Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
4.7.2007 | 17:03
Sjálfstæðisfylkingin Vinir USA
Það á svosem að halda áfram hringavitleysunni. Samfylkingin er búin að gleyma ýmsu af því sem talsmenn hennar "tóku skýra afstöðu til" í aðdraganda kosninganna. Samlífið með íhaldinu var auðvitað það sem þá hungraði eftir og fengu. Þegar hungrið er orðið mikið er nauðsynlegt að fá mikið til að éta. Og það má lengi lifa á því að éta ofan í sig stór orð. Auðvitað hefur skilyrðislaus hlýðni við herraþjóðina í Westri verið inni í málefnasamningnum. Nú gæti ríkisstjórnarflokkurinn sem best borið hið metnaðarfulla nafn sem er titill þessa pistill. En með leyfi að spyrja: Hvað á þessi dj. vitleysa eiginlega að tákna? Er ekki einboðið að BNA greiði í það minnsta kostnaðinn af þessu grátbroslega framboði okkar? |
![]() |
Kristín stýrir framboði Íslands til öryggisráðs SÞ |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
29.6.2007 | 19:21
Enn um ánna og brúnna
Er til of mikils mælst að þeir sem skrifa fréttir kunni að fallbeygja algengustu orð? Það má teljast öruggt að í hverjum fréttatíma öskra hinar ýmsu ambögur á hlustendur. Ærin og kýrin heita oftar en ekki áin og kúin og endalaust er talað um ánna, kúnna, tánna, og brúnna svo eitthvað sé nú nefnt af allri þessari dauðans vitleysu. Ekki batnar ástandið þegar fréttamenn fara að nota gömul orð og máltæki án þess að botna nokkuð í merkingunni. "Hann er nú talinn einn helsti vonarpeningur okkar", heyri ég oft þegar um sérlega álitlegan einstakling er rætt. Vonarpeningur er gamalt orð úr bændamenningu okkar og merkir grip sem er kominn af fótum fram, annaðhvort af megurð eða elli.
Það setti að mér hlátur í gærkvöld þegar þulur Sjónvarpsins greindi frá endurkomu Kryddpíanna ensku. Það hafði margt drifið á daga stúlknanna frá því þær tóku sér hvíld frá skemmtanaiðnaðinum. "Sem nú eiga sjö börn sín á milli!" Ég hef mikið velt því fyrir mér hvernig þær fóru að því að eiga þessi börn sín á milli!
![]() |
Maður í sjálfheldu eftir að hafa fallið fram af klettum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.6.2007 | 23:02
Aumingja Tony Blair
Nú er Tony Blair búinn að taka pokann sinn. Samkvæmt fréttum olli brotthvarf hans úr ráðuneytinu öllum breskum þingheimi sárum klökkva. Samkvæmt sömu fréttum fær hann greidd laun í þrjá mánuði í viðbót og síðan ekki neitt fyrr en eftirlaun við 65 ára aldur.
Þessi viðskilnaður þætti nú þunnur þrettándi á Íslandi! Sú spurning vaknar hvort fréttir af eftirlaunum íslenskra ráðherra hafi ekki borist til Englands? Eiga þeir virkilega ekki seðlabanka í því frumstæða landi?
Nýlaga heyrði ég í fréttum að Norðmenn hefðu bara einn seðlabankastjóra og hann væri með 1,1 milljón íslenskar á mánuði!
Skyldi "velferðarkerfi" íslenskra stjórnmálamanna vera einsdæmi?
19.6.2007 | 17:36
Guð hjálpi mér!
Alveg er þetta varnarlið LÍÚ og HAFRÓ óbilandi í sínum gáfulegu ályktunum þegar talið snýst að fiskveiðráðgjöfinni. Og nú er gamli söngurinn byrjaður.
Eftir 23 ára pólitíska og fræðilega verndun nytjastofnanna í hafinu er árangurinn ráðgjöf um veiðar í sögulegu lágmark og aðeins brot af því sem hún var í upphafi. Á þessu tímabili höfum við haft sjávarútvegsráðherra með hinn ólíkasta bakgrunn. Einn endurskoðanda, einn dýralækni og nú síðast lögfræðing.
Hvar eru vísindaniðurstöður Hafró varðandi ýmsa þætti lífríkis sjávar t.d. afdrif sandsílisins? Hvað varð um innfjarðarækjuna? Hvaða skoðun hefur Hafró á risabotnvörpunni sem við erum búin að gera að baráttumáli sjálfstæðis þjóðarinnar? Er virkilega verndarsjónarmið fólgið í botnvörpuveiðum í aflamarkskerfi og þá að sama skapi varasamt að veiða með línu og handfæri í sóknarkerfi? Svari hver fyrir sig með rökum.
En þegar póitíkusar Hafró á Alþingi eru spurðir álits á ráðgjöfinni er svarið ævinlega á þessa lund: "Auðvitað er þetta kerfi ekki gallalaust en við þekkjum bara ekki neitt betra."
Þetta svar er orðið svo fast og hefðbundið að það minnir mig alltaf á mann sem hnerrar og segir svo: "Guð hjálpi mér." Þetta svar er orðið fyrirsjáanlegt.
Þá vaknar spurningin: Getum við ekki bara sagt í staðinn- og talað af slæmri reynslu? Þetta kerfi er sýnilega svo handónýtt að við verðum að reyna eitthvað annað. Það gæti aldrei orðið verra!
Því auðvitað þekkjum við hvorki betra né verra kefi fyrr en við látum reyna á eitthvað annað.
5.6.2007 | 20:18
Dýr ráðgjöf
Ég er í hópi þeirra sem fögnuðu nýja þingmanninum Bjarna Harðarsyni og bundu við hann vonir. Mér brá þó óneitanlega þegar hann tók til máls á Alþingi í dag um viðbrögð við skýrslu Hafró og þær ráðleggingar um niðurskurð aflaheimilda í þorski sem þar voru lagðar fram.
Hinn nýi alþingismaður taldi einboðið að verða við þessu án undanbragða. Þessa ályktun studdi hann föðurlegum ábendingum um ábyrgðarfulla afstöðu minnihlutans á Alþingi! Jafnframt benti hann á að þrátt fyrir allt ættum við ekki kost á betri ráðum en þeim sem í boði væru hjá Hafró.
Mér virðist nú að aldarfjórðungs reynsla sýni að nokkur leit yrði að verri ráðgjöf.
Nema að hæstvirtur þingmaður telji brýnt að tortíma þessum nytjastofni sem allra fyrst.
21.5.2007 | 19:36
Fréttaskýring
Upp úr hádegi bárust fréttir af lokastigi stjórnarmyndurumræðna. Gert var ráð fyrir að þingflokkum yrði stefnt til funda seinnipart dags og málefnasamningur lagður fram til góðfúslegrar samþykktar. Allur seinnipartur mánudags á vonda sögu og langa í íslenskri pólitík eftir því sem mig minnir.
Milli fjögur og fimm stóðu fréttamenn skjálfandi og horfðu vonaraugum í glugga á húsi við Tjörnina þar sem sátu þýðingarmiklar persónur við skraf á kontór. Skyndilega lukust upp dyrnar á húsinu og gengu þar út Ingibjörg Sólrún ásamt Geir Haarde og með gáskafullu yfirbragði þónokkru að vanda. Allt sögðu þau fjölmiðlafólkinu að væri með felldu í vinahjali þeirra hjúa en þó orðið að ráði að slá um stund á frest skrafi um skítleg þrætumál af smáu vægi.
Samstundis var í þjóðarumræðu vorri komið lygastand á þetta grafalvarlega mál, laug þessi einu um skort á óeiningu en annar laug um bresti ósamstöðu. Hvorttveggja er lygi og mætti halda að um hana væri þjóðarsátt.
Af góðum heimildarmönnum og grandvörum tel ég mig hafa í þessu máli allan þann sannleika sem einhverju skiptir.
Ingibjörgu Sólrúnu bárust boð frá aldraðri frænku sinni austur í Flóa um að hún væri á leið til Reykjavíkur í kaupstaðarferð, kannski þá síðustu á ævinni. Bar hún fram þá frómu ósk að Ingibjörg leiddi sig til kvöldverðar þar sem yrði ilmandi lifrarpylsa ásamt rófustöppu í forrétt en spikfeitt sauðaket með uppstúfi í aðalrétt en þykkur ávaxtagrautur á eftir með rjómablandi. Ingibjörgu brá nokkuð við tíðindin og gerði þó bæði sárt og klæja því gamla konan hafði fyrir skömmu ánafnað henni gömlum hornspæni gerðum af Bólu-Hjálmari ásamt spunarokki fornum úr ættinni.
Hún brá Össuri á einmæli og tjáði honum vandræði. Kom henni nokkuð á óvart að ekki varð séð af Össuri annað en honum létti stórum við tíðindin. Kom enda í ljós að honum hafði þá nýlega borist nokkuð véleg frétt. Vandaður maður hafði komið til hans skeyti þar sem með fylgdu nýlegar myndir af Þingvallaurriða 107 cm löngum á bandmál og tæpra 40 punda að þunga með grófri ágiskun. Á myndunum var fiskur þessi í slagtogi með ræfilslegri hrygnu af óþekktum stofni norðlenskum og bæði voru kvikindin þrútin af kynferðislegri óskammfeilni.
Þeim kom nú ásamt um að freista þess að fá leyfi Geirs til að bregðast við þessum óvæntu uppákomum.
Skemmst er frá að segja að Geir brást vel við, enda guðsfeginn að fá ráðrúm til að bregðast sjálfur við einhverjum bölvuðstu tíðindum sem hann hafði fengið síðan efnavopnaleysið í Írak varð í almæli. Davíð hafði sent til hans strák með bréf þar sem hótanir voru innihald og handskrifaðar til áréttingar. Þess var krafist að tafarlaust yrði stofnað ráðuneyti varnarmála handa Birni vini hans Bjarnasyni að sýsla með í pólitískri elli. Viðurlög ef útaf brygði voru að hækka stýrivexti þrim sinnum áður en Árni Johnsen byrjaði hið fyrsta lag á Þjóðhátíð í Herjólfsdal.
Þessum leiðréttingum við kjaftasögur um pólitískan ágreining bið ég allar frómar persónur að láta berast til þjóðarinnar.
19.5.2007 | 00:24
Gamli Snati
Las fyrir nokkrum árum smásögu frá Færeyjum. Man ennþá kjarnann úr henni því ég er minntur á hana með ákveðnu fréttaefni úr okkar þjóðlifi nægilega oft.
Færæskur bóndi átti gamlan fjárhund sem var orðinn lasburða og bóndi ákvað að farga honum. Hann lét hjeppa elta sig út á háa bjargbrún, settist niður og lokkaði hundinn til sín með kjassi, batt síðan snöru með þungum steini við um hálsinn á hundinum og henti honum fram af.
Nú tókst ekki betur til en svo að steinninn losnaði úr snörunni og hundurinn krafsaði sig í land. Bónda brá ægilega, gnísti tönnum af reiði og krossbölvaði sér fyrir klúðrið. En nú var að ljúka verkinu og hann kveið fyrir því að nú yrði vesen með að ná hundfjandanum aftur til að fullnusta aftökuna.
Gæfan varð honum hliðholl. Hundurinn hafði enn þrótt til að skreiðast upp á bjargið. Þar settist hann niður, dillaði skottinu og horfði angistaraugum á húsbóndann. Bónda tókst fljótlega að lokka hundinn til sín með blíðmælum og nú hlakkaði í karli. Hann endurtók fyrri aðferð og nú vandaði hann sig. Hundhelvítið skyldi ekki hrósa sigri öðru sinni. Það gerði hann heldur ekki.
Meðal annara orða. Hvað skyldu margir íbúar Flateyrar geta í dag hugsað sér að hverfa frá stuðningi sínum við Einar Odd og Einar Kr.? Ég hef ekki trausta sannfæringu fyrir því að þeim hafi fjölgað að mun frá því s.l. laugardag.
17.5.2007 | 16:39
Skammist ykkar!
Frú Íngibjörg Sólrún Gísladóttir og maður að nafni Steingrímur J. Sigfússon, þið eigið að skammast ykkar. Skammast ykkar niður í haug. Aldrei hefur neitt fólk á Íslandi haft meiri ástæðu til að skammast sín en þið. Strax að loknum kosningum varð þjóðin vitni að því þegar þið slefuðuð framan í Geir H.Haarde og lituð hvort annað heiftaraugum. Þið sáuð líkvagn ríkisstjórnarinnar álengdar og á hnjánum nöguðuð þið til skiptis þröskuldinn á Hótal Valhöll. Vansvefta af angist og skjálfandi af ótta við að hitt yrði á undan við að leysa niður um sig og bíða lagnaðarins Félagshyggjuflokkarnir sem höfðu hamst við að gagnrýna utanríkispólitík Sjálfstæðisflokksins, innrásina í Írak, og alla lygina í kringum það. Árásina á Baug. Stóriðjustefnan og Fagra Ísland trúboðið. Einkavinagjafir og veislur með hlaðborð ríkiseigna. Skipanir frændgarðs og vina í Hæstarétt og kvótasvindl upp á milljarðatugi með eyddar sjávarbyggðir í baksýn. Milljarðabruðl í utanríkisþjónustu meðan heilsugæslustöðvar eru fjársveltar og öldruðum er vísað til vistunar eftir margrómuðu sautjándu aldar kerfi. Þetta ásamt svo fjölmörgu öðru ótöldu ætlið þið nú að færa til betri vegar með dyggri aðstoð Sjálfstæðisflokks.
Nú þegar þetta er skrifað situr frú Ingibjörg töfrandi og stuttklædd á kankvísu spjalli við hr. Haarde meðan Steingrímur situr hágrátandi í fanginu á Katrínu Jakobs. Og maðurinn er líklega óhuggandi.
Auðvitað voru ekki þeir pólitísku vitsmunir í boði hjá ykkur hvað þá heilindi í boðun félagshyggju sem til þurfti að nálgast Framsóknarflokkinn með þokkalegri virðingu og kurteisi og bjóða honum til þátttöku í breyttu pólitísku umhverfi. Því umhverfi sem kjósendur hans höfðu kallað eftir með úrslitum kosninganna. Það átti að vera öllum ljóst hvaða munur þrátt fyrir allt er á baklandi fráfarandi ríkisstjórnarflokka.
Inngróinn bjánaskapur ykkar var búinn að ganga svo frá dómgreindinni að Frjálslyndi flokkurinn var auðvitað aldrei inni í þessari mynd sem hefði gert nýja ríkisstjórn enn styrkari. Auðvitað þurfti að opna ráðuneyti Sjálfstæðisflokksins og fá fagfólk til að svæla húsakynnin og síðan lofta vel út.
Hvernig skyldi afstaða stjörnumerkja innbyrðis hafa verið daginn eftir kosningar? Daginn þegar forystumenn stærstu stjórnarandstöðuflokkanna gengu úr augnaköllum pólitískra vitsmuna.
Á meðan ég man. Skammist ykkar!
15.5.2007 | 16:57
Að falla á prófi
Um atbeina flokksins stendur styrr,
-Steingrími týnast áttir.
En Framsókn er auðvitað enn sem fyrr
opin í báðar gáttir.
Alveg getur pólitískur aulaháttur sprengt endalaust öll mörk til viðmiðunar í dómgreind. Nú á að bjöða Framsóknarmönnum það kostaboð að sitja hjá og skammast sín í hljóði fyrir að tapa í kosningunum. Þið eruð bara lúserar. Við erum svosem reiðubúnir að styrkja ykkur eitthvað í þingnefndum ef þið styðjið okkur með hlutleysi og látið ekki mikið á ykkur bera í fjögur ár inni á Alþingi. Og munið, þetta er kostaboð sem þið getið ekki hafnað!
14.5.2007 | 22:25
Þegar dómgreindin fellur úr hor
Undarleg þessi dómgreind sem allir tala um en fáir hafa kynnst að ráði. Sá fréttaþátt í Kastljósi áðan og duttu allar dauðar lýs úr höfði. Þetta var svona fréttasprengja lík því sem gerist þegar dópisti lemur mann. Konugarmur, sýnilega hálfgerður auli hafði vanrækt útigangshrossin sín og þetta hafði verið margítrekað fréttaefni í eina tvo daga. Sýndar voru myndir af stóðinu og rætt við eigandann.
Í stuttu máli var um að ræða mögur hross eins og hross voru venjulega í gróðurskiptum á Íslandi nema kannski í undantekningatilvikum. Slæmt að vísu og ekki verjandi nú á tímum þegar ástæðulaust er að fólki leyfist að eiga skepnur nema þeim sé sómasamlega sinnt. Þarna voru fylfullar hryssur sem ákveðið hafði verið af dýralækni að fella. Bráðabirgðalausn hafði náðst með því að nágranni konunnar bauðst til að taka hryssurnar til aðlynningar. Þennan mann þekki ég nokkuð og efast ekki um að honum takist að fylgja hryssunum eftir fram yfir köstun. Grinhoraðar voru þær ekki en áberandi aflagðar á hold. Það sem upp úr stendur er þetta: Dýralæknir úrskurðar að fella skuli hryssur sem komnar eru að köstun. Þessi ákvörðun er svo hræðileg og ómanneskjuleg að mig setti hljóðan við að hlýða á boðskapinn. Þarna liggja að minni hyggju þau rök ein að baki að bregðast við æsifréttum með aulahætti. Það þarf gildari átæður en myndir þessar sýndu til þess að framkvæma siðlaust athæfi hvort sem um ræðir menn eða dýr. Það þarf að stöðva akademiska embættismenn í að fella úrskurði í viðkvæmum málum eftir að dómgreind þeirra er fallin úr hor.