Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
13.9.2008 | 21:01
Leyfist forsætisráðherra að fara með ósannindi?
Það mætti skilja á fréttum að Geir H. Haarde forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins hafi vaknað af pólitískum dvala og farið á kostum á fundi með jábræðrum sínum í Valhöll. Þar var hann að sjálfsögðu í aðalhlutverki og ræddi margvíslegan vanda þjóðrinnar sem hann og fyrirrennari hans í ríkisstjórn ber mesta ábyrgð á með ábyrgðarlausum oig heimskulegum stjórnarháttum um margra ára skeið. Geir hafði sig nokkuð í frammi með skáldlegum tilburðum er hann lýsti aumingjaskap stjórnarandstöðunnar við að benda á leiðir til úrbóta. Þar staðhæfði hann að allir tilburðir þeirra hefðu einkennst af úrræðaleysi og innbyrðis áflogum sem minntu á knattspyrnudólga. Honum láðist, óviljandi eða að líkindum þó fremur viljandi að Guðjón Arnar Kristjánsson benti á einfalda leið út úr brýnustu vandræðunum. Nefnilega þá leið að draga á land svosem 90 þúsund tonn af þorski umfram ráðgjöf Hafró sem eins og allir vita hefur verr en mistekist allt það sem hún hefur haft að markmiði svo langt sem starfsemi hennar nær. Þessa leið hafa flestir ef ekki allir skipstjórar og sjómenn talið að nú ætti að fara vegna óvenju mikillar þorskgengdar á fiskimið okkar.
Tók forsætisráðherra okkar ekki eftir þessari þingræðu Guðjóns Arnars eða er hann bara óvandaður pólitíkus?
13.9.2008 | 19:12
Er ráðgjöf Hafró 269 þorska virði?
September 1774
Í sumar hefur íslensk skúta, eign Thodals stiftamtmanns og Ólafs Stefánssonar amtmanns, stundað veiðar hér við land. Hefur aflinn verið settur á land í Hafnarfirði og Grundarfirði, en aflinn reynst ærið rýr.........Veiðin var alls 269 þorskar..... Skúta þessi er sjötíu rúmlestir að stærð, aðeins fárra ára og smíðuð úr eik.
Ofanritað er tekið orðrétt úr bókinni Öldin átjánda og er ein af mörgum álíka fréttum um afla íslenskra sjómanna í fiskileysisárum sem voru mörg á þessari tíð. Eitt árið var hlutur vertíðarmanna við Suðurland 15 fiskar. Á milli komu síðan ár þar sem landburður af þorski er fréttaefni okkar óborganlegu annálaritara. Fræðimenn Hafró trúa því að þeir geti stjórnað fiskigengd og geymt fiskinn þangað til stofninn hefur náð eðlilegum styrk; nokkuð sem engum fiskifræðingum hefur tekist allt til þessa. Í dag berst þjóðin við efnahagsvanda sem mun leggja í rúst margar fjölskyldur og skilja fjölmörg börn eftir á samfélagslegum vergangi. Ekki hef ég heyrt marga pólitíkusa hafa af því miklar áhyggjur. Þeirra áhyggjur beinast helst að fjármálastofnunum og verktökum.
Í morgunspjalli Rásar 1 nefndi Sigurjón Þórðarson þá leið að nýta fiskimið okkar sem í dag sýna meiri þorskgengd en oftast áður til sóknaraukningar, og leysa stóran hluta efnahagsvandans með því einfaldlega að nýta þá auðlind sem bjargað hefur þessari þjóð frá hungursneyð allt frá landnámi. Þessari hugmynd hrinti Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir útaf borðinu með eftirfarandi ályktun: "Við förum ekki að ganga gegn ráðgjöf vísindanna." Og hún komst upp með það- málið var dautt.
Nú spyr ég mig: Hvernig hefði líf þessara þjóðar þróast ef hún hefði átt sína Hafró árið 1774 og stjórnmálamenn álíka þeim sauðnautum sem nú rölta meðvitundarlaus í gráa húsinu við Austurvöll,- og starfað í umboði fólks með raungreind Þorbjargar Helgu Vigfúsdóttur?
Svarið er einfalt. Þjóðin hefði mestan partinn veslast upp af hungri.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.9.2008 | 00:43
...og étnir eru í útlöndum
Sala á lifandi sauðum til Englands var íslenskum bændum mikil fjárhagsleg lyftistöng eftir miðbik nítjándu aldar. Fyrir þessum útflutningi stóð enskur eða skoskur kaupsýslumaður Coghill að nafni. Hann ferðaðist um landið, keypti sauði og borgaði út í hönd með gulli. Þetta var nýr heimur fyrir bændur sem margir auðguðust vel á þessum viðskiptum og ekki skemmdi að Coghill var alþýðlegur og samdi sig vel að íslenskum þjóðháttum. Eru skráðar af því margar sögur og sumar skoplegar. Þessi útlendingur lærði aldrei tungumál okkar til hlítar utan blótsyrði sem hann beitti óspart. Prest nokkurn sem hann mundi aldrei nafnið á kallaði Coghill "séra andskota!" En nóg um þetta.
Í nýjasta Bændablaðinu las ég frétt um að Landssamband sauðfjáreigenda væru nú að kanna leiðir til að senda lifandi lömb úr landi til slátrunar. Ástæða þess er einfaldlega sú að hagræðing sem heitið var að myndi nást með fækkun sláturhúsa og flutningi á sláturfé mörg hundruð kílómetra til hinna stóru og fullkomnu húsa, hefur einfaldlega ekki skilað sér í lækkun sláturkostnaðar.
Lítil sláturhús þar sem bændur og skyldulið þeirra vann við slátrun á haustin og drýgði tekjur sínar jafnframt voru lögð niður. Ástæðan var sögð vera sú að marglofaðar reglugerðir EES meinuðu slíka stafsemi sem uppfyllti ekki alþjóðlega staðla um búnað. Nú er það svo að minnstur hluti afurðanna er fluttur úr landi og hin fullkomnu sláturhús okkar gætu á nokkrum dögum uppfyllt þann kvóta. Málið var hinsvegar ekki svona einfalt. Það þurfti að hygla pólitískum vildarvinum og þess vegna afréð Guðni Ágústsson landnúnaðarráðherra að ganga milli bols og höfuðs á þessari atvinnustarfsemi bændafólksins í sauðfjárhéruðum landsins. Nú er sláturfé ekið allt austan frá Breiðdalsvík og vestan frá Ísafjarðardjúpi til Sauðárkróks. Og til flutninganna eru notaðir þriggja hæða vörubílar með grindum. Á þessum bílum hossast sláturlömbin allt að 700 km. leið og svo undrast neytendur þegar þeir fara að gófla í sig ólseigu stresskjötinu. "Besta lambakjöt í heimi" er orðið að háðsyrði svo auka megi veltu Kaupfélags Skagfirðinga til lofs og dýrðar Þórófi Gíslasyni sem er auðvitað meðlimur S hópsins svonefnda. Guðni Ágústsson fer nú um landið í nafni byggðastefnu Framsóknarflokksins. Sú byggðastefna sem flokkur hans bar ábyrgð á um 12 ára skeið sýnir sig nú í fiskimannaþorpum án veiðiheimilda og kvótasettum landbúnaði. Gegn hvaða ástandi hyggst Guðni Ágústsson skera sína herör?
5.9.2008 | 17:03
Er Exista virkilega enn að lækka?
![]() |
Exista lækkar um 7,41% |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
31.8.2008 | 17:00
Hvað verður nú um hagvaxtarræfilinn?
Nú er búið að gefa út tilskipun um að rýma borgina sem fellibylur og flóðbylgja lögðu næstum í rúst fyrir þremur árum. Þá var viðvörunum lítið sinnt og tjónið varð skelfilegt. Þá hafa stjórnvöld líklega talið að allir váboðar væru að engu hafandi og sennilega bara áróður "hinna svokölluðu umhverfissinna" sem taldir eru græða fullt af peningum með því að spá náttúruhamförum. Hlýnun andrúmsloftsins er orðin staðreynd sem ekki verður umflúin með afneitun. Þessi hlýnun er farin að sýna sig áþreifanlega og þá bregðast ármenn hagvaxtarins við með því að benda á að áður hafi gengið yfir hlýviðriskeið. Sumir reyna að móast við öllum boðskap um að draga beri úr losun gróðurhúsalofttegunda með því að benda á að hlýviðrisskeið komi sér vel fyrir Ísland. Aðrir telja að það séu landráð að hætta við álbræðslur á Íslandi því okkur beri skylda til að framleiða ál með hreinni orku svo ekki þurfi að bregða til þess ráðs að knýja álverin með kolabrennslu. Engum "heilvita" frjálshyggjumanni dettur í hug að nú þurfi að bregðat við með sparnaði og draga úr notkun mengandi farartækja. Það er ógnun við hagvöxtinn.
Upp úr þessu öllu stendur þó vonin um að þessi varúð í tengslum við fellibylinn Gústav reynist eins og til er stofnað og því fólki sem hann ógnar verði borgið í tæka tíð.
![]() |
Hvorki Bush né Cheney á þingið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.8.2008 | 22:28
Afreksmenn og undirmálsfólk
Í dag sameinast íslenska þjóðin í aðdáun og stolti vegna frábærra afreksmanna okkar í undanúrslitum handbolta á Ólympíuleikunum. Nú eru silfurverðlaunin í höfn og gullið innan seilingar á góðum sunnudagsmorgni. Aldrei höfum við átt jafn glæsilegan hóp afreksmanna á sviði íþrótta sem nú og hinn fjölmenni íþróttaheimur stendur agndofa yfir árangri örþjóðar í elstu og metnaðarfyllstu keppni afreksmanna á sviði íþrótta. Öll íslenska þjóðin fylgist með, að sjálfsögðu og þjóðarstoltið blossar upp. Forsetahjónin á Bessastöðum eru á staðnum og leyfa sér að láta tilfinningarnar flæða. Dorrit segir að Ísland sé ekki lítið land, það sé stórasta landið og hún leyfir sér að fagna eins og lítil telpa, nett, einlæg og yndislegur fulltrúi þess nýja föðurlands sem hún flæddi inn í eins og hlýr vorblær. Og maður leyfir sér að spyrja:
Hvernig stendur á því að þessi þjóð er nýbúin að horfa upp á ómerkilegar hrókeringar snautlegra pólitíkusa í Ráðhúsi Reykjavíkur; höfuðborgar ættlands þessara glæsilegu afreksmanna? Menntamálaráðherra og sitjandi forsætisráðherra þegar heimkomu afreksmanna okkar verður fagnað, segir í sjónvarpsviðtali í kvöld að borgarstjóratign Hönnu Birnu standi henni næst árangri handboltaliðs okkar í huga sem fagnaðarefni! Að þessi þjóð hefur mátt þola það að horfa upp á landsfeður sína verða henni til smánar með pólitískri heimsku og undirlægjuhætti á alþjóðavettvangi þráfaldlega? Ég meina: Eigum við það barasta skilið að heyra íslenska þjóðsönginn leikinn á Ólympíuleikunum þegar við reynumst vera svona guðs volað bakland afburðamanna?
Í alvöru! Af hverju kjósum við ekki alvörumenn til að drýgja okkur örlög í einu auðugasta og besta landi heimsins? Af hverju er Guðmundur Guðmundsson ekki forsætisráðherra á Íslandi og Ólafur Stefánsson borgarstjóri höfuðborgarinnar Reykjavíkur með sína drengilegu félaga í lykilstöðum?
Við íslenskir kjósendur fögnum glæsilegum afreksmönnum, þeir eru strákarnir okkar en við kusum þá ekki. Þeir sönnuðu sig og þeir unnu sig upp í þá stöðu sem við erum stolt af í dag. Það er þeirra gæfa og okkar að þeir lentu ekki undir gáfnaprófi okkar á kjördegi.
Nú er það einlæg von mín að pólitíkusar okkar haldi sig heima og taki ekki til máls á vettvangi þjóða fyrr en strákarnir okkar eru búnir að taka við verðskulduðum viðurkenningum.
Einu gildir þó forsætisráðherra okkar fari áður í opinbera heimsókn því hann mun ekki verða okkur til mikillar niðurlægingar. Til þess er hann of, ja- eiginlega allslaus.
Ég bið íslenska handboltalandsliðið afsökunar af alhug fyrir að hafa niðurlægt það í svona ofboðslega óverðskuldugum samanburði við eitt það neðsta sem við þekkjum með okkar þjóð í dag.
![]() |
Forsætisráðherra: Mikið afrek og glæsilegt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.8.2008 | 23:33
Fé án hirðis, hvað varð um smalann?
Það er ekki ýkjalangt síðan guðfaðir Kaupþings, fjármálagúrúinn og alþingismaðurinn Pétur Blöndal kvað upp´úr með það í fjölmiðlum að hann hefði á rölti sínu um afrétt fjármálanna rekist á fé án hirðis! Þetta fé sagði hann að væri með glöggu marki sparisjóðanna víðs vegar um land og nú væri það mikið drengskaparverk sem biði glöggra fjármanna. Það yrði að koma þessu fé til byggða tafarlaust áður en það lenti í sjálfheldu eða fennti til dauðs í næsta hríðaráhlaupi. Nú var brugðið hratt við og fundnir eigendur eða búnir til eigendur og féð fór á uppboð. Nú er í stuttu máli svo komið fyrir þessu harðgera fé að eftir áð því var komið í hús fór að bera á einhverri uppdráttarsýki og allnokkur fjöldi beinlínis fallið úr hor.
Hvar er nú þessi Fjalla-Bensi frjálshyggjunnar staddur? Því stígur ekki Pétur Blöndal fram og svarar fyrir þetta bjargræði sitt til handa þeim dreifðu byggðum sem áttu þarna sínar eigin fjármálastofnanir, traustar og kyrrlátar undir stjórn varkárra karla í gúmmískóm og lopapeysum? Sumum kann að koma það í hug að þetta óskilafé sem Pétur Blöndal fann á sinni göngu væri betur ófundið enn!
![]() |
Fjölmenni á íbúafundi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.8.2008 | 08:41
Eru þetta réttu mennirnir til að svara fyrir falskar niðurstöður?
WWF byggir sín rök á skýrslum Hafró um mjóg alvarlegt ástand íslenska þorskstofnsins. Það eru ekki aðrir en heimskustu pólitíkusar á Íslandi sem trúa því bulli en það nægir. Skipstjórar okkar eru á stöðugum flótta um fiskimiðin undan þorski sem bannað er að veiða. Bátkoppur sem fiskar í net í Breiðafirði er búinn að setja heimsmet í afla og þrátt fyrir að nýta netagarmana lengur en nokkrum þætti vit í við venjulegar aðstæður á miðum, Allir firðir eru blátt áfram fullir af þorski. Og nú á að stöðva verslun með íslenskan þorsk vegna útrýmigarhættu!
Er okkur sæmandi sem lýðfrjálsri þjóð að senda sérfræðingana sem bera ábyrgð á bullinu til að andmæla viðbrögðunum?
Stundum getur sú skýring nemandans verið rétt að slæma einkunn á prófi megi rekja til heimsku skólastjórans.
![]() |
Tekist á um réttinn til að stýra fiskveiðunum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.8.2008 | 17:19
Skyldi Geir vera ennþá að pissa?
Það hefur víst ekki farið framhjá neinum að efnahagsástand þjóðarinnar og atvinnuhorfur eru í mestu óvissu en flest í óefni komið. Margir hafa lýst eftir húsbóndanum á þjóðarheimilinu til að bregðast við af myndugleik. Ýmsir óttuðust að hann væri dáinn en því trúði ég aldrei enda fréttast nú smærri tíðindi. Nú fyrir skemmstu birtist svo Geir húsbóndi í fréttum og lýsti yfir að kólnun í þenslunni væri orðin greinileg enda hefði það reynst happadrýgst að hafast ekki að við björgunaraðgerðir af neinu tagi. Þykir mönnum undur að enginn annar hefði komið auga á þessi snjöllu viðbrögð og þann áhrifamátt sem aðgerðarleysi er þegar vanda ber að höndum. Aðgerðarleysi er nefnilega stórlega vanmetinn galdur í stjórn efnahagsmála.
Þessi yfirlýsing Geirs Haarde minnir mig á speki frá afa mínum Árna prófasti Þórarinssyni á Stóra-Hrauni. Á einum stað í ævisögu sinni segir hann frá aðferð sem hann notaði ævinlega við að losa reiðhest sinn upp úr keldu. Í prestakalli hans á Snæfellsnesinu var mikið um ótræðismýrar og fúakeldur sem torvelduðu reiðleiðir milli bæja. Algengt var að hestar lægju á kviði og festust í þessum keldum og brugðu þá knaparnir á hin ýmsu ráð til að hjálpa klárunum upp úr. Þetta þótti afa mínum óskaplega heimskulegt og hafði enga trú á að þessi vitleysa yrði til annars en að trufla hestinn við að komast upp úr af eigin rammleik. Þegar þetta henti þá hesta sem hann reið sagðist hann hafa stigið af baki í rólegheitum. Síðan seildist hann til tóbakspontunnar og fékk sér vel í nefið. "Að því búnu pissaði ég og þegar því lauk var hesturinn ævinlega kominn uppúr."
Og nú er það bara spurningin hversu lengi Geir verður að pissa?
Hann er áreiðanlega búinn að fá sér í nefið.
27.7.2008 | 17:59
Er þetta leyfilegt í íslenskri fiskveiðlögsögu?
Fréttin vekur engan fögnuð hjá mér né aðdáun. Eftir margra ára starf sem ferskfisksmatsmaður þekki ég gæði afla sem veiddur er í flotvörpu. Mikið hefur breyst í búnaði veiðarfæra síðan þá að vísu. Ekki get ég þó gert mér það í hugarlund að þessi 1400 tonna afli, tekinn í einu kasti hafi verið mannamatur. Fiskur sem verður fyrir miklum þrýstingi er blóðsprunginn og laus í holdi.
Margar öflugustu fiskveiðþjóðir- og þó líklega öllu heldur flestar- eru auðvitað búnar að banna þetta veiðarfæri.
![]() |
Methal hjá Margréti EA |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |