Velkominn á bísann Björgólfur!

Öll þjóðin stendur agndofa yfir þeirri fregn að Björgólfur Thor Björgólfsson hafi lagt fram beiðni til Kaupþings banka þess efnis að bankinn gefi eftir þriggja milljarða skuld þeirra feðga vegna kaupanna á Landsbankanum. Þjóðin er agndofa vegna þess hroka og þeirrar siðblindu sem lýsir sér í þessari málaleitan feðganna sem horfðu aðgerðalausir á að allt fram á síðustu daga fyrir hrun bankans fóru starfsmenn hans-og þeirra hamförum við að ryksuga innistæðureikninga fólks og jafnvel líknarstofnana víðs vegar um heim. Hvað af þessum peningum varð veit enginn í dag en bankinn fór í þrot og rannsókn er í gangi.

Um allt það mál mætti skrifa bækur og reyndar hefur það nú þegar verið gert.

Það sem ekki minni furðu vekur er það að stjórn bankans er enn að skoða "tilboð" þeirra feðga en engin ákvörðun hefur ennþá verið tekin eins og fram kom í samtali fréttamanns Rúv við Finn Sveinbjörnsson bankastjóra í kvöldfréttum.  Þetta gengur ólíkindum lengra og erum við þó orðin ýmsu vön Íslendingar. Fólkið á götunni skilur nefnilega ekki hvað veldur því að Björgólfur Thor var ekki leiddur út úr bankanum með kurteisi eftir að hafa sýnt af sér slíkan hroka.

Upphæð sú sem um ræðir er að jafngildi því sem nægja myndi eitt þúsund heimilum til að rétta af skuldastöðu þeirra og gefa þeim framhaldslíf í samfélagi okkar. 

Eru fjölskyldur þeirra feðganna jafngildi meira en þúsund venjulegra fjölskyldna?

Þegar einstaklingur lendir í greiðsluþroti þá gildir sú einfalda regla að eftir að öllum innheimtuaðgerðum hefur verið fullnægt eru eignir seldar. Dugi þær ekki til að fullnusta kröfur er viðkomandi úrskurðaður gjaldþrota. Flóknara er málið ekki, það veit sá sem þetta ritar fullvel.

Þjóðin mun ekki horfa þegjandi á verði orðið við þessu tilboði Björgólfsfeðga, en orðalagið eitt og sér er blaut tuska í andlit þeirra einstaklinga sem beiðst hafa griða eftir afleiðingarnar af kollsteypu bankanna en verið synjað.

Ég tala ekki fyrir annara munn en eigin en ég hlýt að krefjast þess að banki í eigu ríkisins mismuni ekki fólki eftir stöðu eða stétt. Ég hlýt að krefjast þess að þeir Björgólfsfeðgar hljóti sömu meðferð og aðrir skuldugir Íslendingar. Og ég hlýt að krefjast þess að þeir, eftir öll þessi ár standi skil á öllu kaupverði Landsbankans og tel ekki seinna vænna. Dugi eignir þeirra ekki til eftir hefðbundnar innheimtuaðgerðir hlýt ég að krefjast venjulegra fullnustuaðferða og segi með orðalagi Bjartmars Guðlaugssonar söngvaskálds:

Velkominn á bísann Björgólfur! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sammála! Smá innsláttarvilla..3 milljarðar ekki milljónir í fyrstu setningu..

Silla (IP-tala skráð) 8.7.2009 kl. 19:44

2 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Þú ert nú meiri karlinn Árni að vera að trufla skilanefndina. Átti Björgólfur ekki lægsta tilboðið, fékk síðan góðan afslátt og lánaði fyrir restinni í Búnaðarbankanum.

Sigurður Þórðarson, 8.7.2009 kl. 19:58

3 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Já þrír milljarðar vegna Landsbankans.

Ég ætti kannski að bjóða Björgólfi eitt hornið í kjallaranum hjá mér.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 8.7.2009 kl. 20:08

4 identicon

Heill og sæll; Árni - sem þið önnur, hér á síðu hans !

Vildi bæta við; leiðréttingu Sillu. Um Landsbankann, véluðu þessir hrægammar, til einka nytja sinna - ekki; Búnaðarbankann, Skagfirðingur góður.

En; að meginmáli öllu. Þessir bastarðar; hverja ei er hægt að kalla annað, ættu að hljóta aðskiljanlegustu pínslir - hverjar upp mætti finna, og líkast til, yrði það íslenzk Alþýða, sem stæði fyrir þeim - ekki raggeitur þær, sem Vaktarar (lögregla) valdastéttarinnar, hafa sannað sig í að vera, fyrir hverjum, ég ber öngva virðingu, sem fram hefir komið, oftlega, á minni síðu, svo sem.

Legg til; að sjoppu þjófar - sem og aðrir ógæfumenn, fái uppreisn æru, eftirleiðis, fyrir smá óknytti sína, og yrði íslenzkt samfélag ögn hreinna, af hræsni þeirri, sem viðgengist hefir - hvar; mildilega er ENN, tekið á hvít flibba þjófunum - en; hinum engin miskunn sýnd, sem í neðstu þrepum mannvirðinga stigans standa.

Með beztu kveðjum; sem jafnan, úr Árnesþingi /

Óskar Helgi Helgason   

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 8.7.2009 kl. 20:17

5 Smámynd: ThoR-E

Góður pistill. Það er til skammar að þeir þurfi ekki (jafnvel) að borga kaupverð bankans, sem þeir svo samviskusamlega ryksuguðu út alla fjármuni sem og nörruðu hollenska og enska sparifjáreigendur að leggja inn í svikamylluna ævisparnaðinn og hirtu allt saman.

Þetta er eitt stærsta bankarán sögunnar og það var gert með því að kaupa bankann. En nú kemur í ljós að þeir gátu ekki einusinni borgað hann .. með öllum milljörðunum sem teknir voru út.

þeir notuðu bankana eins og eigin heimabanka og keyrðu allt í þrot og tóku landið með sér í fallinu.... í dag þarf íslenska þjóðin að borga hundruða milljarða skuldir þeirra ... á meðan þeir (allavega sonurinn) lifir lúxuslífi á snekkjum og einkaþotum ...

svei þessum ómennum!!!

það á að taka yfir fyrirtæki þeirra sem og eignir hér á landi og erlendis. Þegar því er lokið á að taka af þeim ríkisfangið og vísa þeim úr landi.. eftir að þeir hafa setið af sér langan fangelsisdóm á litla hrauni.

þannig afgreiðsla á þessu máli væri eðlileg í öllum löndum. en við búum náttúrulega í bananalýðveldinu Íslandi....

það verður fróðlegt að sjá hvernig þetta endar allt saman ... en vongóður er ég ekki.

ThoR-E, 8.7.2009 kl. 20:19

6 Smámynd: Magnús Jónsson

Árni: það væri fagnaðar efni ef bankinn féllist á þessa beiðni Böggana, því þar með væri komið fordæmi fyrir 28% niðurfellingu allra skulda, sem stofnað hefur verið til frá árinu 2003, og þessi niðurfærsla myndi meira að segja slá út kosningaloforð framsóknarflokksins frá nýliðnum kosningum, ég vona bara að bankinn beri gæfu til að fara á undan með slíku fordæmi, sem ríkis stofnun.

Magnús Jónsson, 8.7.2009 kl. 20:20

7 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þakka ykkur Silla og Óskar Helgi fyrir ábendingarnar um fljótfærni mína sem ég er búinn að leiðrétta.

Siggi frændi: Kannski má flokka þessa truflun mína undir fljótfærni. Hún hefur oft komið mér í koll!

AceR. Þetta er allt með ólíkindum og full þörf á að endurskoða öll lög okkar um stjórnsýsluábyrgð og ábyrgð embættismanna ríkisins.

Magnús. Þetta var ég ekki búinn að koma auga á. En ég er ekki bjartsýnn á að skóflupakkið fái sömu meðferð þegar upp verður staðið.

Árni Gunnarsson, 8.7.2009 kl. 20:42

8 Smámynd: Auðun Gíslason

Eru Bjögarnir ekki farnir að biðja um Framsóknarleiðina.  Að vísu með sinni útfærslu niðurfærslu um 50%  Á morgun sækjum við um hjá Íbúðalánasjóði!  Kannski eru Bjöggarnir gengnir í Framsókn?  Þjóðnýtum Actavis!

Auðun Gíslason, 8.7.2009 kl. 20:51

9 Smámynd: Magnús Jónsson

Árni: eitt skal yfir alla ganga er eitt af elstu lögum okkar, og heitir í dag meginregla á dómstólamáli ef mér skjátlast ekki.

Auðunhve stóran hlut eiga Bjöggarnir í Actavis, er hér ekki um hlutafélag að ræða????

Magnús Jónsson, 8.7.2009 kl. 21:24

10 Smámynd: Guðrún Þóra Hjaltadóttir

Eitt er alveg öruggt og það er að Íslandsagan heldur áfram að vera innihaldsrík og mun trúlega ekki gefa Snorra-Eddu neitt eftir þegar fram líða stundir.

Guðrún Þóra Hjaltadóttir, 8.7.2009 kl. 21:37

11 Smámynd: Júlíus Björnsson

Sókn er besta vörnin segja feðgar. Er búinn að fara fram alþjóðleg athugum á eigendum glæpabankanna ?  Davíð sagði að þið megið setja Björgólf á hausinn? Er búið að staðfesta þrot feðga? Eru þeir viðriðnir að skipta út gjaldeyri fyrir hlutabréf í Búlgörskum sígarettu innflutningi? 

Eitt mál í einu. Síðan til að flýta fyrir málum mætti mætti bjóða þeim 5% afslátt heildar sektar og skulda.  Hér þarf Bónus harðdrægni. Lyf sjúklinga eru of dýr svo ekki  þarf að spyrja um skort á henni annarstaðar í kerfinu..

Júlíus Björnsson, 8.7.2009 kl. 21:49

12 Smámynd: Árni Gunnarsson

Svo mætti nú hugleiða hvaða augum erlendir kröfuhafar kynnu að líta þá frétt að farið væri að verðlauna eigendur útrásarbankanna sem skilið hafa eftir sig sviðna jörð eftir viðskiptin við samlanda þeirra.

Já Guðrún Þóra: Það er vissa fyrir því að þessir höfðingjar eru búnir að tryggja sér sess í sögunni. Og ekki bara Íslandssögunni.

Árni Gunnarsson, 8.7.2009 kl. 21:55

13 Smámynd: Auðun Gíslason

Já, Arni og Guðrún!  Og hluti þeirrar sögu er ekki hafandi eftir nema við eldhúsborðið....

Auðun Gíslason, 8.7.2009 kl. 22:16

14 Smámynd: Magnús Jónsson

Árni:það eitt geturðu bölvað þér uppá að ef Bjargólfarnir fá niðurfelda 28% af sínum skuldum, og þú og ég ekki, þá mæti ég heima hjá þér með heykvísl eða riffil handa þér, og við sækjum rétt okkar á einn veg eða annan, ef ekki okkur sjálfum til handa þá fyrir börnin eða barnabörnin, ég efast ekki um að þú kæmir með mér ef á þennan veg færi.

Magnús Jónsson, 8.7.2009 kl. 22:29

15 Smámynd: Árni Gunnarsson

Sagan er ótrúlega miskunnarlaus. Og hún á að vera það.

Árni Gunnarsson, 8.7.2009 kl. 22:30

16 Smámynd: Valgeir Bjarnason

Þessi Landsbankasaga er enn eitt hneykslið í þessari sorgarsögu okkar. Ég hélt að þeir feðgar hefðu greitt uppsett verð án þess að taka lán. Þetta er bara dæmigert fyrir allt einkavæðingarferlið, klúður á klúður ofan í boði Sjálfstæðisflokks og Framsóknar. Er ekki sömu sögu að segja með kaup Finns og Ólafs á Búnaðarbankanum?

Valgeir Bjarnason, 8.7.2009 kl. 23:02

17 Smámynd: Magnús Jónsson

Árni: Sagan er ekki miskunnarlaus, hún er sönn, nema þegar fölsunum er beitt.

Valgeir: hvernig áttu stjórnöld að vita hvaðan aurarnir komu til að byrja með og skipti það einhverju máli, fyrir ríkissjóð.

Árni Karl til hvers að brenna Banka?bankinn gerði ekki neitt af sér, það sama á ekki við um  eigendur og  þeirra viðhlæjendur.

Magnús Jónsson, 8.7.2009 kl. 23:30

18 identicon

Björgólfs feðgar eru eflaust "stórustu bankaræningjar heims" og maður þarf að fara alveg aftur til JÚDAS til að upplifa annað eins KLÚÐUR...!  Það líður ekki sá dagur að ég hugsi ekki um hvað ég geti gert fyrir ÞJÓÐ mína - og nú vitum við hvað þessi skrautfugl vil byrja á "jú 50% niðurfellingu á skuldum sínum" - ég hef ekki hlegið jafn mikið í 100 ár - ekki síðan Árni Johnsen sagði: "mér urðu á tæknileg mistök..!" - það að þessi FÁBJÁNI Finnur bankastjóri sé enn að velta fyrir sér að taka þessu GÓÐA tilboði segir nú allt um HÆFNI hans í starfi - enda vita allir hjá SAMSPILLINGUNNI að Solla stirða GAF honum þetta starf af því hann tengist manninum hennar!  Ég vona INNILEGA að þetta fari í gegn og þeir fái þennan AFSLÁTT, þá er GOTT fordæmi komið fyrir "litla & feita manninn" í samfélaginu og barnafjölskyldur - ég gef mér að við eigum þá von á 50-75% niðurfellingu - Framsókn bauð bara 20% en Finnur & Kaupþing sáu að ekkert minna en 50% þurfti til að rétta við SAMFÉLAG sem stefnir í "greiðsluþrot" - takk fyrir Finnur & Björgólfur - ykkur tókst að KLÚÐRA málum enn og aftur...!  Alveg ÓBORGANLEGT lið í víðasta skilningi þessa orðs..!

kv. Heilbrigð skynsemi

Jakob Þór Haraldsson (IP-tala skráð) 8.7.2009 kl. 23:43

19 Smámynd: Eygló

Er það ekki óræk sönnun um rán (bankarán) þegar menn soga upp í nefið á sér eða annað, góðan hluta af verðmætum banka ... sem aðrir eiga?.

Eygló, 8.7.2009 kl. 23:58

20 Smámynd: Árni Gunnarsson

Valgeir. Salan á bönkunum var auðvitað á þeim tíma birtingarmynd helmingaskiptareglu Íhalds og Framsóknar sem hafði þróast óáreitt um langt árabil. Hvorugur bankinn varð eftir einkavæðinguna sjálfstæður í tilliti pólitískra tenginga. Stjórnir þessara banka voru pólitískt skipaðar eins og best má verða en ekki faglega.

Árni Ellert: Kannski hefur það að lokum áhrif á afgreiðslu þessa máls að Gylfa viðskiptaráðherra svelgdist á við fréttina. Má mikið vera ef Gylfa svelgist ekki á oft á dag þegar litið er til siðferðisástandsins í fésýslustofnunum okkar.

Magnús. Sagan er miskunnarlaus því hún hylmir ekki yfir með neinum. Nema kannski þeim sem skrifar hana og þá vísa ég til sjálfsævisögu.

Jakob Þór. Jakobína Ingunn Ólafsdóttir ritar nokkur orð um afrekaskrá Finns Sveinbjörnssonar á bloggsíðu sína í gær (minnir mig) Maðurinn virðist vera algert heljarmenni í viðskiptasnilld! Ekki furða þó vinstri stjórnin gripi tækifærið og réði hann áður en aðrir stukku á vinninginn.

Maí. Ég er eiginlega allslaus þegar kemur að ályktunum um nefsog. Einn af fáum ósiðum sem mér láðist að læra var að taka í nefið. Hinsvegar hefur mér verið sagt að það tíðkist mikið hjá viðskiptaelítunni.  

Árni Gunnarsson, 9.7.2009 kl. 13:02

21 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Lánið er það síðasta undir sólinni sem ætti að afskrifa. Ég held að þessi orð Þistilfjarðabóndans segi allt sem segja þarf. Ef ekki er ég líka til í heykvísl.

Ævar Rafn Kjartansson, 9.7.2009 kl. 14:18

22 Smámynd: Anna  Andulka

Góður pistill hjá þér frændi og sannleikanum samkvæmur. Kveðja!

Anna Andulka, 9.7.2009 kl. 15:17

23 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ævar Rafn: Mér finnst nú heykvíslaandófið svolítið hrollvekjandi til umhugsunar í okkar samfélagi þar sem tekist hefur verið á með orðum en mannvíg ekki verið stunduð í innanríkisdeilum síðan á Sturlungaöldd. En vissulega erum við komin afar nærri því að upp úr sjóði og þá veit enginn hvert stefnir. En ég ætla að vona að búsáhaldabylting dugi.   

Þakka innlitið frænka mín og takk fyrir síðast þar sem við höfðum ekki tíma hvort fyrir annað sem við höfðum þó sannarlega þurft að fá.

Árni Gunnarsson, 9.7.2009 kl. 17:22

24 identicon

Sæll Árrni,

Þetta er siðspillingin í hnotskurn. Þeir aðilar sem skilja eftir Icesave fyrir landann að greiða, og það líklega 600 milljarða, þykjast geta komist upp með það að greiða sjálfir helminginn af skuld vegna kaupa á þessu helvítis bankaræksni sem nú hefur sett þjóðina á hausinn. Sem sagt, þjóðin má fara til fjandans og greiða fyrir þetta hyski, hyskið ætlar svo sannarlega ekki að greiða sitt! Manni hreinlega fallast hendur Árni. Er ósvífni þessara manna ekki fullkomnuð núna? 

Lund Hervars (IP-tala skráð) 9.7.2009 kl. 18:14

25 Smámynd: Erla Einarsdóttir

Það á að gera þessa menn gjaldþrota, kæra þá svo fyrir landráð og senda þá í útlegð! Ég myndi stinga upp á Drangey ef mér þætti hún ekki allt of góð fyrir þá. Grettir var gæðablóð við hliðina á þessum víkingum, hversu marga menn/fjölskyldur ætli þeir verði búnir að vega þegar upp verður staðið frá þessum hörmungum?!

Erla Einarsdóttir, 9.7.2009 kl. 19:53

26 Smámynd: Sigmar Þór Sveinbjörnsson

Heill og sæll Árni, þetta er frábær pistill hjá þér og hafðu þökk fyrir.

kær kveðja

Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 9.7.2009 kl. 20:17

27 Smámynd: Árni Gunnarsson

Lund Hervars."Velkomin á bísann í okkar boði íslenska þjóð!" sögðu þessir víkingar og röltu svo inn í Nýja Kaupþing þar sem þeir gerðu bankanum þetta höfðinglega boð um að standa skil á hluta lánsins.

Erla mín. Ég vil ekki sjá þetta hyski í Drangey fremur en þú og væri þökk á ef það hlífði Skagafirði við nærveru sinni í bráð og lengd.

Þakka þér fyrir komuna Sigmar!

Árni Gunnarsson, 9.7.2009 kl. 22:37

28 identicon

Kæri Árni,

Fór í Skagafjörðinn um síðustu helgi og hitti skemmtilegt fólk og það sem meira er Árni, skoðaði hross, og veistu hvað Árni, í þessari stuttu heimsókn gleymdi ég helvítis kreppunni og öllu sem henni viðkemur, furðulegt en engu að síður satt. Skagafjörðurinn Árni, er magnaður og mannbætandi. Hafðu það sem allra best kæri frændi. 

Lund Hervars (IP-tala skráð) 9.7.2009 kl. 22:46

29 Smámynd: Árni Gunnarsson

Lund Hervars. Það er ekkert pláss fyrir kreppu í Skagafirði. Þar eru allsnægtir andans og gleðinnar og allt saman ein samfelld veisla.

Árni Gunnarsson, 9.7.2009 kl. 23:35

30 Smámynd: Dexter Morgan

Ég spyr nú bara eins og fávís kelling: Voru þeir ekki búnir að borga helvítis bankann, áður en þeir ryksuguðu upp peningageymsluna ? Og gleymið ekki gott fólk, Framsóknaflokkurinn, Álgerður Sverrisdóttir og félagar eiga mestu sök á því hvernig komið er.

Dexter Morgan, 10.7.2009 kl. 00:13

31 Smámynd: Eygló

Fengu bankann á smánarverði. Tæmdu það sem tæmt varð. Borguðu aldrei smánarverðið. Skulda enn kaupverðið. Vilja nú fá helmings niðurfellingu kaupverðs.

Hvort flokkast þetta undir geðræn vandkvæði, snilld eða glæpamennsku.  Ég hallast að því að þetta séu snilldar glæpamenn með geðræn... eða persónuleikabrenglun, - síkópatar=siðlausir.

Eygló, 10.7.2009 kl. 00:27

32 Smámynd: Magnús Jónsson

Árni: að öðru kannast þú við ættir prests sem sat á Mæifelli frá  1900 til 1908 síðan á Núpi í Hegranesi til um 1912 eða svo man ekki nákvæmlega ártalið, hann hét Jón Ólafsson, en það sem mig fýsir að vita er það að hann átti bróðir sem bjó í Skagafirði og ætleggur hans tengist mér, kalnast þú við sessa men?? 

Magnús Jónsson, 10.7.2009 kl. 01:15

33 Smámynd: Magnús Jónsson

Árni:  kannast þú við þessa menn, fyrirgefðu gleymdi að renna í gegnum leiðréttingunni, er alltaf jafn vitlaus í stafsetningunni þó árin líði.

Magnús Jónsson, 10.7.2009 kl. 01:22

34 Smámynd: Jens Guð

  Bjór-g-úlfarnir hafa síðustu ár vanist því að íslenskir stjórnmálamenn og aðrir embættismenn bugti sig og beygi í þeirra návist og samþykki allt sem þeir segja og gera með orðunum:  "Já,  yðar hátign."  Þess á milli skiptust Doddsson og forsetinn á að hrópa þrefalt húrra fyrir þeim,  hengja á þá krossa og annað glingur og mæra í hástert þvers og kruss um heiminn.

  Það verður óvenjulegt stílbrot ef ríkisstarfsmenn Kaupþings ganga þvert á hefðina og fallast ekki á tilboð bankaræningjanna.  Ég hef áreiðanlegar heimildir fyrir því að stjórnendur Kaupþings viti ekkert hvernig þeir eiga að afgreiða málið.  Þeir eru samt á fullu í að reyna að átta sig á tilboðinu.  Það er full vinna dag eftir dag.  Hún tekur marga daga til viðbótar.  Þetta er svo erfitt mál.  Mér skilst að ein hugmyndin sé sú að koma með gagntilboð sem hljómar betur í eyrum almennings en skerði í engu ránsfeng feðganna þegar upp er staðið. 

