Fegurð landsins

Eyddi kvöldinu í að skoða myndirnar hans Kjartans Péturs Sigurðssonar hérna á blogginu. Magnað hvað við eigum marga færa ljósmyndara á Íslandi.

Ætli nokkurt land í víðri veröld eigi önnur eins myndsvið og Ísland? Jafn stórbrotna fegurð í öllum andstæðunum?

Maður verður agndofa, já bergnuminn af því einu að sjá þetta land í svipmyndum ljósmyndarans.

Allt í einu blasti við Kárahnjúkasvæðið og þó aðeins hluti þess. Jafnframt stórvirku vinnuvélarnar sem stjórnvöld okkar buðu þetta land til nauðgunar. Rétt eins og innrásarherjum er í þakklætisskyni gefið veiðileyfi á konur í borgum sem sigraðar hafa verið.

Þessi myndbrot skullu á mér eins og hamslaust þrumuveður á sólskinsdegi.

Hvenær ætli við sjáum sóma okkar í að hætta þessum djöfulskap gegn landinu okkar?

Þurfum að skapa framlegð, auka útflutningsverðmæti, atvinna, þjóðartekjur. Erum að fórna litlu fyrir mikið!!!!!

Hversu mikið frumkvæði hefði mátt leysa úr læðingi hjá vel menntaðri þjóð ef allir milljarðarnir sem lagðir voru til rannsókna og byggingar Kárahnjúkavirkjunar hefðu verið boðnir til nýsköpunar á landsbyggðinni?

Hversu margar ræður hafa verið fluttar á hátíðastundum þar sem boðskapurinn hefur verið sá að menntun þjóðarinnar sé besta fjárfestingin?

Ég hlýt að leggja ofurkapp á að sem flestir viti að þessi virkjun og stóriðjubröltið í kringum hana er  í fulla óþökk mína.

Ég verð að láta afkomendur mína vita það fyrst og fremst. Ég er nefnilega svo hræddur um að ef það verður ekki á hreinu þá muni þeir eftir einhverja áratugi grafa skrokkinn á mér upp og misþyrma honum.

Ég ætla að minnsta kosti að vona að sú mannræna verði í einhverjum þeirra. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur Þórðarson

Ef menn skoða vel má sjá að höfuðborgarsvæðið er illa skipulagt fyrir fólk. Það er vel skipulagt fyrir blikkbeljur og einhverjir græða sko á því. Skeifan til að mynda er ekki gerð fyrir fólk, heldur bíla. Hvar er fólkið? Shopping, bílíng og parkering.

Er til fólk úti á götu sem er að lesa og diskútera blöð og innihald bóka?

Labbaði í síðustu viku smá spotta í Reykjavík með barnakerru (1-2km) Það var hryllileg ferð, mikið gert til að sporna við gangandi vegfarendum þó sumt sé gott. Bílar svínandi fyrir mann eins og maður sé einhver róni sem best sé geymdur undir spólandi bíldekki. En það sem verra er, og eins og myndir Péturs sýna, er að borgin er ámóta auðn og þessar hryllingsmyndir af kaldranalegum Amerísku stórborgum þar sem ofskalaðar byggingar sitja í hafsjó bílastæða. Og þetta er "hannað" svona árið 2000 eða hvenær það er.

Þá er ég ekki lengi að fatta hver stærstu mistök Íslandssögunnar eru og þau eru ekki á Austurlandi.

Ólafur Þórðarson, 22.7.2007 kl. 00:24

2 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Já flugferðir með Kjartani eru gefandi. Finnst verra ef afkomendur þínir fara að sparka í hræið og mæli eindregið með því að þú gefir út opinbera yfirlýsingu um að þú sért ekki einn af þeim sem nauðga landinu fyrir erlenda auðhringi. Ég er að spá í að fá mér svoleiðis aflátsbréf líka. Varðandi athugasemdina hér að ofan er ég gersamlega ósammála. Ég er sannfærður um að þeir sem sjái um að hanna samgöngur í höfuðborginni séu annað hvort hámenntaðir sultugerðarmenn eða grínistar. Og þá ekki endilega svo hámenntaðir.

Ævar Rafn Kjartansson, 23.7.2007 kl. 00:12

3 Smámynd: Jóhann Elíasson

Ég þarf að finna einhverja til að "klukka" Þú verður fyrir barðinu á mér.  Góða helgi.

Jóhann Elíasson, 29.7.2007 kl. 00:07

4 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það er auðvitað matsatriði hjá hverjum og einum hvort verið sé að fórna of miklu fyrir of lítið. Ég er ekki þeirrar skoðunnar vegna Kárahnjúka, eins og reyndar meirihluti þjóðarinnar. Sagan mun e.t.v. dæma síðar og ég hefði frekar áhyggjur sem verndunarsinni af þeim dómi en hinna sem vilja virkja fólkið með aflinu sem við eigum í náttúrunni. Það sem fer mest fyrir brjóstið á mér eru gífuryrðin og ýkjurnar í máli and-virkjunarsinna.

Gunnar Th. Gunnarsson, 31.7.2007 kl. 00:31

5 Smámynd: Halla Rut

Ísland án efa eitt fallegasta land i heimi. Því víðar sem ég kem því betur sé ég hve marglitt landslag Íslands er stórkostlegt og einstakt. Mér finnst hinsvegar framkvæmdir og mannvirki líka stórkostleg. Að sjá hvað maðurinn er magnaður. Að sjá hvað maðurinn getur gert með hugviti sínu er magnað.

Ég leigði mér sumarbússtað eina helgina í Hvalfirði og fannst fjörðurinn fagur. Hafði einnig útsýni yfir Grundartanga og fannst heillandi að sjá mannvirkið í náttúrunni. Þarna var framleiðsla, atvinnusköpun og sýn á hve maðurinn er megnugur. Leið vel í pottinum með refsi-skattað rauðvin sem keypt var í sérverslun ríkisins og horfði yfir náttúruna og kraft mannkynsins.

Halla Rut , 2.8.2007 kl. 02:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband