Þjófaumræðan í fjölmiðlum

 Næstum daglega berast okkur fréttir af fólki sem staðið hefur verið að þjófnaði. Þetta hefur færst nokkuð í aukana undangengin missiri og um ástæðurnar komið fram ýmsar ágiskanir. Stundum er líka greint frá hvort "þýfið" eða hluti þess hafi náðst.

Fyrir rúmum tveim árum hrundi íslenska hagkerfið til grunna og er sá atburður flokkaður undir heimssögulega stærð. Nú nýlega hefur sá grunur verið nær því staðfestur að ástæðan fyrir þessu hruni hafi að meginhluta verið sú að bankarnir okkar voru rændir innanfrá!

Það munaði þá ekki um það,- barasta rændir innan frá! Og hverjir voru það svo sem komust þarna inn og rændu? Það hefur ekki verið upplýst til hlítar en grunur leikur á að það hafi verið fólkið í æðstu stöðunum. Það hefðu einhvern tímann verið talin tíðindi.

Sá er munurinn á umræðunni um ránin í bönkunum og þjófnuðum úr sjoppum og sumarbústöðum að þegar rætt er um það síðarnefnda er ævinlega talað um þjófa og þýfi. Þegar hins vegar er rætt um fyrrnefndu athafnamennina þá eru nafngreindir einhverjir tignarmenn og grunur um vafasama gerninga, undanskot fjármuna til aflandseyja, kennitöluflakk, afskrifaðar skuldir og hvaðeina sem íslensk tunga hefur þróað til að breyta alþýðumáli í viðskiptalegt tungutak.

Samfélagið er orðið sljótt og meðvitundarlaust í þessu ástandi og næstum enginn trúir því lengur að þessi mál lendi nokkurn tímann fyrir dómstólum.

Þetta er íslenskt fyrirbæri sem á rætur aftur í aldir þegar embættismenn flugust á dauðadrukknir á Alþingi og urðu jafnvel mannsbani. Og komust upp með það af því enginn var þeim æðri.

En í dag er reyndar svo komið á Íslandi að þegar fólk ræðir um þetta eða hitt stórfyrirtækið eða glæsihýsið og nefndur er eigandi þá spyr fólk svona upp í vindinn:

Hvernig gat hann stolið þessu?

Og spurningin á fullan rétt á sér.

Enginn leyfir sér þó að segja: Þarna sé ég hann Jón Jónsson framkvæmdastjóra og þjóf!

Ekki af því að fólki finnist hann minni þjófur en hún Jóna Jóns sem stal kexinu í Nettó.

Nei, ástæðan er sú að maðurinn er nú einu sinni framkvæmdastjóri fyrir miklum umsvifum og hefur mikið umleikis.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Björn Birgisson

Árni, góð færsla hjá þér og ekki flókið að rétta upp hönd til að styðja hana og samþykkja. Takk fyrir.

Björn Birgisson, 14.11.2010 kl. 19:06

2 Smámynd: Hörður B Hjartarson

   Að vísu tel ég þetta ekki eiga við mig , því t.d. þá tók ég í hendina á Geiri Jóni Þóriss. og sagði "Komdu sæll herra yfirskítmenni" , en hann veit að ég kalla lögreglumenn því nafni vegna þess að þeir verja skítinn í Þjóðarleikhúsinu , að vísu setti Ellen Kristjáns. on´í við mig , en slíkt hefur lítil áhrif á minn skráp .

   En þessi fullyrðing á afar vel við fjölmargan , já allt of margann landann , góð færsla .

Hörður B Hjartarson, 14.11.2010 kl. 20:41

3 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Þakka þér fyrir þessa frábæru setningu:

"Hvaðeina sem íslensk tunga hefur þróað til að breyta alþýðumáli í viðskiptalegt tungutak"

Jú bankarnir voru rændi með fulltyngi ættingja, maka og barna ýmissa stjórnmálamanna.

Síðan má einnig beina athyglinni að því hvernig hreinsað hefur verið út úr útgerðinni með veðsetningum, braski, arðgreiðslum og afskriftum.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 14.11.2010 kl. 21:19

4 Smámynd: Óskar Arnórsson

Þræl góður pistill. Ég var bara að velta því fyrir mér hvort ekki væri einfaldast að loka bara inni 100%. Þeir eru orðnir svo fáir eftir að best er að snúa málinu við.

Svik og prettir verða dyggð og verður fólki kennt þetta í skóla. Ef allir keppast við að plata alla jafnast vandamálið út og spilling hættir að vera skemmtileg...

Óskar Arnórsson, 15.11.2010 kl. 01:43

5 Smámynd: Óskar Arnórsson

...100% heiðarlega...(átti að vera þarna)

Óskar Arnórsson, 15.11.2010 kl. 01:44

6 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Takk fyrir þessa færslu Árni, þetta er hverju orði sannara. Jóna Jóns sem stal kexinu í Nettó, gerði það líklegast af neyð, en bankaræningjarnir sátu í alsnægtum og stálu af græðgi einni saman.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 15.11.2010 kl. 08:22

7 identicon

Heill og sæll; Skagfirðingur - og aðrir gestir þínir, hér á síðu !

Er ekki orðið tímabært; að refsi venjur siðaðra þjóða, eins og Kínverja og Persa (Írana), verði upp teknar, gagnvart hvítflibba glæpa mönnunum,  hér á Fróni, gott fólk ?

Og þá; að undangengnum dómum Alþýðudómstóla - vel, að merkja ?

Með byltingar kveðjum; úr Árnesþingi /

Óskar Helgi 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 15.11.2010 kl. 20:28

8 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þakka góð orð við innlit ykkar.

Sú var tíð að alþýða fólks hér á landi bar nokkra virðingu fyrir embættismönnum og öðru lærðu fólki. Foreldrar lögðu hart að sér til að geta kostað börn sín til mennta eins og málvenja er að segja um skólanám. Ég er svo lánsamur að hafa kynnst menntuðu fólki og ennþá þekki ég fólk sem býr að góðri menntun. Kynni mín af þessu fólki hafa fært mér heim sanninn um það að ekki er mjög sterk tenging með langskólanámi eða embættistign og góðri menntun.

Siðfræði sýnist mér hafa orðið útundan í æðri skólum okkar og ekki sé ég nein merki um að á því muni verða ráðin bót.

Hér er embættismannakerfið samofið pólitík og fjármálavafstri og ólyktina af allri spillingunni leggur yfir landið. Þessi ófögnuður er þjóðinni hættulegri en eldmistrið frá Eyjafjallajökli var þotuhreyflunum.

Árni Gunnarsson, 15.11.2010 kl. 22:12

9 Smámynd: Árni Gunnarsson

Og nú er ræfildómur og þjófska þessara hvítflibbakvikinda okkar orðinn ábatavænlegur atvinnuvegur til rannsókna fyrir erlenda sérfræðinga.

Ekki leiðinleg landkynning!

Árni Gunnarsson, 15.11.2010 kl. 22:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband