: "Hvað verður þá um hagvaxtarræfilinn?"
Hvað verður nú um samstarfið við Alþjóðagjaleyrissjóðsræfilinn?
Eins og yfirlýsing ríkisstjórnarinnar um sláturtíðina langþráðu sem hefjast átti núna um mánaðamótin vakti fulltrúa sjóðsins á Íslandi mikinn fögnuð á stefnuræðudaginn hennar Jóhönnu!
Verðum við kannski að halda áfram að gefa þessum kvikindum frá AGS að éta fram til febrúarloka?
Árni Gunnarsson, 7.10.2010 kl. 22:26
Óskar minn. Hér er nú sá heppnastur sem býr við mestu geggjunina. Sá hinn sami veltir ekki fyrir sér jafn óskiljanlegu samfélagi og þeir sem búa við einhverja - að vísu ört þverrandi vitglóru.
Árni Gunnarsson, 7.10.2010 kl. 22:29
Ævinlega, ævinlega Axel minn!
Árni Gunnarsson, 7.10.2010 kl. 22:30
Edda. Svarið er ekki einfalt en þær eru óhugnanlega margar hugmyndirnar.
Árni Gunnarsson, 7.10.2010 kl. 22:32
Heill og sælll Árni þetta er góður pistill og allt rétt sem þú segir, það virðist sem þetta fólk sem stjórnar landinu sé ekki alveg með á nótunum, það geri sér ekki fulla grein fyrir ástandinu hjá þorra landsmanna.
kær kveðja
Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 7.10.2010 kl. 22:38
Já þetta er bara óskiljanlegur fjandi Sigmar. Og ekki er það nú beinlínis uppörvandi tilhugsun ef það þarf að misþyrma bæði Dómkirkjunni og Alþingishúsinu svo sem á mánaðar fresti til að hrista einhverja vitglóru inn í þetta skelfilega fólk sem hefur aðsetur í gamla tugthúsinu við enda Lækjargötunnar undir Arnarhólnum.
Árni Gunnarsson, 7.10.2010 kl. 22:44
Árni, Jóhanna er að plata, vissulega. Og ég er sammála ykkur. Við blekkjumst ekki af platfundum þar sem menn eru dregnir á asnaeyrunum núna eftir loforð þeirra við AGS um útrýmingu heimila landsins á næstunni. Það er e-ð bogið og falskt í gangi og gleður mig að enginn að ofan trúir vitleysunni.
Elle_, 7.10.2010 kl. 22:58
Auðvitað var þessi yfirlýsing Jóhönnu í kvöld aðeins biðleikur í stöðunni. Óttaslegin og öldruð kona sem þarf lífvörð til fylgdar á milli húsa stillir upp hraðahindrun til að kaupa sér tíma og biðja um frið í fimm mánuði. Nú ætti hún að koma sér burtu úr þessu hlutverki og færa það í hendur einhverjum ofurlítið burðugri. Hún er komin fram yfir síðasta söludag sem pólitíkus og þarf að komast í verndað umhverfi.
Það væri mikill léttir ef hún tæki einhverja með sér og þá má hún síst af öllum gleyma sínum trygga Sancho Panza,- Hrannari B. Arnarsyni.
Árni Gunnarsson, 7.10.2010 kl. 22:58
Sæll Árni, þú tókst svo vel í það síðast er ég setti grein þína inn á Facebook, að ég gerði það aftur, og af því mér finnst þessi gein þín vera frábær, og ég get verið hjartanlega sammála ykkur öllum hér að ofan. Þessir gjörningar ríkistjórnarinnar síðustu daga styðja kenninguna mína um auðvaldið.
Kær kveðja frá Eyjum.
Helgi Þór Gunnarsson, 7.10.2010 kl. 23:00
Elle E. Óafvitandi var ég að svara þér hér að ofan. Þú komst inn á meðan ég var að skrifa athugasemdina.
En ég er sammála þér. Þessi skyndilega yfirlýsing Jóhönnu í kvöld er ekki trúverðugri en annað sem frá þessari ríkisstjórn hefur komið síðan hún varð leppstjórn AGS. Hvað undir býr á eftir að koma í ljós en líklega er einhver breyting í aðsigi.
Árni Gunnarsson, 7.10.2010 kl. 23:03
Minn er heiðurinn Helgi Þór og vonandi hefur þá eitthvert vit verið í þessari útrás minni fyrir geðbrigðin.
Árni Gunnarsson, 7.10.2010 kl. 23:06
Ég tek undir þetta með þér Árni. Ég þoli ekki þegar Jóhanna segir að það þurfi að "gera eitthvað fyrir fjölskyldurnar í landin" eins og hún hafi fengið vitrun.
Þetta orðalag afhjúpar hugsunarhátt um vanburða alþýðu og yfirburða elítu sem JÓhanna og fleiri afkomendur gamallar stjórnmálastéttar er sýkur af.
Guðrún Pétursdóttir gekk fram af mér í Silfrinu á sunnudag þegar hún sagðist hafa hugsað "hrun hvað" vegna þess að hún fékk að vera á voða fínni samkomu uppi í háskóla.
Ég held þó að einstæða móðirin sem er búin að vera atvinnulaus í 11 mánuði og er að missa allt eða 68 ára konan í búðardal sem missti húsið sitt fyrir nokkrum dögum séu ekki að hugsa "hrun hvað".
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 7.10.2010 kl. 23:21
Jóhanna vill vel.
hilmar jónsson, 7.10.2010 kl. 23:27
Jú Árni, það er heilmikið vit í þessari grein hjá þér.
Kær kveðja frá Eyjum.
Helgi Þór Gunnarsson, 8.10.2010 kl. 00:31
Heill og sæll Árni Skagfirðingur; æfinlega - sem og gestir þínir, aðrir !
Nákvæmlega; á þennan veginn, hefir dugleysi stjórnmála manna fram komið, og fengið næði til, allt of lengi, Árni.
Hilmar minn (nr. 17) !
Ert þú nokkuð; að reyna að komast upp fyrir Óla Björn Kárason girðingar vörð, í mestu fyndni 21. aldarinnar (í þeim parti aldarinnar, sem liðinn er) ?
Með beztu kveðjum /
Óskar Helgi
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 8.10.2010 kl. 02:15
Já, Jakobína. Það er auðvelt að koma geðbrigðamanni á borð við mig úr jafnvægi með svona niðurlægjandi kjaftæði. Íslenskar fjölskyldur eru ekki þurfalingar stjórnvalda. Þetta hyski sem kýldi vömbina við veisluföng og lofræður um sjálft sig á launum hjá vinnandi fólki en gleymdi að vinna vinnuna sína hefur ekki stöðu til að tala niður til þeirra sem nú blæðir af þeirra völdum.
Árni Gunnarsson, 8.10.2010 kl. 09:39
Hilmar: "Jóhanna vill vel." Velvild Jóhönnu Sigurðardóttur í garð nýju einkabankanna sem keyptu kröfur i fasteignalán með 45% afföllum er öllum ljós og eflir ekki að mun hlýhug minn í hennar garð.
Ég tel mig muna rétt að hún var félagsmálaráðherra í ríkisstjórn Geirs H. Haarde þegar bankarnir tóku stöðu gegn krónunni ársfjórðungslega og hækkuðu erlendar skuldir lántakenda jafnframt og það hækkaði lánskjaravísitölu.
Jóhanna Sigurðardóttir á að gera það fyrir fjölskyldurnar í þessu landi sem þeim kæmi best. Og það er að safna persónulegum eigum sínum í ráðuneytinu í plastpoka frá Bónusfeðgum og yfirgefa vistarveruna afar hljóðlega.
Árni Gunnarsson, 8.10.2010 kl. 10:00
Óskar Helgi: Ríkisstjórnir hafa runnið sitt skeið löngu áður en það hefst ef þær búa ekki að þróttmeiri samfélagsvitund en svo að þá fyrst átta þær sig á eigin vanburðum þegar trumbusláttur 8000 reiðra þolenda yfirgnæfir kvarnahljóðið í toppstykkinu.
Árni Gunnarsson, 8.10.2010 kl. 10:15
Og nú er það auðvitað komið í ljós að þessi frestun til marsloka á uppboðunum er ekki frá Jóhönnu komin. Það var reyndar Ögmundur Jónasson sem tók af skarið. Það mátti ég svo sem vita. Hver annar?
Árni Gunnarsson, 8.10.2010 kl. 15:08
Skjaldborgin um heimilin var, þegar á reyndi, tjaldborg, og þar var tjaldað til einnrar nætur. Þegar kom að skjaldborg Jóhönnu var hún eingöngu um að ekki mátti spyrja hvort einhver samþingmaður hennar hafi brugðist. Þá var blásið í alla herlúðra. En svo virðist sem þeir sömu lúðrar hafi nú öðlast þúsund sinnum meiri styrk og blása, sem betur fer, á móti kerlingunni sem af veikburða mætti flautaði í rörið áður. Amen.
Osman (IP-tala skráð) 8.10.2010 kl. 23:45
Kunna ekkert, geta ekkert, skilja ekki hvert vandamálið er Osman minn góður.
Árni Gunnarsson, 9.10.2010 kl. 14:12
Þú spyrð kæri frændi í fyrirsögn "Hvers konar stjórnsýsla er þetta?" og svarið er að þetta er kerfi sem sér um sig og sína og gefur skít í allt annað, þar með almenning, þjóðina, mig og þig kæri vinur. Það má ekki velta því upp hvort ISG hafi sofið á verðinum, við vitum að BS, bankamálaráðherra (hæstvirtur) vissi ekkert, spurði einskins og heyrði ekkert, ja, sumir myndu segja, vanviti, en hvað veit ég um það, sakir fávisku sinnar er hann stikkfrí. Sumir myndu kannski segja að fávitaskapur er ekki afsökun gagnvart lögum nema viðkomandi sé löggiltur, en hvað um það. Skagfirðingur góður, er ekki kominn tími fyrir þig gamli skratti að skella sér á bak! og hvað er að frétta af ræktun hjá þér? Þegar fram í sækir þá veistu gamli selur að nafn þitt er órjúfanlegt framförum í ræktun góðhesta. Amen og nú með tveimur ennum.
OSMANN (IP-tala skráð) 9.10.2010 kl. 21:51
Þakka innlitið frændi minn óþekktur. Þið eruð bara orðnir svo margir þessir dulnefndu frændur mínir að ég fór í Íslendingabók að leita skýringa. Og viti menn! Einhvern tímann á 18. öld skýtur upp nafninu Ólafur "allra frændi." Þarna var lausnin fundin. Ólafur "allra frændi" er forfaðir okkar allra en mikill helv. prakkari hefur karluglan verið.
Nú er minni sögu sem hestamanns lokið enda var hún nú aldrei efni til aðdáunar. Og mínum afskiptum af ræktun hrossa lauk sömuleiðis fyrir allnokkrum árum. Hversu lengi nafn mitt baðast í ljóma þeirra hrossa sem rekja má til minna afskipta af ræktun verður tíminn að leiða í ljós.
En þá sjaldan ég horfi á útsendingar frá íþróttamótum hestamanna og sé á hvaða leið ræktun og reiðmennska er komin þá verð ég hugsi. Gjarnan kemur þá kannski upp í hugann ósk um að þegar sá tími rennur upp að afkomendur þeirra Perlu frá Reykjum og Litlu- Jarpar frá sama bæ verða farnir að bokka eins og vagnhestar Hennar Hátignar Bretadrottningar um íslenska sem erlendra skeiðvelli þá verði ég kominn þangað sem ekki er horft á útsendingar sjónvarps. Og vonandi ber þá engin íslensk ræktunarhryssa lengur nafnið: Krafla.
Árni Gunnarsson, 9.10.2010 kl. 23:00
Mæltu manna heilastur frændi, ekki væri nú gott að ríða korter eða svo á Suðra frá Holtsmúla syðra, (maður yrði náttúrulaus með öllu, og er þó lélegur fyrir) Mætti ég þá biðja frekar um öðlinginn Hrafninn frá sama bæ nyrðra. Vertu ekki lítillátur elsku karl um eigin ræktun, hún er eins og sagt er, frábær, og ekkert annað, og afsakaðu nafnleyndina, ég er bara svo mikill asni að ég vil ekki gera þjóðinni þá glennu að opinbera nfan mitt.
OSMANN (IP-tala skráð) 9.10.2010 kl. 23:31
Jóhanna og Steingrímur titra núna. Titra vegna þess að eftir allar kurteisislegu ábendingarnar sem þau skildu ekki var ákveðið að sparka í sköflunginn á þeim og fylla heyrnarvitin. Þau titra vegna þess að við sættum okkur ekki lengur við heimaslátrun í héraði. Jóhanna mætir núna hrokafull í viðtöl og segir að AGS fái ekki að stjórna. Miðað við framgönguna hingað til virkar þetta eins og AGS og ríkisstjórnin séu búin að vera að tékka á hversu langt þau komist.
Ævar Rafn Kjartansson, 10.10.2010 kl. 00:45
Árni minn. Jóhönnu og Steingrími er hótað að ofan og utan og þess vegna þurfum við hin líka að hóta!
Spurningin er hvort er hættulegra fyrir þau: utan-að-komandi lífláts-hótanir eða heiman-að-komandi hættulegar hótanir?
þetta er því miður hryllileg staðreynd og þess vegna er samstaða Íslandsbúa það eina sem dugar!!!
Og við jarðar-búar verðum líka smátt og smátt að læra að standa saman í baráttunni fyrir réttlæti allra, í friði og náunga-kærleika!
Annars erum við að hafna friðar-samfélags-skyldu í heiminum öllum, sem stríðir gegn mannréttindum í heiminum!
Enginn hlekkur í siðmenntuðum mannréttinda-heimi friðar og réttlætis er mikilvægari en veikasti hlekkurinn, ef friður og réttlæti á að nást fyrir alla heims-búa?
Enginn veit hvar næstu hamfarir koma? þess vegna er náunga-kærleiks- samstaðan allra hagur?
M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 10.10.2010 kl. 01:28
Hreint frábær lesning - afar hressandi :-)
Eva Sól (IP-tala skráð) 10.10.2010 kl. 21:28
Osmann. Skil þig afskaplega vel. Hlédrægnin er rauði þráðurinn í öllum mínum erfðaþáttum.
Árni Gunnarsson, 10.10.2010 kl. 22:13
Ævar. Ef þessi ríkisstjórn er að vinna eftir einhverri leyndarformúlu þá verður hún að taka afleiðingunum þegar þjóðin skilur hana ekki.
Þetta er önnur ríkisstjórn okkar sem lætur sér líka það að starfa undir lögregluvernd. Nú held ég að fólkið í þessu landi sé farið að verða þreytt á styrjöldum við eigin valdhafa og löggjafarþing.
Árni Gunnarsson, 10.10.2010 kl. 22:24
Anna Sigríður. Já, það er ósköp raunalegt hvað öll umræðan er farin að snúast um reiðina og sársaukann.
Nú er mig farið að langa til að setjast við tölvuna mína í góðu skapi og sjá hvort ég kunni að skrifa eitthvað uppbyggilegra en það sem ég hef fundið mig knúinn til að gera þessi síðustu missiri. En mér sýnist að á því kunni ennþá að verða nokkur bið- því miður.
Árni Gunnarsson, 10.10.2010 kl. 22:34
Þakka innlitið og uppörvandi orð Eva Sól. Kannski er það nú spurning hvort þessi skrif mín að undanförnu hafi öll verið hressandi. Að upplagi er ég nú ekki eins neikvæður og ætla mætti af þessum pistlum og svona í "venjulegu árferði" á ég ákaflega gott með að sjá björtu hliðarnar á tilverunni og þá ekki síður þær skoplegu.
Árni Gunnarsson, 10.10.2010 kl. 22:41
Þingmenn hafa þakkað fyrir mótmælin. Þau auðveldi þeim að eiga við AGS. Enginn viðurkennir þetta en núna er loksins verið að sýna lit. Hvort það verði eitthvað til að byggja á kemur svo í ljós. Ég hef hins vegar fengið það í æð að Lögreglan nennir þessu ekki lengur. Þe. að verja ónýtan málstað.
Hins vegar má ég eiga það að ég var bara núna að fatta hversu hvass pistillinn þinn er. Næst þegar þú sest við tölvuna „í góðu skapi“ ætla ég að deila því til trýnisvina minna. En þangað til ætla ég að láta þessa færslu duga.
Ævar Rafn Kjartansson, 11.10.2010 kl. 01:17
Það eru slæmar fréttir Ævar ef satt reynist að lögreglan hafi ákveðið að hætta afskiptum sínum af þessum mótmælum. Lögreglan hefur staðið sig með mikilli prýði og á hrós skilið. En auðvitað er það komið út í hættuástand hversu fjársvelt lögreglan er þrátt fyrir sífellt erfiðari verkefni.
Nú óttast ég það mest að mótmæli endi með blóðsúthellingum. Í tengslum við það óttast ég mest að einhver verði dæmdur fyrir að gera það sem svo marga hefur svo lengi langað til að gera.
Nú finnst mér kominn tími til að fólkið á götunni krefjist þess að fá vitneskju um það hverjir eigi bankana og krefjist þess að opinber rannsókn fari fram á störfum skilanefndanna.
Að ógleymdri opinberri rannsókn á starfsemi lífeyrissjóðanna og tengslum stjórnenda þeirra við viðskiptajöfrana.
Árni Gunnarsson, 11.10.2010 kl. 16:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.