Vanmetin frétt

Frá því var skýrt að Ólafur Magnússon framkvæmdastjóri Mjólku væri að kanna leiðir til að kaupa Mjólkusamlagið á Egilsstöðum. Ólafur hefur stýrt þessu fyrirtæki fjölskyldunnar með ævintýralegum árangri og vöxtur þess aukist jafnt og þétt. Þarna hefur hann orðið að berjast við afurðasölukerfi sem nýtur pólitískrar verndar og opinberra styrkja. Það hefur oft vakið undrun mína hversu litla umföllun þetta framtak hefur vakið hjá fjölmiðlum okkar. Auðvitað er of snemmt að spá fyrir um afdrif þessara metnaðarfullu áforma þó auðvitað megi það kallast kraftaverk að fyrirtækið skuli hafa náð að þróast af þeim þrótti sem raun ber vitni.

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að fátt yrði bændastéttinni til meiri hagsbóta en að stokka þetta opinbera kerfi upp. það ætti að gera með því að fjölga afurðastöðvum fremur en fækka. Með því að gefa bændum meira frjálsræði til að versla með eigin afurðir yrðu þeir meira meðvitaðir um eigin ábyrgð gagnvart markaðskröfum. Og til hvers er að auka menntun bænda ef hún nýtist einvörðungu til að bregðast við skipunum frá ríkistryggðu einokunarfyrirtæki?

Nú bíð ég eftir að stórhuga og framsýnir sauðfjárbændur krefjist þess að fá leyfi til að reka sláturhús af hæfilegri stærð í hinum dreifðu byggðum og keppast um innanlandsmarkaðinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Hagræðing hefur nú yfirleitt falist í fækkun milliliða og stækkun framleiðenda. En svo er annað mál hvort það skili sér til neytenda.

Gunnar Th. Gunnarsson, 23.9.2007 kl. 11:44

2 Smámynd: Árni Gunnarsson

Hagræðing og hagvöxtur eru skiljanleg hugtök Gunnar. Hvorugt felur þó í sér hinn Eina Sannleik. Þetta þarf ég ekki að útskýra fyrir þér svo vel sem ég hef kynnst þér á þessum vettvangi. Sægreifar svonefndir hafa borið fyrir sig rök til hagræðingar við samþjöppun aflaheimilda. Allur kvóti á einni hendi=hagræðing samkvæmt ítrustu skilgreiningu.

Lífsval kaupir allar bújarðir á Íslandi og rekur á þeim verksmiðjubúskap með fullkomnum tæknibúnaði og nægjusömum innflytjendum þar sem hagkvæmt er í tilliti nándar við bestu markaðssvæði. Aðrar jarðir leigir eigandinn nýríkum hestamönnum og "náttúruunnendum" sem vilja hafa næði. Þetta er áreiðanlega hagræðing. Spurningin er bara sú hvort samfélag okkar og mannlífið í almennum skilningi eigi að vera í gíslingu hjá hagræðingunni svonefndri.    

Árni Gunnarsson, 23.9.2007 kl. 16:30

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég held að vinnuþreyttur og skuldum vafinn almúginn horfi ekki endilega á landbúnað eða sjávarútveg, rómantískum augum. Vissulega vilja flestir á fallegum degi sjá hamingjusaman einyrkjan út á túni og trillukarlinn koma að landi með ýsuna, en þegar fólk fer í búðina úr borgartraffíkinni, þá er það ekki tilbúið að borga meira fyrir mjólkina og dilkakjötið út á þá sýn.

Gunnar Th. Gunnarsson, 23.9.2007 kl. 22:57

4 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

...og ýsuna

Gunnar Th. Gunnarsson, 23.9.2007 kl. 22:58

5 Smámynd: Árni Gunnarsson

Mér er það sönn ánægja að geta upplýst þig um að þarna hefurðu rangt fyrir þér. Hann stækkar ört sá hópur neytenda sem lætur sig varða um uppruna matvæla og þetta er alþjóðleg þróun.

Vinnuþreyttur og skuldum vafinn almúginn er ekki metnaðarfull framtíðarsýn, en því miður draumsýn markaðshyggjunnar.

Það styttist óðum í að ég verði kallaður kommúnisti. Og það er vegna þess að ég hef fyrir löngu áttað mig á því að hrá markaðshyggjan er óþverri rétt eins og kommúnisminn hrár. Blanda af hvorutveggja er lausnin. 

Árni Gunnarsson, 24.9.2007 kl. 08:49

6 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þarna ertu væntanlega að tala um tískubóluna "lífrænt ræktaðar og genamengunarlausar afurðir". Ég segi tískubólur vegna þess að þegar það verður endanlega sannað að þessar afurðir eru í engu betri en aðrar, (fylgjendum þessa ræktunarmáta hefur reyndar ekki tekist að sanna ágæti lífrænt rætaðra afurða umfram hefðbundinna) aðeins dýrari í framleiðslu, þá munu þær að mestu líða undir lok nema hjá litlum hópi sérvitringa. Ef neytendur fá ódýra og eiturefnafría matvöru, þá verður hún fyrir valinu.

Gunnar Th. Gunnarsson, 24.9.2007 kl. 14:24

7 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ef kenna á Framsóknarflokknum um allt sem hefur miður farið í þjóðfélaginu, er þá ekki rétt að þakka honum fyrir að við séum ein ríkasta þjóð veraldar? Eða er það stjórnarandstöðunni sl. 16 ár að þakka?

Gunnar Th. Gunnarsson, 24.9.2007 kl. 22:24

8 Smámynd: Árni Gunnarsson

Það vill svo til Erlingur að nýlega frétti ég af samskonar máli og þú segir frá og snerist um tilboð í allt ærkjöt í eigu Sambandsins. Því tilboði var drepið á dreif án fullgildra skýringa.

Hvað allar fullyrðingar um ríkustu þjóðir í heimi áhrærir finnst mér undarleg þversögn að samfélagsleg vandamál virðast fremur hafa aukist en hitt á okkar ágæta landi.

Ein ríkasta þjóð heimsins getur ekki mannað stöður á sjúkrahúsum og hinum ýmsu félagslegu stofnunum. Hún virðist ekki hafa efni á að byggja fangelsi fyrir ört vaxandi fjölda afbrotamanna. Ræður ekki við að manna löggæslu svo vansalaust geti kallast. Börn með afbrigðilega sjúkdóma eiga ekki athvarf í eigin landi. Svona mætti lengi telja. Fremst í forgangsröð samfélagslegra fjárveitinga virðist vera barnalegar og rándýrar stöður í utanríkisþjónustu auk annara félagslegra ölmusuráðninga handa ónýtum embættismönnum. Um þetta er varla deilt í samfélaginu enda eiga flestir stjórnmálaflokkar þarna jafnan hlut. 

Árni Gunnarsson, 26.9.2007 kl. 22:11

9 Smámynd: Helga Guðrún Eiríksdóttir

-Hverjum er að þakka og hverjum er að kenna? Vildi að ég hefði það á hreinu.

Helga Guðrún Eiríksdóttir, 28.9.2007 kl. 05:01

10 Smámynd: Steingrímur Helgason

Lítur ekki hver á niðurstöður þess út frá sínum ranni, eiginlega, Helga Guðrún?

Ég andmæli ekki Árna mér eldri þegar að hann hefur rétt fyrir sér.  Ég er líka það úngur púngur ennþá að ég hef ekki ennþá séð hann hafa eitthvað rangt fyrir sér.

S.

Steingrímur Helgason, 29.9.2007 kl. 00:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband