1.8.2009 | 23:52
Augun þín blá....
Nú gengur yfir þjóðina fagnaðarbylgja vegna skeleggrar greinar Evu Joly um þau þrælatök sem IMF og þjóðir ESB beita okkur Íslendinga. Jafnvel þeir forhertu sjálfstæðismenn sem ærðust vegna ráðningar hennar og kölluðu hana smánarlegustu ónefnum hafa skipt um viðhorf sín til hennar og bera nú á hana lof umfram annað fólk. Þetta eru auðvitað með öllu eðlileg viðbrögð. Þeir fagna hverju því vopni sem beinist að ESB aðild og þar get ég verið þeim sammála. Jafnframt eru þeir hættir að óttast að rannsóknarstörf frúarinnar beri þann árangur sem þeir óttuðust svo mjög í upphafi. Þar er ég þeim líka sammála. Það ætti nefnilega nú að vera orðið öllum ljóst að enginn árangur mun nást í þessari rannsókn sem nokkru máli skiptir, enda svo vel um hnútana búið af ríkisstjórn Geirs H. með dyggum atbeina dómsmálaráðherrans Bj. Bj. sem skipuðu fólki í skilanefndir og skipuðu hinn "sérstaka saksóknara" að þar með var öllu óhætt. Ekki spillti heldur að sjálfstæðismenn voru búnir að hafa ráðuneyti dómsmála í eigin höndum lengur en elstu menn muna og skipa sínu fólki í flesta ef ekki alla dómstóla landsins.
Ég nefndi sérstakan saksóknara. Því verður víst ekki móti mælt að þar er um að ræða alveg sérstakan saksóknara að ekki sé nú meira sagt. Nú nýlega gaf hann þá yfirlýsingu að stjórnvöld ætluðust til þess að ákvæðinu um frystingu eigna væri beitt af alveg sérstakri gætni og yfirvegun! Og þá rifjast það upp fyrir manni að Steingrímur fjármálaráðherra hefur í það minnsta tvisvar lýst þeirri skoðun sinni opinberlega að hann telji að nú þegar liggi fyrir nægar sannanir til frystingar eigna vegna gruns um efnahagsbrot og ákærur því samfara! Hvaða stjórnvöld var Ólafur sérstakur að meina þegar hann talaði um varkárni í frystingu eigna?
En nú spyr ég mig: Hver ætli að hafi talið Evu Joly trú um að til þess væri ætlast af henni að hún hjálpaði til við að upplýsa um spillingu og refsiverð efnahagsbrot? Það hefur verið ljóti prakkarinn.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Prakkari prakkaranna! Sumir eru bláeygari en allt sem bláeygt er! Eva greyið var illa blekkt! Og nú er hún búin að koma þjóðinni í tóm vandræði með því að tala máli hennar opinberlega í útlöndum! Af hverju ætli hún hafi haldið að ráðamenn þjóðarinnar væri einsog Félag þroskaheftra málleysingja, nema þegar pexað er í drep við aðra félagsmenn Ekki heyrist múkk frá þeim, nema heima í afdalnum!
Og þá helst: "Það má þá alveg skoða það" og "ég hef nú ekki orðað það þannig."
Lifi byltingin! Og niður með auðvaldið! Í nafni Föður, Sonar og Heilags Anda. Amen!
Auðun Gíslason, 2.8.2009 kl. 00:10
Zkila má zwokölluðum zkilanefndum í zopru, án zkilagjaldz, fyrir mitt zkuldleyzi...
Steingrímur Helgason, 2.8.2009 kl. 00:21
Heill og sæll Árni; - sem og, aðrir, hér á síðu !
Jú; renndi yfir ágætan húslestur þinn, fyrir stundu, og næsta víst má telja, að þröng miikil muni, fyrir durum verða, taki Íslendingar ekki á sig rögg, og hrindi þessum frjálshyggju pestar Musterum, hjá Reykvízkum, sem útlendum leiguliðum þeirra.
Það er; engu að tapa - allt að vinna, aftur á móti, Skafirðingur sæll.
Með beztu kveðjum; úr Árnesþingi /
Óskar Helgi Helgason
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 2.8.2009 kl. 00:26
Árni þar sem mikið er af fornu máli og z-máli ætla ég að fríksa hér upp á kommentin með mannamáli þótt ekki sé það endilega til bóta. Margbreytileikinn hefur jú sitt gildi og lífgar upp á tilveruna.
Sérstakur saksóknari er mjög hlýðinn maður og hallur undir kerfið. En kerfið er sköpunarverk sjálfstæðismanna. Sorglegt hvað vinstri flokkarnir hafa klúðrað endurreysninni.
Rósturnar í ríkissjórninni eru að verða fáránlegar og markmið þeirra hættuleg. Hef heit að verið sé að undirbúa þjóðarstjórn (þá auðvitað með sömu foryngja í stjórn) sjálfsagt leidd af ISG ef ske kunni að ríkisstjórnin verði felld sem er reyndar ekki ólíklegt.
Legg til að við komum upp mynnisvarða um alla þá sem samþykkja Icesave hvort sem það verður fellt eða ekki.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 2.8.2009 kl. 00:39
Sæll Árni,
Evu ber að þakka góðan stuðning við málstað okkar. Hinu hef ég litlar áhyggjur af að hún fóti sig ekki í spillingargreninu Íslandi, hún hefur áður svælt út tófur.
Gunnar Skúli Ármannsson, 2.8.2009 kl. 00:46
Ég ætla að láta vera að tegundagreina tungutakið mitt, , en þvílíka tröllatrú hef ég á henni Joly að þyki henni frysting eigna ganga full seint þá lætur hún heyra í sér. Hún veit hvenær á að hvæsa og á hverja. Núna urrar hún á valdamestu stofnanir heims og gerir það með stæl. Hún hefur þegar látið bæta við íslenska lagasafnið og þurfi hún að láta skerpa á öðrum lagagreinum þá vefst það örugglega ekki fyrir henni.
Helga (IP-tala skráð) 2.8.2009 kl. 00:46
Já og ég ætlaði að segja minnisvarða
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 2.8.2009 kl. 02:25
Mjög sérstakur var þinn góði húmor í kvöld, Árni, og sannarlega er þörf á því að halda uppi fullu aðhaldi vegna bankasvikaranna og annarra þvíumlíkra lögbrjóta. Þó hef ég trú á því, að Ólafur, þessi sérstaki saksóknari, hafi fullan hug á að elta þessa menn á röndum og gera upp þeirra mál með hverjum þeim lagalegu aðferðum sem honum standa til boða í því efni, og það er vel.
En grein Evu Joly var mál málanna á nýliðnum degi, og nú er hún ÖLL komin á net Morgunblaðsins, AÐGENGILEG ÖLLUM, líka þeim sem ekki eru áskrifendur. Hér er hún: Ísland – það sem læra má af efnahagshruninu.
Með kærri kveðju – og baráttukveðju!
ÁFRAM ÍSLAND – EKKERT ICESLAVE!
Jón Valur Jensson, 2.8.2009 kl. 03:02
Spjótin standa á alþingi að breyta lagarammanum.
Sigurður Þórðarson, 2.8.2009 kl. 11:01
Spjótin standa á alþingi að hafna Icesave, Sigurður minn.
Jón Valur Jensson, 2.8.2009 kl. 13:48
Hefur ekki Alþingi fyr löngu látið fallast á sverð sitt? Blóðlaust og magnvana!
Auðun Gíslason, 2.8.2009 kl. 14:03
Góður lestur Árni.
Ég tek undir það að lengi má landinn bíða eftir aðgerðum. En hversu lengi má kenna xD um framtíðarsyndir annarra ?
Brellan í umfjöllun um bankaleynd hefur jafnan verið sú að þetta hljómaði eins og allir fengju að líta ofan í vasann á næsta manni. Bankaleyndin er nefnilega meira en það. Rannsóknaraðilar hafa þurft að sækja fram með dómsvaldi hvern viðskiptavin.
Nú væri vert að létta þessari leynd umsvifalaust fyrir alla rannsóknaraðila og í ofanálag að lyfta hulunni, gagnvart fjölmiðlum (þar með almenningi) af öllum viðskiptum og lánum allra þeirra sem áttu meira en 1% í bönkum eða tryggingarfélögum. Jafnframt mætti bæta í þann hóp öllum stjórnendum.
Ekki væri síðan verra að það sama gilti um stjórnarmenn og stjórnendur Lífeyrissjóða.
Haraldur Baldursson, 2.8.2009 kl. 14:51
Himinn, jörð, og hugur manns,
heillar, hrellir, hræðir,
og misþyrming á sköpunarverki meistarans,
og mannkyninu blæðir.
Rusl (IP-tala skráð) 15.8.2009 kl. 00:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.