Lögmál Móður jarðar

Lítil klausa í Helgarblaði Fréttablaðsins vakti athygli mína nokkuð umfram aðrar fréttir þessa dagana. Þar segir frá því að yfirvöld í Bólivíu hafi lagt fram lagafrumvarp sem mun veita náttúrunni  sömu réttindi og manneskju!

"Eitt umdeildasta atriðið er talið réttur náttúrunnar til að verða ekki fyrir áhrifum af stórum mannvirkjum og þróunarframkvæmdum sem gætu raskað jafnvægi lífríkis eða velferð íbúa."

Hvað ætli hún Valgerður á Lómatjörn hefði sagt ef svona tillaga hefði verið lögð fram á Alþingi þegar hún var að semja við forsvarsmenn Alcoa um álver á Reyðarfirði og undirbúa Kárahnjúkalónið?

Nú er vatnið í Lagarfljótinu farið að gruggast verulega og fiskgengd að stöðvast.

Margir bændur í nágrenninu eru greinilega orðnir uggandi um að lífríki fljótsins hafi verið stefnt í hættu og skaðinn óbætanlegur.

En hvað varðar framsækna nýlendu Rio Tinto um fisk og lífríki í ám þegar verið er að fóðra hagvaxtarræfilinn?

Mikið skelfing var það nú annars ljótt að taka myndir af saklausum börnum við að syngja fagnaðarsöngva til heiðurs þessum djöf... náttúruböðlum við vígsluhátíðina.

Bót í máli að eiga á myndbandi staðfestingu á því hverjir báru ábyrgð á þessu verki og heimskulegan ánægjusvipinn á andlitunum varðveittan til varnaðar komandi kynslóðum.

Frumbyggjar Andesfjalla líta á náttúruna og jörðina sem miðpunkt alls lífs.

Íslenskir pólitíkusar hafa fram til þessa litið á náttúru þessa lands sem ónýtta auðlind og keppst við að koma henni í verð fyrir erlendan gjaldeyri sem fyrst.

Ekki hafa þeir heldur verið smámunasamir við val á kaupendum. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Benedikta E

En smánina hefur ekki vantað við verðlagningu auðlindanna " heiðurinn" með myndatöku má ætla að sé málið - þetta er góður pistill hjá þér Árni - og þetta með börnin er misnotkun og smán.

Benedikta E, 12.9.2011 kl. 12:19

2 Smámynd: Guðrún Þóra Hjaltadóttir

Mikið rétt hjá þér Árni. Við þyrftum að gefa út myndabók með þessum höfðingjum.

Guðrún Þóra Hjaltadóttir, 12.9.2011 kl. 12:38

3 Smámynd: Kristinn Pétursson

Fljótið er gruggugra - það er ekki spurning það vissu það flestir fyrirfram.

Silungsveiði þarna var alltaf lítil ...

en hvað minnkaði veiðin mikið - um 50 silunga á ári - eða 150?? Ég veit það ekki.

Ég lít á Kárahnjúka - sem afleiðingu af óþarfa niðurskurði fiskveiða. Hefðu þorskveiðar ekki verið skornar svona mikið niður ( án tilefnis) - hefði ekki þurft að byggja upp nýja atvinnustarfsemi.

Alcoa á Reyðafirði - seldi ál í fyrra - fyrir 94 milljarða - en allar þorskveiðar okkar skiluðu ekki nema um 72 milljörðum...

Okkur vantar að auka veiðar um 200 þúsund tonn - til að fá sömu gjaldeyristekjur og Alcoa seldi fyrir árið 2010 skv opinberum tölum

Svo er alltaf spennandi mál að fjalla um "rétt náttúrunnar" - erum við ekki hluti af þessari náttúru?

Kristinn Pétursson, 12.9.2011 kl. 13:01

4 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þakka ykkur öllum innlit og góðar ályktanir.

Kristinn. Þú veist meira um Lagarfljót en ég. Ég hef þó nokkuð ríka sannfæringu fyrir því að lífríki þess hafi laskast og að mikil röskun hafi orðið á öllu lífríki þessa landsvæðis og þar muni á komandi árum aukast þau vandamál sem þessari framkvæmd tengjast.

En vegna þess að í pólitískum skoðunum eigum við samleið í fleiri málum en hinum sem sundra okkur mun ég ekki takast á við þig um þetta efni. Ég veit að við erum þarna ósammála og þú ert eini maðurinn sem ég leyfi að hafa aðra skoðun en ég á málinu.

En svo sannarlega er ég þér sammála með að við hefðum átt að byrja á því að nýta betur fiskveiðistofna okkar.

Og þarf ekki að aflétta leyndarhyggju Hafró t.d. hvað varðar grásleppu og hrognkelsaseiði sem meðafla?

Sögur hafa gengið af því að loðnu- og síldarnætur ásamt flottrolli hafi verið loðnar af hrognkelsaseiðum.

LÍÚ á víst ekki hagsmuna að gæta þarna.

Bestu kveðjur!

Árni Gunnarsson, 12.9.2011 kl. 14:07

5 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Silungurinn í lagarfljóti hefur aldrei þrifist vel, hann er og var bæði ljótur og bragðvondur og hefur ekki verið nýttur að neinu marki. Einhverjir bændur á bökkum fljótsins hugsa sér þó eflaust gott til glóðarinnar, því nú er lag að heimta bætur fyrir "missinn", sem enginn var.

Það vissu allir sem vita vildu að litur Lagarinns myndi breytast úr kuldalegum, lífvana steingráum lit, yfir í brúnleitt. Hver er skaðinn?

Gunnar Th. Gunnarsson, 12.9.2011 kl. 14:59

6 Smámynd: Jón Kristjánsson

Sæll Árni

Ég tók þátt í átaki til að nýta silunginn í Leginum á árunum 1983-86. Það gekk frekar illa að fá menn til að veiða, enda nær ógerningur að búa til fiskimenn úr bændum. Mjög léleg fæðuskilyrði fyrir fisk voru í Leginum en við tilkomu Jöklu hafa þau verið þurrkuð út. Ég var þarna við fiskirannsóknir um nokkurt skeið.

Mestur hefur skaðinn orðið fyrir neðan Lagarfoss, en þar var talsverð laxaframleiðsla og nokkuð góð veiði meðan menn máttu veiða, en það var bannað eftir að "ræktun" fljótsins hófst með algjörlega misheppnuðu átaki SVFR. Þeir létu banna allar veiðar í 20 ár og það merkilega var að fiskur nær hvarf úr Selfljóti þegar netaveiðin hætti.

Nú á laxinn enga möguleika á þessu svæði þar sem fæðuframleiðsla (plöntugróður) hættir þegar vatnið gruggast svona mikið. Það er svipað og að breiða svart plast yfir kartöflugarð.

Þá má geta þess að hlunnindi í Húsey hafa þurrkaðst út.

Allt þetta var vitað áður en virkjað var svo ég skil ekki að menn séu eitthvað hissa. 

Jón Kristjánsson, 12.9.2011 kl. 16:20

7 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ekki varð ég hissa Jón enda átti ég aldrei von á öðru.

Það var búið að vara við þessu slysi við Húsey en þegar "djöfull hagvaxtarins" hefur tekið ráðin af skynseminni þá eru úrslitin ráðin.

Ég talaði hér um skynsemina eins og sá sem býr að alviskunni.

Ég treysti mér nefnilega til að fullyrða það að innan örfárra - örfárra ára mun þetta manngerða og yfirvegaða ofbeldi gegn náttúru Íslands verða efni í margar alþjóðlegar ályktanir og að líkindum margar alþjóðlegar ráðstefnur.

Sú frægð að heimsku og endemum sem þá fellur á íslenska þjóð mun ekki verða henni til vegsauka. 

Árni Gunnarsson, 12.9.2011 kl. 19:20

8 identicon

Heill og sæll Árni; sem aðrir gesta, þinna !

Árni !

Alveg má taka fram; að frumbyggjarnir, við rætur Andesfjalla - sem fjalla búar þar syðra, eru á margfalt hærra menningarstigi, en Íslendingar þeir, sem maður skammast sín, meir og meir, að vera talinn til.

Einhver auðvirðilegasti kynstofn / eða þjóðarbrot, á Norðurhveli, Íslend ingar, í víðasta skilningi.

Sjáum stjórnmálin - sjáum dekrið; við græðgis öflin, gott fólk !

Með beztu kveðjum; öngvu að síður /

Óskar Helgi Helgason 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 12.9.2011 kl. 19:52

9 Smámynd: Árni Gunnarsson

"....Lögin eru í ellefu þáttum og varða þeir allir réttindi náttúrunnar til að vera til. Meðal þeirra eru réttindi hennar til lífs, réttindi hennar til tilveru án afskipta manna, aðgang að hreinu vatni og hreinu lofti, rétt til að vera ekki menguð og verða ekki genabreytt af mannfólkinu."

Óskar Helgi: Svo sannarlega eru þessir frumbyggjar við rætur Andesfjalla á mun hærra menningarstigi en við.

Það ætti ekki að vera torskilið að náttúran er skjól alls lífs á jörðinni; umgerð mannlífs og uppspretta næringar fyrir allar lífverur.

Okkar vestræna menningarstig kveður skýrt á um að öll verðmæti jarðar skuli hirt og komið í peninga jafn hratt og tími vinnst til.

Þess vegna styttist nú í að við drekkjum okkur ásamt afkomendum í okkar sameiginlegu hlandfor sem dýpkar hraðar með hverjum degi.

Árni Gunnarsson, 12.9.2011 kl. 20:06

10 identicon

Þorskveiði skilaði inn ca 72 milljörðum í þjóðarbúið. Að halda þvi fram að Alcoa hafi skilað inn 94 milljarða gjaldeyristekjum til landsins er í besta falli vitleysa, versta falli hrein heimska. Alþjóðleg fyrirtæki eins og Alcoa tekur út úr landinu allt nema kostnað við rafmagn, laun og skatta. Það eru svo sannarlega ekki 94 milljarðar.

Heyr minn himnasmiður (IP-tala skráð) 12.9.2011 kl. 20:07

11 Smámynd: Sigmar Þór Sveinbjörnsson

Heill og sæll Árni, þetta er góður pistill og vekur mann til umhugsunar. það er líka  fróðlegt að lesa athugasemdir sem þegar eru komnar vegna þessa pistil. Takk fyrir

Kær kveðja

Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 12.9.2011 kl. 20:37

12 Smámynd: Árni Gunnarsson

Heyr minn...... svona reiknaði Sölvi Helgason þegar hann reiknaði tvíburana í stúlkuna forðum. Reyndar fer ekki frekari sögum af tvíburunum. Kannski verður ekki borgað eins mikið með þessum milljörðum sem ætla mætti?

Árni Gunnarsson, 12.9.2011 kl. 22:22

13 Smámynd: Árni Gunnarsson

Já Sigmar, það er full ástæða til þess að bera lotningu fyrir náttúrunni. Mörgum hættir til að gleyma því hvarsu háð við erum umhverfi okkar og hversu vanmegnug við verðum þegar þar verður einhver umtalsverð röskun.

Athugasemdirnar eru eins og við má búast. Mörgum verður erfitt að viðurkenna það að aflið er aðfengin auðlind sem meðhöndla þarf af mikilli varkárni.

Árni Gunnarsson, 12.9.2011 kl. 22:28

14 Smámynd: Auðun Gíslason

Sæll, Árni!  Þú ert alltaf jafn góður!  Kjarnyrtur...

Auðun Gíslason, 13.9.2011 kl. 16:39

15 Smámynd: Árni Gunnarsson

Hversu góður ég er látum við liggja á milli hluta Auðun.

Hitt er svo annað mál að aldrei mun ég skorast undan því að skipa mér í flokk með þeim sem sýna í verki virðingu fyrir Móður jörð.

Hvort ég verð þar alltaf að gagni, því verður auðna að ráða en ég mun leggja mig fram og reyna að gera mitt besta.

Það er nefnilega alþjóðleg pólitísk stefna að þegar velja skal á milli fjármagnsins annars vegar og verndunar náttúrunnar hins vegar þá skuli auðmagnið og skammtíma hagvöxtur ævinlega njóta vafans.

"Skamma stund verður hönd höggi fegin" segir gamalt máltæki og þarna er það í fullu gildi. 

Árni Gunnarsson, 13.9.2011 kl. 17:22

16 Smámynd: Óskar Arnórsson

... höfin eru orðin geislavirk, fiskur á stórum svæðum er óætur, olía rennur um allt, kemískum efnaúrgangi er enn hent í sjóinn, gæmlum skipum er siglt til fátækra landa, aluminiumflögum er blandað í þotueldsneyti og dreift í himininn, sem er síðan að falla til jarðar akkúrat núna og drepur alla náttúru, gerfitunglarusl er allt í kringum alla plánetuna sem kallast jörð, enn með þessu áframhaldi verður bara fljúgandi ruslahaugur. Menn eru varla komnir út úr apastiginu þegar rusl og mengun er að því komið að kæfa það....

Enn það er samt von. Geimurinn er stór, cirka endalaus eftir því sem nýjustu reikningar herma. Og við eru alein í honum, alla viga einu lífverurnar með einhverju viti....allt universum snýst um eina jörð, sem er jafn stór miðað við algeimin eins og sandkorn er í Sahara sem eru með smá bakteríur á sér sem eru sannfærð að ekki finnist bakteríur jafn gáfaðar á neinu öðru sandkorni í allri eyðimörkinni...

Það verða aldrei neinir alþjóðlegir fundir haldnir um náttúru Íslands. Hvernig dettur einhverjum í hug að Ísland sé svona sérstakt að það verði rætt eitthvað sérstaklega? Alla vega trampar mannskepnan á skítugum skónum um Ísland og fullt af öðrum löndum og það er oft vegna fólks sem á peninga enn á ekki að eiga þá.

Það þarf að setja lög um að fólk þurfi að vera í lagi til að fá leyfi til eiga peninga. Svona rétt eins og leyfi þarf til að keyra bíl eða eiga veiðiriffil. Peningar eru vopn sem ætti að skrá eins og allt sem hefur mikil áhrif á fólk. Það þyrfti að vera einhverskonar "ökuskírteini" til að eiga peninga sem ekki eru notaðir fyrir daglegum nauðsynjum. Menn með milljara ganga um skóganna eins og vitstola menn i leit að peningum sem þeir eiga nóg af ....

Óskar Arnórsson, 13.9.2011 kl. 20:51

17 Smámynd: Árni Gunnarsson

Vel líst mér á tillögu þína um að lögfesta að menn þurfi að vera í lagi til að eiga peninga sem máli skipta Óskar.

Það er nefnilega svo áberandi núna í seinni tíð að þeir sem eiga peninga að ráði eru fjarri því að vera í lagi.

Reyndar er það ekki í lagi þegar peningar safnast á hendur þeirra sem ekki hafa unnið fyrir þeim.

Í dag sýnist mér þeir eiga mesta peninga sem hafa hirt þá af öðrum með aðferðum sem kannski eru ekki refsiverðar eftir ítrustu túlkun laga.

En ég vil halda því fram að ennþá sé Ísland sérstakt og okkur beri að vernda þá ásýnd.

Þessi skoðun mín er staðfest nær daglega í ummælum fólks frá fjarlægum löndum og þéttbýlum.

Á Íslandi gætu mörg hundruð laglausra manna setið úti í náttúrunni samtímis og sungið hástöfum án þess að heyra hver til annars og án þess að misbjóða tóneyra nokkurs manns.

Er þetta ekki sérstakt land?

Árni Gunnarsson, 13.9.2011 kl. 21:15

18 Smámynd: Óskar Arnórsson

Allar þjóðir eiga heima í sérstökum löndum og auðvitað er Ísland sérstakt og fallegt á sinn hátt. Það sem er sérstakt fyrir mig á Íslandi er að ég er fæddur þar, uppalin, enn er ekkert skyldugur að vera neitt sérstaklega stoltur yfir landinu. Sérstaklega ekki ef tekið er mið af hegðun landsins síðustu árin. Enn Ísland er með akkúrat sama mengunarvandamálið sem allar aðrar þjóðir hafa sem stýrast með samskonar efnahagskerfi. Og þessi lönd eru full af fólki sem skammast sín fyrir sitt eigið land og þá sem eru í forsvari fyrir þau. Og aðalvandamál þessara landa er nákvæmlega það sama:

Mengun huga og hugsunar...

Og sjálft efnahagskerfið býður upp á hugarfarslega mengun sem slær alla aðra mengun út. Og það er ekki nóg að krítisera þá sem mergsogið efnahagskerfi heimsins. Það þarf að setja reglur um hvað sé ætlast af þessum efnahagskerfum yfirleitt. Það þarf ekki að skerða sjálfan eigandaréttinn neitt, enn það má alveg stoppa menn sem í krafti peninga sama hvernig þeir hafa eignast þá, fari um landið og jörðina eins og hryðjuverkamenn.

Það eru engin lög til sem leyfa íhlutun af einhverju viti, eigandarétturinn er ein hættulegustu trúarbrögð mannskeppnunar og venjulegt fólk er allt undir hælnum á peningakirkjunum í heiminum. Ríkisstjórnir hafa misst valdið í hendur banka og eigenda þeirra og eru áhrifin eftir því.

Fólk telur sig lifa í lýðræðisríkjum enn fjármagnstilfærsla er búin að breyta lýðræði í hálfgerðan brandara...

Óskar Arnórsson, 14.9.2011 kl. 07:33

19 Smámynd: Árni Gunnarsson

"......eigendarétturinn er ein hættulegustu trúarbrögð mannskepnunnar..........."

"Ríkisstjórnir hafa misst valdið í hendur banka og eigenda þeirra og eru áhrifin eftir því."

Líklega er mikið til í þessu.

Árni Gunnarsson, 14.9.2011 kl. 07:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband