Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
16.3.2010 | 19:46
Laxeldi í Arnarfirði
Það ætti að vera hafið yfir ágreining að nýting Arnarfjarðar til laxeldis og hverskyns starfsemi verði algerlega á höndum heimamanna. Það sama ætti að gilda um önnur sveitarfélög hvað varðar nýtingu á fiskimiðum fyrir smábáta og dragnótaveiðar ætti alfarið að banna.
Ég sé það fyrir mér að verði strandveiðar í sama formi og síðastliðið sumar auknar þá eigi heimahafnir bátanna að hafa forgang til veiðanna. Þetta getur verið nauðsynlegt að binda í reglugerð. Fari svo að einhverjar sægreifahugmyndir í þessa veru fari að þróast getur allt farið úr böndum.
Það sem ég á við er til dæmis það að einhverjir spákaupmenn sjái tækifæri til að kaupa tugi báta af strandveiðastærð og gera þá út með fullkomnustu græjum þá verði þess skammt að bíða að þessar veiðar missi velvild þjóðarinnar og snúist upp í neikvæða umræðu.
Við Íslendingar þekkjum vel hugtakið að nota. Þegar við hinsvegar tölum um að nota eða nýta okkur eitthvað þá meina flest okkar að misnota allt það sem við tölum um að nýta.
Ég hugsa ennþá eins og sveitadurgur. Mun gera það svo lengi sem ég get eitthvað rifið kjaft og gef engan aflátt af því hugarfari
![]() |
Vilja eitt laxeldisfyrirtæki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.3.2010 | 14:13
Frjálslyndi flokkurinn með landsfund í vikulokin. Gerum þennan landsfund að tímamótum í íslenskum stjórnmálum
Aldrei hafa jafn margir Íslendingar verið jafn reiðir og nú. Aldrei hafa meiri vonbrigði kjósenda þessa lands verið jafn mikil og nú. Öllum ætti nú að vera orðið ljóst hversu fálmkennd og ráðalaus pólitísk stjórnsýsluvinna á ábyrgð fjórflokksins er. Á því hefur því miður ekki sést nein breyting þrátt fyrir oflátungslegar yfirlýsingar í aðdraganda kosninga svo langt sem minni fólks nær.
Nú er tækifæri til að gera þá einu byltingu sem dugar. Nú þurfa allr þeir sem misst hafa þolinmæðina og vonina um heiðarlega stjórnsýslu að rétta úr sér og taka þátt í að efla þennan flokk og setja honum skýr og afmörkuð markmið í pólitískum baráttumálum.
Við erum að tala um flokk sem sundraðist vegna pesónulegra innbyrðis deilna sem nú eru að baki. Margir hafa yfirgefið flokkinn og margir komið í staðinn. Nú eigum við tækifærið til að skipa nýju fólki til starfa og við þurfum að velja það af kostgæfni. Þeim mun fleiri sem skrá sig í flokkinn og skrá sig til þáttöku á landsfundinum, því öflugri verðum við. Þeim mun fleiri sem taka til máls og láta í sér heyra því meiri líkur á að markmiðin verði skýr og aðferðirnar líka.
Munum að Frjálslyndi flokkurinn er með skýra stefnu í stjórnun fiskveiða og hefur aldrei hvikað frá henni. Allir aðrir stjórnmálaflokkar hafa gugnað þegar á hóminn var komið. Enda meintu þeir aldrei neitt með orðum sínum og samþykktum.
Áfram Ísland!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
13.3.2010 | 17:24
Aldrað fólk með sjálfsvitund og skoðanir á eigin lífi og ævilokum
Ég verð að taka ofan fyrir Árna Páli Árnasyni fyrir þá djörfung og dómgreind sem þessi stefnubreyting í úrræðum fyrir okkur aldraða sýnir. Það er vonandi að þau sjónarmið séu nú að baki að aldrað fólk eigi að vista á stofnunum og ganga um leið inn í þann barndóm að hlíta reglum og ráðstöfun fólks sem ráðið hefur verið til að halda í því lífinu með þokkalega mannlegri meðhöndlun.
Það er nefnilega langt frá að við sem höfum lokið starfsferli vegna öldrunar og/eða skertrar starfsorku séum sjálfvirkt orðin fráhverf öllum löngunum til að lifa lífinu á eigin forsendum og ljúka því á sömu forsendum.
Víðs vegar úti á landi og jafnvel við þjóðveg 1 eru heimavistarskólar og stór félagsheimili sem eru ýmist vannýtt eða standa jafnvel auð og án minnstu nýtingar af neinu tagi. Þessar byggingar eru margar hverjar með góðri aðstöðu til mötuneytis og frístundaiðkana ásamt því að víða er upphitun með hitaveitu og íbúðum fyrir kennara og starfslið. Viðhaldi er víða ábótavant að vísu en með nokkru átaki væri unnt að gera þessar byggingar að notalegu athvarfi fyrir aldrað fólk sem unir sér vel utan þéttbýlis og hefur jafnvel búið í sveitum.
Hvað er nú nærtækara en að hefjast nú handa og leysa svona til prufu nokkur brýnustu úrræði til vistunar aldraðra með því að taka eina svona byggingu og breyta henni í einhvers konar sjálfseignarstofnun þar sem viðstfólk stýrði sjálft rekstrinum.
Mér kemur t.d. í hug skólabyggingin á Laugarbakka í Miðfirði. Þar er stór og gæsileg bygging ónotuð að mestu ásamt tveim einbýlishúsum sem byggð voru fyrir skólastjóra og starfsmann.
Þarna er heitt vatn og sundlaug í grenndinni sem tengist félagsheimili sem ugglaust mætti tengja við umrædda starfsemi. Nærtækt væri að gera svo þjónustusamning við Sjúkrastofnunina á Hvammstanga um lækna-og hjúkrunarþjónustu. Lítið mál væri að tengja þá sem kæmu af höfuðborgarsvæðinu með því að skipuleggja ferðir til Reykjavíkur svona einu sinni í viku með litlum fólksflutningabíl sem stofnunin ætti og hefði til útsýnis og orlofsferða um styttri eða lengri leiðir.
Aldraðir! Tökum nú höndum saman og hrindum einhverri svona hugmynd í framkvæmd.Ráðum því sjálf hvort og hvenær við étum súra hrútspunga, kæsta skötu ellegar þá pitsuræfil og hamborgara.
Við hefðum gott af því að fá að vakna við graðhestshnegg á vordegi, kvak í mófuglum og lambsjarm svona til tilbreytingar frá skarkala og rykmengun.
Gerum þetta strax því tíminn líður.
Síminn hjá mér er 8207119.
![]() |
Fyrsta öldrunarheimilið sem reist verður út frá nýjum viðmiðum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
11.3.2010 | 16:35
Tæknivætt háskólasamfélag fullt af bjarsýni með frjóar hugmyndir handa næstu kynslóðum
Það er með miklu stolti sem ég sest niður til að fá útrás fyrir aðdáun mína á ómetanlegri menntun okkar ungu kynslóðar. Nú loksins fer að hilla undir nýja tíma bjartsýni eftir aldalangt svartnætti þar sem torfið og fjallagrösin bar hæst í allri umræðu. Ég hef það fyrir satt að þessi álver séu í dag talin vera Aladínslampi allra þeirra þjóða sem "á hæstum sitja tróninum" í samfélagi menntaðra og upplýstra landsvæða.
Nú bíð ég eftir því að einhver framsýnn menntamaður stigi fram á sviðið og krefjist þess að sími verði leiddur inn á hvert heimili í þessu útúrborulega landi.
Of lengi höfum við notast við kálfskinnsmenninguna.
Það kom hérna maður sem sagði mér að nú væri komið svo á efnaðri heimilum að fólk væri hætt að nota export í kaffið!
Það bendir allt til þess að það komi rennandi vatn inn í öll hús á Íslandi.
Einhvern tímann hefði það nú þótt ótrúlegt að við Íslendingar kæmumst svo hátt á heimsmælikvarða að langtíburtuþjóðir byðust til að þiggja af okkur ódýra orku.
Mikið held ég að virðing okkar sé að vaxa.
![]() |
Sex af sjö tilboðum undir kostnaðaráætlun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Margir munu sitja heima í dag. Þeir hafa tekið þá ákvörðun að sleppa því að nýta fyrsta tækifærið sem kjósendum þessarar þjóðar hefur verið fært til samþykkis eða synjunar á lögum frá Alþingi.
Þeir um það og enginn efast um að til þess hafi þeir fullt leyfi.
Tiltekinn stuðningshópur ríkisstjórnarinnar tekur þessa ákvörðun til þess að sýna henni hollustu í baráttu við vont viðfangsefni sem hún bar ekki ábyrgð á nema að hluta, en ákvað þó að takast á hendur að leysa.
Samfylkingin ber án vafa alla ábyrgð á tilurð vandans fyrst í samtogi með Sjálfstæðisflokknum og á seinna stigi ásamt með Vinstri grænum.
Vandamálið í upphafi afurð pólitískrar heimsku. Á seinna stigi líka.
Sumir benda á að atkvæðagreiðslan í dag sé tilgangslaus því lögin sem kosið er um séu nú þegar orðin úrelt. Skiptir auðvitað engu máli því þau úreltust vegna þess að lögunum var vísað til þjóðarinnar og þá tók við nýtt ferli sem greinilega mun skila betri samningi, eða svo er talið.
Aðrir benda á að margir misskilji tilgang atkvæðagreiðslunnar; og hvað með það? Hafa kjósendur ekki æ ofan í æ afhent umboð sitt hinum og þessum pólitískum hálfvitum af misskilningi? Ekki veit ég betur.
Sumir benda jafnframt á að útlendingar muni skilja höfnun umræddra laga á þá lund að Íslendingar hafi þar með neitað að borga lágmarkstryggingu Icesave reikningsins. Hvað með það?
Ég upplýsi það að ég mun ganga til þessarar atkvæðagreiðslu með því hugarfari að ég sé að neita öllum greiðslum úr galtómum sjóðum okkar Íslendinga í óljósa skuldahít vegna íslenskra þjófa í útlöndum. Þeir voru ekki sendir af þessari þjóð til að stela svo miklu sem einnar krónu virði en gerðu það fyrir framan augun á bæði Bros og Brown eða hvað þeir nú heita allir þessir vitleysingar sem hafa vit fyrir útlendu fólki í eigin landi. Þeir hefðu bara átt að banna þjófunum þetta sjálfir og hneppa þá í varðhald fyrir óknyttaskapinn.
Ég er hér með að greina frá því að mér er drumbs með að láta jafnt íslenska pólitíkusa sem útlenda hafa mig að fífli og samþykkja það með þögninni.
Vond deilumál eru ekki alltaf eins flókin og pólitíkusar reyna að telja okkur trú um.
Og heimsku pólitíkusarnir okkar eiga að hætta að flækja málin fyrir okkur og þeir eiga líka að hætta að ljúga að okkur. Þeir eru nefnilega of heimskir til að nokkur trúi þeim lengur.
Ég árétta: Það er ekki misskilningur hvað mig varðar að í dag er ég að neita að borga krónu af þessari skuld heimskunnar við sjálfa sig.
Ég veit ekki einu sinni hvort þetta snýst um ólögvarða skuldakröfu eða einhverskonar stríðsskaðabætur.
En; Lifi Ólafur forseti! Lifi byltingin!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (34)
24.2.2010 | 18:47
Síldin kemur, síldin fer
Þær eru svolítið að rifjast upp fyrir mér núna síldarfréttirnar frá fimmta áratug síðustu aldar. Þær voru í hverjum hádegisfréttatíma útvarpsins allt frá því síldin fór að veiðast og þar til síldveiðum lauk síðsumars. Þarna voru lesin upp nöfn bátanna sem höfðu landað Norðurlandssíldinni daginn áður á Siglufirði, Raufarhöfn og hinum ýmsu söltunarstöðvum víðs vegar norðan-og norðaustanlands. Þetta var langur lestur þegar vel veiddist og nöfn þessara báta festust í minni fólksins.
Og svo tengdust þessar söltunarstöðvar nöfnum manna sem jafnframt urðu þjóðkunnir líkt og umtöluðstu útrásarvíkingar í dag. Þessir menn voru kallaðir "síldarspekúlantar" og það birtust af þeim myndir þar sem þeir stóðu á síldarplönunum með vindil í munninum og hatt innan um söltunarkerlingarnar. Þetta voru alþýðlegir mann að sjá og sumir í holdum og sumir sagðir svolítið drykkfelldir.
Þetta voru skemmtilegir tímar og oft var gaman að sjá tugi þessara báta að snurpa síld inni á Skagafirðinum sem kraumaði af vaðandi síld í torfum.
Fréttir af síld fylla ekki fréttatíma útvarps í dag enda sést nú ekki lengur vaðandi síld á fjörðum norðanlands yfir sumartímann.
Í stað síldarfréttanna eru nú komnar aðrar fréttir af umsýslu verðmæta og öðruvísi í laginu. Lyktin er ekki neitt áþekk síldarlyktinni á plönunum sem kitlaði þefskyn og kom jafnvel róti á hormónastarfsemi ungs fólks að sögn kunnugra. Mörgum finnst þessi nýja lykt vond og ég er einn í þeim hópi. Sumir nefna þetta peningalykt og aðrir kalla þetta þjófafýlu.
Enginn myndi í dag vita hvaðan á hann stæði veðrið ef útvarpið færi að segja frá því hvað Valurinn, Dröfnin, Stígandinn hefði landað mörgum málum og tunnum á Siglufirði þann og þann daginn enda engin von á slíkum fréttum.
Nú er sagt frá því hvað Íslandsbanki, Arion banki og Landsbankinn hafi afskrifað marga milljarða. marga tugi milljarða, eða mörg hundruð milljarða í gær af skuldum Haga, Ólafs í Samskipum, Milestone eða hvað nú öll þessi metnaðarfullu umsýslufyrirtæki og fjárglæframenn allir heita. Jafnframt er svo skilmerkilega sagt frá því að stærstu nöfnin í stærstu fyrirtækjunum hafi tekið við rekstrinum eftir ormahreinunina, enda hafi það verið krafa "nýrra eigenda!"
Þjóðinni sýnist vera ofboðið og fréttamenn skynja þjóðina enda eru flestir fréttamenn hluti af þjóðinni. Og fréttamenn kalla til viðtals ráðherra ríkisstjórnar sem mæta góðfúslega. Þeir svara aðspurðir hvernig á því megi standa að menn sem tapað hafi hundruðum milljarða í rugl og fjárfestingafyllirí fái fyrirtækin aftur og ruglið afskrifað.
Ja, bankarnir hljóta að hafa sínar eðlilegu skýringar á því segir viðskiptaráðherra hæstvirtur.
Hvort honum finnist þetta eðlilegt?
Hæstvirtur segir að honum finnist þetta kannski svona svolítið undarlegt líka ef grannt sé skoðað en málið komi honum eða ríkisstjórninni ekki neitt við. Ef eitthvað kynni nú að vera við þessar vingarnlegu ráðstafanir á milljörðunum að athuga þá sé það Fjármálaeftirlitsins að kanna það.
Forstjóri Fjármálaeftirlitsins er skjótur til svara og segir að þá stofnun varði ekki um svona mál. Allar þessar ákvarðanir séu í höndum skilanefnda bankanna sem fari stundum í kaffi með nýrri stofnun sem ríkisstjórnin setti á laggirnar til að eyða tekjuafgangi ríkissjóðs og heitir Bankaumsýsla ríkisins ef ég man rétt.
Má ég biðja um að Rúv hætti að storka þjóðinni með fréttum á borð við svona fréttir af íslenskum ræfildómi.
22.2.2010 | 19:41
Konan virkar normal í útliti en hlýtur að vera biluð
Var að lesa þessa frétt af undarlegu konunni sem setti upp ísbúð og selur framleiðslu frá nokkrum búandkörlum og kellum þeirra. Sýnist þessi kona virka svo vel á mann og vera einkar geðug í útliti.
En auðvitað er eitthvað mikið að svona fólki.
Kannski er eitthvað ekki í lagi heima hjá henni.
Af hverju bíður manneskjan ekki átekta og bíður eftir því að ríkisstjórnin geri eitthvað?
Heyrði líka í ungri konu á Gufunni í dag sem er með óvenjulega og ögrandi myndlistarsýningu hérna í hreppnum.
Stórskrítin.
Hún sagðist hafa fundið einhverja ögrun og áskorun í kreppunni! Þessi var nú góður, kanntu annan kona góð!
Til hvers höfum við haft hér í áraraðir stjórnvöld sem hafa haft að leiðarljósi stjórnvisku kommúnistanna í Ráðstjórnarríkjunum marglofuðum ef við förum allt í einu að hugsa eins og fólkið sem barðist til efnahagslegs sjálfstæðis á fyrri hluta síðustu aldar? Þess fólks sem nýtti sér vaxandi þekkingu og skólagöngu til að nýta hvert það tækifæri sem þessir nýju tímar buðu fólk að nýta sér?
Látum ekki blekkjast af bulli ruglaðra ungkvenna sem þekkja ekki pólitík.
Höldum áfram að syngja þjóðsönginn geðþekka:
Ætlar ekki þessi helv. rikisstjórn að fara að drullast til að gera eitthvað?
![]() |
Ísland komið á skrið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.2.2010 | 01:49
Eftir skyssur, arg og nauð...
Samkvæmt bestu heimildum sem mér eru tiltækar var það á árshátíð Hestamannafélgasins Stíganda í Skagafirði sem hagyrðingar héraðsins spreyttu sig á að lýsa í bundnu máli ástandi bónda sem kæmi heim eftir slarksaman réttardag. Tvær af þessum vísum hef ég lært af munni þeirra sem þarna voru viðstaddir. Hjálmar Jónsson, þá prófastur á Sauðárkróki og nú Dómkirkjuprestur skilaði sínu svari svona:
Eftir skyssur arg og nauð,
ekki viss að tjá sig;
búinn að missa Brún og Rauð;
búinn að pissa á sig.
Og Sigurjón Runólfsson bóndi á Dýrfinnustöðum:
Andlitið er örum skreytt
eftir ráttarbrasið
og það vantar yfirleitt
alla reisn í fasið.
Það var að nýafstöðnum réttum haustið 2008 að forsætisráðherra íslensku þjóðarinnar ávarpaði landsmenn af nýgefnu tilefni. Erindi mannsins var að tilkynna þau grábölvuðu tíðindi að nú hefði það gerst sem enginn hafði séð- eða getað séð fyrir! og væri nebblega það að íslenska þjóðin væri ja, eiginlega bara líkastil komin á hausinn! Hann bað fólk að halda ró sinni enda hefði þessi þjóð reynslu af því að berjast við manndrápspestar og eldgos og alltaf hefðu þeir sterkustu lifað af og haldið áfram að tímgast og tigna sitt vald. Hann bað Guð að blessa þetta land og þjóðina þess lengstra orða að falla ekki í þann fúla pytt að persónugera vandann "sem enginn hefði getað séð fyrir!"
Það var mín tilfinning eftir þessa dæmalausu ræðu að "alla reisn hefði vantað í fas" þess sem flutti, og ekki fjarri lagi að líkja honum við bóndann sem hafði lent í því sem hann hafði ekki séð fyrir að morgni réttardagsins.
Nú ætla ég að gerast svo djarfur að brjóta gegn boðorði umrædds ávarps eða öllu heldur boðorði þess erindis sem það flutti þjóð hans og okkar beggja. Ég ætla að gerast skáldlegur jafnframt þegar ég: "persónugeri vandann" og færi hann um leið inn á brautir hins slarksama réttardags.
Það reyndist hafa verið fjallkóngurinn sem kom heim án reisnar í fasi og búinn að pissa á sig jafnframt því að týna bæði Brún og Rauð. Gangnamannahópurinn allur með tölu hafði drukkið frá sér ráð og alla rænu eftir að vera búinn jafnframt að hella fjallkónginn fullan.
Öllu fénu sem náðst hafði á afréttinni og var jafnframt allur fjárstofn hreppsins ásamt fjölda fjár úr öðrum hreppum höfðu gangnamennirnir týnt í leitinni og síðan brotið niður skilaréttina í dagslok.
(þetta hafði auðvitað enginn séð fyrir)
Eftir nokkuð langan mótþróa tókst hreppsbúum að losa sig við fjallkónginn og hluta leitarmanna fyrir næstu réttir. Og eftir að réttinni hafði veriða tjaslað saman af vanefnum var lagt af stað í næstu leitir og nýr fjallkóngur sem reyndar var álpast til að ráða úr fyrri hópnum og hluti hans að auki lagði af stað nýjar leitir. Eftir fyrstu leit kom í ljós að ekki hafði náðst nema lítill hluti þess fjár sem týnst hafði árið áður.
Nú urðu tíðindi öll með ólikindum nokkrum í umræddum hreppi. Fyrrum liðsmenn fjallkóngsins fallna slógu hring um réttina, allir ríðandi á hvitum glæsifákum og höfðu uppi digurmæli við nýja leitarflokkinn og fjallkónginn ásamt aðstoðarkóngi. Þessir menn voru búsettir í þeim hluta hreppsins sem líkt og hinir hlutarnir voru sauðlausir að kalla en lifðu alla daga sældarlífi og rifu í sig spikfeitt sauðaketið sem eftir öllum sólarmerkjum átti að vera uppétið fyrir margt löngu eins og gefur að skilja.
En nú öskruðu þeir ókvæðisorð til nýja leitarflokksins fyrir þann ónytjungshátt að skilja ekki ástand sveitarinnar og skila tafarlaust öllu því fé sem týnst hafði ásamt eðlilegum arði að sjálfsögðu. Þeir gengu svo langt að kalla aðstoðarfjallkónginn því versta og snautlegasta nafni sem íslensk tunga geymir: Kommatitt og kommadjöful að því viðbættu að vera landráðamaður og brottrækur af því ágæta landi sem hann hefði svikið ásamt náttúrlega yfirboðara hans fjallkónginum.
Undir þessu ómaði svo kunnuglegt rímnalag við erindi úr Pontusrímum eldri sem finna má í Íslandsklukku Laxness.
Dagur er liðinn. Hátt skal hefja
hunangsbikarinn enn.
Heill þér menglöð minna stefja
Mannsblóð fagurt renn.
Ekki nenni ég að flytja lengur þetta sögulega skáldverk mitt að sinni enda sækir mig svefn.
En þær raddir gerast nú áleitnar með þessari þjóð sem spá því að nú fari að styttast í hýðingu á Kjalardal - hina seinni. Hverjir þar verði hýddir kemur fólki ekki saman um.
27.1.2010 | 15:38
Aldrei fleiri sótt um nám á Litla Hrauni
Var að hlusta í dag á þáttinn Orð skulu standa í umsjá Karls Th. Birgissonar á Gufunni í endurflutningi frá s.l. laugardegi. Samkvæmt venju bárust í tal svonefndar "fjólur" í fréttum vikunnar. Glöggur hlustandi hafði haft samband við þáttarstjórnanda og bent honum á ofanritaða fyrirsögn í Fréttablaðinu. Setti nú hlátur að gestum þáttarins og ég get mér þess til að mörgum hlustendum hafi stokkið bros og sjálfur hló ég dátt.
Vafalaust hafa nú flestir þeir sem lásu umrædda frétt skilið hvað að baki lá. Það er alkunna að fangar á Litla Hrauni hafa átt þess kost að stunda nám á vistunartíma sínum allt frá því að minn ágæti bróðir Helgi Gunnarsson tók við stöðu fangelsisstjóra þar og innleiddi þessa nýju leið til að byggja ógæfumenn upp til að takast á við lífið að lokinni afplánun. Þeir sem við starfinu tóku eftir 11 ára starfsferil Helga hafa haldið þessum sið og nú mun þetta bundið í starfsreglur stofnunarinnar.
En þessi fyrirsögn gefur manni auðvitað leyfi til að misskilja og margir munu líklega núna hugsa til þeirrar umfangsmiklu rannsóknar á efnahagsbrotum sem áður voru í daglegu tali kölluð þjófnaður og nú berast daglega fréttir af en miðar seint. Þar er rannsakaðir þeir einir sem lengi höfðu stöðu tignarfólks og sauðsvartur almúginn hældi sér af ef hann naut þeirrar gæfu að vera málkunnugur svo ekki sé nú talað um að vera skyldur eða tengdur.
Margir úr þessum hópi eru nú taldir vera líklegir umsækjendur um langskólanám á Litla Hrauni.
Ekki kæmi mér á óvart þótt ýmsir alræmdir lifrarpylsuþjófar á staðnum hlýddu með athygli á ef þessir nýju skólabræður tækju upp á að skemmta samföngum sínum með sögum af ævintýralegum uppákomum á lystisnekkjum með kóngafólki og eigendum mikilvirkra olíulinda í Arabaríkjum.
24.1.2010 | 22:14
Pólitíkusur
Pólitíkusar svonefndir eru afmarkaður hópur fólks sem eyðir mestallri orku sinni í að skilgreina þau viðfangsefni samfélagsins sem flokkast undir pólitík í daglegu tali fólks. Mest af orkunni fer þó í að finna klókindalegar aðferðir til að benda kjósendum á heimsku svonefndra pólitískra andstæðinga og þá í samanburði við raunhæfar leiðir sem þeir sjálfir hafi rakið sig eftir til að finna hið rétta í hverju máli.
Kýrnar hafa þá áráttu að seilast í jötunni eftir því sem næsta kýr er að éta þar til ekki er meira að hafa. Þá fyrst snúa þær sér að eigin fóðri.
Og af því að kýr eru taldar heimskar (sem er misskilningur) finnst mér að meiri virðing hæfi ekki okkar pólitíkusum en að kalla þá pólitíkusur sem er kvenkynsnafnorð í nefnifalli fleirtölu. Þessi kvikindi hafa haft sig mest í frammi við að éta frá öðrum og þjóðin er ekki orðin aflögufær eftir að pólitíkusurnar hafa gengið eftirlitslausar í fóðurbirgðirnar.
Mér sýnist að mörg undanfarin ár og áratugi höfum við valið af kostgæfni undirmálsfólkið í samfélagi okkar til að vísa okkur veginn til framtíðar.
Þessu fólki hæfa ekki tignarnöfn.
Mikla orku þurfum við að vera reiðubúin til að leggja í þá vinnu að losa okkur við allar pólitíkusur þjóðarinnar út af stjórnsýslustofnunum.
Og við þurfu að hefjast handa þegar í fyrramálið við undirbúninginn því við megum engan tíma missa og hver dagur er dýr. Það ættum við að vera búin að sjá.