...og étnir eru í útlöndum

Sala á lifandi sauðum til Englands var íslenskum bændum mikil fjárhagsleg lyftistöng eftir miðbik nítjándu aldar. Fyrir þessum útflutningi stóð enskur eða skoskur kaupsýslumaður Coghill að nafni. Hann ferðaðist um landið, keypti sauði og borgaði út í hönd með gulli. Þetta var nýr heimur fyrir bændur sem margir auðguðust vel á þessum viðskiptum og ekki skemmdi að Coghill var alþýðlegur og samdi sig vel að íslenskum þjóðháttum. Eru skráðar af því margar sögur og sumar skoplegar. Þessi útlendingur lærði aldrei tungumál okkar til hlítar utan blótsyrði sem hann beitti óspart. Prest nokkurn sem hann mundi aldrei nafnið á kallaði Coghill "séra andskota!" En nóg um þetta.

Í nýjasta Bændablaðinu las ég frétt um að Landssamband sauðfjáreigenda væru nú að kanna leiðir til að senda lifandi lömb úr landi til slátrunar. Ástæða þess er einfaldlega sú að hagræðing sem heitið var að myndi nást með fækkun sláturhúsa og flutningi á sláturfé mörg hundruð kílómetra til hinna stóru og fullkomnu húsa, hefur einfaldlega ekki skilað sér í lækkun sláturkostnaðar.

Lítil sláturhús þar sem bændur og skyldulið þeirra vann við slátrun á haustin og drýgði tekjur sínar jafnframt voru lögð niður. Ástæðan var sögð vera sú að marglofaðar reglugerðir EES meinuðu slíka stafsemi sem uppfyllti ekki alþjóðlega staðla um búnað. Nú er það svo að minnstur hluti afurðanna er fluttur úr landi og hin fullkomnu sláturhús okkar gætu á nokkrum dögum uppfyllt þann kvóta. Málið var hinsvegar ekki svona einfalt. Það þurfti að hygla pólitískum vildarvinum og þess vegna afréð Guðni Ágústsson landnúnaðarráðherra að ganga milli bols og höfuðs á þessari atvinnustarfsemi bændafólksins í sauðfjárhéruðum landsins. Nú er sláturfé ekið allt austan frá Breiðdalsvík og vestan frá Ísafjarðardjúpi til Sauðárkróks. Og til flutninganna eru notaðir þriggja hæða vörubílar með grindum. Á þessum bílum hossast sláturlömbin allt að 700 km. leið og svo undrast neytendur þegar þeir fara að gófla í sig ólseigu stresskjötinu. "Besta lambakjöt í heimi" er orðið að háðsyrði svo auka megi veltu Kaupfélags Skagfirðinga til lofs og dýrðar Þórófi Gíslasyni sem er auðvitað meðlimur S hópsins svonefnda. Guðni Ágústsson fer nú um landið í nafni byggðastefnu Framsóknarflokksins. Sú byggðastefna sem flokkur hans bar ábyrgð á um 12 ára skeið sýnir sig nú í fiskimannaþorpum án veiðiheimilda og kvótasettum landbúnaði. Gegn hvaða ástandi hyggst Guðni Ágústsson skera sína herör?     


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Skemmtilegur pistill hjá þér Árni. Ég er fullkomlega sammála þér með að það var glapræði að leggja af litlu sláturhúsin. Öll hagræðingarsjónarmið eru löngu orðin súr í munni Guðna og annarra sem reyna að halda þessari stefnu áfram.

Svanur Gísli Þorkelsson, 12.9.2008 kl. 01:05

2 Smámynd: proletariat

Góður

Hvort heitir þetta forræðishyggja eða fasismi?

proletariat, 13.9.2008 kl. 01:13

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

Svanur Gísli: Það var ekki bara glapræði heldur beinlínis glæpur. Það var efnahagslegt slys og samfélagslegt stórslys.

proletarariat: Auðvitað fasismi forræðishyggjunnar. Ég held að öllum spekingum okkar hafi yfirsést það sem við blasir. Semsagt það að vandi þjóðarinnar í dag stafar af uppsafnaðri heimsku margra kynslóða sem fundið hefur sér farveg í einni kynslóð stjórnmálamanna.

Árni Gunnarsson, 13.9.2008 kl. 16:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband