Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Frómagerði

Margir hlógu þegar lykilmenn íslenskrar stjórnsýslu komu í viðtöl hjá fjölmiðlum á fyrstu dögum eftir hrunið 2008 og lýstu yfir algeru sakleysi af mistökum í nokkra veru. Og mörgum ofbauð víst þegar höfundar rannsóknarskýrslunnar upplýstu að af 147 miklvægum gerendum höfðu lýst yfir sakleysi.

Fyrir nokkrum áratugum kom upp grunur um fjárdrátt hjá almenningsfyrirtæki úti á landsbyggðinni. Frankvæmdastjórinn lá undir einhverjum grun enda hafði hann á þessum tíma byggt sér dýrt og vandað hús sem mörgum fannst að hlyti að vera jafnvel launum hans ofviða.

Framkvæmdastjórinn sór og sárt við lagði að þessi fjárdráttur væri sér hulin ráðgáta því hann hefði á allri sinni stjórnartíð eytt miklum tíma við að tryggja sem best að ekkert færi forgörðum af verðmætum fyrirtækisins. Framkvæmdastjórinn slapp við dóm ef ég man rétt. En þetta varð hagmæltum galgopa i byggðarlaginu efni til eftirfarandi vísu:

Að eigin dómi ekkert hvarf

en eyddi skóm á verði. 

Og eftir rómað ævistarf

eignaðist Frómagerði.

Hús framkvæmdastjórans gekk þaðan af undir nafninu Frómagerði.

Hversu margar glæsihallir gætu borið þetta nafn í dag?

Gæti einhver þeirra jafvel verið skráð á nafn maka einhvers af þessum 147 blásaklausu? 


Opið bréf til Björns Vals Gíslasonar

Sæll vertu!

Grein sem þú skrifar í dag í Fréttablaðið undir titlinum Sáttanefnd um stjórn fiskveiða hefðir þú betur sleppt að skrifa. Það versta af mörgu slæmu sem sýnilega er hvati að þessum dæmalausa pistli er sú trú að hann lesi ekki aðrir en þeir sem auðvelt sé að blekkja. Það er misskilningur.

Í þessari grein kemur fram sú bjartsýni að sáttanefndin muni ná lendingu um samkomulag og niðurstöðu. Það sem greinin segir frá er á hinn bóginn sönnun þess að svo mun ekki verða.

Það vissu það flestir um leið og þessi sáttanefnd var skipuð að hennar hlutverk væri ekki annað en að drepa á dreif einu sinni enn því fyrirkvíðanlega verkefni sjávarútvegsráðherra að takast á við þetta mál og leysa það í ríkisstjórn. Nú hefur þú staðfest það og það er þitt skársta innlegg.

Þú nefnir- og raðar niður- því sem nefndin hafi komið sér saman um. Afar fáa varðar neitt um þau atriði því verkefnið var að leysa heitasta pólitíska ágreiningmál þjóðarinnar um áratuga skeið. Og þú greinir frá því að þau tvö pólitísku aðalatriði málsins séu að vísu enn óleyst!

Það sem upp úr stendur í allri þeirri holtaþoku orðhengilsháttarins í nefndum greinarstubbi þínum er:

LÍÚ hefur ekki tekið þátt í starfi nefndarinnar síðustu mánuðina og nú hafa Samtök fiskvinnslustöðva ákveðið að gera slíkt hið sama. Vonandi koma þessir aðilar þó aftur til leiks og ljúka með okkur því starfi sem lagt var upp með í upphafi, þ.e.að ná sem víðtækastri sátt um stjórn fiskveiða til framtíðar.

Ekki er með nokkru móti unnt að staðfesta betur en þarna er gert þann bitra veruleika að í stað þess að ríkisstjórn setji hagsmunasamtökum skilyrði í samningavinnu um pólitískt hagsmunamál þá setja hagsmunasamtökin ríkisstjórninni skilyrði og komast upp með það!

Verður pólitískur vesaldómur dýpri og átakanlegri en þetta?

Sáttanefndin átti að ljúka störfum og komast að niðurstöðu fyrir lok vorþings til þess að hægt yrði að leggja fram í tæka tíð og samþykkja breytingar sem tækju gildi í byrjun næsta fiskveiðiárs. Nú veist þú að svo verður ekki og þú mátt vita að við sem með þessu höfum fylgst vitum það líka.

Þessi grein þín Björn Valur er skelfileg og þér tókst ekki að þyrla með henni ryki í augu nokkurs manns.

Kveð þig með ósk um vaxandi þrótt til pólitískrar vinnu í þágu þinna umbjóðenda.

 Árni Gunnarsson frá Reykjum á Reykjaströnd.


Litlar gular hænur

Skelfilegt var bankahrunið og afleiðingar þess fyrir þjóðina. Skelfileg er skýrsla rannsóknarnefndarinnar líkt og allri bjuggust við. Skelfilegast af öllu er þó að fylgjast með þeirri afneitun ábyrgðar sem allir vaktmennirnir sem sviku keppast nú við að grípa til í skömm sinni og smæð. Samkvæmt vitnisburði skýrsluhöfunda þá neituðu allir eigin ábyrgð við skýrslutökuna en bentu á aðra.

Og þetta segir okkur frá því að æðstu menn íslenskrar stjórnsýslu eru litlar gular hænur þegar á reynir og verra má það nú ekki vera.

Hér á blogginu má sjá að nokkru sjá ástæðurnar fyrir þessari vesöld því nú gengur hér maður undir manns hönd í það verkefni að bera blak af sínum leiðtogum og benda á aðra og er slæmt til þess að vita að þessir litlu hænuungar eigi kannski eftir að ganga inn í pólitík þjóðarinnar sem fullvaxnar gular hænur.

Forsætisráðherra á hrunvakt sagði slysið ekki hafa átt rætur í stjórnsýsluafglöpum. Þetta hefði verið stjórnendum bankanna að kenna!  Mikið hljóta kokkarnirí Múlakaffi að hafa verið fegnir að sjá að þetta var ekki þeim að kenna.

Forstjóri Fjámálaeftirlitsins átti engan þátt í að svo fór sem fór. En axlaði þó ábyrgð með þvi að játast undir það að segja af sér.

Fram hefur komið að Bretar margítrekuðu óskir um að breytt yrði rekstrarformi Icesave og bankinn settur undir bresk lög. Við því var ekki orðið eins og allir vita.

Í kvöld sagði Jóhanna að eftir 2006 hefði verið útilokað að bjarga bönkunum! Um hvað voru Bretar þá að tala? En hvað með fólkið sem varð fórnarlömb bankanna frá þeim tíma og fram að hruni; skipti það þá ríkisstjórnina engu máli að bjarga því frá lygurunum sem hringdu úr bönkunum og buðu gull og græna skóga í innstæður sem síðan var stolið?

Nei, þegar þarna var komið sögu fóru forystumenn ríkisstjórnarflokkanna i ímyndarferðalög til að gylla þessa banka í útlöndum og urðu sér og þjóðinni til meiri og reyndar ævarandi skammar.

Auðvitað er þessi litla gula hirð bara að bulla því þarna vissi íklega enginn úr henni hvað í vændum var vegna skilningsbrests á aðstæðum og póltískrar heimsku.

Viðskiptaráðherra og Seðlabankastjóri voru í fýlu og þegar sá síðarnefndi kallaði ríkisstjórn ítrekað á fundi til að gera hana hrædda- enda hræddur sjálfur og einlægt skammaður af einhverjum útlendingum fyrir heimsku- þá var viðskiptaráðherrann ekki viðstaddur og foringinn, Ingibjörg Sólrún var ekkert að segja honum frá þessu!

Og sagan af þessum ósköpum er rétt að byrja en hér verður ekki skrifuð bók

Það blasir við að nú vantar fjárveitingu í nýtt fangelsi handa íslenskum stórglæpamönnum. Því er auðvelt að bjarga með því að innrétta gömul minkabú. Minkurinn er að vísu minna villidýr svona utan um sig en lyktin illskárri en af hinum kvikindunum.

Og svo vantar afvötnunarstöð fyrir stjórnmálmenn og embættismenn í afneitun.

Þvílíkt lið, Þvílíkir garmar!

 


Að ákæra fyrir fullkomið gáleysi og ábyrgðarleysi í starfi

Á Vísi .is segir frá því að Guðmundur Gunnarsson bæjarfulltrúi á Álftanesi vilji að ríkissaksóknari skoði hvort ákæra beri Sigurð Magnússon fyrrv. bæjarstjóra fyrir "afbrigðilega hegðun" og "fullkomið gáleysi og ábyrgðarleysi í starfi.

Mér finnst þessi ályktun bæjarfulltrúans einfaldlega sjálfsagt innlegg í þetta stórundarlega og örlagaríka ástand sem skapaðist á Álftanesi á stjórnsýslutíð umrædds bæjarstjóra.

Það er löngu kominn tími til að æðstu embættismenn í sveitarstjórnum og í stjórnmálum; þar með taldir ráðherrar axli ábyrgð á dýrum afglöpum og/eða valdníðslu. Að axla ábyrgð er nefnilega allt annað en að kjafta um það á fundum með fréttamönnum að viðkomandi sé reiðubúinn að axla ábyrgð.

En svo gerist auðvitað aldrei neitt.

Við Íslendingar erum búnir að leyfa þessu ábyrgðarleysi að þróast upp í fyrirlitningu valdhafa á eigin skyldum og okkur sem veittum þeim umboðið. Verði ekki tekið á þessu núna í tengslum við það uppgjör sem þjóðin bíður eftir og á að hefjast í dag þá getum við kvatt allar okkar gömlu kenningar um ábyrgð og pólitískt siðgæði.


Hann formælti þessu landi og......

Nú styttist í tíðindi á landi voru og órói virðist tekinn að gera vart við sig í einni og einni viðkvæmri sál. Hin langþráða og lengi umrædda skýrsla rannsóknarnefndarinnar mun birtast í byrjun næstu viku og viðbúnaður við henni undirbúinn víða af fréttum að dæma.

Fáir munu vita efni þessa plaggs utan innsta hrings en engum dylst að nú er komið að leiðarlokum tignar í samfélagi okkar hjá einhverjum hópi vel klæddra og þekktra manna úr hinum ýmsu hópum sem  með einum og öðrum hætti léku áberandi hlutverk í aðdraganda hrunsins og endalok veislunnar dýru. Margir eru án vafa hræddir í dag og hafa til þess ástæður. Hvenær ákært verður og hvenær dómar verða felldi yfir ákærðum veit auðvitað enginn. En réttarhöld munu verða löng og ströng.

"Allir eru saklausir uns sekt er sönnuð." Þessi vísdómur gildir ekki lengur í íslensku samfélagi þó illt sé að viðurkenna það. Allmargt hefur beinlínis verið upplýst um refsivert athæfi og vítavert gáleysi margra þjóðþekktra einstaklinga. Allir vita að þegar einhver er rændur þá er ræningi þar viðriðinn, einn eða fleiri.

Það er reyndar ekkert leyndarmál að í dag eru margir búnir að dæma. Ótrúlega margir þeirra sem fyrir fáum missirum töldust vera í hópi tignarfólks eru ærulaus grey í augum margra sinna samlanda. Það var nefnilega ekki venjulegt óhapp sem gekk yfir hundruð eða þúsundir einstaklinga og fjölskyldna. Margir misstu aleiguna og það urðu dauðaslys á fólki sem þessir atburðir gengu svo nærri að dauðinn var talinn betri kostur en lífið.

Vangá, hroki, græðgi, óheiðarleiki. Allir þessir þættir lágu að baki þeim hörmungum sem nú munu verða gerð upp að svo miklu leyti sem efni verða til að mati dómstóla.

Og nú munu að líkindum gerendurnir verða fórnarlömb eigin verka. Fáir munu syrgja það.

En margir munu veita athygli viðbrögðum hinna sakfelldu.

Hvort mun þar verða yfirsterkara iðrunin eða hrokinn?

Það er liðin sú tið að sakfelldir menn treysti á hollenskar duggur til að flýja land. 


Það er svona fyrirsögn

sem sannar það fyrir okkur að þrátt fyrir allt er það þess virði að vera Íslendingur
mbl.is Vorið kom klukkan níu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íþróttakeppni hagfræðinnar og Ögmundur Jónasson

Vel man ég þá tíma þegar hagfræðingar voru svo fámennur hópur með þessari þjóð að flestir mundu nöfn þeirra allra. Nú er önnur tíð og hagfræðingar orðnir fjölmenn stétt jafnt í oinberum störfum sem einkafyrirtækjum.

Engin stétt fræðimanna hefur orðið meira áberandi jafnt fyrir hrun sem eftir og hagfræðingarnir ásamt auðvitað öllum viðskiptafræðingunum sem sátu í þéttum röðum í öllum okkar mörgu og heimsþekktu fésýslustofnunum þar sem þeir drýgðu fólki ráð til ábatasamrar framtíðar á gullnum vængjum hagvaxtar.

Að lokinni þeirri metvertíð pappírslyga sem gerði allnokkra siðlausa óþverra í viðskiptum að auðjöfrum en íslenska alþýðu örbjarga viðundur meðal þjóða hófst ótrúlega metnaðarfull og hatrömm íþróttakeppni hagfræðinga. Sú keppni stendur enn og sér ekki fyrir endann. Þessi keppni snýst um að sanna með óyggjandi dæmum að allur aðdragandi hrunsins hafi átt rætur í hinum og þessum aðgerðum eða aðgerðarleysi. Og leiðin út úr öllu sé reyndar nokkuð ljós- eiginlega borðleggjandi og lausnin handan við hornið að uppfylltum mjög einföldum skilyrðum og afar ljósum.

Galli er þó all nokkur á þessu. Ég nefndi íþróttakeppni. Það er nefnilega svo undarlegt að það sem einn hagfræðingur segir okkur í dag segir annar á morgun að sé fásinna. Og þegar hagfræðingarnir eru orðnir svona margir og auk þess erlendir íþróttakappar í viðbót; keppa sem gestir á mótinu þá verður þetta spurning um dómgæslu. 

Okkur vantar alþjóðlega dómara til að úrskurða hvort upphæð sem nemur tvöfaldri þjóðarframleiðslu sé mínustala eða plústala. Það skiptir ótrúlega miklu máli. Það skiptir miklu máli hvort þeir jakkaklæddu gapuxar sem ryðjast óðamála inn í sjónvarpsþætti til að greina vanda þjóðarinnar ljúga vegna heimsku eða pólitískrar illgirni þvílíkum ógnartölum að þegar einn er búinn að reikna tap um þúsundir milljarða komi annar að vörmu spori og tilkynni að tapið hafi verið fáránleg lygaþvæla því eins og hann muni nú sýna fram á þá sé ekkert sem geti hnikað því að botnlaus hagnaður sé blátt áfram sú rétta niðurstaða.

Hann Ögmundur Jónasson tekur til máls um þetta í Fréttablaðinu í gær og mér hugnast hann betur en þessir íþróttakappar sem ég nefndi í reiðkastinu hér að framan.


Háttvirtir og hæstvirtir? Áfram Ólína Þorvarðardóttir!

Ég kveikti of seint á útvarpinu til að hafa fulla vakt á morgunþættinum: "Í vikulokin" á Gufunni. Þarna voru þau í spjalli hjá Hallgrími Th. alþingismennirnir Sigurður Ingi Jóhannsson og Ólöf Nordal ásamt Eiríki Bergmann Einarssyni á Bifröst fulltrúa  ESB sinna á Íslandi í pólitískri umræðu.

Það er háttur sauðheimskra pólitískusa að tala með yfirveguðum brag um viðkvæm pólitísk deilumál samfélagsins. Þarna báru á góma tvö mál í lokin. Stjórnlagaþingið var afar viðkvæmt efni og alls ekki tímabært að mati Ólafar Nordal sem vísaði til þeirrar ábyrgðar sem Alþingi bæri á öllum meginþáttum lýðræðis á landi voru. Nú er það svo með stjórnsýslulög að þau eru sett á Alþingi af mönnum, enda engin dæmi um að neinar reglur samfélagsins séu settar af Guði almáttugum.

 Hvorki Ólöf Nordal né neinir þeir aðrir fulltrúar þjóðarinnar sem sitja á Alþingi eru neitt öðruvísi að séð verður en fólkð sem ekki situr þar. Enginn tekur próf í stjórnsýsluþekkingu áður en hann sest inn á Alþingi eftir lýðræðislega kosningu. Hvað kemur Ólöfu Nordal og öðrum þeim sem hanga eins og hundar á roði í varkárninni með afskipti þjóðarinnar af stjórnsýslu, til að tala um sjálfa sig eins og handhafa einhverra vitsmuna umfram þá sem gáfu alþingismönnum umboðið?

Ólöf Nordal talaði líka inn í mræðuna um stjórn fiskveiða rétt eins og hún hefði á því flókna deilumáli eitthvert vit.  Það hefði hún ekki átt að gera. Það kom nefnilega ekkert frá henni sjálfri inn í þá umræðu; aðeins bergmál af röksemdum þeirra sem hafa haft þessi verðmæti án endurgjalds og vilja að sjálfsögðu engu sleppa.

Það er raunalegt að heyra afabarn Sigurðar Nordal gera sig að flóni í þjóðmálaumræðu.

Og svo heyrði ég Ólínu Þorvarðardóttur og Jón Gunnarsson alþingismenn takast á um innköllun aflaheimilda og breytingar á stjórn fiskveiða. Þetta var á Útvarpi Sögu undir stjórn Arnþrúðar og Péturs. kannski var þetta endurtekið efni en nýtt fyrir mér engu að síður.

Þarna varð Jón Gunnarsson að sæta því að Ólína hýddi hann á milli hæls og hnakka fyrir vanþekkingu hans og rökleysur sem hann reyndi eftir fremsta megni að fela með kjaftagangi og gömlum staðhæfingum um ágæti þessa kerfis þar sem útgerðir krefjast milli 100 og 200 milljarða niðurfellinga af skuldum!

Jón var í stuttu máli eins og barn í þessum þætti og Ólína gerði ýmist að reka ofan í hann bullið eða að hlægja að honum.

Líklega má það ekki dragast öllu lengur að kippa Jóni mínum Bjarna út úr þessu ráðuneyti og setja Ólínu Þorvarðardóttur þangað í hans stað.

Seint hélt ég að það yrði mitt hlutverk að bera lof á Samfylkingarfólk. En Ólína Þorvarðardórrir er búin að töfra mig gersamlega og þurfti ekkert fyrir því að hafa.

 


Stöðugleikasáttmálinn rofinn!

Eiginlega er það orðið stórmerkilegt hversu mikla trú menn hafa á þessum leik með orðskrúð. Og undarlegt að jafn ágætur maður og Vilhjálmur Egilsson skuli láta sér verða að hanga ennþá á þessu skelfing leiðinlega bulli. Það skiptir engu þótt ódýr og marklaus fullyrðing sé dúðuð í einhvern búning þungavigtarmálfars, hún verður aldrei marktæk nema því aðeins að hún standist rök.

Ríkisstjórninni ber að gæta jafnræðis þegar auðlindum þjóðarinnar er ráðstafað, þ.e.a.s. ef hún á annað borð tekur það hlutverk að sér. Útgerðir hafa aldrei átt fiskimiðin en aðeins fengið nýtingarrétti úthlutað frá ári til árs. Það er engum stöðugleika útgerðarfyrirtækja ógnað með þessu frumvarpi. Skötuselur er tiltölulega ný fisktegund við Ísland í þeim mæli sem nú og er greinilega í mikilli sókn. Ástæður þess eru auðvitað breytingar í lífríkinu. Lítið er vitað um viðkomu og stofnstærð skötuselsins og ekki ástæða til taugaveiklunar eða ótta við ofveiði nema vísbendingar um það komi í ljós eftir þessa reynslu.

Hvorki þessum fiski né öðrum fisktegundum verður bægt frá veiðarfærum eins og t.d. grásleppunetum, en nú er sú vertíð að hefjast af krafti allt umhverfis land.

Ný viðbót í atvinnuveiðar er eðli sínu samkvæmt talin vera happ en á ekki að verða að vandamáli.

Orð verða ódýr ef þau eru notuð af ábyrgðarleysi eins og í tilvitnaðri yfirlýsingu Vilhjálms Egilssonar formanns Samtaka atvinnulífsins. 


mbl.is Stöðugleikasáttmálinn rofinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skuldavandi heimilanna og ábyrgð skuldaranna

Fátt er oftar í umræðuefni fjölmiðla og þjóðarinnar en skuldavandi heimilanna. Margar tillögur hafa litið dagsins ljós og allar gengið nokkuð til móts við þá fjölmörgu sem illa er komið fyrir.

Engin ein lausn er auðvitað sú lausn sem öllum hentar. Margir eru og þeirrar skoðunar að fólk sem hafi "lent í þessum vanda" get bara sjálfu sér um kennt; allir verði að taka ábyrgð á eigin gerðum og eigin skuldbindingum. Öðru jöfnu er þetta hárrétt- en öðru jöfnu aðeins!

Meiraprófsbílstjóri, bakari, sjómaður, trésmiður o.s.frv. Allt menn með sérhæfða þekkingu en enga sérþekkingu á fjármálum. Fjármálaráðgjafi í banka er mjög líklega með háskólapróf í fræðum af viðskiptasviði en gæti verið óhæfur sem bakari eða trésmiður.

Þessir sérmenntuðu handverksmenn leita til banka og með brosi á vör er þeim vísað til ráðgjafa. Ráðgjafinn hefur að miklum líkindum hlotið þjálfun í sölumennsku. Ekki ólíklegt að laun hans séu árangurstengd,- reyndar fremur líklegt. Þekking hans og þjálfun gengur út á að ná viðskiptavinum til fjármálstofnunarinnar og þar er eitt boðorð öðru æðra:

Þú átt að vekja traust viðskiptavinarins og taka stjórnina án þess að hann geri sér grein fyrir því sjálfur.

Í sjálfu sér voru þetta afar eðlileg samskipti. Ráðgjafinn væri þakklátur smiðnum ef hann þyrfti á ráðum hans að halda og fengi afdráttarlaus fyrirmæli um hvernig glugga hann ætti að kaupa á bílskúrinn. Hann færi ekki að tortryggja ráð hans, eða tæplega. Hann væri andvaralaus og í góðri trú á þann sem þekkinguna hafði.

Mikill fjöldi þess fólks sem reisti sér hurðarás um öxl hlítti skilyrðislaust ráðum bankastafsmanns sem vonandi ætlaði sér ekki að leggja líf þess í rúst en - því miður; sú varð raunin.

Þarna var um að ræða starfsmann lánastofnunarinnar og persónu sem varð fórnarlamb þess trausts á faglega ráðgjöf sem stofnunin hafði auglýst og hvatt fólk til að nýta sér.

Og ég spyr: Er það alveg sanngjarnt að segja:

"Þú gast bara sjalfum þér um kennt!"


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband