Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
22.11.2008 | 23:57
Norðurreið Skagfirðinga 1849 og mótmæli á Austurvelli á haustdögum 2008
Mótmæli gegn valdstjórn er ekki nýmæli á Íslandi þó engin dæmi þekki ég um jafn tíð og fjölmenn mótmæli sem undangengnar vikur. Mótmælin á Austurvelli hafa farið fram með mikilli prýði undir öruggri stjórn Harðar Torfasonar sem þar á aðdáun mína alla. Nokkur órói ungmenna að loknum fundum hefur vakið athygli siðlátra og forystuhollra ritara á þessum vettvangi og verið kallaður skrílslæti.
Norðurreið Skagfirðinga 1849 og mótmælin á Austurvelli eiga sér samhljóm í neyðarviðbrögðum gegn valdkúgun þó fyrri atburðurinn hafi dregið með sér alvarlegri afleiðingar en þær sem nú eru fyrirséðar á landi voru og vonandi er að forðast megi.
5.maí. Fyrri hluta vetrar ákváðu nokkrir Skagfirðingar að boða til fundar til að ræða ýmis héraðsmál. Hinn 5. maí komu um 60 Skagfirðingar saman á Kalláreyrum.....í Gönguskörðum. Fundarstjóri var Jón Samsonarson alþingismaður. Meðal fundarmanna voru margir helztu forustumenn Skagfirðinga vestan Héraðsvatna, nágrannar þeirra, bændur og búalið: Gísli Konráðsson sagnaritari og hreppstjóri frá Húsabakka og Indriði sonur hans. Þorbergur Jónsson hreppstjóri frá Dúki, Sigurður Guðmundsson fyrrum hreppstjóri á Heiði í Gönguskörðum, Bjarni Bjarnason á Meyjarlandi, Egill Gottskálksson á Völlum, Sigvaldi Jónsson skáld frá Syðra-Vallholti, Jónas Jónsson hreppstjóri á Syðra-Vatni, Sölvi Guðmundsson hreppstjóri í Skarði. Gunnar Gunnarsson hreppstjóri á Skíðastöðum í Laxárdal og Sveinn Símonarson í Efranesi í sömu sveit. Fundurinn átti að fara leynt og var rík áherzla á lögð. Fyrst var rætt um væntanlegt jarðamat, tíundir til presta og kirkna, en aðalmál fundarins og það, sem síðast var rætt, var óánægja með valdstjórnina, einkum festu, sem komin var á klausturjarðir, og umboðsstjórn Einars Stefánssonar á Reynistað, svo og "ýmis vandkvæði", er þeir töldu sig verða fyrir af hálfu stjórnarinnar eða Gríms amtmanns Jónssonar á Möðruvöllum. Ákveðið var að blása til annars fundar síðar til að ræða amtmannsmálin. Sá fundur var haldinn við Vallalaug, hinn forna þingstað, 22. mái. Talið var að þar kæmu saman um 160 manns, og má nærri geta, að margur ungur maðurinn fór til þessa fundar sér til skemmtunar, aðrir af þægð við húsbændur, og var síðar látið opinberlega að því liggja af sumum. Hitt er þó jafnvíst, að alvara bjó að baki hjá forustumönnum og ýmsum öðrum. Á Vallalaugarfundi var ákveðið að ríða norður að Möðruvöllum og "afbiðja" amtmanninn. Reyndar kom síðar í ljós, að forustumenn hefðu ákveðið á Kallárfundi eða litlu síðar, að þessi för yrði farin. Meginástæðu hennar töldu forsprakkar þá, "að Grímur amtmaður hafði boðið að byggja allar klausturjarðir á uppboðsfundum og skyldi sá einn fá þær leigðar, er mesta byði landskyld og flest kúgildi vildi taka." Er Jón Samsonarson hafði "mælt fyrir bóninni", snöruðust ýmsir hinna yngri fundarmanna á bak hestum ínum, sviptu þeim um völlinn, létu ófriðlega og hrópuðu: "Lifi þjóðfrelsið! Lifi félagsskapur og samtök! Drepist kúgunarvaldið!" Meðan þessu fór fram, sat Gísli Konráðsson við skriftir og samdi svohljóðandi orðsendingu til amtmanns, næðu þeir ekki fundi hans: "Þessir fáu gestir, sem nú að þessu sinni heimsækja þetta hús, eru eitt lítið sýnishorn af þeim stóra mannflokki, sem að miklu leyti hefir misst sjónar á tilhlýðilegri virðingu og trausti á amtmanns embætti því, sem nú er fært á gömlu Möðruvöllum, og eru þess vegna hingað komnir: Fyrst til að ráðleggja og því næst biðja þann mann, sem hér nú færir þetta embætti, að leggja það niður þegar í sumar með góðu, áður en verr fer. Lifi þjóðfrelsið! Lifi félagsskapur og samtök! Drepist kúgunarvaldið!" Fimm menn voru kosnir fyrirliðar í förinni: Indriði Gíslason, Egill Gottskálksson, Bjarni Bjarnason, Sigurður Guðmundsson og Sigvaldi Jónson. Norður fóru úr Skagafirði 40-50 menn( tölum ber ekki saman), og höfðu allir nesti og tvo, sumir þrjá, til reiðar. Í Norðurárdal var liði skipt. Sumir riðu Hörgárdalsheiði, aðrir Öxnadalsheiði. Á leiðinni til Möðruvalla slógust nokkrir Eyfirðingar í hópinn. Á Lönguhlíðarbökkum voru menn nætursakir og héldu ferðinni áfram að morgni 23. maí. Heimildum ber í sumum atriðum ekki saman um, hvað gerðist á Möðruvöllum. Grímur amtmaður hafði lengi verið sjúkur, stundum dregizt á fætur til að sinna embættisverkum, en var rúmfastur og fársjúkur, er Norðurreið var farin. Amtmanni var gert viðvart, er flokkurinn birtist fylktu liði í halarófu í heimtröðinni. Flýtti hann sér að klæðast, en varð ekki nógu fljótur til að verða við beiðni komumanna, er höfðu þá fest upp orðsendinguna og voru að ríða úr hlaði, er amtmaður birtist á þrepunum og kallaði: "Nei, bíðið þið við, piltar, ég ætla að tala við ykkur!" Þeir flýttu sér burt, og enginn virti amtmann viðlits. Hálfum mánuði síðan lézt hann, hinn 7. júní.
Þessi frásögn er tekin úr Skagfirskum annál 1847-1847 eftir Kristmund Bjarnason fræðimann á Sjávarborg, fyrra bindi. Ég hef reynt að halda öllum textanum óbreyttum og biðst afsökunar á ef þar hefur útaf brugðið. Kristmundur er sannur meistari stíls og málvísi og síst vildi ég afbaka hans handbragð og hugsmíð.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 23.11.2008 kl. 00:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
14.11.2008 | 15:43
Núna eru geysilega skemmtilegir og spennandi tímar framundan fyrir okkur sjálfstæðismenn!
Var að fylgjast með fréttamannafundi úr Valhöll í Sjóvarpinu. Þarna varð ég svo agndofa yfir þeirri veruleikafirringu hjá forystuliði Sjálfstæðisflokksins að mér brá alvarlega. Ég hafði búist við yfirlýsingu forsætisráherrans um að Sjálfstæðisflokkurinn hefði ákveðið að segja ríkisstjórnarumboði Geirs lausu og fara þess á leit við forsetann að skipa faglega utanþingsstjórn sem tæki til starfa á mánudag.
En, nei! Geir forsætisráherra taldi ástæðu til að nota ríkisfjölmiðilinn til að beina athyglinni að innanbúðarstarfi íhaldsins á erfiðustu hörmungartímum þjóðarinnar eftir móðuharðindin í lok átjándu aldar. Formaður og varaformaður þessa ógæfuklúbbs þurftu að beina sviðsljósinu að Flokknum sem samkvæmt síðustu mælingum nýtur nú fylgis fámenns trúarbragðahóps til að greina þjóðinni frá eftirfarandi:
1. "Það eru geysilega spennandi og skemmtilegir tímar framundan fyrir okkur sjálstæðismenn!"
2. "Við erum lifandi stjórnmálaafl og erum fljótir að bregðast við!"
3. Eftir nærri tveggja mánaða efnahagskreppu af áður óþekktri stærð meðal vestrænna ríkja, hælir sitjandi forsætisráðherra sér af snöggum viðbrögðum ríkisstjórnarinnar undir forystu sjálfstæðismanna. Og vill láta þjóðina vita að nú hafi verið ákveðið að skipa nefnd til að reyna að leysa pólitískan ágreining innan flokksins!
Eftir hverju er íslenskur almenningur að bíða hjá þessum pólitísku óbermum?
6.11.2008 | 00:34
Samfylkingin getur ekki afneitað ábyrgð
Samfylkingin hefur verið í ríkisstjórn í 17 mánuði og skellt skollaeyrum við öllum aðvörunum um þá hættu sem yfir vofði og er nú orðinn að versta raunveruleika sem yfir þjóðina hefur dunið í seinni tima sögu hennar. Sjálfstæðisflokkurinn með Davíð í fararbroddi var arkitektinn í brjálsemi útrásarinnar og sá um verkstjórnina. Sá um að draga að efnið í brennuna miklu og verndaði brennuvargana með skattaívilnunum. Eftir að Samfylkingin gekk til liðs hafa ráðherrar hennar haft stefnuna á inngöngu í EB að sínu eina markmiði ásamt því að formaðurinn hefur verið önnum kafinn við að eyða skattpeningum þjóðarinnar í þotuflug og veisluhöld með einræðisherrum og mannréttindaníðingum í því skyni að undirbúa setu í Öryggisráði S.Þ., snautlegustu birtingarmynd á vanmetakennd örþjóðar með stórmennskurembing. Af mörgu er að taka í verkum og þó heldur meðvitundarleysi þessa auma flokks með evru- og EB heikennið. Verst af öllu er þó að ráðherrar flokksins bera á því ábyrgð að halda ónýtri ríkisstjórn við völd í stað þess að slíta stjórnarsamstarfi svo forseti lýðveldisins geti skipað utanþingsstjórn með hæfu fólki og síðan verði gengið til kosninga þegar ráðrúm gefst.
Á þeim tíma gæti- ef vel tekst til með valið í þá stjórn- komið upp sú ólíklega staða að samfélag þjóða sæi von um að hér byggju ekki einvörðungu grátbroslegir rugludallar.
Burt með spillinguna og afneitunina!
27.10.2008 | 23:37
Er það svona fréttaflutningur sem við megum eiga von á næstu dagana?
Það vekur furðu mína að fyrstu fréttir Morgunblaðsins af fundinum í Iðnó skuli vera hálfsannleikur og þó öllu fremur ósannindi. Í meðfylgjandi frétt var sagt frá því að á fundinum hafi verið 10-12 þingmenn og fundargestir hafi púað á þá! Nú vill svo til að ég var á þessum fundi og í hljóðnema tóku til máls: Illugi Gunnarsson, Sigurður Kári Kristjánsson, Pétur Blöndal, Ögmundur Jónasson, Jón Magnússon og Bjarni Harðarson. (man ekki fyrir víst hvort hvort þeir voru fleiri) Þar að auki talaði Mörður Árnason, mættur fyrir Samfylkinguna. Púað var hávært á þá Pétur Bl. og Sigurð Kára og nokkuð á Illuga einnig. Fyrir Jóni Magnússyni var klappað ákaft og af þrótti og mest þó er hann greindi frá tillögu þeirri sem hann og tveir aðrir þingmenn Frjálslyndra munu leggja fyrir Alþingi á morgun og þar sem lagt er til að allri stjórn Seðlabankans verði sagt upp störfum og einn seðalabankastjóri með hagfræðiþekkingu ráðinn í staðinn. Jafnframt var klappað ákaft fyrir væntanlegri tillögu sömu manna um innköllun kvótans illræmda. Þá fékk Ögmundur Jónasson einnig afar góðar viðtökur fundarins.
Hverra hagsmunum þjónar það skrökva því upp að púað hafi verið á þá Alþingismenn sem hlutu lófatak og fagnaðarviðbrögð við sínum orðum?
Það er afar varasamt að birta rangar fréttir af fjöldasamkomum, einkum þó þegar þær eru tæpast afstaðnar.
![]() |
Húsfyllir í Iðnó - hiti í fundargestum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
20.10.2008 | 01:23
Þessar leiðinda eftirá skýringar
Nú er Ingibjörg Sólrún komin heim og vonandi orðin heil eftir erfiða lífsreynslu þar sem svo mjög hefur reynt á þrek hennar og bjartsýni. Enginn þarf að draga í efa að þjóðin hefur sent henni hlýjar óskir um bata án viðhorfa til stjórnmálaskoðana. Það olli mér hinsvegar miklum vonbrigðum þegar hún svaraði spurningum fréttakonunnar frá Sjónvarpinu rétt fyrir brottförina að vestan. Aðspurð hvers vegna ekki hefði verið brugðist við aðvörunarorðum erlendra hagspekinga um að nú þyrfti að bregðast við yfirvofandi og bráðri hættu á hruni í hagkerfinu: "Þetta sáu nú engir fyrir og þetta eru nú svona eftirá skýringar." Og þetta eru næstum orðrétt svör Geirs forsætisráðherra við sömu spurningum!
Viðvaranir í þesa veru hafa hrannast upp allt frá áramótum og reyndar allnokkru fyrr hafa bæði íslenskir stjórnarandstöðuþingmenn, erlendir hagspekingar sem innlendir haft uppi jafnt í ræðu og riti harðar aðvaranir til stjórnvalda. Nú heita það eftirá skýringar! Er þatta boðlegt? Ég segi nei.
Ég skal nefna fáeina þingmenn úr stjórnarandstöðu: Jón Magnússon, Guðna Ágústsson, Ögmund Jónasson, Steingrím J. Sigfússon, Og fleiri voru þeir reyndar og margir harðorðir. Ég verð að nefna jafnframt hinn reynda og athugula fyrrverandi bankastjóra Ragnar Önundarson sem um nokkurra mánaða skeið hefur ritað margar greinar um þetta efni í Morgunblaðið.
Það er engu líkara en að tryggir flokksmenn beggja stjórnarflokkanna hafi misst ráð og rænu við þau vonbrigði að pólitískir leiðtogar þeirra horfðu á þetta gerast án þes að hreyfa legg né lið. Sjálfstæðismenn á fundi með formanni sínum í Valhöll klöppuðu svo að undir tók í Esjunni þegar Geir sagði þeim frá blómakörfunni sem konunni hans hafði verið send frá kvennadeild Flokksins sem þakklætisvottur fyrir að lána þeim hann Geir á þessum erfiðu tímum!
Núna í síðdeginu funduðu Samfylkingarmenn með fólki sínu og fóru yfir stöðuna. Þar fór ekki mikið fyrir gagnrýni á ráðherra flokksins. Einn aldraður kunningi minn og eðalkrati hringdi í mig nú í kvöld til að vitna. Fundurinn varð honum mikil opinberun, einkum þó að hafa fengið að hlýða á formanninn og svo hinn eilífa og ódauðlega leiðtoga Jón Baldvin. Ég spurði hann- þegar ég komst að- hvort þessir boðberar hins eina Evrópusannleiks hefðu nokkuð rætt um að ástæða væri til að biðjast afsökunar á andvaraleysinu gegn aðvörunarorðum stjórnarandstöðunnar. Hann spurði mig hvort ég væri galinn? Að einhver ætti að biðjast afsökunar á að hafa ekki tekið mark á Vinstri grænum!
Mér fannst ég vera að ræða við barn sem var nýkomið úr heimsókn frá ömmu og afa og hefði fengið að heyra nýjustu útgáfuna á sögunni um hana Búkollu.
14.10.2008 | 09:17
Óskilafé og sauðdrukknir leitarmenn
Greiðslur hafa verið einhvern veginn dálítið svona höktandi milli reikninga undangengin dægur sagði maðurinn og skyldi engan undra. Einhvern veginn safnast nú upp sá grunur að þessir fémunir hafi lent "óviljandi" í þeirri ógæfu að litið hafi verið á þá sem fé án hirðis.
Það er alkunna að þegar reka á fé á ókunnar slóðir úr heimahögum þá verður reksturinn svolítið erfiður og höktandi einkum þó ef rekstrarmenn eru drukknir. Það er gömul saga og ný að það getur hent að leitarmenn í göngum súpi óþarflega mikið á vasapelanum og tapi dómgreindinni jafnframt. Sumir týna jafnvel bæði reiðskjótanum og fénu sem þeim var trúað fyrir. Mér er sagt að það hafi verið ótrúlega mikið um þessháttar óhöpp nú að undanförnu. Ennþá eigum við þó menn sem leggja sig fram við að leita uppi fé án hirðis og koma því í vörslu áreiðanlegra manna. Og þar á ég við menn eins og Pétur Blöndal alþingismann sem með lofsverðri fórnarlund leitaði uppi stofnfé sparisjóða og fann því áreiðanlegan hirði til verðveislu.
![]() |
Peningarnir týndust í kerfinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
9.10.2008 | 13:51
Allir hafa einhvern brest
Í öllum þeim óróa sem fjármálahrun þjóðarinnar hefur valdið fólki hefur mörgum orðið heitt í hamsi að vonum. Þá verður mörgum það fyrst fyrir að leita uppi sökudólga til að láta reiðina bitna á en það eru líklega eðlileg viðbrögð við slíkar aðstæður. Allt frá ómunatíð höfum við átt alþýðuskáld sem skilið hafa eftir marg gullkorn ort af ýmsu tilefni. Einn þessara alþýðuskálda var Indriði Þórkelsson bóndi á Ytra-Fjalli í Aðaldal. Indriði var óvenju orðsnjall enda víðlesinn gáfumaður. Ég læt hér fylgja tvær vísur eftir Indriða og finnst þær vera holl upprifjun á þessum dögum.
Allir hafa einhvern brest,
öllu fylgir galli.
Öllum getur yfirsést.
Einnig þeim á Fjalli.
-------------------------
Mér finnst oft er þrautir þjá
þulið mjúkt í eyra
þetta er eins og ekkert hjá
öðru stærra og meira.
7.10.2008 | 23:13
Frábær Jóhanna Vigdís
Flest okkar hafa fylgst með útsendingum Sjónvarps undanfarna daga og fylgst með þeirri atburðarás þar sem mörgum er enn lítt skiljanleg. Þar hefur umfram aðra mætt á Jóhönnu Vigdísi Hjaltadóttur fréttakonu sem stóð sínar löngu og erfiðu vaktir með slíkri prýði að það hlýtur að hafa vakið aðdáun allra sem með því fylgdust. Henni tókst að halda áhorfendum við skjáinn með meistaralegum spuna utan um allt það efni sem fréttunum tengdust og gerði það með sinni óhagganlegu ró hvernig sem aðstæður voru og alltaf reiðubúin með markvissar spurningar til stjórnmálamannanna. Hjá mér hlýtur hún fullt hús stiga. Einnig var ég afar sáttur við Björgvin G, Sigurðsson viðskiptaráðherra. Hann var alltaf skýr og vel yfirvegaður í öllum svörum og féll aldrei í þá gryfju að tala niður til fréttamanna eða styggjast við hvatvísi þeirra.
En Jóhanna Vigdís bar þarna af öllum, enda frábær fagmaður í sínu starfi.
5.10.2008 | 18:40
Mikilvæg yfirlýsing forsætisráðherrans
Með öndina í hálsinum biðu fréttamenn og í ofvæni eftir einhverjum fréttum af viðræðum lykilmanna þjóðarinnar í Ráðherrabústaðnum. Og nú fyrir stundu gekk Geir fram fyrir fréttamenn og svaraði spurningunni um það hvort hann væri bjartsýnn á lausnir í tæka tíð. Og svar forsætisráðherrans var eftirfarandi:
Ég er bjartsýnismaður að eðlifari!
Fátt er þjóðinni mikilvægari vitneskja við þetta óvissuástand sem nú ríkir en að vita að forsætisráðherra hennar er bjartsýnismaður að eðlisfari.
Reyndar man ég ekki betur en að þegar erlendir hagspekingar voru farnir að lýsa áhyggjum sínum vegna þessa ástands sem nú er að setja íslenska hagkerfið í þrot. Það eru nefnilega ekki nokkrir mánuðir heldur nokkur ár síðan skuldir þjóðarinnar vegna útrásar bankanna og fjárfesingarjöfra okkar voru orðnar margföld sú upphæð sem önnur ríki telja ystu hættumörk.
Bjartsýnismaðurinn Geir H. Haarde hélt að þetta hlyti nú allt að reddast.
2.10.2008 | 23:00
Af harðindum
´´I kvöld ræddu fulltrúar okkar á Alþingi um skyndilegu harðindi sem íslenska þjóðin stendur frammi fyrir þessi dægrin. Fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna kepptust við að telja kjark í þjóðina og töldu einsýnt henni myndi auðnast að lifa þessa ríkisstjórn af. Á myrkustu miðöldum skrimti nokkur partur Íslendinga af hungur og harðrétti það sem á hana féll af völdum óblíðrar veðráttu, eldgosa og drepsótta. Auk þess brást fiskigegnd með köflum og það svo að vertíðarhlutir fóru niður í sjö fiska þó allt væri veitt sem náðist. Þá höfðu kennimenn kirkjunnar nóg að gera við að tala óskiljanlegt mál á sunnudögum fólkinu til eilífrar blessunar. En í pápiskri tíð var fólki bannað að neyta hrossakets svo samtímis féllu menn og hross úr hor. Í dag leyfist hrossaketsát en fáir leggja sér það til munns. Í dag eigum við pólitíkusa sem tala óskiljanlegt mál. Þeir hafa það eftir stofnun sem talar líka óskiljalegt mál að enda þótt nægur fiskur sé í sjónum þá leyfist ekki að veiða hann.
Harðindi miðalda eru mér vel skiljanleg. Okkar harðindi í dag eru mér óskiljanleg.
Eins og tungumál pólitíkusanna.