Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
22.1.2010 | 10:13
Skýringin fundin
Þessi launakrafa, ein af mörgum álíka skýrir margt af undarlegum fréttum af hruni bankanna. Nú er það komið í ljós að þeir sem áttu þá og stjórnuðu þeim litu á veltuna sem eigið fé. Þetta voru veikir menn. Eftir að hafa hlaðið á sig fordæmalausum ofurlaunum tóku þeir sér svonefnda bónusa í hinu og þessu formi.
Og nú þegar þeir eru orðnir landflótta og líklega hræddir um líf sitt gera þeir kröfur í þrotabúin upp á nokkuð hundruð milljónir. Krafa Sigurðar hlýtur að flokkast undir forgangskröfu í þeim pakka.
Kröfur í búið munu vera um það bil 15000 milljarðar! Er ekki ástæða til að vorkenna fárveiku fólki fremur en að álasa því?
![]() |
Sigurður gerir launakröfu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.1.2010 | 23:38
Á einu augabragði!
Stundum gerast hlutirnir hratt og "skjótt skipast veður í lofti." Nýlega urðu tímamót og nokkur tíðindi í einu erfiðasta pólitíska deilumáli þjóðarinnar innan lands sem utan og óþarft er að rekja. Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson gekk fram fyrir skjöldu í baráttu eigin þegna við erlent ofurefli að því er flestir töldu. Hann virkjaði öðru sinni stjórnarskrárbundinn rétt kjósenda til að staðfesta ellegar synja milliliðalaust umdeildum lögum frá Alþingi. Og ekki nú fremur en í fyrra skiptið var þessi ákvörðun forsetans óumdeild af kjósendum.
Snemma í gærdag sýndist mér að meira en sjö þúsund eintaklingar hefðu sett nöfn sín á undirskriftalista þar sem mælst var til að Ólafur forseti segði af sér embætti sem þjóðhöfðingi.
Nú töldu semsagt nokkur þúsund Íslendingar að nóg væri komið af lýðræði í þessu landi og skjótt yrði við að bregða til "að lágmarka skaðann" sem þessi grunnhyggni og framhleypni "Kommadindill" hefði valdið eigin þjóð. Nóg um þessa tegund lýðræðisástar sem ég vona að ekki verði viðruð svo mjög af andlega heilbrigðu fólki.
Ekki lét forsetinn við svo búið standa. Skyndilega fréttist af honum þar sem hann gekk fram fyrir skjöldu þjóð sinni til varnar í einu höfuðvígi andstæðinganna og nú í hlutverki pólitísks vígamanns.
Breska heimsveldið sendi sinn vopnfimasta drápara í röðum fréttamann gegn þessum snyrtilega bónda kotþjóðarinnar til að ganga af honum dauðum í beinni útsendingu og beið líklega skellihlægjandi eftir því að senda hjáparsveit á staðinn til að bera þennan fávísa sendimann okkar meðvitundarlausan af vígvelli.
"Skammt mundi Gunnar á Hlíðarenda hafa runnið fyrir hvítum mörvamba af Álftanesi" lætur Nóbelsskáldið Jón kóngsbónda Hreggviðsson segja við kóngsböðulinn frá Bessastöðum í Íslandsklukkunni og ég gef mér að Bretar hafi hugsað á líkan veg. Fréttir af einvíginu mikla urðu nokkuð á aðra lund en til var ætlast af eigendum heimavallarins. Það er óþarft að rekja nánar og þarf ekki að fara mörgum orðum um að kóngsböðullinn gekk kaghýddur af fundi við "hvítan mörvamba af Álftanesi."
En nú breiddist hratt út í Bretaveldi skæður sjúkdómur og hvað var nú svínaflensan hjá þeim ósköpum?
Í spjallþáttum og á spjallvefjum fjölmiðla bresku þjóðarinnar kom í ljós að áberandi meirihluti þeirra sem þar tjáðu sig og fylgst höfðu með hnitmiðuðum málflutningi þessa nýja og óvænta liðsmanns andstæðinganna var honum sammála og flestir gengu svo langt að álasa eigin stjórnvöldum fyrir óbilgirni í garð þessarar smáþjóðar sem sendur hafði verið reikningur fyrir þjófnað, lögvarinn af evrópskri ríkjasamsteypu!
En á sama tíma fréttist af ráðherrum íslensku þjóðarinnar sem gengu á fund kollega sinna í evrópskum þjóðlöndum þeirra erinda að "lágmarka skaðann" af frumhlaupi eigin forseta!
Hvað hét hann aftur þjóðhöfðinginn sem bað Guð að vernda sig fyrir vinum sínum; af óvinum sínum hefði hann ekki áhyggjur því um þá gæti hann sjálfur séð?
Stjórnmál og samfélag | Breytt 8.1.2010 kl. 00:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (173)
1.1.2010 | 10:55
Raunaleg byrjun á nýju ári
og við hljótum að spyrja okkur hvað hér búi að baki. Hvort er þetta vitnisburður um andlegan sjúkdóm einstaklings sem ekki ábyrgur eigin gjörða, eða kannski vitnisburður um siðræna úrkynjun þessarar þjóðar?
Ef fyrri tilgátan er rétt hefur hér orðið raunalegt slys sem söfnuðurinn mun takast á við líkt og ef kirkjan hefði skemmst af eldi eða líkum orsökum.
En sé seinni tilgátan rétt er það stærri atburður og örlagaríkari til framtíðar horft en svo um hann verði fjallað af leikmanni í stuttum pistli.
Því verður þó ekki á móti mælt að hér á þessum opna vettvangi skoðanaskipta hefur farið í vöxt ámælisverð misnotkun á málfrelsinu sem stjórnvöld okkar hafa helgað og lögfest í góðri trú á siðferði okkar og þróun menntunar í góðum skilningi. Hér höfum við séð færast í vöxt subbulegar árásir á þjóðkirkjuna, þjóna hennar og fylgjendur. Önnur trúarbrögð hafa þar ekki heldur farið varhluta.
Við þurfum að hugsa áður en við tölum. Tungan er vandmeðfarið vopn og orð geta verið dýr.
![]() |
24 rúður brotnar í Grensáskirkju |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
28.12.2009 | 00:20
Nú eða aldrei!
Það hefur lengi verið ljóst að sú ríkisstjórn sem nú situr hefur brugðist þeirri skyldu að sameina þessa þjóð. Að minni hyggju var það hennar brýnasta verkefni eftir að hrunstjórn Geirs og Ingibjargar hafði kveikt í samfélaginu heitari elda sundrungar og heiftar en dæmi eru um. Sú ríkisstjórn ríkti í skjóli lyga, afneitunar og valdhroka og sinnti í engu mjög alvarlegum ábendingum um bankahrun með hrikalegri afleiðingum en þjóðinni yrði kleift að rísa undir. Þetta veit öll þjóðin að eru óhrekjanleg sannindi.
Ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms náði þokkalegum meirihluta sem byggðist fyrst og fremst á væntingum um heilindi Steingríms og Vinstri grænna sem höfðu staðið sig með glæsibrag í stjórnarandstöðu og voru með skýr pólitísk markmið. Hvað varð um þau?
Fyrsta verk þessarar stjórnar var að hella bensíni á glæður fyrri elda með því að "setja á ís" allar stefnumótandi ákvarðanir um uppbyggingu atvinnuvega og sparnað í útgjöldum. Skjaldborg um heimilin í landinu var að vísu boðuð af miklum þunga.
En tvö fyrstu mál Alþingis voru stjórnarfrumvörp. Það fyrra var umsókn um aðild að ESB og það síðara að samþykkja greiðslur á kröfum vegna Icesaveútibúa Landsbankans í Hollandi og Bretlandi.
Það mátti öllum ljóst vera að þjóðin var klofin í tvennt í afstöðu til ESB og líklega öllu fleiri andvigir. Það mátti heita ljóst að Icesave krafan yrði að afgreiðast með sátt helst allra flokka ef ekki risu harðar deilur. Það var því fyrirséð þegar á fyrstu dögum þessarar ríkisstjórnar að hún var að leggja í blóðuga styrjöld jafnt inni á Alþingi sem og úti í samfélaginu. Nóg um þetta.
Skjaldborgin um heimilin breyttist í sjaldborg heimilanna um bankana sem höfðu haldið kröfum sínum fram af hörku og ekki einu sinni skeytt um að draga frá kröfum um gengistryggingu þau milljarðahundruð sem erlendir bankar höfðu afskrifað!
Þjóðin er sundruð, reið og ráðvillt. Þjóðaratkvæðagreiðsla um Icesave-kröfuna er skrípaleikur. En hana verðum við að fá í stöðunni. Kjósendur hafa enga stöðu til að meta hvort:
1. Við munum geta greitt þennan reikning.
2. Hvort okkur ber að greiða hann.
3. Hvað gerist ef við greiðum hann ekki.
Margt fleira er okkur hulið og hver skyldi nú ástæðan vera? Jafnt ríkisstjórn sem stjórnarandstaða er á víxl sökuð um að beita lygi og blekkingum. Svonefndir "virtir" lögspekingar og að sama skapi "virtir hagspekingar tala hver í sína áttina og rífast um málið eins og grimmir hundar um lóðatíkur. Er hægt að ætlast til að þjóðin taki upplýstar ákvarðanir við slíkar aðstæður?
En ríkisstjórnin stendur eða fellur með þessu Icesaveklúðri sem allar ríkisstjórnir frá haustdögum 2008 og þó öllu lengur bera ábyrgð á. Þessi ríkisstjórn verður að falla og það eru slæm tíðindi á marga lund.
Tilraun þjóðarinnar í þá veru að fá ríkisstjórn sem ynni í sátt við fólkið í landinu mistókst. Því fyrr sem hún tekur afleiðingunum- því betra að minni hyggju. Nú verðum við að fá ríkisstjórn sem skipuð er því hæfasta fólki utan stjórnmálaflokka sem völ er á.
Það er ekki auðvelt val né einfalt.
Guð blessi Ísland!
![]() |
Vilja þjóðaratkvæði um Icesave |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Slóð | Facebook | Athugasemdir (101)
11.12.2009 | 21:27
Ekki er þetta nú nein merkisfrétt
![]() |
Bullundirskriftir raktar til stjórnarráðsins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.11.2009 | 18:04
Kyssti froskinn og- varð að froski
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (28)
20.11.2009 | 18:32
Forsetinn og þjóðhættulegir samningar
Aldrei man ég eftir jafn tættri og skelfilegri þjóðmálaumræðu eins og síðustu missirin. Nú berjast Íslendingar blóðugir til axla í deilum um greiðslur ofurskulda sem stjórnvöld hafa fellt á þjóðina með pólitískum fábjánahætti fyrir sem eftir hrunið mikla. Enginn vill taka lengur ábyrgð á fyrri orðum né heldur mistökum á flestum stöðum stjórnsýslunnar.
Margir sjálfstæðismenn hafa um langt skeið rétt Ólafi Ragnari fingurinn og fundið honum allt til foráttu. Nú hamast þeir margir hverjir í ræðu og riti með kröfur um að forsetinn synji lögum um greiðslu Icesave skuldarinnar og vísi málinu til þjóðarinnar. Undir þessi tilmæli get ég líklega tekið að nokkru en get þó ekki stillt mig um að benda þessum ágætu frjálshyggju-og markaðspostulum á eftirfarandi:
Fyrir nokkrum árum synjaði forsetinn undirritun fjölmiðlalaganna svonefndra. Þá ráku þessir sömu vinir milliliðalausa lýðræðisins upp ramakvein. Þeir fullyrtu að þessi gerningur væri markleysa ein og ætti sér engan veginn þá stoð í stjórnarskrá okkar sem haldið hafði verið fram allt frá stofnun lýðveldisins. Man ég ekki betur en að um þetta bæri saman öllum fulltrúum flokksins á Alþingi sem og ráðherrum. Auk þess rifjast upp fyrir mér nafn stjörnulögmanns sem nú situr í Hæstarétti auk háskólaprófessora, aldraðra prjónakvenna og farsæls hestageldingamanns að austan, en flest af þessu fólki studdi umræddan stjórmnálaflokk að minni hyggju. Ógetið er þá þess meginatriðis í málflutningi þessa ágæta fólks að hér vantaði alveg lög um þjóðaratkvæðagreiðslu!
Hefur eitthvað breyst í stjórnarskrá okkar og lögum sem farið hefur framhjá aulanum mér?
17.11.2009 | 15:00
Hvenær fer deiga járnið að bíta?
"Svo lengi má brýna deigt járn að bíti um síðir" segir gamalt máltæki og er myndhverfing þess að varasamt geti verið að reyna um of á langlundargeð náungans. Sú hrokafulla ákvörðun forsætisnefndar Alþingis að skýrsla rannsóknarnefndarinnar sem skipuð var til að rannskaka orsakir bankahrunsins skuli afhent sérvöldum 9 manna hópi alþingismanna er nánast óskiljanleg. Svo virðist sem Alþingi álíti að ef upp komi grunur um tengsl ráðherra eða/og alþingismanna þá sé það einkamál sem meðhöndla þurfi af gætni af samflokkmönnum á Alþingi!
Í mínum huga er þetta mál ekki flókið. Skýrslan verði í tvíriti og annað plaggið afhent Alþingi en hitt afhent sérstökum rannsóknardómara. Og til þess að gera þessa rannsókn trúverðuga gagnvart þjóðinni ætti það að teljast sjálfsagt að afhenda Evu Joly frumeintak.
Þessi skýrsla á ekki að vera feluplagg. Hún snýst ekki um öryggismál ríkisins og á ekki að meðhöndlast á neina þá lund. Tortryggni þjóðarinnar í garð rannsóknarnefndarinnar og stjórnsýslunnar mun aukast að mun ef málin fara í þennan farveg og er nú ærin fyrir. Því má svo bæta við að frestun á framlagningu skýrslunnar fram í febrúarmánuð hefu vakið fólki óróa og grun um að ekki sé allt með felldu með trúverðugleikann. Þessi ákvörðun Alþingis mun auka á þá tortryggni.
![]() |
Borgarahreyfingin ósátt við skipun nefndar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
16.11.2009 | 22:32
Dagur íslenskrar tungu og háttatíminn mikli
Það hefur verið ákveðið á Íslandi að heiðra "listaskáldið góða" Jónas Hallgrímsson með því að gera afmælisdag hans að degi íslenskrar tungu og að fullum verðleikum. Nú er hinsvegar svo komið á þessu landi að tunga þjóðarinnar nýtur ekki meiri virðingar hjá ráðuneyti menntamála en svo að móðurmálskennsla er orðin afgangsnámsgrein í kennaranáminu og verður tæpast betur lýst sinnuleysi skólayfirvalda um þessa undirstöðu menningar okkar. Reyndar er nú langur tími liðinn síðan fólk með þokkalega málkennd tók að óróast undir fréttaflutningi fjölmiðla vegna ógætni í málfari, kunnáttuleysi og ambögusmíða fréttastjóra og jafnvel útvarpsþula. Varla er ofsagt að nú sé þarna komið í hreint óefni. Langt mál yrði upp að telja. Nú heyrir til undantekninga að fólk komist þurrum fótum yfir minnstu vatnsföll. Í stað þess að rölta yfir brúna þrælast nú flestir yfir brúnna svo eitthvað sé nefnt. Ærin og kýrin eru löngu horfnar úr högum og í stað þeirra komnar þær frænkur áin og kúin. Margir reyna að skreyta málfar sitt en oft af litlum burðum og þegar gripið er til gamalla máltækja eða spakmæla versnar staðan yfirleitt að mun því oftar en ekki er farið rangt með orð ellegar þá merkingunni snúið við. Margir hlógu að leikpersónunni "Binnu á Brávallagötunni" þegar hún nagaði sig í handarkrikana! Í dag væri ekki tiltökumál að heyra málfar á borð við það. Blásaklaus ungur maður Gylfi Gíslason að nafni fékk þá umsögn í útvarpsfrétt fyrir allnokkrum árum að hann væri helsti vonarpeningur Alþýðuflokksins á Vestfjörðum. Varla hefði höfundur fréttarinnar sent þetta frá sér hefði hann lesið sig til um orðið vonarpeningur sem merkir að gripur sé kominn svo af fótum fram að bóndi telji að brugðið geti til beggja vona með afdrif hans.
Ekki er ástæða til að vanmeta tilburði fólks við að skreyta málfar sitt, en þegar tekið er ástfóstri við einhver orð eða orðasambönd getur það farið úr böndum og um það eru mörg dæmi. Hvergi nema í einum rituðum texta hef ég rekist á orðasambandið "að berja augum" , en það er þegar Laxness lætur Björn gamla í Brekkukoti segja frá "biflíunni" sem hann hafi barið augum í kirkjunni. Nú brá svo við að þegar á fyrstu dögum eftir útkomu Brekkukotsannáls hættu margir málskrúðsvinir að sjá nokkurn skapaðan hlut af því sem fyrir augu þeirra bar. Nú fóru menn að segja frá því hver um annan þveran hvar þeir hefðu barið elskuna sína augum fyrsta sinnið. Undraðist ég oft hvernig elskurnar þeirra hefðu komist óskaddaðar frá allri þeirri voðalegu barsmíð.
Eitt skelfilegasta dæmið sem nú kemur upp í hugann og jafnframt það síðasta sem ég mun gera hér að umræðuefni er það óstöðvandi "háttatal" sem tröllríður allri opinberri umræðu okkar í dag. Nú leyfir sér enginn að bera sér í munn í opinberri umræðu að eitthvað sé; svona, með þessu móti, á þessa lund, á þennan veg, hinsegin, á einvern hátt- svo eitthvað sé nú nefnt af öllu því sem okkar fjölskrúðuga tunga býður upp á, nei. Ævinlega finnst ræðumanni að þágufallið vinsæla sé eini kosturinn." Að maðurinn skuli tala með þessum hætti, með hvaða hætti við komumst út úr þessum þrengingum, með hvaða hætti nú skuli bregðast við, ef við höldum áfram að haga okkur með þessum hætti," o,s.frv. o.s.frv. sem langt mál yrði upp að telja. Ég lék mér að því eitt sinn að telja í stuttri orðasnerpu á Alþingi hversu oft tveir andstæðingar notuðu þessa þágufallsdrullu og hætti þegar ég var kominn upp í töluna nítján! Það ótrúlega er að ég man varla eftir neinum inni á Alþingi okkar í dag sem er ósýktur af þessum andskota. Og mér kemur í hug vísan góða eftir hann Gísla Ólafsson frá Eiríksstöðum sem verðskuldaði reyndar langan pistil til að halda minningu hans á lofti:
Lífið fátt mér ljær í hag,
lúinn þrátt ég glími.
Koma máttu um miðjan dag,
mikli háttatími.
Líklega hef ég áður nefnt eitthvað það sem hér hefur verið dregið til dæma en reyni bara að hafa ekki áhyggjur af því.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 17.11.2009 kl. 22:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
28.10.2009 | 23:52
Evrópumet!
Hafi Íslendingar svarað þessu öllu fullnægjandi á slíkum leifturhraða þá segir það afar ljóta sögu um vinnubrögð þeirra sem ábyrgð tóku á svörunum.
Gæti það ekki verið heimsmet í sóðaskap?
![]() |
Á methraða inn í ESB? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |