Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
23.1.2008 | 17:43
Ó borg, mín borg!
Valdið er sætt, en stendur stundum glöggt
því stormasöm er pólitík með köflum.
Nú bláa höndin birtist leiftursnöggt
og barnið hreif úr fangi á vinstri öflum.
20.1.2008 | 20:14
Forgangsröðun forsætisráðherrans
Það hefur verið venja stjórnarandstöðunnar á öllum tímum að gagnrýna fjárveitingar til svonefndra gæluverkefna. Þá hefur gagnrýnin verið studd ábendingum um að brýn samfélagsverkefni hafi verið lengi, og séu enn- fésvelt. Og þessar aðfinnslur hafa verið studdar ályktun um að þetta sé bara spurning um forgangsröðun. Forgangsröðunin hafi einfaldlega verið röng!
Í kvöldfréttum sjónvarps var skýrt frá ánægjulegu framtaki tónlistarfólks sem safnaði 3 milljónum til styrktar krabbameinssjúkum börnum á tónleikum þar sem öll vinna var gefin.
Í morgun las ég hér á fréttavefnum að Geir Hilmar Haarde forsætisráherra hafi dregið upp veskið í bandarískum smábæ og gefið 5 milljónir til byggingar einhverskonar félagsmiðstöðvar!
Ég gef mér að bæjarstjórinn í umræddu bæjarfélagi hafi þakkað fyrir gjöfina með tár í augum.
Og að þá hafi íslenski forsætisráðherrann sagt sem svo: "Blessaður vertu, mig munaði ekkert um þessa aura því ég er á góðum launum. Þetta er bara spurning um forgangsröðun!"
(Ekki læt ég mér koma til hugar að þessar milljónir hafi verið teknar af fjárlögum!)
16.1.2008 | 17:28
Vinaráðningar
Fátt vekur þægilegri tilfinningu en tilhugsun um góða og trausta vináttu. Góðu heilli á þetta fyrirbæri samfélagsins langa sögu með þjóðinni og er nærtækast að nefna vináttu þeirra Gunnars á Hlíðarenda og Njáls á Bergþórshvoli sem greint er frá í hinu merka fornriti Njálu.
Íslensk stjórnsýslulög gera ekki ráð fyrir vináttu þegar ráðið er í embætti og munu gilda þar um nokkuð skýrar reglur, þ.e. að skylt sé að ráða hverju sinni þann hæfasta. Þessi regla hefur þó oftar en skyldi verið lögð til hliðar ef marka skal þær,- oft háværu deilur um embættisráðningar og allir ættu að þekkja og muna. Hafa alloft vaknað ásakanir um að þessar embættisveitingar hafi fremur borið svip af vinargreiða en faglegum niðurstöðum.
Þessa dagana logar samfélag okkar í deilum vegna ráðningar í embætti dómara. Þessi ráðning var um nokkur efni líkleg til að vekja athygli vegna þess að ráðherra málaflokksins vék sæti og skipaði fjármálaráðherra til að fullnusta verkið. Fjármálaráherra er sem kunnugt er menntaður dýralæknir sem er vissulega gagnleg menntun í tilliti búfjársjúkdóma en er ekki viðurkennd sérþekking í lögfræðilegum álitaefnum.
Lögskipuð fagnefnd skilaði áliti á þeim fimm lögmönnum sem um starfið sóttu og setti þrjá í efsta flokk af fimm. Í næsta flokk var enginn settur en tveir voru taldir hæfir. Enginn var talinn vanhæfur. Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra skipaði annan af tveimur þeirra sem töldust mega kallast hæfir en hafnaði öllum þrem sem töldust ágætlega hæfir. Þetta veit núna öll þjóðin og einnig það að sá sem skipaður var er sonur Davíðs fyrrv. forsætisráðherra sem er afar umdeildur maður og býr reyndar að meiri óvild mikils hluta þjóðarinnar að minni hyggju en mörg dæmi eru um í dag.
Fjölmargir tóku til máls og gagnrýndu harðlega þessa ráðningu og töldu einboðið að þarna hefði verið farið gegn reglum sem skylt hefði verið að hafa í heiðri. Þar tóku til máls fulltrúar álitsnefndarinnar ásamt nokkrum þjóðþekktum lögmönnum og meðal annara Sigurði Líndal fyrrum háskólaprófessor sem mun í dag njóta óskoraðrar virðingar umfram flesta aðra í lögmannastétt.
Fjármálaráðherra tók þegar til varna og gerði lítið úr áliti allra þeirra lögspekinga sem gert hefðu ráðninguna tortryggilega, sagðist hafa valið hæfasta manninn.
Og þrátt fyrir allar lögfræðilegar ofanígjafir heldur ráðherrann sig ennþá við sína hrokafullu skýringu.
"Ég valdi hæfasta manninn!"
Auðvitað var það ákveðið strax og Þorsteinn Davíðsson sótti um að hann hlyti starfið. Það vitum við öll. En Árni Mathiesen féll á prófinu og hann féll á hrokanum. Hann átti aðeins eitt svar:
-Þorsteinn Davíðsson er vinur minn. Ég þekki hann að góðum gáfum, fjölþættri menntun og flestu því sem góðan dreng má prýða. Þrátt fyrir að hann búi að minni reynslu og jafnvel minni menntun en nokkrir hinna umsækjendanna treysti ég honum fullkomlega til að takast á hendur þetta ábyrgðarstarf og hef ákveðið að veita honum starfið. Ég er þess fullviss að hann muni gegna því með sóma.
Yfirlýsing í þessa veru hefði ekki stöðvað réttmæta gagnrýni en sjálfur hefði Árni staðið keikari eftir að mínu mati.
Þá, og þá fyrst hefði hann getað vísað til þess að embættisráðningar hafi fyrr verið umdeildar.
11.1.2008 | 18:54
Mismæli?
Þeim sem eru örir til orða hættir gjarnan til að mismæla sig. Nú var Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir spurð af fréttamanni um afstöðu hennar til ráðningar Þorsteins Davíðssonar í embætti dómara.
Menntamálaráðherra sagði í lok viðtalsins að það væri óþolandi að árið 2008 væru menn látnir gjalda þess af hvaða ætt þeir væru!
Auðvitað ætlaði ráherrann að segja að það væri óþolandi að menn fengju ekki að njóta ætternisins.
Öllum getur orðið á í hita leiks.
10.1.2008 | 15:50
Er ástæða til að hafa áhyggjur af skipunum í dómstóla?
Vísir.is birtir í dag kl.12.55 frétt af nýföllnum dómi hjá Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna í Genf. Þar er hnekkt dómi Hæstaréttar á hendur íslenskum sjómanni sem kærður var fyrir að veiða án kvóta.
Það vekur óneitanlega nokkra umhugsun þegar ákvæði Stjórnarskrár Íslands eru einskis metin af Hæstarétti en úrskurðuð gild af alþjóðlegum dómstóli!
Það vekur mér jafnframt umhugsun að blað allra landsmanna Morgunblaðið skuli ekki ennþá sjá ástæðu til að fjalla um þetta mál á vef sínum.
Gæti ástæðan verið sú að nú þyki mál hafa þróast ógæfulega fyrir þann stjórnmálaflokk sem ber mesta ábyrgðina á grófasta ráni Íslandssögunnar?
13.12.2007 | 00:23
Velferðarkerfið og viðbótarkerfið
Hingað hringdi í kvöld kona sem var að safna fyrir samtök til styrktar MND sjúklingum. Sjúkdómur þessi er einn skelfilegasti hrörnunarsjúkdómur sem við þekkjum og hefur mikið verið í umræðunni nú um nokkurra ára skeið.
Íslenska þjóðin hefur reynst örlát og skilningsrík þegar leitað hefur verið til hennar með erindi sem þetta og ekki efa ég að svo muni verða nú.
Þetta vekur mig svo til umhugsunar um velferðarkerfi okkar sem svo mjög er gumað af og þá ekki síst í pólitískri umræðu. Og þá vakna stundum hjá mér efasemdir.
Af hverju þarf þetta moldríka samfélag okkar að standa í svona löguðu? Er ekki gert ráð fyrir því að okkar sameiginlegu sjóðir sinni brýnum þörfum fólks sem er örbjarga vegna sjúkdóma eða slysa? Nú á dögunum fagnaði þjóðin úrræðum til handa mænusködduðu fólki. Frá hverjum komu þessi úrræði?- Jú það voru baráttusamtök aðstandenda þessa fólks sem með fádæma dugnaði hafði tekist að afla frjálsra framlaga.
Ég man eftir landssöfnun sem fór fram í Sjónvarpinu. Þar sat einn af ráðherrum þjóðarinnar við síma og tók á móti innhringdum framlögum. Þjóðin sat með tárin í augunum vegna þessa kærleiksríka ráðherra sem fórnaði dýrmætum tíma sínum í að sitja eins og hver annar óbreyttur borgari við síma og talaði við fólk um bágindi og líknarráð gegnum frjáls samskot!
Mörg eru hinsvegar þau verkefni samfélagsins þar sem aldrei skortir peninga.
Hefur þjóðinni borist ákall um frjáls framlög til að kosta framboð okkar í Öryggisráðið?
Ef svo er þá hefur það farið framhjá mér. Utanríkisráðherra sá ástæðu til að kynna fyrir þjóðinni bjartsýni um að okkur takist að ná þessu metnaðarfulla markmiði sem lauslega áætlað mun kosta milljarð. En auðvitað einn eða tvo í viðbót ef ógæfan eltir okkur og þessi brjálsemi fullnustast.
Þessi utanríkisráðherra er formaður Samfylkingarinnar sem kynnir sig sem flokk félagshyggju og jafnréttis. Þessi ráðherra er kona og heitir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.
Vill ekki einhver reikna það út fyrir mig hversu mörg brýn verkefni í velferðarmálum okkar væri auðvelt að leysa með fjármunum þeim sem pólitíkusarnir ausa í utanríkisþjónustuna til að setja plástur á vanmetakennd sína fyrir hönd okkar ágætu þjóðar.
4.12.2007 | 19:04
Af reiðskapnum kennist hvar heldri menn fara
Fréttir bárust af dýrum og metnaðarfullum bílakosti nokkurra fjárfesta sem komu saman nú fyrir skemmstu.
Þetta minnir mig á samtal við mann nokkurn sem sagði mér frá því nýlega er hann þurfti að skjótast á skrifstofu uppi í einhverjum Höfðanum. Stórt flæmi bílastæða var upptekið af dýrustu gerðum glæsijeppa og öðrum ámóta verðmiklum farkostum af ýmsum gerðum.
Þegar honum hafði tekist að koma bíl sínum fyrir á grasflöt í grenndinni gekk hann inn á áfangastað og varð fyrst fyrir að spyrja um hvaða þjóðhöfðingjar hefðu helgað sér þessi bílastæði?
Honum var tjáð að þarna væru saman komnir á fundi helstu forsvarsmenn lífeyrissjóða okkar!
Mér kemur þetta í hug núna þegar fréttir berast af 5 milljarða fjárfestingu lífeyrissjóðanna í Fl. Group sem nú hefur orðið viðskila tæpa 200 milljarða á fáum dögum ef ég man rétt.
Gæti þetta verið ástæðan fyrir þeirri varkárni lífeyrissjóðanna sem birtist í skerðingu bóta hjá nokkrum hundruðum öryrkja?
Mikilvægast er nú samt að missa ekki sjónar á því hlutverki stjórnendanna að sjá til þess að þeir hafi á hverjum tíma þokkalega bíla til afnota þegar þeir koma saman til að ræða þau leiðinda óhöpp að hafa tapað milljörðum af eigum umbjóðendanna.
Reyndar er þarna um smáaura að ræða þegar þess er gætt að innstreymi í þessa sjóði er nærri milljarður á dag. Manni sýnist að mesta vinnan sé fólgin í því að passa vel upp á að þessir aurar komi ekki eigendunum til góða nema að ítrustu lágmörkum.
29.11.2007 | 17:47
Tillaga um tvö skattþrep
Tillagan um tvö skattþrep er sanngjörn og yrði veruleg kjarabót fyrir mikinn fjölda láglaunafólks. Vandfundin er stjórnvaldsaðgerð sem stutt gæti betur trúverðugleika stjórnvalda í þá veru að þeir hafi yfirleitt áhyggjur af láglaunafólki.
En ríkisstjórn Geirs Haarde veit fullvel hverra fulltrúi hún er. Árni Mathisen fjármálaráðherra segir að sér hugnist ekki tillagan um tvö skattþrep. Hún sé of flókin í framkvæmd og yrði til skaða!
Ráðherrann segir að við ættum að einbeita okkur að því að lækka alla skatta, jafnvel niður í 15% ÞEGAR ÁSTÆÐUR leyfi!
Þeir auðugustu mega auðvitað ekki skerðast í þessum samanburði. Þeir eru að sögn svo viðkvæmir að þeir gætu átt það til að flýja land!
Hvenær ætli komi nú að því að ástæður leyfi? Er það þá ekki lengur satt að við séum ein ríkasta þjóð í heimi?
En um þetta þarf auðvitað ekki fleiri orð; þetta er einfaldlega of flókið.
Einhvern veginn tekst nú Tryggingastofnun ríkisins að klóra sig fram úr því ef viðskiptavinurinn fær sjö rjómatertur gefins í áttræðisafmælið og skerðir hann umtalsvert meira en hinn sem fær eina jólaköku frá barnabörnunum.
Árni gæti látið Tryggingastofnun um útreikninginn á þessum skattþrepum og leyst málið. Svona viðfangsefni þykja nú ekki flókin hjá þeirri ágætu stofnun.
Heyrirðu til mín nafni?
25.11.2007 | 16:14
Áfallahjálp
Nú hyggst borgarstjóri leita til ríkisstjórnarinnar og fá úrskurð um raunverulegar heimildir til að ráðstafa auðlindum í eigu almennings. Auðlindum sem borgarstjórnin var búin að selja að hluta og ráðstafa en draga síðan söluna til baka útaf heimiliserjum.
Nú legg ég til að auglýst verði eftir fullorðnu fólki með þokkalega ábyrgðartilfinningu og dómgreind til framboðs í pólitískar ábyrgðarstöður í næstu kosningum.
23.11.2007 | 00:21
Hinn frjálsi markaður
Það er ekki einleikið hvað mér gengur erfiðlega að skilja lofsöng frjálshyggjumanna um "hinn frjálsa markað." Margar lærðar greinar þessara sérfræðinga um hið fullkomna samfélagslíkan þar sem markaðurinn er allsráðandi hef ég lesið og skilið það eitt að þroski minn er neðan við skilningsmörk þessa einfalda sannleika.
Fyrir skemmstu seldi ríkið eignir sínar á Miðnesheiði til fjárfestingafélags og verðið var fáránlega langt neðan við fáránlegustu lágmörk. Þessu mótmælti einn þingmaður úr flokki Vinstri grænna sem eins og allir vita er flokkur kommúnista sem- eins og allir líka vita hefur ekki vit á viðskiptum.
Til að ræða þetta fékk Arnþrúður Karlsdóttir útvrpsstjóri Sögu, formann fjárlaganefndar Alþingis, samfylkingarmanninn Gunnar Svavarsson. Arnþrúður vildi fá svar við því hversvegna þessar íbúðir hefðu ekki verið seldar eftir tilboðum? Hversvegna þær hefðu ekki verið seldar á frjálsum markaði?
Samfylkingarmaðurinn svaraði þessu með hálfgerðum hundshaus og sagðist ekki hafa fengið í hendur öll gögn um málið. En hann lagði dálitla vinnu í að skýra það fyrir útvarpsstjóra Sögu og þá líka okkur hlustendum að það hefði verið ábyrgðarhluti að setja þessar íbúðir á frjálsan markað.
Það hefði borið í sér þá hættu að söluverðið hefði orðið lægra en íbúðarverð dagsins í dag og hefði komið óróa á fasteignamarkaðinn. Markaðsverð íbúða hefði mjög líklega lækkað.
Jafnframt hefðu spákaupmenn í byggingaiðnaðinum getða orðið fyrir hnjaski þegar eftirspurn hefði minnkað.
Þessi maður Gunnar Svavarsson er EKKI sjálfstæðismaður, hann er samfylkingarmaður.
Á tímabili hélt ég að ég væri að hlýða á boðskap Hannesar Hólmsteins.
Hinn frjálsi markaður mun gera okkur frjálsa með því að þar gildir lögmálið um framboð og eftirspurn. Þetta tel ég mig hafa eftir ármönnum frjálshyggjunnar og með tilvitnunum í alla helstu postula hennar, við hverra fótskör Hannes Hólmsteinn að eigin sögn sat á sínum námsárum og teygaði af þeirra tæru vísdómslindum.
En nú vitum við það að frelsi markaðarins er auðvitað háð því að það tryggi spákaupmennskunni hagnaðinn. Markaðskerfið er ónýtt ef hinn sauðsvarti almúgi getur hagnast. Þá verða stjórnvöld að taka í taumana.
Og um það eru Sjálfstæðisflokkur og Samfylking hjartanlega sammála.
Ætli margir ali lengur í brjósti von um að upp úr þessu stjórnarsamstarfi slitni?
Ætli nokkurn undri núna hversvegna Samfylkingunni hugnaðist ekki vinstri stjórn?
Hafi ég farið hérna rangt með eitthvað þá er það ekki í fyrsta skiptið sem mér verður það á.