11.10.2012 | 14:05
Stjórnarskrá fyrir Ísland á að vera sameiginlegt verkefni okkar allra
Stjórnarskrármálið hefur verið átakamál stjórnmálamanna allt frá því að umræða hófst um Stjórnlagaþing.
Sjálfstæðisflokkurinn tók þá ákvörðun að leggjast gegn þessari vinnu og reisa um hana heiftugar, pólitískar deilur. Það er reyndar ekki fyrsta sinn sem sjálfstæðismenn taka afstöðu gegn vinnu við breytingar á þessu mikilvæga plaggi sem ævinlega þarf að vera lifandi og í sátt við það samfélag sem býr við fyrirmæli þess.
Mér er í nöp við pólitík sjálfstæðismanna en þeir eiga - og hafa alltaf átt - góða stjórnmálamenn innanum og samanvið; en óþarflega fáa miðað við pólitísk áhrif.
Þess vegna var það mikið óhapp að minni hyggju og afspyrnu-heimskulegt jafnframt að setja þessa mikilvægu vinnu stjórnlagaráðs í pólitískt uppnám.
Sjálfstæðismenn voru ekki of góðir til að taka þátt í að semja nýja stjórnarskrá enda þótt þeir hefðu að sjálfsögðu ekki fengið þar öllu ráðið - jafnvel fáu.
Ég held að stjórnlagaráðið hafi unnið mikla vinnu og góða í flestu efni en að betur hefði þó mátt gera og mér sýnist að tiltekinn hópur óhappamanna sem þar sat að störfum hafi fengið of miklu ráðið.
Mér sýnist þessi skoðanakönnun um stjórnarskrárdrög ætla að verða eitthvað annað en það sem hægt er að kalla þjóðaratkvæðagreiðslu; skil ekki almennilega það orðalag.
Það var vandalaust að setja þessi nýju drög í netkönnun og gefa þjóðinni þann tíma sem til þurfti.
Að smíða nýja stjórnarskrá má ekki falla undir skopmælið: "eins og það eigi að fara að drepa djöfulinn!"
En hvort var það af illgirni eða heimsku sem sjálfstæðismenn tóku þessa slysalegu stefnu?
Varla hvorttveggja.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Það má ekki misfarast að samþykkja nýja stjórnarskrá fyrir einhverja pólitíska misþykkju.
Axel Jóhann Hallgrímsson, 11.10.2012 kl. 14:14
Hárrétt Axel, en á því er nefnilega orðin nokkur hætta.
Árni Gunnarsson, 11.10.2012 kl. 14:23
Það sem mér finnst mestu máli skipta er afskiptaleysi kjósenda. Einungis 36% þeirra nenntu á kjörstað þegar boðið var uppá að velja fulltrúa á stjórnlagaþing.
Bendir þessi lélega þátttaka til þess að hin margumtalaða "þjóð" hafi áhuga á því að breyta stjórnarskránni? Eða er henni bara sama?
Kolbrún Hilmars, 11.10.2012 kl. 14:44
Heill og sæll Árni æfinlega; sem og aðrir góðir gestir, þínir !
Þakka þér fyrir; ágæta hugvekjuna, Skagfirðingur vísi - en mér er nú svo farið, að í ljósi þróunar samfélagsins hérlenda, að fremur lít ég á mig, sem Argentínumann eða Mongóla, fremur en Íslending.
Enda; var mér úthýst úr íslenzku samfélagi, Haustið 2008 - og tek því ALDREI framar þátt, í nokkrum kosningum, eða þess háttar standi, héðan af.
Með beztu kveðjum; til ykkar, mætra fornvina minna /
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 11.10.2012 kl. 15:55
Auðlindaákvæðið er mikilvægast.
Sigurður Þórðarson, 11.10.2012 kl. 16:05
Það er rétt hjá Sigurði, auðlindaákvæðin í tillögum 32-34.grein eru nýmæli í stjórnarskrá og Alþingi mætti alveg gefa sér tíma til þess að fjalla rækilega um þau.
Um þau atriði er hins vegar ekki spurt í boðaðri skoðanakönnun þann 20. n.k.
Kolbrún Hilmars, 11.10.2012 kl. 16:28
Ég skil þig vel Kolbrún þegar þú ert hugsi yfir dræmri þátttöku í þessum kosningum. Ég er nú ekki bjartsýnni á pólitískan þroska kjósenda en svo að ég gef mér að þessi 36% sé nokkurn veginn sá hluti kjósenda sem tekur pólitísk mál til sjálfstæðrar umhugsunar. Því miður held ég að um helmingur kjósenda sé að láta undan þrýsingi vina og fjölskyldna eða þá fastur í flokkspólitísku feni utan og sunnan við pólitíska og sjálfstæða skoðun.
Hversu margir, annars ágætir bloggritarar misbjóða sjálfum sér daglega með flokkspólitískum trúarjátningum og stökkva hæð sína af hrifningu þegar þeir lesa eitthvað sem þingmaðurinn þeirra! hefur sagt. án þess að minnsta gagnrýni hafi komið þar við sögu. Allt gleypt hrátt með sömu hrifningarópunum.
Skelfilegt!
Árni Gunnarsson, 11.10.2012 kl. 16:55
Árni, veit nú ekki alveg hvort ég er sammála þér um pólitískan þroska 36% kjósendanna, miðað við fulltrúavalið á stjórnlagaþing, seinna stjórnlagaráðs.
Hugsanlega hafa í besta falli 10% (þ.á.m. ég sjálf) reynt að velja fulltrúa hvaðanæva að af landinu og óháð stjórnmálaskoðunum.
Hin 26% hljóta að hafa hyglt sínum - miðað við niðurstöðurnar.
Kolbrún Hilmars, 11.10.2012 kl. 18:15
Nú versnar í því Kolbrún ef þetta hlutfall er komið niður fyrir 36 prósentin. En ég er nú ekki sammála því að fólk af höfuðborgarsvæði sé endilega ótengt landsbyggðinni. Í það minnsta valdi ég einhverja úr þéttbýlinu hér sem fulltrúa landsbyggðar.
Árni Gunnarsson, 11.10.2012 kl. 19:27
Takk fyrir góðan pistil Árni. Þegar ég rifja upp allt ferlið að þessum drögum að nýrri stjórnarskrá, þá er mér það minnisstæðast að SJÁLFSTÆÐISFLOKKS-eigendurnir töldu sig ekki einu sinni þurfa að mæta á kjörstað!
Svo bölsótuðust þeir yfir að ekki væru nógu margir af þeirra klíkumönnum kjörnir? Það sem var mest afhjúpandi við þetta ferli var hversu sjálfsöruggir þeir voru, um að hafa einokunarvald á stjórnsýslunni í gegnum gjörspillt dómskerfið.
Nú gala spillingarkóngarnir eins og nývaknaðir hanar!
Þeir notuðu ekki einu sinni sinn lýðræðislega rétt, til að mæta á kjörstað og kjósa! Þeir voru svo vissir um að það þyrfti ekki að vinna eftir vilja kosningabærra og ábyrgra kjósenda/skattborgara þessa lands!
Þetta var algjör afhjúpun um vanhæfni spilltra Sjálfstæðis-spillingargosa og þeirra frímúrara-einkadómara.
Sjálfstæðisflokks-eigendur skrifuðu sig sjálfir út úr lýðræðinu, og reyna endalaust að kenna öllum öðrum um sinn siðblindu-dómgreindar-afleik!
Ég vara hina flokkseigendurna við því að fara sömu ólýðræðislegu spillingarleiðina.
M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 11.10.2012 kl. 19:50
Þakka fyrir hressilega heimsókn Anna Sigríður.
Ég held að þetta hafi áreiðanlega verið þriggja stiga karfa hjá þér!
Árni Gunnarsson, 11.10.2012 kl. 22:12
Anna Sigríður er ekki vön að skafa utan af hlutunum :)
Samt er ég ekki sammála henni með eins flokks einokun á dómskerfinu - a.m.k. ekki vísvitandi. Ef eitthvað hallar þar á í pólitíkinni, þá mætti alveg eins skoða hverjir það eru sem fara í það langskólanám sem leiðir til dómarastarfa. ?
Kolbrún Hilmars, 12.10.2012 kl. 14:51
Skýringin á því að þér er í nöp við pólitík Sjálfstæðisflokksins, Árni, er að þú veist ekkert um hana, eins og þessi pistill ber með sér. Tillögur stjórnlagaráðs mun þjóðin ekki samþykkja.
Gunnar Th. Gunnarsson, 12.10.2012 kl. 16:41
Bara tvær athugasemdir, kæri vinur!
"Mér sýnist þessi skoðanakönnun um stjórnarskrárdrög ætla að verða eitthvað annað en það sem hægt er að kalla þjóðaratkvæðagreiðslu; skil ekki almennilega það orðalag." Þetta er einmitt aðferðin til að gera lítið úr kosningunni 20. október! Hártogast um hvort þetta er skoðanakönnun eða þjóðaratkvæðagreiðsla! Hvort hefur meiri þyngd í þínum huga skoðanakönnun eða þjóðaratkvæðagreiðsla? Höfuðatriðið er ekki hvað menn kalla kosninguna! Heldur, að kosningin fer fram!
" Ég er nú ekki bjartsýnni á pólitískan þroska kjósenda en svo að ég gef mér að þessi 36% sé nokkurn veginn sá hluti kjósenda sem tekur pólitísk mál til sjálfstæðrar umhugsunar." Ég, undirritaður, er væntanlega ekki meðal þeirra, "sem tekur pólitísk mál til sjálfstæðrar umhugsunar"? Ég þakka fyrir! Þú tekur þá kannski undir með þeim afturhaldsmönnum, sem segja einatt, að mál séu of flókin til að hægt sé að láta almenning kjósa um þau??? Eða koma almennt að málum svona yfirleitt, sbr. stjórnarskrárfrumvarpið?
Nú skreppur hver örvitinn fram á sjónarsviðið og talar um flækjustig kosninganna. Of mikið sé að spyrja kjósendur fleirri spurninga en einnar í einu!
Sem sagt kjósendur eru, skv. þessum skoðunum fífl og fábjánar, nema kannski þessi 36% þín!
Þó ég sé með vitlausari mönnum, þá ætla ég að taka þátt í þessari ÞJÓÐARATKVÆÐAGREIÐSLU! Ég mun segja JÁ við öllum atriðum! Hefði helst viljað segja Já, já! við spurningunni um auðlindirnar, þó mér finnist tillaga stjórnlagaþings ganga of skammt, þ.e. ég vil ALLAR náttúruauðlindir í þjóðareigu, enda blæs ég á einkaeignina!
En sem sagt, mætum á kjörstað og segjum já! Þó Siggi vilji sjálfsagt ekki neina fjandans þjóð/ríkiskirkju!
Ég gef nú ekki mikið fyrir bullið í þér, Gunnar! Sjaldan verið ástæða til, en nú engin!
Auðun Gíslason, 12.10.2012 kl. 17:41
Í fyrsta lagi vil ég svara Gunnari um póltík Sjálfstæðisflokksins að með henni hef ég fylgst eitthvað lengur en aldri hans nemur.
Þannig er það einboðið að ég veit meira um pólitík Sjálfstæðisflokksins en sjálfstæðismaður sem er svo heilaþveginn og leiðtogahollur að hann er búinn að samþykkja pólitískar ályktanir flokksins og útbreiða sem fagnaðarerindi áður en þær hafa verið frágengnar til fulls.
Mjög flokkshollir einstaklingar með trúarbrögð í stað skoðana eru aldrei marktækir utan sellufundanna.
Engir eru líklegri þeim til að gera sig að flónum í pólitískum átakamálum.
Um stjórnarskrárdrögin og 20. okt.
Ég hef frá upphafi verið eindreginn stuðningsmaður þessa stjórnlagaþings/ráðs og varið allt það ferli, enda lengi beðið eftir að sjálfstæðismenn yrðu bornir ofurliði í andstöðu við það þjóðþrifamál.
Ég er hinsvegar ekki viss um að þetta plagg eigi að verða stjórnarskrá Íslands óbreytt eins og mér hefur heyrst á ýmsum að sé þeirra draumur og markmið.
Þarna eru mikilvæg atriði sem ég vil sjá lögfest en ég tel óhætt að þæfa önnur inni á Alþingi áður en svo langt er gengið.
Ég mun taka þátt í atkvæðagreiðslunni 20. okt. en hef alls ekki tekið afstöðu til allra spurninganna ennþá.
Að allir þeir sem ekki leggja hausinn í bleyti og leggi sig fram við að taka gaumgæfilega ígrundaðar ákvarðanir um pólitísk efni og þjóðmál almennt séu fífl og fábjánar er ályktun sem ekki verður tengd við mig.
Það er nú svo að margir ágætlega skynsamir einstaklingar hafa þá óbeit á stjórnmálum að þeir leiða þau hjá sér.
Árni Gunnarsson, 12.10.2012 kl. 23:32
Þegar þú segir að Sjálfstæðisflokkurinn leggist gegn vinnu um breytingar á stjórnarskránni, þá ertu annaðhvort elliær eða talar gegn betri samvisku. Allir sem fylgjast með vita að Sjálfstæðisflokkurinn er ekki á móti breytingum á stjórnarskránni.
Góð grein um stjórnlaga(ó)ráðið: Hér
Gunnar Th. Gunnarsson, 13.10.2012 kl. 00:48
Ekki fór það nú svo illa Gunnar minn að ég slyppi við hláturskast eftir að hafa tuskast við ykkur Auðun út af hugvekjunni um stjórnarskrána. Þú ýjar að því skelfilega ástandi mínu að vera (kannski) orðinn elliær og mikið er ég þér þakklátur fyrir að hafa sýnt þá tillitssemi að segja mig ekki einfaldlega bandvitlausan.
En það er þakklætisvert að benda mér á þennan pistil sem ég hafði ekki nennt að lesa en sýnir mér glöggt að ég hafði rétt fyrir mér í ályktunum hér ofar um fötlun manna sem hafa skipt pólitískum skoðunum út fyrir trúarbrögð.
Brynjar Níelsson er jafnlangt frá því að vera ályktunarfær um pólitísk mál og þið Gústav bróðir hans á hægri vængnum og Þorvaldur Gylfason á vinstri vængnum. Og það er auðvitað alveg skelfilegt slys þegar fluggáfaðir lögmenn eins og Þeir Jón Steinar og Brynjar lenda í flokkspólitískum og hugmyndafræðilegum gryfjum og sitja þar fastir.
Ég á auðvitað ekki að ergja mig á pólitísku þrasi. Ég er ekki maður mikllar þekkingar á pólitískum vígvelli en ég kem að öllum pólitískum málum tandurhreinn af fyrirfram gefnum skoðunum. Þess vegna leyfi ég mér að tuskast við þá páfagauka úr öllum sjórnmálasamtökum sem hafa kennisetningar á hraðbergi en hafa skorast undan þeirri ábyrgð að líta hlutlægt á þau samfélagsmál sem heilsa okkur á hverjum morgni.
Fyrirlestrar Hannesar Hólmsteins um efnahagsmál, frjálshyggju og markaðstengda pólitík er móðgun við íslenska menningu ámóta og ályktun Sigmundar Ernis í þá veru að Jesús Kristur myndi kjósa Samfylkinguna ef hann væri á íslenskri kjörskrá.
Þetta eru ekki pólitískar skoðanir; þetta eru huglæg sjúkdómseinkenni.
Árni Gunnarsson, 13.10.2012 kl. 11:29
Ég mun segja nei við öllum spurningunum nema hugsanlega þessari um þjóðkirkjuna. Hluti af mér vill já þar og hluti vill nei.
Gunnar Th. Gunnarsson, 13.10.2012 kl. 12:11
Ég sé aldrei efnislega gagnrýni á það sem Hannes Hólmsteins segir. Rökin eru alltaf; "af því hann segir það". Svipað er um gagnrýni á það sem Jón Steinar Gunnlaugsson segir; "hann er vinur Davíðs Oddssonar".
Þetta eru ekki pólitískar skoðanir; þetta eru huglæg sjúkdómseinkenni.
Gunnar Th. Gunnarsson, 13.10.2012 kl. 12:18
Ég veit fá dæmi um að fólk sjái það sem það hefur ákveðið að sjá ekki Gunnar minn. Og þetta kemur upp í hugann þegar þú minnist á athugasemdir við skoðanir tiltekinna manna og þú hafir ekki rekist á.
Það er vondur siður þegar fólk er rekið á gat í pólitískri umræðu með ívitnuðum orðum að segja orðin slitin úr samhengi. Þetta rekst ég nokkrum sinnum á þegar rifjuð eru upp orð umræddra manna H.H.G. og D.O. í tengslum við hrunið og aðdraganda þess. Þá koma gjarnan fram einhverjir og segja með ódulinni vandlætingu að ummælin hafi verið "öll slitin úr samhengi" án þess að benda á hvar og hvernig.
Ég man að það var á söguöld talið ódengilegt að stanga dauða menn með spjótum. Það kemur mér í hug stundum þegar húm Lára Hanna vinkona mín í netheimum og stórmeistari í umhirðu pólitískra ummæla á hrifningarstundum heiðrar þekkta sjálfstæðismenn með því að rifja upp ónotalegar ályktanir þeirra - ónotalegar svona eftirá skoðað.
Ég held að það mætti jafnvel stundum flokka undir einelti þegar hún rifjar upp skot úr viðtölum í Kastljósi og fréttatengdum þáttum þar sem Hannes H. Og Davíð Oddsson taka flugið í pólitíksum apakattarleikjum sem og þeir blátt áfram jarða sjálfa sig með vísan til þess sem urðu lyktir þeirra ályktana sem þeir boðuðu þjóð sinni.
Ég er ekki viss um að þú hafir gefið þér tíma! til að hlusta á þessi innskot hennar L.H. en líklega hefðir þú nú bara gott af því.
Manstu nokkuð eftir þrasi um fjölmiðlafrumverp svonefnt sem Davíð Oddsson hrifsaði út úr nefnd í bræði sinni og lét Alþingi afgreiða í hvelli sem lög?
Auðvitað manstu það og jafnframt að Ólafur Ragnar synjaði staðfestingu laganna og allt lenti í bölvuðu ani svo sjálfstæðismenn brugðu á það ráð að brjóta stjórnarskrá og sleppa því að leggja lögin fram í þjóðaratkvæðagreiðslu. Man ég það ekki rétt að Jón Steinar Gunnlaugsson hafi ritað grein um þetta mál í blað Flokksins og staðhæft að forsetinn gæti ekki synjað þessum lögum vegna þess að stjórnarskráin geymdi engar heimildir til þess? Kannski misminni -og þó. Þetta fékk góðan hljómgrunn hjá nokkrum góðum sjálfstæðismönnum úr alþýðustétt, bændum, prjónakonum og torfristumönnum sem sögðust aldrei hefðu trúað því að forseti Íslands væri svo skyni skroppinn að telja sig sjá synjunarheimild á lögum í stjórnarskrá. Þetta fólk vorkenndi forsetanum og vildi senda hann til læknis.
Það er stundum ástæðulaust að leggjast í efnislega gagnrýni á pólitískar ályktanir fólks Gunnar minn.
Stundum eru þessar ályktanir bornar fram í ungæðingslegri fljótfærni þannig að það væri beinlínis ljótt.
Þess vegna finnst mér stundum þessi árátta hennar Láru Hönnu vinkonu minnar að vega að sjálfstæðismönnunum umræddu með þeirra eigin orðum - bera vott um enhvern skort á feminisku og kærleiksríku hugarfari hjá henni.
Árni Gunnarsson, 13.10.2012 kl. 15:27
Það segir hvergi í stjórnarskránni að bannað sé að draga lagafrumvörp til baka. Það hefur hins vegar komið berlega í ljós að full þörf var á þessum fjölmiðlalögum, ef ekki nákvæmlega eins og í frumvarpinu, þá mjög keimlík. Slík lög verða sett fyrr eða síðar.
Gunnar Th. Gunnarsson, 13.10.2012 kl. 17:08
Stjórnarsráin mælir fyrir um þjóðaratkvæðagreiðslu eftir að forseti synjar lögum staðfestingu. Þetta veistu mætavel.
Er einhver ástæða til að í stjórnarskrá séu einhverjar þulur um að banna aðrar leiðir en þær sem mælt er afdráttarlaust fyrir um að skuli farnar?
Það yrði undarlegt plagg og lítils metnaðar.
Árni Gunnarsson, 13.10.2012 kl. 19:49
Hvort þörf var á fjölmiðlalögum skipti ekki máli. Þörfin ein og sér breytir ekki lögum né stjórnarskrá. Stjórnarskrá er ekki geðþóttaplagg þótt Davíð Oddssyni og Halldóri Ásgrímssyni hafi sýnst svo vera í einhliða ákvörðun þeirra um stuðning við stríð.
Árni Gunnarsson, 13.10.2012 kl. 19:54
Árni:það var pínlegt að hlusta á Þorvald Gilfasson útlista hvað hann teldi að þjóðinni bæri að gera í kastljósi sjónvarpsins, umræddur Þorvaldur varð stjórnlagaráði þar til háðungar og fátt annað.
Það var hinsvegar skemmtilegt að fylgjast með Ómari Ragnarsinni segja fyrstur manna eitthvað af viti um þessa væntanlegu Þjóðarskoðanakönnun, Ómar benti þar á það augljósa sem er að men geta verið ósammála einni spurningu en sammála annarri og eiga því að taka afstöðu.
Mér hugnast ekki margt sem lagt er til að breitt verði, og finnst að öfgar hafi fengið að ráða um of, en mörgu má breyta og á því er þörf, en það má ekki gerast með því ofbeldi sem Þorvaldur Gilfasson hefur greinilega getað beitt innan ráðsins.
Magnús Jónsson, 14.10.2012 kl. 00:26
Þorvaldur Gylfason kúgar ekki til hlýðni fólk eins og Ara Teitsson, Örn Bárð Jónsson, og Katrínu Fjeldsted, svo einhverjir séu nefndir.
Árni Gunnarsson, 14.10.2012 kl. 10:01
Njörður Njarðvík vakti upp hugmyndina um nyja stjornarskra úr dái eftir hrun. Hættið þessu bulli um Þorvald Gylfason og farið bara sjálf að kynna ykkur frumheimildir. Ég mun segja já.
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 14.10.2012 kl. 12:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.