Jens Guð, 10.7.2009 kl. 12:37

35 Smámynd: Árni Gunnarsson

Jens: Mér skilst að dóttir Styrmis Gunnarssonar hafi eitthvað með þessa umsókn þeirra Björgólfanna að gera. Styrmir þáði að sögn 100 milljóna fyrirgreiðslu í Landsbankanum að tilhlutan Björgólfs vinar síns. Nú veit ég ekki sannleiksgildi þessara upplysinga og vil undirstrika það. En það er alþekkt á Íslandi að góð vinátta ríki milli fjármálamanna, pólitíkusa og stjórnenda fjölmiðla. Auk þess er þetta skelfilegt smámál í öllu því óheiðarlega fjármálasukki sem sett hefur þjóðina í þá hræðilegu stöðu sem við blasir. En góð vinátta hefur lengi verið orsök margra undarlegra samninga hér á landi og gjafir af ýmsum toga gagnkvæmar.

Ísland hefur lengi verið helsýkt af spillingu. Þessi spilling hefur verið öllum sýnileg enda hafa stjórnvöld lengi kostað kapps við að kaupa sér árlega úttekt frá einhverju alþjólegu gamanleikhúsi sem hefur sent þeim vísindalega unna samanburðarkýrslu sem sannar hið gagnstæða. 

Ekkert er hörmulegum stjórnvöldum mikilvægara en svona skýrslur.

Árni Gunnarsson, 10.7.2009 kl. 13:15

36 Smámynd: Georg P Sveinbjörnsson

Þetta eru siðlausir menn og virðast vissulega alls ekki kunna að skammast sín þó ærin sé ástæðan, nei nei, höfuðið er bitið af skömminni og þeir telja sig enn mikla menn.

Georg P Sveinbjörnsson, 10.7.2009 kl. 14:07

37 Smámynd: A.L.F

Greyið þeir ef þetta verður samþykkt, við erum ansi mörg sem ætlum að safna okkur saman og bera út þennan mæta mann, sem enn er að hugsa sig um vegna svívirðlegs tilboðs björgúlfsfeðga, og brenna þessar bankastofnanir til kaldra kola.

Það er nefnilega svo sorglegt að þó þeir fengu 50% afslátt á sínum skuldum sitjum við hin áfram í súpuuni sem þeir komu okkur í.

Ég hef rabbað við margan manninn hér á landi eftir að kreppann skall á og sumri hverjir eru af erlenmdu bergi brotnir, þessir sem eru af erlendum uppruna eru allir jafn hissa á okkur íslendingum, hafa jafnvel bent mér á það að í þeirra landi væri búið að stútta nokkrum þingmönnum til að sýna að þeim væri alvara og létu ekki valta svona yfir sig.

En nei við sitjum eins og vanalega með okkar kaffibolla og röflum í okkar hornum.

A.L.F, 10.7.2009 kl. 15:32

38 identicon

Árni Karl, því miður er það of seint... bankarnir og flest öll fyrirtæki (ný og gömul) eru löngu brunnin og við, Íslendingar og afkomendur okkar, munu bera kostnaðinn af slökkvistarfinu !!

Íslendingar sem sjálfstæð, fullvalda og  stolt þjóð er liðin tíð.... það er ekkert eftir af arfleifðinni sem duglegir og ærlegir Íslendingar, kynslóðin á undan okkur, gáfu okkur í arf.

Það má þakka skítugum póliTÍKUM og siðspilltum, vanheilum geðsjúklingum sem þurftu aðeins 5 ár til að koma þessu fyrrum góða landi á á hnén.

Djöfull hata ég þetta helvítis hyski !!!!!!!!!!!!!!!!!!

runar (IP-tala skráð) 10.7.2009 kl. 17:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband