Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Okkar virka efnahagslíf

Stundum hefur mér gengið bölvanlega að skilja spakmæli pólitíkusa og sé þar engin batamerki. Nú segir viðskiptaráðherra okkar hæstvirtur í spjalli við erlent dagblað að horfur íslensku þjóðarinnar séu dökkar. Skuldir muni hækka á næstunni og nema árlegri þjóðarframleiðslu. Bjarta hliðin sé þó sú að ennþá sé viðskiptalífið virkt.

Ég hafði nokkurt álit á hæstvirtum viðskiptaráðherra Gylfa Magnússyni meðan hann var óbreyttur álitsgjafi og fannst hann jafnvel mæla spaklega um efnahagsvandann. Vænti ég því nokkurs af honum í þessu vandasama stjórnsýsluhlutverki. Virkt viðskiptalíf kann að vera markmið út af fyrir sig. En ósköp held ég nú að viðskiptalíf okkar muni nú hægja á sér ef Alþjóðlegi gjaldeyrissjóðurinn verður búinn, með aðstoð Seðlabankans að leggja atvinnulífið í rúst með hæstu stýrivöxtum í heimi og jafnframt að hrekja flesta rólfæra íbúðaeigendur úr landi atvinnulausa.

En kannski blómgast viðskiptalífið þegar bankarnir fara að selja skógarþröstum og spörvum íbúðir sem veðsettar eru fyrir 30% hærri upphæð en nemur raunvirði þeirra í dag. Hvert raunvirðið verður þá er ég nú reyndar ekki maðuur til að reikna eða spá fyrir um.  


mbl.is Dökkar horfur, segir ráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslandshreyfingin!

Í nýrri skoðanakönnun frá Gallup urðu þau tíðindi að Íslandshreyfingin tók merkjanlegan fjörkipp. Það hefur ekki farið mikið fyrir þessu stjórnmálaafli sem af yfirvegaðri ábyrgðartilfinningu hefur verið haldið frá öllu því moldviðri sem fjölmiðlar hafa þyrlað upp í kjölfar bankahrunsins. Nú hefur það runnið upp fyrir einhverjum að þetta pólitíska afl heldur ennþá lífi þrátt fyrir að hafa ekki hlotið náð fyrir augum fjárveitingavaldsins sem eys nú peningum í sína gömlu og siðspilltu flokka sem aldrei fyrr.

Það væri nú allt í lagi að leyfa Ómari Ragnarssyni og félögum að fá einhverja athygli á næstu dögum í fjölmiðlamræðu þjóðarinnar.

Ómar stendur nú í skoðanakönnun jafnfætis Guðjóni Arnari sem fær ríkulegan stuðning frá ríkinu. Þeim fjármunum verður að nokkru varið til erfidrykkju flokksins í Stykkishólmi þar sem tekist verður á um hverjir megi bera kistuna.


Mun næsta ríkisstjórn syngja svanasöng ráðherraræðis á Íslandi?

Það er ástæða til að vera bjartsýnn á nýja tíma lýðræðis á Íslandi. Uppstokkun í Framsóknarflokknum dregur með sér tækifæri fyrir kjósendur þessa lands til að krefjast byltinga í stjórnsýslu okkar og koma henni í framkvæmd með skjótari viðbrögðum en nokkur þorði að vona. Ég orðlengi þetta ekki frekar en ég sé ástæðu til að óska mínum gömlu vinum í Framsóknarflokknum til hamingju með að hafa tekist að kveikja nýja von með þjóðinni á miklum örlagatímum. Ég treysti því að skipað verði til verka í þessari nýju stöfnun því fólki sem leggur sig fram við að vinna af fullkomnu hlutleysi úr þeim tillögum sem nú þegar liggja fyrir í gögnum stjórnarskrárnefndar.

Nú vænti ég þess að flokkurinn haldi áfram á sömu braut og ný forysta opni augun fyrir spillingunni í stjórnun fiskveiða.


mbl.is Samþykkja stjórnlagaþing
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afsögn ráðherra

Sú ákvörðun Björgvins G. Sigurðssonar sem hann tilkynnti í morgun, að ganga út úr ríkisstjórn Geirs H. Haarde kom mörgum nokkuð á óvart. Og af viðbrögðum ýmsra bloggritara sýnist mér fólk vera ofurlítið ráðvillt í afstöðu sinni til þessara pólitísku tíðinda. Þetta virðist hafa virkað líkt og höfuðhögg á marga enda eru þetta óvænt tíðindi og setja margt það úr skorðum sem fólk var búið að byggja upp í eigin hugarheimi um næstu atburðarás í íslenskri pólitík. Einörð stefna formanna stjórnarflokkanna í þá veru að mæta kröfum fólksins með hroka og orðhengilshætti eins og að það "væri ábyrgðarhluti fyrir ríkisstjórnina að stíga frá borði við þessar aðstæður" varð að engu. Ríkisstjórnin gliðnaði og nú sitja Geir og Ingibjörg ráðvillt og ósamstíga og vænta þess að forsjónin sendi þeim vitrun í nótt.

Ráðvilltir eru greinilega líka margir okkar ágætu bloggara sem telja sig þurfa að finna einhverja merkilega hliðarskýringu á þessari ákvörðun ráðherrans. Líklegasta skýringin þykir vera sú að Þetta sé helvítis klækjabragð hjá ráðherranum sem sjá sér leik á borði og svíki alla sína samstarfsmenn með það lúalega hugarfar að vegvísi að leika nú pólitískta afturbatapíku og tryggja sér fyrsta sætið í kjördæmi sínu í næstu kosningum. Vel má vera að hann hugsi til þess og hefur reyndar lýst yfir að svo muni verða.

Ég kýs að líta þetta öðrum augum. Ég trúi því að Björgvin hafi komist að þessari niðurstöðu eftir samræður við eiginkonu sína og nánustu vini. Fjölskyldumaður með eiginkonu og sex börn lifir ekki ekki í pólitískri tilveru einvörðungu. Sú tilvera er raunar varla eftirsóknarverð að starfa í fullri óþökk þjóðar sinnar og óvild sem snúist hefur upp í hatur og heift. Vera ekki óultur fyrir líkamsmeiðingum og hrakyrðum er ekki eftirsóknarvert í eigin samfélagi. Hann veit, og lýsir yfir að markmið ríkisstjórnar hafi ekki tekist að uppfylla og skilur að rof milli valdstjórnar og þjóðar er dauðadómur yfir öllum góðum áformum. Hann ákveður að rjúfa þennan vítahring og hann gerir meira. Jafnt og hann skilar umboði sinu uppfyllir hann eina af áleitnustu kröfum þjóðarinnar og hreinsar út úr híbýlum Fjármálaeftirlitsins ásamt því að senda þau tilmæli að fara eins að með Seðlabankann.

Geri aðrir betur einum morgni!

Ég ætla að trúa á einlægni ráðherrans fráfarandi um allar ástæður þessarar ákvörðunar. Ákvörðunar sem marka tímamót í langri raunasögu. Kannski er ég auðtrúa og það hef ég áður heyrt.

Þurfum við kannski að leitast við að afeitra hugarfar okkar dálítið- svona í áföngum?

Ég spyr?


Okkur líður alveg ágætlega.....

Fundi Samfylkingarinnar í Þjóleikhúskjallaranum var að ljúka. Fréttakona Sjónvarpsins tók varaformanninn Ágúst Ólaf Ágústsson tali og spurði hann margs í ljósi þessarar niðurstöðu. Ágúst Ólafur var hress í tali að vanda og óð nú elginn sem aldrei fyrr. Margt af því brast mig vitsmuni til að skilja í samhengi en hann ræddi um samstöðuna innan flokksins og það mikilvæga hlutverk að ná trúverðugleika þjóðarinnar gegn um kosningar og nýja ríkisstjórn. Um fullnustu þessarar samþykktar fundarins og hvenær stjórnarrof yrðu sagðist hann ekki geta sagt neitt því Samfylkingin væri að vinna af heilum hug í ríkisstjórnarsamstarfinu!!! Þetta samtal fór fram í sviðsljósi eldanna á tröppum Þjóðleikhússins og háværum köllum mótmælendanna sem búnir voru að reka ráðherra flokksins eftir innbrot á fundinn. Líklega með vísan til þess spurði fréttakonan Ágúst varaformann hvernig honum og flokksmönnum hans liði......? "Alveg ágætlega" svaraði hinn galvaski varaformaður Samfylkingarinnar og bætti við nokkrum orðum sem ég náði að vísu ekki því undrunin á þessu skelfilega svari bar athyglina ofurliði.
mbl.is Samþykktu ályktun um stjórnarslit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar oflætið stýrir för er voðinn vís

Ég er gull og gersemi,/ gimsteinn elskuríkur./Ég er djásn og dýrmæti/Drottni sjálfum líkur.

Þessi vísa er ekki eftir Davíð Oddsson þó ýmsum gæti komið það í hug. Hún er ekki heldur eftir Geir.H. Haarde, ekki Árna Mathiesen og hún er ekki eftir mig. Og til að leysa allan vafa sem komið gæti upp þá er þessi vísa eftir Sölva Helgason eða í það minnsta eignuð honum.

Sölvi var kunnur landshornaflakkari fæddur norður í Sléttuhlíð í Skagafirði árið 1820 og dó 1895. Sölvi var fyrirmynd Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi að söguskáldsögunni Sólon Íslandus. Sölvi var ógæfumaður og marghýddur fyrir þjófnaði og önnur misyndi. Ógæfa hans fólst að mestu í þeirri geðrænu veilu sem birtist í slíku ofmati á eigin gáfum og hæfileikum að hann fór með himinskautum í öllum sjálfslýsingum sem margar eru skráðar á bækur. Hann var hvergi aufúsugestur og lenti um skeið í fangelsi í Danmörku þar sem hann heimkominn breytti sögunni í að hafa dvalist með lærdómsmönnum og numið vísindi. Mér skilst að þessi geðræna veila Sölva taki nafn af frönskum keisara og kallist Napoleonsheilkenni. Að sjálfsögðu er þessi ógæfa á misjafnlega háu stigi hjá þeim sem það bera en er talinn voðalegur förunautur öllum þeim sem hafa með höndum stjórnunarstörf. Færðar hafa verið líkur til að þetta heilkenni hafi orðið þess valdandi að þjóðveldistíma lauk á Íslandi upp úr miðri þrettándu öld og hélst svo allt fram á þá síðustu.

Nú stendur þessi þjóð lýðræðisstjórnar frammi fyrir skelfilegri framtíðarhorfum en nokkrir þekkja og má líkja að nokkru við þrengingar fyrri alda þó við ólík ytri skilyrði sé.  

Í dag erum við í tilvistarkreppu sem hvergi á hliðstæðu í okkar sögu. Þrátt fyrir strangar viðvaranir fjölmargra erlendra sérfræðinga til stjórnvalda og efnahagslegra stjórnsýslustofnana höfðust stjórnvöld ekki að en flutu sofandi að feigðarósi með umbjóðendur sína innanborðs. Þau afneituðu staðreyndum með hroka og að tilhlutan heimskra bankastjórnenda og óheiðarlegra spákaupmanna græðginnar brotlentu þau þjóðarskútunni. Þau afneita enn. Þau segjast engar aðvaranir hafa fengið- "enginn sá þetta fyrir" segja þar núna allir í kór.

Þetta er auðvitað skelfilegt ástand. Ísland er komið á svartari lista en nokkur önnur þjóð af öllum þeim sem hin alþjóðlega kreppa hefur hitt. Og orsökin er einfaldlega sú að ekki var brugðist við aðvörunum. Þetta tel ég mér fært að segja vegna þess að ég hef heyrt upprifjanir af orðum þeirra manna sem gerðu gys að varnaðarorðunum. Og þetta höfum við flest heyrt að minni hyggju. Nú er hér staddur einn þeirra manna sem ég er að vísa til. Og hann kemur fram á fjöldafundi og hann kemur fram í Sjónvarpinu og segir frá þessu öllu. Og rétt eins og fjölmargir aðrir erlendir greinendur og stjórnmálamenn er hann agndofa yfir því að enn situr sú valdstjórn sem ábyrgðina ber. Og engum er sagt upp störfum sem gegndi lykilstöðum í kerfinu. Enginn segir af sér; enginn rekinn!

Er þetta þá allur vandinn? Nei. Stór hluti þjóðarinnar hefur lýst vantrausti á ríkisstjórnina í skoðanakönnunum. Fjöldasamkomur eru haldnar vikulega þar sem þúsundir reiðra Íslendinga krefjast þess að ríkisstjórnin víki og fagleg neyðarstjórn taki við völdum. Þessu er auðvitað? mætt með þeim hroka að ráðamenn segjast ekki hafa brugðist þjóðinni á nokkurn hátt og þeir hafi lýðræðislegt umboð til að fara sínu fram óáreittir. Ráðamenn varðar ekki um álit umbjóðendanna. Þeirra lýðræði er að þröngva sínni pólitísku aðkomu upp á þjóðina og nýta sér skjól frá lögreglu.

"Þið eruð ekki þjóðin" er hrokafullt svar formanns ríkisstjórnarflokks og eins af veigamestu ráðherrunum á fjölmennum borgarafundi þegar ríkisstjórninni eru borin þau skilaboð að þjóðin treysti ekki stjórnvöldum og krefjist afsagnar. Sú ríkisstjórn sem hældi sér með orðalagi sem vísað gæti til Sölva Helgasonar fyrir trausta efnahagsstjórn fyrir fáum missirum og lýsti skuldlausu þjóðarbúi skýrir í kvöld frá 2000 milljarða skuld sem hefði verið hægt að miklum hluta að afstýra ef hlýtt hefði verið hollum ráðum sérfróðra manna!

Vandinn er tvíþættur: Annars vegar sá að ríkistjórn okkar sem komið hefur okkur í stöðu sem liggur neðan við þjóðargjaldþrot segir okkur að þegja og hegða okkur vel.

Hinn vandinn felst í hundslegri flokkstryggð þeirra fjömörgu sem segja okkur það sama og í viðbót það að við megum skammast okkar fyrir að mæta okkar traustu valdhöfum með skrílslátum.

Í þeirra augum eru valdhafar "Drottni sjálfum líkir" og eigi að fá að sökkva okkur enn dýpra ef þeim býður svo við að horfa. Þá klæjar í lófana að mega veita átrúnaðargoðum sínum tilhlýðilega hollustu. Í skjóli þessa hóps leyfa stjórnvöld sér að níðast á okkur með afneitunum og hroka.

Í dag er það eitt í boði að grípa til þeirra neyðarráða að biðja alþjóðasamfélagið ásjár og koma okkur til hjálpar við að losa okkur undan oki "lýðræðisins!"

 


Til hvers eru vinir?

Nú ætlar allt vitlaust að verða vegna þess að leggja á niður sjúkrahús í Hafnarfirði og flytja starfsemina til Reykjanesbæjar. Seint ætlar fólki að skiljast að fátt er verðmætara en góður vinur. Árni Sigfússon er bæjarstjóri í Reykjanesbæ og hann er í bölvuðu ani með fjármálin. Ekki veit ég betur en að Árni sé góður og gegn sjálfstæðismaður og fékk meira að segja að verða borgarstjóri í Reykjavík. En svo fór það nú eins og það fór. Hafnfirðingar eiga álver. Ekkert álver er ennþá í Reykjanesbæ en auðvitað stendur til að reisa það bráðlega. Fátt er fýsilegra en að reisa álver því nú er Alcoa búið að segja upp 13000 manns enda fer álverð hríðlækkandi ámóta og hlutir í De code. Það á ævinlega að kaupa bréf þegar verðið er lágt sagði gamli Þjóðverjinn um leið og hann fleygði sér fyrir lestina eftir að hafa tapað 60 milljörðum.

Mistök eru til að draga af þeim lærdóm segja íslenskir ráðherrar og keppast nú við að gera mistök.

Sagt er að vandfundnir séu lærðari menn í mistökum en íslenskir ráðherrar.

Það mun hafa flogið að ríkisstjórninni að auglýsa íslensk sjúkrahús sem valkost fyrir útlendinga sem vilja kaupa þjónustu af góðum sjúkrastofnunum með sérþekkingu þjálfaðs fagfólks og auka með því atvinnu vel menntaðs fólks í heilbrigðisgeiranum. Þar væri að finna ógrynni af þeim auði sem útgjöld til menntamála hefðu skapað undanfarin ár. En þetta hefðu hugmyndafræðingar Valhallar slegið út af borðinu því þarna væri að finna vísbendingu um undanslátt gegn þeirri skoðun Vinstri grænna að við þyrftum að leita uppi "eitthvað annað!" til uppbyggingar samfélagi okkar.

Mitt álit er að þetta mál þurfi að skoðast vandlega eftirá og draga af því lærdóm.


mbl.is Eins og maður hafi verið skotinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"....munum draga af þessu lærdóm!"

"Þessi úrskurður umboðsmanns er náttúrlega alveg furðulegur, að ekki sé nú meira sagt og kemur mér afskaplega á óvart. En auðvitað munum við fara vandlega yfir hann og draga af honum lærdóm."
mbl.is Annmarkar á skipun dómara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Láru Ómarsdóttur í rannsóknarnefndina

Var að lesa á Vísi.is að Sturla Böðvarsson forseti Alþingis hefði sagt í gær að nefnd sem ætlað væri að rannsaka orsakir og aðdraganda bankahrunsins yrði stofnuð fyrir jól. Lára Ómarsdóttir fyrrv. fréttakona sendi Sturlu skeyti í morgun og bauðst til að taka sæti í nefndinni sem fulltrúi almennings. Lára segir í skeytinu að hún sé úr hópi venjulegs fólks á Íslandi og hafi aldrei unnið í banka og eigi enga vini né venslamenn í bönkum né hafi önnur tengsl þar sem rýrt geti trúverðugleika hennar við óháða rannsókn. Hún vísar auk þess til reynslu sinnar sem fréttamanns og að hafa unnið við rannsóknarblaðamennsku; hafi m.a. lengi unnið við Kompásþættina og gegnt mikilvægu hlutverki við að upplýsa Byrgismálið.

Ég ber fullt traust til Láru Ómarsdóttur og yrði sáttur við að vita af henni í þessu starfi fyrir mína hönd. Nú er bara að bíða og sjá hvort liðsinni hennar verður þegið. Eiginlega þætti mér furðulegt ef stjórnvöld fögnuðu ekki þessum liðsmanni sem mér sýnist auka trúverðugleika rannsóknarinnar því ekki hefur nú þeim þætti verið gert hátt undir höfði hingað til. 


Íslenska þjóðin óskar eftir starfsmanni í stjórnunarverkefni. Viðkomandi þarf að leggja fram meðmæli sem sanna að hann sé með fullu viti.

Eru ekki flestir búnir að fá nóg? Þjóðin stendur frammi fyrir meiri efnahagsvanda en áður hefur þekkst og stjórnvöld eru óvirk vegna innbyrðis áfloga. Að úthallandi vetri síðastliðnum ákvað Davíð seðlabankastjóri að fresta töku á erlendu láni sem okkur bauðst og heimild Alþingis lá fyrir. Snemmsumars var Davíð spurður um hvað liði lántökunni en hann svaraði því til að hann hefði ekki talið neina brýna þörf fyrir þetta lán og þóttist góður að hafa sparað þjóðinni verulegar upphæðir i vaxtakostnaði. Nú verða þeir atburðir á haustdögum að bankarnir lenda í þroti vegna lausafjárkreppu og hröð atburðarás fer í gang sem allir þekkja. Glitnir biður um lán í Seðlabankanum til að fleyta sér yfir erfiðan hjalla en er synjað. Seðlabankinn ákveður að fella bankann og nú fara dóminóáhrifin af stað með hruni allra bankanna. Davíð  segist hafa varað ráðherra við því á útmánuðum að núll % líkur væru til að bankarnir lifðu af aðsteðjandi fjármálakreppu. Ráðherrrar muna ekki eftir þessu og viðskiptaráðherra upplýsir í kvöld að í mars hafi hann síðast rætt við Davíð sem hafi sýnt honum skýrslu um trausta stöðu bankanna. Síðan hafi þeir ekki ræðst við og stafi það sennilega af deilu þeirra um inngöngu í EB. Viðskiptaráherra sér ekki nema tvo kosti í stöðunni. Annar sé að krefjast afsagnar Davíðs, sem muni hafa þær afleiðingar að sprengja samstarfið við Sjálfstæðisflokkinn. Hinn kosturinn sé að bíða með aðgerðir fram yfir landsfund sjallanna og skoða hvort flokkurinn lýsi þar yfir stuðningi við EB!

Hefur Samfylkingin ekki aðrar skyldur við þessa þjóð en að fylgjast með niðurstöðu landsfundar samstarfsflokksins í afstöðu hans til EB? 

Þegar svo er komið að ráðherrar ríkikisstjórnarinnar eru farnir að berjast á opinberum vettvangi um sannleikann í samskiptum þeirra við Seðlabankastjóra og/eða minnisleysi annars hvors, -og lýsa í sömu andrá vanburðum í ákvarðanatöku vegna pólitísks ágreinings við þennan starfsmann sinn- þá er mér nóg boðið. Og er þó hér fátt eitt talið af mörgum þeim fádæmum sem þjóðin hefur orðið vitni að í misvísandi yfirlýsingum þessa heiðursfólks á undangengnum vikum.

Niðurstaða: Þjóðin skal verða að þola það að einn mikilvægasti starfsmaður ríkisstjórnarinnar í stjórn peningamála er í opinberu stríði við yfirmenn sína sem þora ekki að losa sig við hann. Betur hefðu þeir farið að ráðum hans þegar hann lagði til að þeir yfirgæfu stjórnpallinn og gæfu þjóðstjórn tækifæri til að sigla þjóðarskútunni út úr brimgarðinum. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband