Nú eða aldrei!

Það hefur lengi verið ljóst að sú ríkisstjórn sem nú situr hefur brugðist þeirri skyldu að sameina þessa þjóð. Að minni hyggju var það hennar brýnasta verkefni eftir að hrunstjórn Geirs og Ingibjargar hafði kveikt í samfélaginu heitari elda sundrungar og heiftar en dæmi eru um. Sú ríkisstjórn ríkti í skjóli lyga, afneitunar og valdhroka og sinnti í engu mjög alvarlegum ábendingum um bankahrun með hrikalegri afleiðingum en þjóðinni yrði kleift að rísa undir. Þetta veit öll þjóðin að eru óhrekjanleg sannindi.

Ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms náði þokkalegum meirihluta sem byggðist fyrst og fremst á væntingum um heilindi Steingríms og Vinstri grænna sem höfðu staðið sig með glæsibrag í stjórnarandstöðu og voru með skýr pólitísk markmið. Hvað varð um þau?

Fyrsta verk þessarar stjórnar var að hella bensíni á glæður fyrri elda með því að "setja á ís" allar stefnumótandi ákvarðanir um uppbyggingu atvinnuvega og sparnað í útgjöldum. Skjaldborg um heimilin í landinu var að vísu boðuð af miklum þunga.

En tvö fyrstu mál Alþingis voru stjórnarfrumvörp. Það fyrra var umsókn um aðild að ESB og það síðara að samþykkja greiðslur á kröfum vegna Icesaveútibúa Landsbankans í Hollandi og Bretlandi.

Það mátti öllum ljóst vera að þjóðin var klofin í tvennt í afstöðu til ESB og líklega öllu fleiri andvigir. Það mátti heita ljóst að Icesave krafan yrði að afgreiðast með sátt helst allra flokka ef ekki risu harðar deilur. Það var því fyrirséð þegar á fyrstu dögum þessarar ríkisstjórnar að hún var að leggja í blóðuga styrjöld jafnt inni á Alþingi sem og úti í samfélaginu. Nóg um þetta.

Skjaldborgin um heimilin breyttist í sjaldborg heimilanna um bankana sem höfðu haldið kröfum sínum fram af hörku og ekki einu sinni skeytt um að draga frá kröfum um gengistryggingu þau milljarðahundruð sem erlendir bankar höfðu afskrifað! 

Þjóðin er sundruð, reið og ráðvillt. Þjóðaratkvæðagreiðsla um Icesave-kröfuna er skrípaleikur. En hana verðum við að fá í stöðunni. Kjósendur hafa enga stöðu til að meta hvort:

1. Við munum geta greitt þennan reikning.

2. Hvort okkur ber að greiða hann.

3. Hvað gerist ef við greiðum hann ekki.

Margt fleira er okkur hulið og hver skyldi nú ástæðan vera? Jafnt ríkisstjórn sem stjórnarandstaða er á víxl sökuð um að beita lygi og blekkingum. Svonefndir "virtir" lögspekingar og að sama skapi "virtir hagspekingar tala hver í sína áttina og rífast um málið eins og grimmir hundar um lóðatíkur. Er hægt að ætlast til að þjóðin taki upplýstar ákvarðanir við slíkar aðstæður?

En ríkisstjórnin stendur eða fellur með þessu Icesaveklúðri sem allar ríkisstjórnir frá haustdögum 2008 og þó öllu lengur bera ábyrgð á. Þessi ríkisstjórn verður að falla og það eru slæm tíðindi á marga lund. 

Tilraun þjóðarinnar í þá veru að fá ríkisstjórn sem ynni í sátt við fólkið í landinu mistókst. Því fyrr sem hún tekur afleiðingunum- því betra að minni hyggju. Nú verðum við að fá ríkisstjórn sem skipuð er því hæfasta fólki utan stjórnmálaflokka sem völ er á. 

Það er ekki auðvelt val né einfalt.

Guð blessi Ísland!


mbl.is Vilja þjóðaratkvæði um Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Arnórsson

Frábær pistill! Hvaða erlendu bankar hafa afskrifað íslensk lán?

Óskar Arnórsson, 28.12.2009 kl. 00:36

2 Smámynd: Baldur Hermannsson

Þegar ég opnaði þessa færslu hugsaði ég með mér: "hvern andsk***** er gamli froskurinn að brugga núna?"  En svo las ég færsluna og hún hreyfir við manni. Mér finnst vissar ályktanir æpa á mann eftir lesturinn.

1. Það hefði engin tveggja flokka stjórn náð því að sameina Íslendinga. Reiðin var orðin of hamslaus. Hatrið. Tortryggnin. Stjórn þessara tveggja vinstri flokka, sem eru mjög ólíkir þrátt fyrir vinstri staðsetninguna, gat aldrei orðið annað en veikburða og ósannfærandi. Hún var dæmd til hengingar frá fyrsta degi. (Og þá er ég að tala um stjórnina en ekki Jóhönnu Sigurðardóttur, eins og annar bloggari gerði um daginn.)

2. Það er tilgangslaust að tala um utanþingsstjórn núna. Hún þyrfti að sækja allt til þingsins. Þingið er margklofið og sú stjórn yrði veikari en kvefað strá í köldum vindi.

3. Það voru ferleg mistök að ýta úr vörum þessari ESB-umsókn, en nú er of seint að kippa henni aftur í land. Sá gjörningur hefur klofið þjóðina algerlega að nauðsynjalausu og sá klofningur mun lama hana um ófyrirsjáanlega framtíð.

4. Stjórnin þarf alls ekki að fara frá þótt Icesave-samningurinn falli. Það er ekkert annað mynstur í boði. Vinstri flokkarnir hófu þennan dans og verða að stíga hann til loka - þó svo að þingmennirnir séu berfættir og dansi á glóandi grind.

Framtíðin er ekki björt, hún er kolsvört.

Baldur Hermannsson, 28.12.2009 kl. 00:53

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ég man ekki betur en að þýskur banki hafi afskrifað nokkuð á þriðja hundruð milljarða og það gerðist ekki nýlega. Svo sá ég álíka frétt um japanska banka.

Árni Gunnarsson, 28.12.2009 kl. 00:59

4 identicon

Þetta er alveg hárrétt hjá þér Árni minn - burt með þetta hyski sem fyrst þó við vitum ekkert hvað framtíðin ber með sér.     Þessi stjórn er bara vond, lygin og svikul á allan máta, fölsk og fláráð.   Hún virðist ekki gera sér grein fyrir að við erum ekki öll hálfvitar og sjáum í gegnum lyga- og svikahuluna sem reynt er að breiða yfir misgerðirnar þar sem menn reyna að hylma yfir hver með öðrum!

 Kveðja,

Ragnar Eiríksson

Ragnar Eiriksson (IP-tala skráð) 28.12.2009 kl. 01:07

5 Smámynd: Árni Gunnarsson

Baldur: Fyrsta undirritun Icesaveklúðursin var í boði ríkisstjórnar Geirs og gott ef ekki Seðlabankans líka. Það var ávísun á klúður að fullnusta hliðstæðan samning án aðkomu Sjálfstæðisflokksins sem öllum má ljóst vera að bar nær alla ábyrgð á tilurð kröfunnar. En að gefa frjálshyggjutittunum færi á að ýta klúðrinu til Steingríms J. var auðvitað Íslandsmet í pólitískri heimsku.

En Steingrímur tók við bikarnum frá Geir af miskunnsemi og með bros á vör. Var ekki Geir búinn að biðja Guð að hjálpa þjóðinni,...og sér?

Eina leiðin til að sameina þjóðina er að upplýsa hana um ástand og forðast að ljúga að henni vísvitandi eins og bankarnir og Seðlabankastjóri kepptust við að gera fyrir hrun til að geta hirt af henni spariféð.

Árni Gunnarsson, 28.12.2009 kl. 01:14

6 Smámynd: Guðmundur St Ragnarsson

Takk fyrir góðan pistil Árni. Þetta er ljóta klúðrið allt saman

Guðmundur St Ragnarsson, 28.12.2009 kl. 01:36

7 Smámynd: Baldur Hermannsson

Úr DV þann 10. nóvember 2008:

„Allt getur þetta farið vel, en við erum örugglega við ytri mörk mörk þess sem fært er að búa við til lengri tíma,“ sagði Davíð Oddsson seðlabankastjóri í ræðu á morgunfundi Viðskiptaráðs Íslands 6. nóvember 2007.

Eitt ár er síðan þessi ummæli féllu en í ræðunni varaði Davíð ítrekað við gríðarlegri skuldsetningu þjóðarbúsins. „Útrásaráformum þarf því að setja skynsamleg mörk. Sá óhófsandi sem að nokkru hefur heltekið okkur má ekki ráða ferðinni til framtíðar,“ sagði hann einnig í ræðunni í fyrra. (DV 10. nóv. 2008)

Ég hreinlega skil ekki þessa áráttu ykkar kommanna að bera upp á þennan góða dreng hvers kyns tilhæfulausar sakir. Það er sama hve oft ósannindin eru rekin ofan í ykkur. Næsta dag eruð þið mættir með sömu staðleysurnar.

Baldur Hermannsson, 28.12.2009 kl. 01:46

8 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ragnar, þakka innlitið. Og svona til að rétta þjóðinni sáttarhönd þá varð þessi ríkisstjórn okkar sammála um að leiða fyrrverandi stjórnarformann Fjármálaeftirlitsins og bankaráðmann í Seðlabankanum með meiru til forystu í stjórn eins af ríkisbönkunum! Bara til að sýna okkur forsmekkinn af því hvernig hún hyggst meðhöndla stjórnsýsluglöpin sem drógu okkur niður í svaðið og leiddu yfir okkur háðung, tortryggni og fyrirlitningu alþjóðasamfélagsins. 

Árni Gunnarsson, 28.12.2009 kl. 01:48

9 identicon

Heill og sæll Árni; líka sem og, þið aðrir - hér, á síðu hans !

Um leið; og ég vil þakka þér, fyrir góða tölu - hér að ofan, tek ég eindregið undir það sjónarmið þitt, að fólk utan þings fjandans (Alþingi sjálft; einn mesti skaðvaldur Íslandssögunnar, á lýðveldistímanum), verði fengið að mögulegri stjórnun landsins, eftir holskeflur eyðingar aflanna.

Með beztu kveðjum; til þín - sem annarra skrifara, úr Árnesþingi /

Óskar Helgi Helgason 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 28.12.2009 kl. 02:17

10 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Sæll Árni,

mjög góður pistill. 

Það er með ólíkindum að stjórn með svo afgerandi meirihluta geti klúðrað sínum málum á jafn stuttum tíma. Stjórn sem hafði þjóðina með sér, stjórn sem lofaði því sem þjóðin óskaði. Þessi stjórn hafði allt til að uppræta spillingu, hreinsa til í kerfinu og eltast við þá sem bera ábyrgð á hruninu. Hún misnotaði gullið tækifæri. Hún las rangt í þjóðina.

Allt þetta bara til að komast inn í ESB. Samfylkingin vill bara komast inn í ESB. Fyrir þeim er neyð okkar þeirra tækifæri til að láta draum sinn rætast. Því er þjóðin klofin. Hvar er pólitísk reynsla Steingríms? Hann virðist ekki hafa neina skoðun. Hann virðist bara vera pólitíkus.

Ég taldi að Icesave yrði ekki til þess að fella þessa stjórn. Taldi ekki ástæðu né efni fyrir því. Núna finnst mér þessi stjórn ekki á vetur setjandi, því miður. Því er bara um utanþingsstjórn að ræða og hún verður að koma í kjölfar byltingar sem lætur bíða eftir sér.

Gunnar Skúli Ármannsson, 28.12.2009 kl. 02:50

11 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ég tek sérstaklega undir 2. atriðið hjá Baldri Hermannssyni í innleggi hans kl. 0.53: "Það er tilgangslaust að tala um utanþingsstjórn núna. Hún þyrfti að sækja allt til þingsins. Þingið er margklofið og sú stjórn yrði veikari en kvefað strá í köldum vindi."

Jón Valur Jensson, 28.12.2009 kl. 03:01

12 Smámynd: Jón Valur Jensson

Svo er það alls ekki rétt hjá þér, Árni, að kjósendur hafi "enga stöðu til að meta hvort ... okkur ber að greiða" þennan Icesave-reikning. Menn sjá svarið blasa við sér, ef þeir skoða lagaverkið!

Svo er þar að auki ástæðulaust að við gefumst upp af því einu, að kjósendur hafi "ekki stöðu til að meta hvað gerist", ef við greiðum ekki þessa ólögmætu mafíósarukkun. Það er engin ástæða til að mikla fyrir okkur þann vanda. Ef einhverjir myndu "loka á okkur", eins og menn kalla þetta, og reyna jafnvel að auka neyð okkar með lánsbanni, meira að segja viðskiptabanni (!!!), þá myndi það vekja mikla athygli og gefa okkur færi á að verjast með orðum og í fjölmiðlum erlendis í krafti réttarins, laga og þjóðaréttar. Við eigum ekki að borga Icesave-reikninga einkabanka, og brezk stjórnvöld eru ekki búin að bíta úr nálinni með að beita okkur lögbrotum og mismunun sem sker í augu réttsýnna manna, þ. á m. upplýstra manna erlendis.

Jón forseti hefði tekið slaginn, eins og hann gerði í öðrum réttindamálum þjóðarinnar, m.a. um stór fjárhagsmál landsins. Verum reiðubúin til þeirrar baráttu, enda er hér bæði um hag og framtíð barna okkar að tefla sem og sjálfa sæmd okkar.

Við eigum ekki að borga. Niður með Icesave!

Jón Valur Jensson, 28.12.2009 kl. 03:13

13 Smámynd: Óskar Arnórsson

Hvernig stendur á því að þessar afskritir erlendra banka verða eign bankanna og ekki eign lántakenda? Nema þa helst þeirra sem skulda þessa milljarða?

Þetta er bara með þvílíkum eindæmum að það hálfa væri nóg. 

Í seinni heimsstyrjöldinni hef ég alltaf furðað mig á hvað gyðingar voru alltaf kurteisir og voru í röð á leið í gasklefanna. Þó þeir væru með börnin sín. Sjaldgæft, þó það kæmi fyrir að einhver gerði uppsteyt, að þeir mynduðu ekki fína röð og biðu í röðinni eftir að það kæmi að þeim.

Svona upplifi ég íslendinga í dag. Þeir bíða bara rólegir, skrifa um þetta og tala, skoða stafsettningarvillurnar í mótmælunum, í staðin fyrir að setja upp hópa sem laga þetta með valdi. Ég er algjörlega anti-ofbeldismaður eins og allir vita sem þekkja mig nokkuð.

Enn einn dag er það bara komið nóg! Það á að hræða þetta pakk úr Ríkisstjórn. Í Kína hefði maður verið skotinn eða settur í steinin fyrir svona orð. Kanski það sé komið að því á Íslandi líka. Bara prófa...

Ef reynt er að tala við þetta andsk. djöf. pakk um málefni einnar fjölskyldu sem farið hefur illa þá er svarið svona:

"Ég er ekki inni í þessu máli" "Ég get ekki tjáð mig um einstök mál" "það er slæmt að þetta skuli hafa skeð fyrir systur þína" "Talaðu við einhvern hjá "fjármálum heimilanna".

Kjaftæði valdhafa er á mörkunum að vera með öllum þeim sönnunum sem þarf til að stökkva á þá og bíða eftir að lögregla hirði þá upp. Enn þeir stjórna henni líka.

Þetta endar með skelfingu..

Óskar Arnórsson, 28.12.2009 kl. 08:02

14 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Það eru landráð að binda þjóðinni vitandi vits, skuldaklafa sem fyrirséð er að hún getur engan vegin greitt nema með auðlindum sínum.

Sigurður Þórðarson, 28.12.2009 kl. 09:14

15 identicon

Takk Árni vel orðaður pistill og sannur, sú ríkisstjórn sem nú er við lýði komst til valda með svikum og lygum, loforðum sem hún hefur sennilega aldrei ætlað að standa við. Það er ekki mjög flókið að sjá að þetta er satt þvi aðgangur að efni fjölmiðlanna aftur í tímann er nokkuð góður á þessum tímum. Ég studdi þær breytingar sem voru gerðar hér síðastliðið vor, en sé nú að sennilega hefur það verið dómgreyndarleysi að treysta atvinnupólitíkusum og vonast til að loforð þeirra yrðu sett í framkvæmd. Þessi stjórn þarf að víkja og það strax áður en hún veldur meiri skaða.

Steinar Sorensson (IP-tala skráð) 28.12.2009 kl. 11:44

16 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Þakka góðan pistil frændi og hollan.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 28.12.2009 kl. 13:30

17 identicon

Alltaf góður, ég tek heilshugar undir þá óánægju að núverandi ríkisstjórn skuli ekki hafa skilið mikilvægi þess að SAMEINA þjóðina í stað þess að SUNDRA henni, en á meðan SAMSPILLINGIN er við stjórnvöldin, þá er ekki boðið upp á fagleg vinnubrögð.  Í mínum huga er X-S bara stórhættulegur FLokkur, sorglegt hversu gaman þeir hafa af "klækjastjórnmálum" á meðan blæðir þjóðinni út, en það er ekki nóg, X-S vil ná í gegn "drápsklyfjum" tengt IceSLAVE dæminu, því allt skal gert til að tryggja að Ísland komist inn í EB, þó svo að 60% þjóðarinnar vilji ekki þar inn.  X-S myndi selja sál sýna til að komast inn í EB, slíkur FLokkur er því miður ekki að hugsa af heilindum um HAGSMUNI sinnar þjóðar í Icesave deilunni.  Verði Icesave samþykkt þá býður okkar "fátækt, stöðnun & fólksflótti" næstu 10-20 árin, svo kalla þau sig "norræn velferðastjórn" - hvílíkir hræsnarar!

kv. Heilbrigð skynsemi (fun.blog.is)

Jakob Þór Haraldsson (IP-tala skráð) 28.12.2009 kl. 13:52

18 Smámynd: Árni Gunnarsson

Jakob Þór. Samfylkingin "myndi" ekki selja sál sína fyrir inngöngu í EB -EU- ESB eða hvað annað það sem fólk kýs að kalla þetta djöfulsins móverk allt saman. Þessi grey eru löngu búin að því og engu myndi breyta þó þar giltu sharialög sem kannski styttist í að verði ef ekki tekst að koma böndum á flæði þessara kvikinda inn í Evrópu. En það er nú ekki vandamál í augum stjórnvalda okkar í dag.

Árni Gunnarsson, 28.12.2009 kl. 14:30

19 Smámynd: Sneglu-Halli

Sárt grætur þú nú, sveinninn Árni. Eigi fæ ég þó betur séð en Steingrímur þingeyingur, vinni sitt verk sér til nokkurrar vegsemdar, þá er hann hrindir af sér vopnalögum óvina sinna og beitir til þess ýmist fagurgala, brigðmælgi, flærð eða harðýðgi. Svo hafa gamlir menn hermt að fáir verði langlífir harðstjórar sem semji sig um of að siðum preláta.

Hlátur við hlátri skyldi höldar taka, en lausung við lygi.

Sneglu-Halli, 28.12.2009 kl. 21:03

20 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ég er farinn að hafa mestu óbeit á þeim ósiðum stjórnmálamanna að skeyta engu um orð sín,heit og vfirlýsta stefnu í átakamálum Sneglu-Halli minn góður. Ég hef reynt að láta Steingrím J. njóta fyllsta sannmælis jafnt í lasti sem lofi. Ég dáðist lengi að einurð hans í andstöðu við ESB og treysti því að hann gerði það ekki að forgangsmáli í erfiðustu stöðu samfélgsins að koma í bakið á kjósendum V.g. Í þessu bölvaða Icesave máli er aldrei allt sem sýnist og enginn sannleikur nema sá sem framtíðin mun að lokum leiða í ljós. Þar tel ég líkurnar 50/50  um hvorir muni að lokum hafa rétt fyrir sér, stjórn eða stjórnarandstaða.

Sjálfur hef ég frá fyrsta degi hruns haft þá skoðun að það hafi verið ein mesta gæfa þjóðarinnar ef rétt væri á haldið við uppbyggingu. Í ljós hefur komið að ég á fáa skoðanabræður þar og nú virðast allir sammála um að uppbyggingin skuli fara fram eftir fyrri forskrift og hraður hagvöxtur sé það eina sem dugi.

Það mun kosta nýtt kapphlaup spákaupmanna um forgang að skárstu bitunum en mestur hluti þjóðarinnar streitast blóðinu við að greiða sem mest af eigin skuldum í von um að fá að deyja úr þreytu án þess að þola meira en "tæknilegt gjaldþrot." Þeir sem nú stjórna þessu landi hafa margt til að bera. Alla skortir bara það eitt sem máli skiptir og er gripsvit í góðu meðallagi.

Ólafur Höskuldsson Dalabóndi lýsti þessu ágætlega fyrir meira en þúsund árum: "Því verri þykja mér óviturra manna ráð sem þeir koma fleiri saman." 

Árni Gunnarsson, 28.12.2009 kl. 22:46

21 Smámynd: Óskar Arnórsson

Er ég að miskilja eitthvað? Hvaða óskiljanlega fornmállýska er þetta Sneglu-Halli? Ertu að mæla Steingrími bót á einhvern hátt?

Óskar Arnórsson, 28.12.2009 kl. 23:26

22 Smámynd: Auðun Gíslason

Árni minn!  Það sést ágætlega í athugasemdum hve sjálfri sér sundurþykk þessi þjóð er.  Mesta furða að menn setji á sig samstæða skó!  Hér er einn, sem kallar Davíð Oddsson góðan dreng, meðan meirihluti þjóðarinnar álítur hann drullusokk.  Hér er trúarofstækis- og bókstafstrúarmaður, sem ekki getur sjálfur fylgt boðskap Biblíunnar.  Og svo framvegis.

Meirihluti þjóðarinnar kaus á sínum tíma trekk í trekk yfir þjóðina þann meirihluta, sem skapaði það sukksamfélag, sem svo leiddi af sér þennan Icesave ósóma.  Nú vill þessi sami meirihluti ekki axla ábyrgð á afleiðingum gerða sinna.  Nefnilega að hafa kosið yfir þjóðina ríkisstjórnir SjálfgræðisFLokksins.  Þetta fólk kallar Jónas innræktaða aumingja.  Og kannski eitthvað til í því.

Helmingurinn af þeim 70%, sem vill afneita Icesave eru ávanabundnir kjósendur SjálfgræðisFLokksins.  Hluti af hinum helmingnum eru svo kjósendur Framsóknarflokksins.  Kannski eru einhverjir grjótharðir á að almúginn eigi ekki að borga skuldir óreiðumannanna.  Þeirra óreiðumanna, sem Davíð drullusokkur afhenti bankana með Halldóri vini sínum.  Óreiðumönnum í talsambandi við FLokkinn.  Einn þeirra var framkvæmdastjóri FLokksins.  Annar fyrrverandi ráðherra fyrir bændamafíuna. 

Ég er einn af þeim, sem tel það fjandi sjúkt að almúgamenn verði látnir borga óreiðuskuldir kapítalistanna.  Frekar vil ég afhausa þá!  Ég lít svo á að það sé "þvingaður leikur".  Við lifum í heimi, sem er stjórnað af alþjóðlegu auðvaldi og fyrir því, og umboðsmönnum þess, verðum við að beygja okkur um sinn að minnsta kosti.  Fyrir liggur að ríkisstjórnin lítur þannig á, að ekki sé fullvíst að okkur beri lagaleg skylda til að borga þessa skuld óreiðumannanna, þessara vina og samstarfsmanna Davíðs.  Lítur sem sagt á það sem "þvingaðan leik". 

Kannski kemur sá tími að við getum heimtað réttlæti.  Það réttlæti að alþýðan þurfi ekki lengur að axla byrðarnar af afglöpum kapítalista landsins, og stjórnmálaflokka þeirra, SjálfgræðisFLokksins og Framsóknar.

Lifi Byltingin!  Rauð og blóðug!

Auðun Gíslason, 28.12.2009 kl. 23:40

23 Smámynd: Óskar Arnórsson

"Þvingaður leikur"! Einmitt!

Icesave hefur aldrei verið á ábyrg íslenska Ríkissins og sá hluti Ríkisábyrgðar fellur á það Ríki sem gefur leyfið fyrir bankastarfseminni.

Icesave málinu hefur verið snúið og þvælt þannig að pelabörnin á þinginu halda að þeim komi þetta eitthvað við.

Icesave er hægt að líkja við það, að þingheimur færi í uppnám yfir Nígeríubréfi og snérist um það alla daga hvort ekki ætti að senda margfaldan ríkissjóð í ofboði til Afríku, í ekki neitt nema tóma þvælu.

Icesave hlýtur að vera mælikvarði á greind og getu íslendinga almennt.

Óskar Arnórsson, 29.12.2009 kl. 00:15

24 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Þori nú varla að leggja orð í belg hér í koníaksstofu ykkar karlmanna,  en vildi bara lýsa yfir trausti á þig Árni,  sem talar alltaf eins og "sá sem vitið hefur" .. 

Jóhanna Magnúsdóttir, 29.12.2009 kl. 11:54

25 Smámynd: Auðun Gíslason

Sér er nú hver andskotans koníaksstofan!

Auðun Gíslason, 29.12.2009 kl. 15:15

26 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þú getur nú ekki neitað því Auðun að þú finnir vínlykt hérna af einstaka manni! Kannski ekki endilega dýra koníakslykt.

Árni Gunnarsson, 29.12.2009 kl. 15:20

27 Smámynd: Árni Gunnarsson

Til dæmis hef ég nú alltaf hann Sneglu-Halla grunaðan um að vera búinn að smakkaða drjúgt þá sjaldan að hann kíkir í heimsókn.

Árni Gunnarsson, 29.12.2009 kl. 15:23

28 Smámynd: Óskar Arnórsson

Árni hefur vitið, og notar það, það er ekkert um að villast. Ég nota mitt ekki neitt...digital koníak!

Óskar Arnórsson, 29.12.2009 kl. 15:29

29 Smámynd: Árni Gunnarsson

Já, þatta með vitið Óskar minn! Það er nú hvellurinn eins og hann Mundi Gulla hafði oft að máltæki. Vitsmunir einir og sér hafa nú oft minna gildi en margur hyggur og oftar en ekki hættir fólki til að leggja ofmat á gáfur fólks. Sjálfur held ég að þú þurfir engan að öfunda í því efni. Mörg eru dæmin um að þeir sem samfélagið kallar hemska komist að viturlegri niðurstöðu en hinir sem taldir eru gáfaðir.

En öllum finnst nú lofið gott, jafnvel þótt það komi nú af fremur litlum verðleikum eins og í mínu tilfelli. Hvað sagði svo ekki Matthías Jochumsson sem baglaði þó saman Þjóðsöngnum okkar, "Ó, Guð vors lands."

Bráðum kveð ég fólk og Frón,

fer í mína kistu,

rétt að segja sama flón

sem ég var í fyrstu.

Árni Gunnarsson, 29.12.2009 kl. 17:12

30 Smámynd: Óskar Arnórsson

Alveg ágætt Árni! hehe..ég útiloka kallt að það sé algjör heimska sem stjórni þingmönnum og ráðherrum í að fara svona með landið. Það eru aðrir kraftar sem gerir valdamenn svona stórundarlega:

1. Snobba fyrir útlendingum

2. Plataðir af útlendingum

3. Ofurtrú á Ísland og framtíðinna.

4. Að menn eins og Steingrímur og Jóhanna fái borgað fyrir að svíkja Ísland.

Einhvernvegin svona sé ég þetta Árni. þetta er ekki heimska. Og ekkitrúi ég að  þetta fólk sé flón. Ég er efins að málin væru í betri farvegi ef þau væru flón.

Ef svo er. Þá vitum við hvaða mælikvarða fólk þarf að hafa þegar það kýs næst.

Og þá vonandi er maður nógu gáfaður til að kjósa flónin á þing... 

Óskar Arnórsson, 29.12.2009 kl. 17:43

31 Smámynd: Sneglu-Halli

Árni Gunnarsson! Þess væntir mig, að þá er þú kemst á minn aldur, munir þú reyna á eigin kroppi hve ljúft er að leyfa veigum guðanna að seytla um æðarnar, gamlar og kalkaðar. Er þá sem kuldinn þoki úr beinahrönglinu en holdið fyllist um stund af yl bjarnarins. Og er þá ekki laust við að hrörnaður heilinn lifni við og minnist æskunnar, þegar hugsanir allar voru tærar sem lindarvatn og streymdu frjálslega um vitundina. Fýsir þá framlágan öldung að hreyfa við lyklaborði og etja orðum við ykkur ungu piltana, svo sem gerðum vér forðum á dögum veldis og blóma.

Kveðjur af Kili, SH

Sneglu-Halli, 29.12.2009 kl. 19:38

32 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þína skál Sneglu-Halli!

Árni Gunnarsson, 29.12.2009 kl. 20:42

33 Smámynd: Björn Birgisson

Takk fyrir pistilinn, Hr. Árni Gunnarsson. Margt er hárrétt og fellur að mínum skoðunum. Allt hitt er líklega hárrétt líka, þótt ég skrifi ekki undir! Lifðu heill!

Björn Birgisson, 29.12.2009 kl. 22:01

34 Smámynd: Árni Gunnarsson

Björn. Eiginlega finnst mér þessi geðhvarfaköst mín aldrei ná tilgangi sínum fyrr en ég sé nafn þitt á gestalistanum. En þetta, að hafa rétt fyrir sér í pólitík virðist mér orðið svo afstætt að ég er hættur að hafa áhyggjur af þesskonar smámunum fyrir mitt leyti. Mér finnst að um þetta drepleiðinlega mál sett hefur þjóðina úr augnaköllum jafnvægis muni gilda það sem spakur maður sagði forðum: "Sannleikurinn er áreiðanlega til en það hefur bara enginn komið auga á hann ennþá!"

Árni Gunnarsson, 29.12.2009 kl. 22:47

35 Smámynd: Björn Birgisson

Árni, takk fyrir góð orð í minn garð. Það er ekki hægt að hafa rétt fyrir sér í pólitík, andmælendur munu alltaf afsanna þá kenningu, með réttu eða röngu. Það höfum við heldur betur séð á líðandi Ísbjargar ári. Það er sárara en tárum tekur, að horfa upp á hvert leikverkið, á eftir öðru, á stóra sviðinu við Austurvöll, floppa vegna sundurlyndis fulltrúa okkar. Mesta ógæfa okkar á lýðveldistímanum, af ýmsu er reyndar að taka, var að reyna ekki að leysa innrás Ísbjargar í okkar ástkæra þjóðlíf með þjóðarsátt. Með aðkomu okkar allra og fulltrúa okkar á hinu háa Alþingi. Mér er ekki kunnugt um nein tilboð af hálfu Vinstri velferðarstjórnarinnar til stjórnarandstöðunnar í þeim efnum.

Annað, minn kæri Árni. Gullfiskaminni kjósenda er löngu þekkt. Í kosningum á komandi árum verða Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn góðu mennirnir sem reyndu að koma í veg fyrir greiðslur vegna hinnar slóttugu Ísbjargar. Ekki mennirnir sem stuðluðu að tilurð Mammons gyðjunnar ísköldu. Stjórn Heilagrar Jóhönnu er að leggja hrunflokkunum beitt vopn í hendur. Þar sem þeim er ekkert heilagt, munu þeir beita þeim - og komast til valda, fyrr en varir.

Björn Birgisson, 30.12.2009 kl. 00:26

36 Smámynd: Árni Gunnarsson

Björn. Þakka þér góðan pistil og undir flest get ég tekið. Þú talar um að stjórnin hafi fengið hrunstjórninni beitt vopn í hendur og það er auðvitað kjarni málsins. Það er þyngra en nokkrum tárum taki að sjá öll merki þess að afglöp þeirra sem voru arkitektar ránsferðarinnar séu fyrnd og jafnframt að sjá fréttirnar um að nafngreindir einstaklingar hafi labbað með milljarðahagnað út úr fyrirtækjum sem aldrei voru annað en nöfn á blaði að skiptast á peningum sem aldrei urðu til.

Upphæðirnar voru tölur á einskonar minnisblöðum en lifa þó sjálfstæðu lífi og mynda skuldir á heimilisreikningum og innheimtuaðgerðir hafnar með þunga.

Öll saga þessa máls var þjóðinni augljós jafnt og niðurstaðan blasti við og í ljós kom að tveir stjórnmálaflokkar höfðu boðið vinum sínum og vandamönnum í dýrustu veislu allrar sögu og reikningurinn var sendur þjóðinni. Nú bjóðast nýir ármenn þessara flokka til að verja okkur fyrir háum sköttum sem illmennin úr ríkisstjórninni sé að leggja á "þá sem minna mega sín!"

Þingvellir, þjóðgarður um helgasta stað þjóðarinnar var einn fyrsti ránsfengur ofvirkra og ofdekraðra fóstursona hinnar nýju Grýlu græðginnar þar sem þeir fóru eldi um að hætti víkinga og helguðu sér land til að geta verið í friði fyrir skrílnum og girtu af með rafmagnsgirðingum, svo eitthvað sé nefnt.

Lögin eru mikilvægasta öryggistæki borgaranna og eiga að vernda þá fyrir illvirkjum og ránsmönnum. Nú sýnist mér það blasa við að lög okkar þjóðar muni vernda illvirkjana fyrir borgarlegu réttlæti og refsingum við hæfi.

Þessi ríkisstjórn vinnur af góðum hug en kann ekki neitt. Sigurvegarinn skrifar alltaf söguna og ríkisstjórnin smíðar sigurvegaranum vopnin sem hún svo réttir honum daglega. Það er raunalegt. 

Árni Gunnarsson, 30.12.2009 kl. 10:37

37 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ný tíðindi af þessu skelfilega klúðri.

Þvílík atburðarás!

Árni Gunnarsson, 30.12.2009 kl. 11:44

38 Smámynd: Auðun Gíslason

"Vegna þess hve málið hafi verið viðkvæmt, hafi Svavar Gestsson, formaður Icesave samninganefndarinnar, ákveðið að þessi hluti þess yrði ekki í glærukynningu þegar lögmannsstofan fjallaði um Icesave málið á fundi með Össuri Skarphéðinssyni utanríkisráðherra í Lundúnum 31. mars. Össur segist hins vegar ekki hafa séð glærukynninguna."  RÚV 00:15  30.12.09

Það er eitthvað bogið við það, Árni minn!  Allavega er þetta ekki mjög beint!  Kannski Össur hafi haft viðdvöl á koníaksstofunni áður en hann lagði í fundinn?

Auðun Gíslason, 30.12.2009 kl. 13:51

39 Smámynd: Auðun Gíslason

"Fyrri ríkisstjórn hafi notað lögfræðiálit frá lögfræðistofunni Lowels sem réttlætingu þess að höfða ekki mál vegna beitingar Breta á hryðjuverkalögunum."  (haft eftir Steingrími J.)   RÚV 00:15  30.12.09 

Auðun Gíslason, 30.12.2009 kl. 13:54

40 Smámynd: Baldur Hermannsson

Eru þessir menn algerlega að fara á límingunum?

Baldur Hermannsson, 30.12.2009 kl. 14:04

41 Smámynd: Auðun Gíslason

Dansi, dansi dúkkan mín...

"Ólöf Nordal, þingmaður Sjálfstæðisflokks, segir að þessi tölvusamskipti ættu að geta varpað ljósi á hvernig staðið var að kynningu Icesave málsins fyrir utanríkisráðherra í mars á síðasta ári. Þessir tölvupóstar væru til og hún sagðist ekki trúa öðrum en að þeir verði birtir, nema það sé eitthvað í þeim sem stjórnvöld vilja ekki að koma fyrir almenningssjónir.

Ólöf sagði að það ætti ekki að vera neitt því til fyrirstöðu að ljúka Icesave-umræðunni þegar búið væri að birta þessi gögn."  Mbl.

Ekki virðist nú ástæðan fyrir þessu brölti hrunflokkanna mikil hafi Ólöf rétt fyrir sér!  Ekki önnur en spunalist lýðskrumara!


Auðun Gíslason, 30.12.2009 kl. 14:55

42 Smámynd: Baldur Hermannsson

VG er að liðast í sundur! Sjá bloggfærslu Jóhannesar Ragnarssonar. Það eru ekki allir vinstri menn jafn siðlausir og Auðun Gíslason.

Baldur Hermannsson, 30.12.2009 kl. 15:02

43 Smámynd: Björn Birgisson

Það er vandasamt og varhugavert að saka menn um siðleysi. Sérstaklega þar sem glerhúsin standa í löngum röðum.

Björn Birgisson, 30.12.2009 kl. 15:22

44 Smámynd: Baldur Hermannsson

Vissa áhættu verða menn að taka í lífinu.

Baldur Hermannsson, 30.12.2009 kl. 15:25

45 Smámynd: Árni Gunnarsson

Margt kemur upp þegar hjúin deila. Ólyginn sagði mér að það þyrtfi í það minnsta þrjár kynslóðir stjórnmálamanna til að ná siðleysi Davíðs og Halldórs. Kannski okkur sé farið að miða eitthvað áleiðis? Verst þó ef núverandi stjórnvöld eru komin þar inn á grátt svæði í þeim tilgangi að bjarga þjóðinni frá afleiðingum voðaverka sem framin voru undir smásjá Geirs og Ingibjargar og í fullri sátt við þau bæði. 

Árni Gunnarsson, 30.12.2009 kl. 17:06

46 Smámynd: Árni Gunnarsson

Og meira um koníaksstofuna. Miklu betur held ég nú koníaksstofan henti  Össuri  en Alþingi og ráðuneyti utanríkismála.

Árni Gunnarsson, 30.12.2009 kl. 17:17

47 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Nú veður þú reyk frændi í færslu # 45

Heimir Lárusson Fjeldsted, 30.12.2009 kl. 17:26

48 Smámynd: Auðun Gíslason

Ég hlýt nú að bera af mér ásakanir um siðleysi!  Þau eru orðin ansi mörg glerbúrin hægri-öfgamanna Sjálfgræðisflokksins!  Hvað varðar sundurliðun Vg, er ég nú að vona að lýðræði standi svo traustum fótum þar, að mönnum leyfist að hafa mismunandi skoðanir á málum.  Öfugt hvað tíðkast á sumum ættaróðölum!

Auðun Gíslason, 30.12.2009 kl. 17:36

49 Smámynd: Björn Birgisson

Heimir, ef sannast á Árna að hann vaði reyk, flyt ég til Noregs. Þá er ekkert eftir hérlendis.

Björn Birgisson, 30.12.2009 kl. 18:16

50 Smámynd: Óskar Arnórsson

Ég er alltaf siðlaus þegar ég er á Íslandi. Maður verður að vera eins og allir hinir. Ef maður ætlar að vera samþykktur af innfæddum á Íslandi, verður maður að vera siðlaus...

Mín reynsla allavega...

Vonum að íslendingar vakni upp af mókinu...við höfum ekki efni á þessum sofandahætti í auknablikinnu. "Nú eða aldrei"!

Óskar Arnórsson, 30.12.2009 kl. 19:37

51 Smámynd: Árni Gunnarsson

Það er engan veginn einfalt að átta sig á þessu grábölvaða máli sem yfirskyggir Þorgeirsbola og Hjaltastaðarfjandann.

Mér sýnist hinsvegar býsna margir vera búnir að þjappa málinu saman og að einum mikilvægum punkti, sem gerir það óneitanlega miklum mun aðgengilegra til niðurstöðu en mig óraði fyrir.

Ef Ásmundur Einar Daðason hjálpar málinu gegnum atkvæðagreiðslu í kvöld þá er hann búinn að binda afkomendum sínum og okkar þann skuldaklafa sem við munum kikna undir. Ef hinsvegar hann neitar að samþykkja frumvarp ríkisstjórnarinnar getum við varpað öndinni léttar. Þá þurfum við einfaldlega ekkert að borga af þessari grábölvuðu skuld sem vinstri stjórnin stofnaði til með bölvuðum asnaskap.

Við áttum auðvitað aldrei að sleppa kommadjöflunum lausum og bakka þá upp með því að selja þeim ríkisbankana án þess að þeir í það minnsta borguðu þá fyrst. Kommúnistum er ekki trúandi fyrir peningum, enda vilja þeir bara hirða þá sjálfir og láta okkur borga. Það sjáum við best núna.

Árni Gunnarsson, 30.12.2009 kl. 19:52

52 Smámynd: Óskar Arnórsson

Árni! þetta er ósköp einfalt. Henda bara þessu Icesavemáli og hætta að tala um það.

þetta er hvort eð er tómt rugl. Reikningurinn frá Icesave fór í vitlausan póstkassa og heimilisfólkið reynir að klifra upp veggi af áhyggjum. Þetta sníst sáralítið um pólitík nema að kommúnistar ætla að fórna Íslandi fyrir flokkinn sinn því þeir eru við völd.

Enn þeir eru að setja snöru um hálsinn á sér, og það er best að trufla þá ekki neitt rétt á meðan...

Óskar Arnórsson, 30.12.2009 kl. 20:00

53 Smámynd: Árni Gunnarsson

Hvað var ég ekki að enda við að segja um þessa kommúnista Óskar?

Eiginlega hef ég nú minnstar áhyggjur af því þó þeir smeygi snörunni um eigin háls. Meiri áhyggjur hef ég af því að mér sýnist þeir vera að smeygja snörunni á lymskufullan hátt (eins og þeirra er háttur) um hálsinn á blásaklausum hægri mönnum sem eins og allir vita vöruðu alltaf við þessu athæfi. Einkum á þetta við um heiðarlega og hugprúða Sjálfstæðismenn.

Árni Gunnarsson, 30.12.2009 kl. 20:23

54 identicon

Með yfirlýsingu um að allar innsæður í íslenskum bönkum væru tryggðar, sem gefin var út af síðustu ríkisstjórn, getum við þakkað okkar sæla að þurfa ekki að borga meira fyrir Icesave en raunin er. Ef eftirlitsstofnanir hefðu ekki brugðist, ef þeir sem áttu að gæta hagsmuna okkar hefðu ekki brugðist, ef hagstjórn heðfi ekki verið svona þenslumikil árum saman værum við eflaust í betri málum í dag. En við sem þjóð og þá aðallega þeir sem við kusum að fara með hagsmuni okkar höguðu sér eins og fífl og nú súpum við seiðið af því. Mér er ekki ljúft að greiða helvítis Icesave, mér er enn verr við að hlaupa frá ábyrgðinni eins og aumingi.

Lund Hervars (IP-tala skráð) 30.12.2009 kl. 20:51

55 Smámynd: Baldur Hermannsson

Árni, er ekki mestallur niðjaflokkur séra Árna á Stóra Hrauni kominn í framboð fyrir Samfylkinguna?

Baldur Hermannsson, 30.12.2009 kl. 22:46

56 Smámynd: Árni Gunnarsson

Uss Lind Hervars. Þetta er nú óþarft að rifja upp í öllum kirkjusóknum. Það bara flækir málið.

Baldur. Reyndar á hann nú fleiri niðja en þar er að finna en nóg um það. Annars ætlaðist ég nú til þess að allt skraf um þá yrði svona bara okkar á milli. Reyndar er mér ekki óljúft að upplýsa að sjálfur á ég glæsta framtíð (að baki) sem fulltrúi minnar hrjáðu þjóðar inni á Alþingi að baki.

Árni Gunnarsson, 30.12.2009 kl. 23:08

57 Smámynd: Baldur Hermannsson

Ha????? Þetta þarfnast skýringa.

Baldur Hermannsson, 30.12.2009 kl. 23:19

58 identicon

Hér er fólk sem virðist í beinu sambandi við framliðna ogveit allt um það hvernig Vestfirðingurinn Jón Sigurðsson hefði hagað sér í þessu máli, ég veit reynar ekki rassgat um það þótt ættaður sé að vestan. Ef við greiðum ekki og gefum skít í erlenda aðila vegna eigin hagsmuna þá þarf og hafa erlendir aðilar greitt fyrir okkur af skattfé viðkomandi landa, og ef Íslendingum finnst það bara ágætt efast ég stórlega um að Vestfirðingurinn JS hafi verið slíkur níðingur að finnast það bar ágætt og helvítið hafi það. 

Lund Hervars (IP-tala skráð) 30.12.2009 kl. 23:41

59 Smámynd: Árni Gunnarsson

Baldur minn. Hvernig gat ég ætlast til þess að þú næðir neinum tengslum við svona flóknar ályktanir? En auðvitað var tölvan að hrekkja mig með því að tvítaka sögnina "að baki." Ef þetta nægir þér ekki þá gríp ég til orða Sigurðar smala sem Benedikt frá Hofteigi greinir frá í þætti af áminnstum manni.

Ferðamaður nokkur hitti Sigurð þar sem hann sinnti fé á beit og spurði hann til vegar að næsta bæ. Sigurður vékst greiðlega undir þá bón og benti með eftirfarandi skýringum: 

"Þarna sérðu mell og þegar þú ert kominn upp á hann þá sérðu annan mell. Og ef þú ratar ekki þegar þú ert kominn upp á þann mell þá ertu bara helvítis asni!"

Og til þín Lund Hervars. Ófreskigáfa fylgir ólíklegasta fólki. Adam nokkur Smith var mentor Hannesar Hólmsteins í pólitískum rétttrúnaði. Þó sáust þeir aldrei hvað þá töluðust við því Adam var steindauður löngu áður en nokkrum manni kom til hugar að óhappið Hannes Hólmsteinn yrði að íslenskum veruleika. Nema þegar Hannes Hólmsteinn tók að tjá sig á Íslandi um réttan trúnað í pólitík þá sótti hann staðfestingu í predikunina til Adams Smith sem var orðinn á tímabili heimilisvinur í hverjum vel upplýstum ranni líkt og þeir frændur Nassdakk, Fútsjí og Dán Djonns á meðgöngutíma Icecavesófétisins allt fram að hruni en ekki mikið lengur og muna fáir eftir þeim ólánsgripum í dag.

Nema hvað að þegar Hannes bjálfinn gat ekki vísað í bækur Adams um staðfestingar á óskiljanlegum ályktum þá greip hann til þess snallræðis að fullyrða að þetta hefði Adam heitinn Smith staðfest með bros á vör hefði hann verið á dögum! og efuðust þá náttúrlega engir nema kannski við Auðun Gíslason. 

Og enn um ófreskigáfu: Hann Hjörtur heitinn á Marbæli var lengi heimilismaður hjá Árna sáluga á Marbæli. Hjörtur var hvatur til orða og fróður en Árni hæglátur og íhugull. Þegar það bar við að þeir komu saman á bæi, voru sestir að borði til veitinga og húsfreyja spurði hvort hún mætti bjóða þeim hitt eða þetta tók Hjörtur af skarið og sagði: "Ég segi nú fyrir mig og hann Árna hérna líka."

Vegna þess að Hjörtur var kynslóð yngri en Árni kvaddi af eðlilegum ástæðum sá síðarnefndi þennan heim áratugum á undan Hirti. Engu breytti þetta um áður áminnstan sið Hjartar á bæjum lengi vel. "Ég segi nú fyrir mig og hann Árna sáluga líka!"

Af þessu mátt þú glöggt sjá Lund Hervars að það er ekki nýlunda að hugsað sé og talað fyrir hönd látinna.

Þessi pistill er farinn að minna ónotalega á Góða dátann Sveijk nema hvað sá snillingur var nú ólíkt skemmtilegri en ég. 

Árni Gunnarsson, 31.12.2009 kl. 00:34

60 identicon

Saga Jaroslavs Hasek er engri lík, snilld, og engin saga hefur verið lýðræðinu hollari en Sveijk. Og ÁG, þið Sveijk eruð nú báðir helvíti skemmtilegir.

Lund Hervars (IP-tala skráð) 31.12.2009 kl. 00:42

61 Smámynd: Baldur Hermannsson

Kannski var þetta sami melur og sá sem Benedikt frá Hofteigi barðist á þegar hann lenti í grjótkasti við hinn bóndann, hvurs nafn er úr mér stolið. En Benedikt var eins og griðungarnir, gerðist mannýgur á efri árum, og þegar hann gerði bónda nokkrum fyrirsát og hugðist færa hann til heljar seint um nótt var sveitungum hans nóg boðið og lauk svo búskap hans á Jökuldal.

Baldur Hermannsson, 31.12.2009 kl. 00:43

62 Smámynd: Óskar Arnórsson

Jæja Árni! þeir settu ekki bara snörunna um hálsin á sjálfum sér í Icesavemálinu. Þurftu þeir ekki að teyma alla þjóðina í gálgan í leiðinni...að sjálfsögðu...

Nú er bara að sjá hvort fólk bíður ekki bara rólegt og kurteist eftir því að bretar og fleiri komi og oppni hlerann...

Óskar Arnórsson, 31.12.2009 kl. 10:05

63 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ég held að það hafi verið fljótfærni af þeim þarna í Seðlabankanumm Davíð og Jóni Sig. að vera með þessi mannalæti við Breta og Hollendinga. Þeir sögðu þeim að það væri nú aldeilis ekki hætta á að peningarnir þeirra væru í hættu hjá svona ríkum bönkum og ríkri þjóð eins og okkar.

Árni Gunnarsson, 31.12.2009 kl. 11:34

64 Smámynd: Auðun Gíslason

Árni!  Ég vil bara benda þér á að meðal drápsskuldabagga ríkisins er Icesave-bagginn ekki sá þyngsti.  Nemur um 20% af skuldabagganum stóra, sem er arfleifð frjálshyggjutímabilsins.  Bagginn sem góði strákurinn í Svörtuloftum skellti á okkur er tvöfalt stærri.  Hvernig hefði átt að vera hægt að sleppa frá þessu máli öðruvísi en að semja og borga er vandséð.  Það er ekki bara að þetta sé "þvingaður leikur", heldur má líka efast um réttmæti þess siðferðilega að neita að standa við þessar skuldbindingar.  Já, siðferðislega er vinkill sem lítið er minnst á í umræðunni, enda siðferði eitthvað sem þessari þjóð er orðið ókunnugt nokkuð, eftir siðleysi frjálshyggjunnar undanfarið.

Meira ber á þjóðrembulegu kjaftæði og bulli um umsátur vondra útlendinga.  Aumingjahjal og þykistusakleysi er vinsælt í lýðskruminu.  Ábyrgð vilja sumir enga bera og fá sem flest fyrir lítið og helst ekki neitt, vegna "sérstöðu íslensku þjóðarinnar."  Sú sérstaða felst aðallega í aumingjaéghugsun annnarsvegar og svo á hinn bógi alveg yfirgengilegu mikillæti.  Allt er best heima í afdalnum!

Auðun Gíslason, 31.12.2009 kl. 12:20

65 Smámynd: Óskar Arnórsson

Auminginn og landráðamaðurinn Auðun hefur talað...

Óskar Arnórsson, 31.12.2009 kl. 13:15

66 Smámynd: Árni Gunnarsson

Já Auðun, þú segir nokkuð! Ég er nú þeirrar skoðunar að Ísland sé ekki lengur neinn afdalur og um allnokkra áratugi hefur það verið mikið öfugmæli að tala um einangrun þessarar þjóðar sem valkost, hvað þá staðreynd. Aftur á móti er það klaufaskapur (ef ekki bara eitthvað vafasamt hugarfar) ef maður þarf endilega að giftast öllum konunum í sveitinni til að geta átt við þær notaleg samskipti. Hitt er svo annað mál að til þess að vernda stolt sitt er miklu skárra að hafna því að semja um skuldir framyfir greiðslugetu en að játast undir nauðarsamninga.

Og til að samningur milli þjóða um svona ægileg mál sé boðlegur þá verða stjórnvöld að sýna þeim meiri alúð en að senda einhverja fulltrúa fyrir sig. Hryðjuverkalög Breta voru hrokafull aðgerð og fjandsamleg auk þess að gera allt þetta slæma mál verra.

Bretar og Hollendingar áttu hinsvegar harma að hefna á íslenskum stjórnvöldum sem settu heimsmet í hroka og blekkingum sem saklausir borgarar þessara gömlu viðskiptaþjóða okkar álpuðust til að trúa og tæpast vil ég nú lá þeim það.

Þegar lokaárás Landsbankaræningjanna á saklausa borgara Hollands og Bretlands var að hefjast brugðu æðstu ráðherrar ríkisstjórnar okkar sér af bæ til að "leiðrétta" slæmt rykti innrásardeilda íslensku bankanna á erlendri grund. Það var illt verk og í raun glæpsamlegt. Það hefði fokið í fleiri en forsætisráðherra ævagamals herveldis og nýlenduveldis sem þekki betur frumkvæði að innrásum en varðstöðu. Þegnar Hollands og Bretlands eiga kröfu á skjól sinna ríkisstjórna fyrir útlendum stórþjófum.

Við megum ekki gleyma því að þetta var á þeim "kritiska" tíma sem íslenskir bankaeigendur og bankastjórar voru búnir að gera sér grein fyrir því að ekkert nema kraftaverk gat bjargað þeim frá hruni. Það hafði Seðlabankastjóri Davíð Oddsson tjáð þeim skýrum orðum löngu fyrr að eigin sögn.

Og nú kemur lokakafli þeirrar sögu og sá versti í mínum huga.

Einmitt á þessum dögum mætir áminnstur Davíð á fund hjá breskum fréttamanni og fullvissar hann um að íslenskir bankar séu nú eftir sem áður traustir, vel stæðir og með hæfa stjórnendur. Auk þess sé ef svo illa fari að einhver þessara banka lenti í þroti þá standi fjármálakerfi þjóðarinnar svo traustum fótum að enginn þyrfti neinu að kvíða.

Árni Gunnarsson, 31.12.2009 kl. 14:12

67 Smámynd: Magnús Jónsson

Árni: þú stendur þig vel eins og endranær, nú er Alþingi búið að samþykkja þessi ólög, eitt fannst mér samt standa uppúr þegar ég fylgdist með umræðunni í sjónvarpinu, og það var ein þingkomna sem kom og gerði grein fyrir atkvæði sínu, man ekki nafnið, en hún rifjaði upp að alþjóða gjaldeyrissjóðurinn hefði talið efri þanmörk þjóðarskulda 240% miðað við þjóðarframleiðslu, en nú væri skuldastaða þjóðarinnar samkvæmt úttekt seðlabankans komin í 320%, og Icesave kæmi til viðbótar,  við værum sem sagt á hausnum? með hverju á að borga þetta allt saman, er mögulegt a greiða vexti og afborganir með nýu láni endalaust? spyr sá sem ekki veit.

Magnús Jónsson, 31.12.2009 kl. 14:21

68 Smámynd: Auðun Gíslason

Þú trúir þó ekki lýðskrumurum Framsóknarflokkanna, að þetta verði ekki hægt að borga?  Hvað þá með aðrar skuldir þjóðarinnar?  Getum við borgað þær?  Getum við staðið í lappirnar einsog menn?  Eða erum við öll innræktaðir aumingjar?

Takk fyrir nafngiftirnar, Óskar!  Einhversstaðar stendur:  Margur heldur mig sig!

Auðun Gíslason, 31.12.2009 kl. 14:36

69 Smámynd: Auðun Gíslason

Árni minn!  Það er þannig með "þvingaða leiki", að þá leiki verður maður að leik, eða leggja niður kónginn og gefa skákina!  Ef við getum ekki borgað þessar skuldbindingar okkar, einsog um hefur verið samið, svo og aðrar skuldir okkar, verðum  við bara að gefa skákina og lýsa yfir greiðsluþroti þjóðarinnar!  Menn mega ekki gleyma því, að við erum ekki að semja við okkur sjálf.  Í því felst þvingunin.  Ég hef verið alfarið á móti því, að þjóðin borgi þessar óreiðuskuldir kapítalistanna.  En hver er raunveruleiki þessarar tilveru?  Óreiðumennirnir nutu velþóknunar stjórnvalda og meirihluta þjóðarinnar.  Hvað nú?

Auðun Gíslason, 31.12.2009 kl. 14:52

70 Smámynd: Björn Birgisson

Gleðilegt ár piltar! Horfum fram á veginn, látum baksýnisspegilinn duga í umferðinni.

Björn Birgisson, 31.12.2009 kl. 15:00

71 Smámynd: Óskar Arnórsson

...þetta er ódauðleg speki Auðun!

Er montið í þér og snobbið mikilvægara enn að koma fólki til bjargar í landinu? ALLIR sem samþykktu Icesave eru aumingjar og landráðamenn. Nafngiftin sem ég nota yfir það fólk er ekki prenthæf...

Óskar Arnórsson, 31.12.2009 kl. 15:38

72 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Gleðilegt ár ágæta fólk og þakka ykkur samskiptin á garminum sem senn er frá.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 31.12.2009 kl. 16:27

73 Smámynd: Auðun Gíslason

Það þér fyrir hólið, Óskar, um hina ódauðlegu speki!  Voðalega ertu pirraður.  Mont og snobb hefur verið mér víðsfjarri í lífinu, svona lengst af.  Ég veit ekki hvernig þú finnur út snobb og mont úr skrifum mínum.  Og nafngiftir þínar læt ég mér í léttu rúmi liggja!  Tek sjálfan mig ekki svo hátíðlega að ég fari nú pirra mig á svoleiðis skiteríi.

Eitt þarf ég að nefna til viðbótar máli mínu.  Og það eru hin óhjákvæmilegu siðferðilegu reiknisskil, sem þjóðin þarf að fara í ætli hún sér að krafla sig útúr þeim skíthaug sem frjálshyggjan lætur eftir sig.  Róbert Marshal talaði um það í gærkvöldi, og er ég hjartanlega sammála honum.  Hluti af þeim reiknisskilum er að gera upp við innistæðueigendur Icesave.  Taka ábyrgð á gjörðum okkar. 

Auðun Gíslason, 31.12.2009 kl. 16:54

74 Smámynd: Árni Gunnarsson

Sömuleiðis frændi og þið öll sem hafið átt við mig samskipti hér sammála sem ósammála.

Gleðilegt ár!

Árni Gunnarsson, 31.12.2009 kl. 16:57

75 Smámynd: Baldur Hermannsson

Síst vil ég skemma áramótagleðina fyrir Davíðshöturum sem hér ydda penna, en þetta var að birtast á Pressunni (fengið úr Viðskiptablaðinu):

Pressan: http://www.pressan.is/Frettir/Lesafrett/eirikur-gudna-um-gagnryni-a-vedlan-sedlabankans-um-samantekin-politisk-rad-ad-raeda

  

31. des. 2009 - 16:00

Eiríkur Guðna um gagnrýni á veðlán Seðlabankans: Um samantekin pólitísk ráð að ræða

 

Eiríkur Guðnason fyrrverandi Seðlabankastjóri segir gagnrýni veðlán Seðlabankans árið 2008 dæmigerða eftiráskýringu og telur hann að um samantekin ráð hafi verið að ræða þegar gagnrýnin komst á flug aftur um mánaðamótin september-október síðastliðnum. Eiríkur gagnrýnir jafnframt lánshæfismats fyrirtækin sem hann segir hafa farið offari.

Þetta kemur fram í viðtali við Eirík í áramótablaðið Viðskiptablaðsins. Segir hann að talsverðs misskilnings gæta í gagnrýninni og bendir hann á að rannsókn hljóti að beinast að eignum og framsetningu reikninga viðskiptabankanna. Áberandi í gagnrýni á veðlánin hafa verið athugasemdir um að bankinn hefði átt að taka veð í eignum bankanna en ekki einungis skuldabréfunum, Eiríkur segir bréfin sem Seðlabankinn tók sem veð hafi útgefin af bönkum með viðunandi lánshæfismat og eiginfjárstöðu á þeim tíma og því hefði mátt ætla að þetta væru góð veð.  „Reynist þau verðlítil hefur eitthvað verið stórlega athugavert við mat á eignum og framsetningu reikninga hjá hlutaðeigandi fjármálafyrirtækjum.“

Eiríkur segist sannfærður um að gagnrýnin á Seðlabankann hafa verið af pólitískum toga og mótaðist af miklum fordómum gagnvart Davíð Oddssyni. „Það sem Seðlabankinn gerði hér var viðleitni til að mæta vanda sem steðjaði, auðvitað í þeirri von að aðstæður myndu lagast aftur, millibankamarkaðir tækju að mikðla fé á ný og alþjóðakreppan að ganga til baka. Það tókst því miður ekki“.

Jóhanna Sigurðardóttir gerði veðlán Seðlabankans að umtalsefni í ræðustól í gær og hafa þekktir Pressupennar deilt um málefni Seðlabankans undanfarnar vikur.



 

Baldur Hermannsson, 31.12.2009 kl. 17:32

76 identicon

Jamm elsku karlinn minn BH, margar eru nú eftiráskýringarnar nú til dags. Nú getur vel verið að það sé hverju orði sannara hjá Eiríki G að eftiráskýringin sé meingölluð og allir vitlausir en málið er þetta: Banki A má ekki leggja inn eigin skuldabréf sem veð fyrir láni í Seðlabankanum (af augljóum ástæðum) Banki B; t.d. gæti heitið Icebank fær þá (tæru) snilldarhugmynd að hafa samband við banka A og segja; "láttu okkur hafa skuldabréfin þín, við skulum leggja þau inn í Seðlabankann og fá lán gegn veði í þeim, við látum þig svo fá peningana og þú borgar okkur X millur fyrir." Það sem menn áttu að spyrja sig að er þetta: Hvernig getur örbanki átt skuldabréf í mörgum innlendum bönkum fyrir vel yfir 100 milljarða! Þarna er ekki hægt að tala um eftiráskýringu, þarna hefði átt að spyrja í rauntíma og hreinlega spurning hver er með eftiráskýringu!!

Bárður Bringdal (IP-tala skráð) 31.12.2009 kl. 18:25

77 Smámynd: Óskar Arnórsson

Ætli ég sé einn um að vera pirraður. Hvert sendir maður annars ógreidda reikninga frá útlöndum frá fyrirtæki sem gengur illa Auður? Svo er bara að fá heimskingjanna til að trúa því að sjálfsvirðing íslendinga sé í veði, og það er einfalt mál virðist vera að fá fólk til að trúa.

Afstaða þín byggir á snobbi og sleikjuskap út í útlendinga Auður. Létt að lesa það úr þessum skrifum þínum. Svo ekki sé tala um sjálfa .... sleppi því bara.

Hafðu samt góð áramót og allir þínir Auður,  og þú Árni fyrir að leyfa þennan skæting á síðunni þinni.

Kv, Óskar

Óskar Arnórsson, 31.12.2009 kl. 18:38

78 Smámynd: Baldur Hermannsson

Sérstakar heillaóskir til þín, Óskar minn, sem ert af illum örlögum dæmdur til að vera fjarri fósturlandsins ströndum þegar við heilsum nýju ári.

Baldur Hermannsson, 31.12.2009 kl. 18:51

79 Smámynd: Auðun Gíslason

Baldur!  Ég held að taki nú ekki að vera hata Davíð ræfilinn!  Þó ég elski hann ekki útaf lífinu, þá er ekki þar með sagt að ég hati hann!

Óskar!  Skætingur segirði!  Það er nú varla hægt að ganga lengra í skætingi, en að kalla menn landráðamenn.  Orð sem er mönnum ansi tamt þessa dagana.  Fjandinn fjarri mér að kalla nokkurn mann landráðamann.  Nokkuð langt gengið!  Ég veit ekki hvað er verra!  Kannski nauðgari og barnaníðingur?  Vonandi að þú látir af að nota þetta orð landráðamaður!

Auðun Gíslason, 31.12.2009 kl. 19:12

80 Smámynd: Baldur Hermannsson

Jæja skítt veri með það, Auðun, gleðilegt ár og njóttu næturinnar!

Baldur Hermannsson, 31.12.2009 kl. 19:19

81 identicon

Helvíti maður, andskotinn BH, hvað var ég að hugsa, að ætla að fara í einhverjar pólítískar umræður um Seðlabankann svona rétt fyrir áramót og líka við þig, þennan bráðskemmtilega gamla riffil frá Hafnarfirði, afsakaðu mig kæri frændi, ég fékk bara höfðuðverk eftir að hafa sent færslu 76 og líka hreinlega þvagsýrugigt í stóru tána. Svona vil ég ekki enda árið á síðunni hans ÁG. Spurning til þin gamli rússajeppi BH, Rollingarnir eða Bítlarnir?

Bárður Bringdal (IP-tala skráð) 31.12.2009 kl. 19:24

82 Smámynd: Baldur Hermannsson

Rollingarnir, hvernig spyrðu? Svo er það CCR með meistara Fogherty, Tom Waits, Leonard Cohen, Orbison ...... gleðilegt ár, gamla kameljón, kysstu frúna frá mér og okkur báðum og biddu hana aftur velvirðingar á því að ég skyldi leggja þér lífsreglurnar!

Baldur Hermannsson, 31.12.2009 kl. 19:59

83 identicon

Góðir hálsar !

Mismunurinn á heimsku og snilligáfu er sá --að snilligáfan hefur sínar takmarkanir ---

Gleðilegt ár !!!!!

karen karlsdóttir (IP-tala skráð) 31.12.2009 kl. 21:36

84 Smámynd: Baldur Hermannsson

Karen, láttu fara vel um þig í koníakstofunni.

Baldur Hermannsson, 31.12.2009 kl. 22:03

85 Smámynd: Auðun Gíslason

Takk fyrir Baldur!  Paa ligemaade eða sömuleiðis!

Og allir hér!  Það er með hálfu huga,  sem ég sendi hugheilar jóla- og áramótakveðjur til allra nær og fjær. Gleðileg áramót!  Vonandi að allir komist heilir heim!

Auðun Gíslason, 31.12.2009 kl. 22:52

86 Smámynd: Óskar Arnórsson

Svona svona Auðun! þú ert bæði landráðamaður, og alvöru íslenskur aumingi.

Hvað þarftu meira? Þú ert búin að fá staðfest allt það ömurlegasta sem til er í íslensku orðabókinni.

Um hvað sníst málið? Hvort þú sért í lagi eða ekki?

Allir vita og þú mest sjálf, að þú hefur aldrei verið í lagi, svona í höfðinu.

Viltu að ég skýri út smáatriði?

Gott nýtt ár....

Óskar Arnórsson, 1.1.2010 kl. 03:45

87 Smámynd: Árni Gunnarsson

Óskar. Svona ruddaskap líð ég engum á minni bloggsíðu.

Árni Gunnarsson, 1.1.2010 kl. 09:50

88 Smámynd: Óskar Arnórsson

Auðun er sómakona Árni. Ég var bara fullur í gær...

Óskar Arnórsson, 1.1.2010 kl. 09:59

89 Smámynd: Baldur Hermannsson

Óskar, Auðun er karlmannsnafn. En ég tek undir með Árna, ef þér finnst þú nauðbeygður til að hafa í frammi svona ruddaskap skaltu heldur koma á mína síðu því þar er þröskuldurinn lægri.

Baldur Hermannsson, 1.1.2010 kl. 15:50

90 Smámynd: Óskar Arnórsson

Ok, Baldur. Ég held bara að ég hafi gleymt mér á síðunni hans Árna. Það eru fáir sem ég ber jafnmikla virðingu fyrir eins og fyrir Árna. Vonandi hendir hann mér ekki út ef ég reyni bót og betrun. Það fer mér bara ekki að vera ókurteis eða þannig séð.

Enn þessi kvennsnyft fer svakalega í taugarnar á mér. Mér er alveg sama þó hún sé kall..það er hennar vandamál og ekki mitt..

Óskar Arnórsson, 1.1.2010 kl. 16:19

91 Smámynd: Baldur Hermannsson

Óskar, þú þarft að temja þitt villta skap og góð byrjun væri að láta þér þykja vænt um Auðun Gíslason.

Baldur Hermannsson, 1.1.2010 kl. 16:34

92 Smámynd: Óskar Arnórsson

Ok, mér þykir vænt um Auðun...

Óskar Arnórsson, 1.1.2010 kl. 16:38

93 Smámynd: Baldur Hermannsson

Þetta líkar mér!

Baldur Hermannsson, 1.1.2010 kl. 16:39

94 Smámynd: Auðun Gíslason

Ekki skal ég segja neitt um til hvers hneigðir Óskars togast, en ég afþakka hér með væntumþykju hans.  Hér að ofan segist hann hafa verið fullur í gær.  Mér er spurn:  Er maðurinn ekki óvirkur alkahólisti og sérmeðferðarráðgjafi, og þar að auki sérlegur fræðingur um áfengis- og fíkniefnamál?  

 Óskar, þér er guð velkomið, að reyna að útskýra dylgjur þínar! 

Auðun Gíslason, 1.1.2010 kl. 23:22

95 Smámynd: Magnús Jónsson

Árni: Gleðilegt ár og þakka þér fyrir sérlega skemmtileg skoðanaskipti á nýliðnu ári, farðu nendilega að koma með nýa færslu, það að skruna niður síðuna er nánast eins, og að keyra norður í land á biluðum bíl? svo margar eru athugasemdirnar orðnar, og væri nú gott ef men gætu haldið sig svolítið meira við það að gera athugasemdir, við það sem færslan fjallar um þó alltaf sé svolítið gaman af smá útúrdúrum.

Magnús Jónsson, 1.1.2010 kl. 23:31

96 Smámynd: Árni Gunnarsson

Magnús. Þakka vinsamleg ummæli og segi sömuleiðis. Tek undir þau tilmæli að leitast við að flytja umræðuna á ofurlítið hærra plan en á nýliðnu ári.

Kannski er ástæða til að við  tökum til endurskoðunar þann slæma sið að ástunda persónulegt hnútukast en reynum að skiptast á skoðunum með eins málefnalegum tilburðum og við höfum vit á. Fyrst og fremst ættum við þó að sýna gætni í þessa veru þegar við erum að takast á við síðugesti hvers annars.

"Til næsta fundar verður boðað með dagskrá," eins og málvenja er að segja á hinu háa Alþingi.

Árni Gunnarsson, 2.1.2010 kl. 00:00

97 Smámynd: Björn Birgisson

Árni Gunnarsson. Ég tek ofan minn sixpensara fyrir þér. Hvað ég vildi eiga þína visku, þínar rökræður á gullaldarmáli, þína ást til þjóðarinnar og þinn húmor í hjarta mér. Ég reyni að læra. Gengur full hægt. Allt er þetta líklega betur komið hjá þér. Orðsins og heilindamaður. Þökk fyrir allt. Gakktu ávallt bestu vegi, sem í boði eru. Þú ert Íslendingur. Til fyrirmyndar. Hafðu þökk fyrir.

Björn Birgisson, 2.1.2010 kl. 00:22

98 Smámynd: Óskar Arnórsson

Ég veit aað maður þarf að drekka brennivín Aður til að verða alki. Ég reykti opíum og hash mér til óbóta þegar ég var ungur ef þú vilt endilega vita það og hætti því 20.mai 1982.

Núna vinn ég við að hjálpa heróínistum í Stockhólmi að halda lífi þar til þeir komast undir læknishendur. Og hef unnið við það stanslaust síðan 1988.ð sjálfsögðu skil ég ekkert hvað það hefur með málið að gera, enn það er hægt að lesa það á heimasímu um alla Svíþjóð svo það er ekkert leyndarmál. rásðgjafavinna ermjög einföld, enn flókið mál að gera það sem þarf. Kemur að engu gagni í Icesave málinu. það hlýtur þú að geta reiknað út sjálfur. Ég skal hætta að kalla þig kellingu. hehe...

Annars átti þetta komment að fara til þín Auður, enn þá varstu búin að loka á mig eins og Jón Valur og fleiri svona trúargaukar. Sendi þér hann svona svo þú hafir eitthvað að smjatta á:

Forseti mun ekki skrifa undir þennan glæpasamning sem Bretar eru að þvinga upp á Íslenska Ríkið. Það er á hreinu. Auðvitað þarf enga þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta mál. Það er nóg að fara eftir íslenskum lögum um innistæðutryggingar.

það er því miður til allt of mikið af fólki sem talar um móral og "að halda haus í útlöndum" kjaftæði, því málið sníst ekkert um það heldur. Viðhorf almennings í útlöndum breytist nákbvæmlega ekkert á hvern vegin það stígur. það er frekar að það gjöreyðilegði viðskiptamöguleika landsins ef fyrirtæki erlendis sjá Ríki á bólakafi í skuldum.

það hefur engin leyfi að vera svo gjörsamlega ábyrgðarlaus að taka lán, í ekkert smálán, í nafni barna og barnabarna sinna. Engin fullorðin með snefil af sjálfsvirðingu má gera þetta. þetta er svo rotið hugarfar að það nær engri átt.

Og svo er málið mjög skírt. Ráðherra á sínum tíma sem voru hluti af starfsleyfi Icesave, gerðu engar skuldbindingar um tryggingar. Allt svoleiðis tal er bara fantasíur og hugarburður. Stjórnin, forsætisherfan og þeim sköllótta er svo hugleikið að komast í ESB, að það er búin til fantasía sem íslendingar eru seldir. 

Og margir kaupa ruglið alveg hrátt eins og Auðun gerir. Ísland þarf síður enn svo á ESB að halda. það má ekki fara með málið fyrir dómstóla einfaldlega vegna þess að málið er borðliggjandi.

Ódýrir pólitískir hippaflokkar sem aldrei hafa stjórnað neinu og ekki einu sinnu sjálfum sér, fara á móti öllum lögum og reglum og fórna þjóðinni fyrir þessa snobbinngöngu í ESB klúbbinn. Fólk er hrikalega illa upplýst hvað ESB er raunverulega og hvaða áhrif ESB hefur á daglegt líf fólks.  

Selt verður ofan af ca, 2000 fjölskyldum til að trixa peninga inn í skulduga íslenska banka. Ófyrirleitni þessarar svikastjórnar er alveg með eindæmum. Hvaða hvötum hún stýrist af er ekki vitað. Enn eitthvað verulega er bogið við þetta allt.

Allir sem  nenna að skoða þetta Icesavemál í alvörunni, sjá nákvæmlega hvað er að gerast. Enn það nennir Auðun ekki að gera blessuð k..... .

Ég hef sjalfur valið hana sem fulltrúa Icesaveunnanda því ég nenni ekki að eyða orðum á alla sem vilja þetta mál samþykkt. Það er fyrir mér annars gott mál að geta sorterað úr ruglpakkið á þessu landi því það kemur best í ljós í þessu Icesavemáli hvernig fólk er yfirleitt innréttað.

Það lokast ekki fyrir neinar lántökur fyrir Ísland eins og sumir halda fram. það fellur engin skuggi á álit Íslands út á við. Allt svona kjaftæði er heilaspuni fólk sem hefur enga hugmynd um hvað það er að tala. 

Enn ég veit að Auðun getur alveg hugsað. Jafnvel betur enn margir aðrir. Það gerir hans þátt þess þá alvarlegri að reyna að breiða út þvætting og rugl um allar trissur. Það er glæpur hvernig er farið að þessu máli öllu saman. 

 

Fallegt af þér að afþakka væntumþykju og stórfyndið!.. 

Óskar Arnórsson, 2.1.2010 kl. 00:50

99 Smámynd: Auðun Gíslason

Ja, hérna hér!  Bara venjulegur dópisti!  Og ég sem hélt þú værir bara venjulegur áráttulygari!

Auðun Gíslason, 2.1.2010 kl. 01:40

100 Smámynd: Óskar Arnórsson

Ég get alveg logið ef ég vil Auðun. Enn ég geng ekki um og reyni að sannfæra fólk um að svíkja landið í hendur útlendinga...jájá. maður er nú með ýmsa reynslu. Svo smyglaði ég líka niðurgreiddu kindakjöti frá færeyjum og seldi í Reykjavík, þannig að ég er líka gangster...vertu ekki svona mikil rola og oppnaðu síðunna þína.

þú ert alveg skelfilega viðkvæmur af landráðamanni að vera...finnst þér það ekki?..

Óskar Arnórsson, 2.1.2010 kl. 02:27

101 Smámynd: Árni Gunnarsson

Björn Birgisson. Þakka þér fallega áramótkveðju. Það er nú svo með lofið og lastið að hvorutveggja er vandmeðfarið. Og þegar gamall og forhertur syndaselur eins og ég "fer hjá sér" vegna hrósyrða þinna hefurðu líklega tekið nokkuð djúpt í árinni. Kannski get ég fallist á að innræti mitt sé ekki mikið bölvaðra en ýmsra annara en lengra treysti ég mér nú ekki til að ganga. Ég held að þú ættir að leyfa sixpensaranum að vera "kjurum" í návist minni einkum núna í frostinu!

En vináttu þína er mér afar ljúft að þiggja og tel mér sóma að henni.

Óskar: Ég hef talað skýrt um þær lágmarkskröfur sem ég geri til þeirra sem staðnæmast hér til skrafs og skoðanaskipta og þær ætlar þú greinilega ekki að virða. Mér er raun að því að sjá að þessi bloggsíða mín er orðinn sorphaugur fúkyrða og vígvöllur þar sem stundaðar eru ósmekklegar árásir á viðfangsmenn með orðalagi sem engum er boðlegt. Ég uni því ekki að fólk sé farið að forðast þessa bloggsíðu af þessum sökum. Og allra síst tel ég mig þurfa að una því að fyllast kvíða við að opna hana sjálfur.

Þetta er síðasta aðvörun. 

Árni Gunnarsson, 2.1.2010 kl. 10:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband