Afreksmenn og undirmálsfólk

Í dag sameinast íslenska þjóðin í aðdáun og stolti vegna frábærra afreksmanna okkar í undanúrslitum handbolta á Ólympíuleikunum. Nú eru silfurverðlaunin í höfn og gullið innan seilingar á góðum sunnudagsmorgni. Aldrei höfum við átt jafn glæsilegan hóp afreksmanna á sviði íþrótta sem nú og hinn fjölmenni íþróttaheimur stendur agndofa yfir árangri örþjóðar í elstu og metnaðarfyllstu keppni afreksmanna á sviði íþrótta. Öll íslenska þjóðin fylgist með, að sjálfsögðu og þjóðarstoltið blossar upp. Forsetahjónin á Bessastöðum eru á staðnum og leyfa sér að láta tilfinningarnar flæða. Dorrit segir að Ísland sé ekki lítið land, það sé stórasta landið og hún leyfir sér að fagna eins og lítil telpa, nett, einlæg og yndislegur fulltrúi þess nýja föðurlands sem hún flæddi inn í eins og hlýr vorblær. Og maður leyfir sér að spyrja:

Hvernig stendur á því að þessi þjóð er nýbúin að horfa upp á ómerkilegar hrókeringar snautlegra pólitíkusa í Ráðhúsi Reykjavíkur; höfuðborgar ættlands þessara glæsilegu afreksmanna? Menntamálaráðherra og sitjandi forsætisráðherra þegar heimkomu afreksmanna okkar verður fagnað, segir í sjónvarpsviðtali í kvöld að borgarstjóratign Hönnu Birnu standi henni næst árangri handboltaliðs okkar í huga sem fagnaðarefni! Að þessi þjóð hefur mátt þola það að horfa upp á landsfeður sína verða henni til smánar með pólitískri heimsku og undirlægjuhætti á alþjóðavettvangi þráfaldlega? Ég meina: Eigum við það barasta skilið að heyra íslenska þjóðsönginn leikinn á Ólympíuleikunum þegar við reynumst vera svona guðs volað bakland afburðamanna?

Í alvöru! Af hverju kjósum við ekki alvörumenn til að drýgja okkur örlög í einu auðugasta og besta landi heimsins? Af hverju er Guðmundur Guðmundsson ekki forsætisráðherra á Íslandi og Ólafur Stefánsson borgarstjóri höfuðborgarinnar Reykjavíkur með sína drengilegu félaga í lykilstöðum? 

Við íslenskir kjósendur fögnum glæsilegum afreksmönnum, þeir eru strákarnir okkar en við kusum þá ekki. Þeir sönnuðu sig og þeir unnu sig upp í þá stöðu sem við erum stolt af í dag. Það er þeirra gæfa og okkar að þeir lentu ekki undir gáfnaprófi okkar á kjördegi.

Nú er það einlæg von mín að pólitíkusar okkar haldi sig heima og taki ekki til máls á vettvangi þjóða fyrr en strákarnir okkar eru búnir að taka við verðskulduðum viðurkenningum.

Einu gildir þó forsætisráðherra okkar fari áður í opinbera heimsókn því hann mun ekki verða okkur til mikillar niðurlægingar. Til þess er hann of, ja- eiginlega allslaus. 

Ég bið íslenska handboltalandsliðið afsökunar af alhug fyrir að hafa niðurlægt það í svona ofboðslega óverðskuldugum samanburði við eitt það neðsta sem við þekkjum með okkar þjóð í dag.


mbl.is Forsætisráðherra: Mikið afrek og glæsilegt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steingrímur Helgason

Geðstirða gamalmennið er vísazt vísazt....

Steingrímur Helgason, 22.8.2008 kl. 22:53

2 Smámynd: Kristján Pétursson

Þegar ungir sem aldnir  sameinast og segja: " ÁFRAM íSLAND " faðmast og gráta gleðitárum þá er gaman að vera Íslendingur.Þá var ánægjulegt að sjá forsetahjónin mætt og gleðjast innilega með strákunum okkar og STÓRASTA LANDIÐ hennar Dorrit hitti okkar í hjartastað.

Þakka þér ágæta grein Árni minnn,þú kannt að orða vel og lýsa atvikum.

Kristján Pétursson, 22.8.2008 kl. 22:53

3 Smámynd: Rannveig H

Seigi það enn og aftur,alltaf bestur.Flott grein eins og þér einum er lagið.

Rannveig H, 23.8.2008 kl. 00:01

4 Smámynd: Halla Rut

Gjörsamlega yndisleg skrif hjá þér Árni.

Halla Rut , 23.8.2008 kl. 20:01

5 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Frábær grein Árni, aldeilis frábær, hvergi veikur blettur. Þarna er svo margt sem heyrir hreinlega til heilbrigðri skynsemi, en pólitíkin á Íslandi verður ekki útlistuð með neinni skynsemi, það er klárt.

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 25.8.2008 kl. 12:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband