Stöðugleikinn og stóriðjan

Nú er lokið fyrsta fundi fulltrúa ríkisstjórnarinnar og "aðila vinnumarkaðarins!" Samkvæmt fyrstu fréttum stendur hnífurinn upp að hjöltum í kýrgreyinu sem ævinlega er fyrsta fórnarlambið þegar ágreiningur verður milli fólks. Og nú er "stöðugleikasáttmálinn" í uppnámi. Af fyrstu fréttum sýnist mér að viðmælendur ríkisstjórnarinnar hafi tugtað hana til vegna þess hve lengi hún hefur þumbast við með afhendingu orkunnar til álvera í Helguvík og á Bakka. Þetta er auðvitað ekki boðleg staða. Einhverjir svonefndir vísindamenn hafa leitt að því rök að orka sé reyndar ekki endilega tiltæk en það sýnist nú okkur stóriðjusinnum aukaatriði og ekki boðleg rök í svo þýðingarmiklu máli: Vilji er allt sem þarf. Það er auðvitað ekki á bætandi það klúður ríkisstjórnarinnar að skuldsetja þessa þjóð upp fyrir haus vegna einhverrar vitleysu sem hún greinilega kom þjóðinni í eins og öllum er orðið ljóst eftir snarpa úttekt sjálfstæðismanna á klúðrinu. En það er engin afsökun til fyrir því að neita vinum okkar í útlandinu um orku. Við eigum næga andskotans orku ef við nennum bara að hella okkur í að sækja hana-púnktur. Við eigum Gullfoss, Dettifoss, Héraðsvötn, Hvítá, Goðafoss, helling af hita á Geysissvæðinu svo eitthvað sé nefnt. Við eigum glás af orku, allt annað er lygi. Og ekki lifum við á fjallagrösum eins og sumir umhverfisfasistar heimta að við étum að minnsta einu sinni á dag. Afkomendur okkar geta svosem lifað á blessuðum fjallagrösunum ef þeir fara ekki að bruðla með þá auðlind og láta ekki stjórnast af fjandans græðginni.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún Þóra Hjaltadóttir

Já það er þetta með viljann. Ég held að þessi Rískisstjórn sé ekki eins kröftug og við viljum hafa hana. Vantar töluvert upp á það.

Guðrún Þóra Hjaltadóttir, 25.10.2009 kl. 18:37

2 identicon

Blessuð beljan stungin er, stynur varla lengur, vonandi enn eitt orkuver, vænkast þjóðarfengur. Mikið rétt kæri frændi, best að virkja allt draslið með det samme, Orkan er ekkert að fara frá okkur, að skapa ca. 200 störf í illa launuðum stóriðjustörfum með gríðarlegum kostnaði er ekki til neins nema að skemmta skrattanum. Íslenskt samfélag hefur alla tíð einkennst af safnarahætti, farðu og fiskaðu eins og þú getur meðan fiskurinn gengur, enginn planar fram í tímann, allt slíkt er þrugl, skýrasta dæmið eru ónotuð refa og minnkahús út um allt land, þjóðin á ekkert betra skilið, rusl inn og út. 

Kýrmann Kálfsson (IP-tala skráð) 25.10.2009 kl. 19:06

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

Guðrún Þóra. Nú hefur mér orðið hált á kaldhæðninni kæra vinkona. Ekki í fyrsta skiptið.

Árni Gunnarsson, 25.10.2009 kl. 19:48

4 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Ríkisstjórnin er heybrók. Það eina sem sjálfstæðismenn geta sameinast um er álver. Forystan vill alls ekki í stjórn því þá myndu þeir klofna út af EB.

Sigurður Þórðarson, 25.10.2009 kl. 22:03

5 Smámynd: Magnús Jónsson

Árni: ertu ekki að gleyma Hvítá í Borgarfyrði?, bara stífla við Borgarnes og bingó málið leist ? :-), svo mætti setja upp vindrafstöð fyrir framan ræðupúltið á Alþingi, ætti að duga svona eins og hálfu álveri miðað við orkuna sem losnar úr læðingi þar, þegar men eru ósamála um að vera samála því sem þeir voru áður sammála um að vera ósammála um.......

Magnús Jónsson, 25.10.2009 kl. 22:19

6 Smámynd: Jens Guð

  Þetta er kröftug úttekt á stöðunni.

Jens Guð, 25.10.2009 kl. 22:40

7 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Æ,  ég er ekki nógu klár í þessu.  Er logandi hrædd við að raska miklu í náttúrunni og spurning hvort að of miklu er til kostað fyrir of litla uppskeru? Er ekkert á milli þess að vera með stóriðju og svo fjallagrasatínslu?

Jóhanna Magnúsdóttir, 25.10.2009 kl. 23:18

8 Smámynd: Árni Gunnarsson

Magnús: Ég hafna alveg þessum tillögum þínum og þó sérstaklega því að virkja vindinn úr alþingismönnum. Vð stóriðjusinnar höfum ævinlega tekið fram að við erum miklir umhverfissinnar. Við viljum bara nýta orkuna "innan skynsamlegra marka!"

Árni Gunnarsson, 25.10.2009 kl. 23:22

9 Smámynd: Árni Gunnarsson

Jóhanna. þetta er nú fyrst og fremst spurningin um hvort við eigum þessa orku í virkjanlegu formi á þeim svæðum sem stefnt er á. Og svarið við því er ekki innan seilingar á næstu mánuðum.

Árni Gunnarsson, 25.10.2009 kl. 23:27

10 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Auðvitað eigum við að virkja hverja lækjarsprænu á landinu og ekki bara það !  Við setjum að sjálfsögðu ljós á allar virkjanirnar og seljum erlendum ferðamönnum aðgang að ljósadýrðinni.

Himneskt !

Anna Einarsdóttir, 25.10.2009 kl. 23:38

11 identicon

Heill og sæll Árni; sem og, þið önnur, hér á síðu !

Burt séð; frá frekari Álvera væðingu, gott fólk.

Persónulega; er ég hlynntur aukinni vinnzlu, á Silfri og Kopar, í náinni samvinnu við þá stóru framleiðendur þeirra góðmálma; Rússa - Suður- Afríkumenn og Chilemenn, svo taldir séu. Að vísu; er dimmur reykur, af Silfur bræðslunni, en venst auðveldlega, gott fólk - fyrir utan það; að vafasamt má telja, að þurfi að kosta til mikilli orkuöflun, til þeirrar málmvinnzlu, svo nokkru næmi.

Minni ykkur á; vannýtta sjávarfalla orkuna; eins og í Borgarfirði - Hrauns  firði - Kolgrafafirði og Gilsfirði, svo nefndir séu, til frekari umfjöllunar.

Og; að ógleymdri þungri undiröldunni, í Reynisfjörunni í hinum forna Dyrhóla hreppi, einnig.

Með beztu kveðjum; úr Árnesþingi, sem jafnan /

Óskar Helgi Helgason

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 25.10.2009 kl. 23:57

12 Smámynd: Árni Gunnarsson

Anna mín. Það væri mikið umhverfisafrek og næstu kynslóðum þessa lands dýrmæt gjöf ef þér tækist að koma ofurlítilli ljóstýru inn í kollinn á þessu kolruglaða fólki. Þú myndir ræna Yoko Ono frægðinni af friðarsúlunni í Viðey.

Stundum held ég þegar ég heyri í þessu fólki og sé skrifin þess hér á blogginu að það hljóti að vera frávita af ofdrykkju.

Árni Gunnarsson, 26.10.2009 kl. 00:13

13 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

"Einhverjir svonefndir vísindamenn hafa leitt að því rök að orka sé reyndar ekki endilega tiltæk..."

Eru "svonefndir vísindamenn" bara úr röðum þeirra sem vilja ekki virkja?

Gunnar Th. Gunnarsson, 28.10.2009 kl. 16:23

14 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Svo er þarna einhver "Kýrmann" sem ekki þorir að auðkenna sig frekar, nema að tengja sig frændsemi við blogghöfund. Hann heldur því fram að: "...að skapa ca. 200 störf í illa launuðum stóriðjustörfum".

Austfirðir var láglaunasvæði dauðans, fyrir komu álvers Alcoa á Reyðarfjörð. Laun í álverinu þykja góð, auk þess sem samkeppni um starfsfólk leiddi af sér betur borguð störf í öðrum geirum atvinnulífsins á svæðinu.

Gunnar Th. Gunnarsson, 28.10.2009 kl. 16:32

15 Smámynd: Auðun Gíslason

Ætli endirinn verði ekki sá á orku"vanda" okkar Íslendinga, að við reisum okkur einsog eitt eða tvö kjarnorkuver.  Tilvalið að reisa annað á flugvallarsvæðinu, þegar Gísli Marteinn hefur komið því í verk að flytja flugvöllinn (minnir á útvarp Matthildi, þegar Reykjavíkurtjörn var flutt á Árbæjarsafnið í "beinni" útsendingu).  Við gætum  eflaust fengið aðstoð Írans og Norður-Koreu.  Alþjóðasamfélagið lítur okkur ekki ólíkum augum og þessi tvö ríki.

Hversvegna fáum við ekki álver í Reykajvík?  Hvers eigum við að gjalda?

Hvernig færi að fara af stað með undirskriftalista fyrir stuðningsmenn álvers í Reykjavík?  Hvað eru Gaflarar og Útnesjamenn að vilja uppá dekk?

Álver í Reykajvík!  Orkuna á Hellisheiði heim!  OR fyrir Reykvíkinga!

Auðun Gíslason, 28.10.2009 kl. 16:57

16 Smámynd: Auðun Gíslason

Gunnar!  Þeir vöndust því á Austurlandi á síldarárunum að arðurinn af vinnu þeirra var fluttur burtu.  Aðeins vinnulaunin og aðstöðugjaldið varð eftir á staðnum.  Svo klikkaði síldin og eftir sátu Austfirðingar með sárt ennið.  Engin "uppgrip" að hafa í síldinni lengur og ekkert hafði verið byggt upp (nema kannski í Litlu-Moskvu) meðan hún óð hér á miðunum.  Svokallað atvinnulíf var hreinlega ekki til!  Suðurnesjamenn upplifðu svipaða atburði.  Þar var "síldin" amríski herinn.  Og nú situr öll þjóðin nánast í sömu sporum.  Hennar "síld" var svokölluð fjármálastarfsemi.  Og nú er það "síldarævintýri" búið.  Eftir situr þjóðin vegna þess að góðærið var blöff og lítið hafði verið um framleiðslu-kapítalisma!  Nú vilja menn helst reiða sig á álið og orkusöluna.  Ýmislegt bendir til að með "ágengri" orkuvinnslu munum við enn og aftur upplifa hrun á "síldarstofninum".  Vegna þess að "mýtan" um hina óþrjótandi orku er blöff, einsog góðærið, sem var tekiða að láni.  "Ágeng" orkunýting er orkunýting tekin að láni hjá framtíðinni!  Fyrir utan að öll sú orka sem vinna á er ekki til.  Á vef Iðnaðarráðuneytisins má finna skýrslu frá 2006 um mögulega orkunýtingu.  Hún er nánast samhljóða niðurstöðu Sigmundar Einarssonar, jarðfræðings. Munurinn á tölum liggur í aukinn orkuvinnslu á Reykjanesi síðan 2006.  Varla hefur þáverandi iðnaðarráðherra ráðið einhverja efasemdamenn um stóriðju til verksins!

Auðun Gíslason, 28.10.2009 kl. 17:19

17 Smámynd: Árni Gunnarsson

Hef engu við orð Auðuns að bæta að svo stöddu. Stóriðjusinnar hafa ekki nema eina sýn á framtíð þjóðarinnar. Spurning um framtíðina þegar orkulindir þrýtur. Þá hellist líklega svartnættið bara yfir þjóðina.

Árni Gunnarsson, 28.10.2009 kl. 20:06

18 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það er ekkert nýtt að rök bíta ekkert á ykkur. Eins og að skvetta vatni á gæs

Gunnar Th. Gunnarsson, 28.10.2009 kl. 22:57

19 Smámynd: Árni Gunnarsson

Stóriðjusinnar eru rökheldir Gunnar minn enda snýst áróður ykkar meira um trúarbrögð. Sértrúarsöfnuði á maður aldrei að skora á hólm. En einhvern hluta af mínum rökleysum sæki ég tíl jarðvísindamannsins Sigmundar Einarssonar og svo orkumálastjóra. Ber þeim ekki saman um það að "umsamin" orka sé langt í frá öll í hendi ennþá?

Árni Gunnarsson, 29.10.2009 kl. 16:40

20 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Eru allir jarðvísindamenn á sömu "skoðun" og Sigmundur Einarsson?

Gunnar Th. Gunnarsson, 29.10.2009 kl. 17:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband