Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Gleðilegt sumar!

Sendi öllum bloggvinum mínum sumarkveðjur og þakka fyrir skemmtileg samskipti á liðnum vetri.

Þjóðmálaspjall undan Spákonufellsborg

Bendi lesendum á bloggfærslu Rúnars Kristjánssonar á Skagaströnd frá því í dag um útrásarævintýri íslensku bankanna. Pistillinn heitir: Alþjóðlega fjármálaríkið-Ísland- halló,halló !

 


Takmarkað veiðileyfi á íslensku þjóðina

Ríkisbankarnir voru seldir fyrir spottprísa og sölunni fylgdi ótakmarkað veiðileyfi á þjóðina. Mér finnst þetta komið út í bölvaða vitleysu og ekki annað sýnna en að afrakstur af þessari auðlind muni fara þverrandi, svona líkt og endirinn varð með þorskstofninn í sjónum.

Nú legg ég til að árinu verði skipt niður í veiðitímabil rétt eins og við þekkjum með rjúpuna og hreindýrin. Þetta gætu verið fjögur veiðitímabil, svona 10 vikur hvert og bankarnir yrðu látnir borga hæfilegt nýtingargjald fyrir afnotin af okkur. 

Mér sýnist að ekki muni veita af því að gefa stofninum (íslensku þjóðinni) nokkurra vikna hvíld svona af og til á meðan hann er að jafna sig og búa sig undir næsta veiðitímabil.

Þá væri farið eftir hinni óskráðu siðfræði merkurinnar.


mbl.is Heimamenn þekkja líklega gjaldmiðilinn betur en hinir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kom eitthvað fyrir?

Það lentu margir frambjóðendur gömlu stjórnarandstöðunnar á mesta basli fyrir síðustu alþingiskosningar. Það var þegar þeir ráku sig á þann himinháa múr lofgerðar ríkisstjórnarinnar þar sem sungið var um öll þau kraftaverk sem unnin höfðu verið á stjórnartíð flokkanna sem sameinast höfðu við að leiða þessa litlu þjóð frá örbirgð til allsnægta í tólf ár.

Ísland var besta land í heimi í flestu tilliti lífskjara og framtíðin var björt.

Í dag er forsætisráherra ásamt helst forkólfum bankanna í kaupstaðarferð vestan hafs. Og erindið er að reyna að telja hughvarf þeim greiningardeildum alþjóðaviðskipta sem hafa leyft sér að halda því fram að efnahagslegur trúverðugleiki íslensku þjóðarinnar sé að engu orðinn vegna galgopalegrar stjórnunar.

Í nokkrar vikur hafa verið haldin málþing um fjármál á ljósvakamiðlum og hvar sem fleiri en tveir menn koma saman er tekist á um efnhagsástand.

Það er spáð fyrir um fjöldagjaldþrot vinnandi fólks sem trúði á íslenska ævintýrið.

Þó er bjartsýni hjá húsráðendum utanríkisþjónustunnar og þar munar ekki um milljarðabruðl til að koma okkar manni í Öryggisráðið.

En náttúrlega verðum við að draga saman útgjöld til sjúkrastofnana og lögreglunnar.

Verst finnst mér að nú höfum við ekki lengur efni á að gefa fíkniefnaleitarhundi að éta!

Það er engu líkara en að eitthvað hafi komið fyrir okkur.   


Enn er verið að skapa

Hvar komu þeir henni fyrir við Skagafjarðarbrautina þessari Víðidalsá?
mbl.is Þrjú umferðaróhöpp í Skagafirði í morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af presti, organista og ráðherra.

Árás Össurs Skarphéðinssonar á Gísla Martein Baldursson í bloggi hins fyrrnefnda hefur vakið hörð viðbrögð og margir eru agndofa. Enda eru flestir sammála um að svona subbuleg orðræða sæmi ekki ráðherrum þjóðarinnar. Það er nú einu sinni svo að opinberar persónur í æðstu embættum verða að gæta sín umfram aðra í því að misbjóða ekki fólki. Má það kallast skiljanlegt.

Og í þessari umræðu rifjast upp fyrir mér gömul saga.

Bjarni Jónsson dómkirkjuprestur og Páll Ísólfsson dómorganisti voru í hópi þekktustu manna þjóðarinnar um langt skeið, enda litríkar persónur og sannir listamenn hvor á sínu sviði. Báðir voru húmoristar og orðheppnir svo sögur fóru af. Í áratuga samstarfi þeirra mun margt hafa verið skrafað sem ekki heyrði til guðrækilegrar umræðu. 

Af því er saga að á þessum tíma var prestur nokkur kærður fyrir að hafa legið á glugga hjá ungri konu. Þessi atburður vakti þjóðarathygli og var rætt um í dagblöðum. Helst minnir mig að rannsókn og vitnaleiðslur hafi leitt til sýknu klerksins.

En Páll gat auðvitað ekki á sér setið og bar þetta í tal við séra Bjarna af alvöruþunga og siðlegri vandlætingu sem endaði á spurningunni:

"Finnst þér að svona athæfi geta gengið hjá presti?" 

"Það held ég nú ekki", svaraði séra Bjarni eftir nokkra umhugsun.

"Mér finnst það svona í hæsta lagi geta gengið hjá organista!"    


Ég er afi minn!

Málefni Orkuveitunnar og REI hafa verið fyrirferðarmikil í þjóðmálaumræðunni allt frá dögum Hallgríms Péturssonar ef mig misminnir ekki. Sumt hefur verið óljóst um efni þeirrar umræðu og reyndar flest ef mig misminnir ekki enn frekar. Sumir hafa gengið brott frá sameiningu þessara fyrirtækja og öðrum verið ýtt burtu.

Hverjir svo komu að því máli er ennþá dálítið á huldu og þó ekki síður það hverjir komu ekki að málinu. Ekki er á hreinu hversu margir meirihlutar verða búnir að ríkja í borgarstjórninni áður en málinu lýkur né heldur hversu margir borgarstjórar verða þá búnir að sitja fyrir hjá myndhöggvara Ráðhússins við Tjörnina. Skelegg ung kona úr borgarstjórninni gekk fram í því að láta semja skýrslu um allt ferli þessa voðalega máls. Skýrslan leit dagsins ljós og versnaði þá allur skilningur fólks til muna en ekki var þó þar á bætandi.

Stofnuð hafa verið mörg teymi áfallahjálpar vegna þessa máls og ýmsir hafa grátið í beinni. Upp kom sú grábölvaða staða að borgarstjóri sem hefur að vísu varamann hefur engan varamann og skilji nú allir sem geta. Varamaður borgarstjóra er að vísu í ábyrgðarmiklum launastörfum hjá umræddri borg en vill ekkert við sinn borgarstjóra kannast og segja menn þetta verra mál en olíuhnuplið í Grímsey. Allir eru löngu búnir að gleyma stráknum hans Davíðs og Árna Matt sem bjargaði lögformlegum framkvæmdum hýðinga á Norðurlandi eystra.

Nú heyrast þau tíðindi að setja þurfi REI nýjan stjórnarformann og tilgreindir menn sem fúsir séu til starfans. Þá er sagður uppi sá kvittur að Ólafur borgarstjóri krefjist embættisins fyrir hönd F listans.

F listinn í Reykjavíkurborg er merkilegt fyrirbæri eins og menn vita. Hann var borinn fram af Frjálslynda flokknum og óháðum. Óháðir eru séríslenskt pólitískt fyrirbæri og samkvæmt orðsifjabók sem er í smíðum merkir orðið "óháður" persónu sem hefur gefið yfirlýsinguna: "Mér er svosem fjandans sama þó þið setjið mig á þennan lista en í þennan andskotans flokk ykkar geng ég aldrei!" (tivitnun lýkur)

F listann í borginni við Sundin skipa í dag fulltrúar Frjálslynda flokksins og fulltrúar þeirra sem voru óháðir flokknum á þeim tíma. Síðan hafa bæzt við fulltrúar Íslandshreyfingarinnar og þeirra sem lýstu sig óháða þeim flokki. Þá eru á listanum þeir sem gengið hafa úr Frjálslynda flokknum og Íslandshreyfingunni ásamt þeim sem hafa gefist upp á að vera óháðir og gengið til lðs við aðra flokka.

Nú langar mig til að fá að vita hver heldur utan um hið mikilvæga "innra starf" F listans og úr hvaða líkamshluta þessa borgarmálaflokks nýr stjórnarformaður REI verður tilnefndur?

(Og eins og margir aðrir bíð ég núna spenntur eftir að sjá hvaða pólitíkus í borginni grætur næst í beinni.)


Samráð olíufélaganna og neytendur

Nú loks hillir undir að dómstólar úrskurði um skaðabætur olífélaganna til fáeinna viðskiptavina. Þar er hinn almenni neytandi þeim heillum horfinn að koma ekki kröfum sínum að því fáir eiga viðskiptanótur. Og við það situr.

Nú kemur mér það í hug hvort Neytendasamtökin hafi stöðu til að gera kröfur með skírskotun til þess að vera málsvari hinna fjölmörgu nafnlausu kröfuhafa?

Rökin fyrir þessu væru þá þau að þarna kæmu fjármunir sem sannanlega væru umtalsverðir, til þeirrar stofnunar sem hefði sameiginlega hagsmuni neytenda að verkefni um ókomna tíð.

Þetta yrði nokkurskonar Salomonsdómur sem kæmi fésveltum samtökum til góða og yrði jafnframt kærkomin friðþæging fyrir sakborningana! 


Þráhyggja Spaugstofunnar

Umfjöllun Spaugstofunnar um heilsufar borgarstjórans síðasta laugardag fór misvel í fólk og mjög að vonum. Nú í kvöld tóku þeir til þar sem frá var horfið og þó undir öðrum formerkjum. Maður hefur það á tilfinningunni að þessir ágætu menn hafi verið að gera tilraun í þá veru að storka áhorfendum, knúðir áfram af viðhorfinu: "Við látum engan segja okkur fyrir verkum!"

Hafi ég rétt fyrir mér þá má velta því fyrir sér hvort þjóðin eigi að greiða viðfangsmönnum sínum laun umfram það sem hún neyðist til að borga pólitíkusunum og þeirra uppáhaldsbörnum.

Fyrir miðja síðustu öld var Jónas Jónsson frá Hriflu öflugasti og jafnframt umdeildasti stjórnmálamaður þjóðarinnar. Andstæðingar hans í pólitík reyndu að beita hann því vopni að hann væri geðveikur og fengu það staðfest með áliti læknis. Til er saga af því að á pólitískum fundi hafi Jónas verið truflaður með frammíköllum manns sem ítrekað æpti að honum áburð um geðveiki. Jónas gerði hlé á ræðunni og benti manninum á að geðveiki væri sjúkdómur sem oft mætti lækna. "En,(bætti hann við) heimska er ólæknandi!"

Jónas var baráttumaður fyrir menntun alþýðufólks og svarinn andstæðingur heimskunnar. Eitt sinn hafði hann það á orði á fundi í Borgarfirði að hann hefði aldrei fyrirhitt heimskan Húnvetning.

Um þetta leyti var snilldarhagyrðingurinn Höskuldur Einarsson frá Vatnshorni í Skorradal nýfluttur norður að Mosfelli í Svínadal til sonar síns Einars og konu hans Bryndísar Júlíusdóttur. Höskuldur var háðskældinn og gerði sér oft að leik að beita nágranna sína hrekkjum með þessari list, þó lítil alvara fylgdi að sjálfsögðu. En þessi ummæli Jónasar um Húnvetninga urðu Höskuldi efni til yrkingar:

Ég í Húnaþingi þekki

þrjátíu,-eða hér um bil,

sem Hriflu-Jónas hafði ekki

hugmynd um að væru til.

(Vona að ég hafi farið rétt með þetta.)

Nú eru það tilmæli mín að Spaugstofan snúi sér að heimsku íslenskra stjórnmálamanna því þar er efnið næstum óþrjótandi.

Hugsum okkur bara ráðherrana!  

 

 

 


Utanlandsferð borgarstjóra

Mér finnst það gott hjá nýráðnum borgarstjóra okkar að sitja heima og sinna knýjandi verkefnum í stað þess að viðra sig með starfsbræðrum sínum á erlendri grund.

Í stað Ólafs mun því kapellán hans og vonbiðill embættisins mæta í kokkteilinn með Hönnu Birnu. Nú  verðum við bara að vona að þarna verði ekki ýtt að Vilhjálmi einhverjum fjandans blöðum til að skrifa undir fyrir hönd Reykjavíkurborgar.

Hann á það til að vera svo voðalega ógætinn í þeim sökum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband