Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Stöðugleikinn og stóriðjan

Nú er lokið fyrsta fundi fulltrúa ríkisstjórnarinnar og "aðila vinnumarkaðarins!" Samkvæmt fyrstu fréttum stendur hnífurinn upp að hjöltum í kýrgreyinu sem ævinlega er fyrsta fórnarlambið þegar ágreiningur verður milli fólks. Og nú er "stöðugleikasáttmálinn" í uppnámi. Af fyrstu fréttum sýnist mér að viðmælendur ríkisstjórnarinnar hafi tugtað hana til vegna þess hve lengi hún hefur þumbast við með afhendingu orkunnar til álvera í Helguvík og á Bakka. Þetta er auðvitað ekki boðleg staða. Einhverjir svonefndir vísindamenn hafa leitt að því rök að orka sé reyndar ekki endilega tiltæk en það sýnist nú okkur stóriðjusinnum aukaatriði og ekki boðleg rök í svo þýðingarmiklu máli: Vilji er allt sem þarf. Það er auðvitað ekki á bætandi það klúður ríkisstjórnarinnar að skuldsetja þessa þjóð upp fyrir haus vegna einhverrar vitleysu sem hún greinilega kom þjóðinni í eins og öllum er orðið ljóst eftir snarpa úttekt sjálfstæðismanna á klúðrinu. En það er engin afsökun til fyrir því að neita vinum okkar í útlandinu um orku. Við eigum næga andskotans orku ef við nennum bara að hella okkur í að sækja hana-púnktur. Við eigum Gullfoss, Dettifoss, Héraðsvötn, Hvítá, Goðafoss, helling af hita á Geysissvæðinu svo eitthvað sé nefnt. Við eigum glás af orku, allt annað er lygi. Og ekki lifum við á fjallagrösum eins og sumir umhverfisfasistar heimta að við étum að minnsta einu sinni á dag. Afkomendur okkar geta svosem lifað á blessuðum fjallagrösunum ef þeir fara ekki að bruðla með þá auðlind og láta ekki stjórnast af fjandans græðginni.

Bandalag stjórnvalda gegn íslenskum fyrirtækjum

Las í dag í Morgunblaðinu viðtal við garðyrkjubónda sem er að gefast upp gegn orkuverðinu á Íslandi. Það hefur verið staðreynd í áratugi að orkuverð til garðyrkjubænda hefur verið margfalt hærra en orkuverð til erlendra málmbræðslufyrirtækja. Með nokkrra ára millibili skýst þessi umræða upp á yfirborðið en er samstundis kæfð í orðhengilshætti um að þessi mál séu í skoðun hjá stjórnvöldum. Garðyrkjubóndinn upplýsti að hvert Megavatt af orku skilaði 7-8 störfum í þessari atvinnugrein en einu starfi í álveri!

Er ég eini maðurinn á Íslandi utan við þessa ylræktarbændur sem vill fá skýr svör í þessu máli?

Ég krefst tafarlausra skýringa!


Hverskonar mannasiðir eru þetta?

Hvaða mannasiðir eru það að birta mynd af þessum unga pilti eins og einhverjum sakamanni? Mörgum ungum manni hefur nú orðið á eitt og annað í fljótfærni en sloppið við myndbirtingu. Var nú ekki allt í lagi að hlífa drengnum við þessu þar til komið var í ljós hvort hann hafi verið allsgáður?
mbl.is Ólafur Örn kjörinn formaður SUS
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þorskurinn í Barentshafinu ræðst á vísindamenn

Þorskurinn er merkilega illgjörn skepna og auk þess gersneydd allri virðingu fyrir vísindum. Nú berast þær fregnir að Barentshafið sé fullt af þorski og að stærð hrygningastofnsins þar hafi vaxið um 300% frá síðustu aldamótum! "Heildarþorskkvóti í Barenthafi í ár er 546 þúsund tonn sem var tuttugu prósent aukning frá fyrra ári. Útlit er fyrir að sá kvóti verði aukinn um 50 þúsund tonn á næsta ári og verði kominn í 630 þúsund tonn árið 2011." Þessi klausa er tekin beint upp úr Fréttablaðinu í dag 21. sept. Ef ég man rétt þá gaf ICES út ráðgjöf um heildarafla upp á 110 eða 130 þúsund tonn í Barentshafinu árið 2000. Sama heildarafla ráðlagði Hafró við Ísland það sama ár. Norðmenn og Rússar höfðu ráðgjöf ICES að engu en íslenski sjávarútvegsráðherrann tók ráðgjöf Hafró alvarlega.  Enn berjast Hafró og sjávarútvegsráðaherra okkar gegn auknum aflaheimildum þó skipstjórar okkar sjái ekki fram á að geta veitt ýsukvótann vegna þess að öll miðin eru full af þorski. 

Jón Kristjánsson fiskifræðingur hefur lengi barist gegn friðunarfasisma Hafró og verið settur út í kuldann á þeim bæ. Það hefur lengi verið ljóst að ef veiðiheimildir okkar yrðu auknar hefði það áhrif á kvótaverðið til lækkunar. Nú er það spurning hvort Jón Bjarnason lokar augunum fyrir þessum tíðindum úr Barentshafinu. Líka spurning hvað íslensk stjórnvöld taka til bragðs eftir að í ljós hefur komið að Glitnir banki veðsetti óveiddan fisk á Íslandsmiðum fyrir láni frá Seðlabanka Luxemburg sjö mínútum fyrir hrun bankans. Er til mikils mælst að biðja um örlítið meira af heilbrigðri skynsemi í stjórnsýsluna? 


Er mikið gagn að ályktunum?

Er það einhver merkisfrétt að flokksráð V.g. hafi ályktað um einhvern fjandann austur á Hvolsvelli? Ég man ekki betur en að þessi flokkur hafi ályktað af nokkurri einurð um andstöðu við umsókn um inngöngu í ESB. Nú varðar mig ekki lengur um ályktanir þessara stjórnmálasamtaka. Mér nægir að fylgjast með vinnu þeirra inni á Alþingi. Ekki verður séð að þeir beri mikla virðingu fyrir eigin ályktunum þegar þangað er komið.
mbl.is Gegn sölu orkufyrirtækja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sigurjón Þórðarson á að verða næsti fiskistofustjóri

Nú reynir á Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra í því efni að stokka upp í helfrosnu stjórnkerfi Hafró og LÍÚ. Hér býður sig fram til starfs ungur og hæfur baráttumaður fyrir breyttum vinnubrögðum. Sigurjón á að baki langt nám í þeirri grein líffræði sem snertir þetta starfssvið og hefur lagt mikla vinnu heima sem erlendis í að kynna sér árangur fiskveiðistjórnunar og verið gagnrýninn baráttumaður fyrir breyttri og bættri stjórn fiskveiða. Nú auglýsi ég eftir því að Jón Bjarnason sýni pólitískan kjark og ráði pólitískan andstæðing í þetta umdeilda og þýðingarmikla starf.

Það er hinsvegar með hálfum huga sem ég skrifa þessa færslu. Sigurjón er afar vinsæll maður í sinni heimabyggð Skagafirði og núverandi formaður Ungmennasambands Skagafjarðar 


mbl.is Tólf sóttu um stöðu fiskistofustjóra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýr samningur eða enginn nýr samningur?

Ekki láta þeir að sér hæða stjórnmálaforingjar Íslands! Í svona smámáli sem varðar 2ja milljóna skuld á hvern Íslending er það alveg ljóst fyrir fjármálaráðherra að ekki þurfi að taka samninginn upp á ný. Á sömu lund liggur það alveg dagljóst fyrir foringja stærsta stjórnarandstöðuflokksins að þennan samning sem hann og flokkur hans hafa samþykkt að leggja fyrir Alþingi þurfi að þurfi að vinna upp á nýtt vegna fyrirvaranna sem viðsemjendur okkar muni ekki samþykkja.

Erum við ekki áreiðanlega með glögga stjórnmálaforingja til að drýgja þessari þjóð örlög inni á Alþingi?

Eða eru þetta kannski bara ómerkilegir lýðskumarar sem tala mikið en vita ekkert í sinn haus? 

Þarna er enginn efi í mínum huga.


mbl.is Samningnum í rauninni hafnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Augun þín blá....

Nú gengur yfir þjóðina fagnaðarbylgja vegna skeleggrar greinar Evu Joly um þau þrælatök sem IMF og þjóðir ESB beita okkur Íslendinga. Jafnvel þeir forhertu sjálfstæðismenn sem ærðust vegna ráðningar hennar og kölluðu hana smánarlegustu ónefnum hafa skipt um viðhorf sín til hennar og bera nú á hana lof umfram annað fólk. Þetta eru auðvitað með öllu eðlileg viðbrögð. Þeir fagna hverju því vopni sem beinist að ESB aðild og þar get ég verið þeim sammála. Jafnframt eru þeir hættir að óttast að rannsóknarstörf frúarinnar beri þann árangur sem þeir óttuðust svo mjög í upphafi. Þar er ég þeim líka sammála. Það ætti nefnilega nú að vera orðið öllum ljóst að enginn árangur mun nást í þessari rannsókn sem nokkru máli skiptir, enda svo vel um hnútana búið af ríkisstjórn Geirs H. með dyggum atbeina dómsmálaráðherrans Bj. Bj. sem skipuðu fólki í skilanefndir og skipuðu hinn "sérstaka saksóknara" að þar með var öllu óhætt. Ekki spillti heldur að sjálfstæðismenn voru búnir að hafa ráðuneyti dómsmála í eigin höndum lengur en elstu menn muna og skipa sínu fólki í flesta ef ekki alla dómstóla landsins.

Ég nefndi sérstakan saksóknara. Því verður víst ekki móti mælt að þar er um að ræða alveg sérstakan saksóknara að ekki sé nú meira sagt. Nú nýlega gaf hann þá yfirlýsingu að stjórnvöld ætluðust til þess að ákvæðinu um frystingu eigna væri beitt af alveg sérstakri gætni og yfirvegun! Og þá rifjast það upp fyrir manni að Steingrímur fjármálaráðherra hefur í það minnsta tvisvar lýst þeirri skoðun sinni opinberlega að hann telji að nú þegar liggi fyrir nægar sannanir til frystingar eigna vegna gruns um efnahagsbrot og ákærur því samfara! Hvaða stjórnvöld var Ólafur sérstakur að meina þegar hann talaði um varkárni í frystingu eigna?

En nú spyr ég mig: Hver ætli að hafi talið Evu Joly trú um að til þess væri ætlast af henni að hún hjálpaði til við að upplýsa um spillingu og refsiverð efnahagsbrot? Það hefur verið ljóti prakkarinn.


Steingrímur J. molbúinn og blóðmörsspýtan

Við lestur þessarar fréttar og eftir atburði gærdagsins á Alþingi kemur mér í hug sagan af Molbúanum og blóðmörsspýtunni sem ég las í bernsku. Sú saga greinir frá því þegar Molbúi nokkur reri til fiskjar sem oftar og hreppti storm. Lafhræddum kom honum í hug að strengja þess heit að ef hann kæmist heilu og höldnu í land skyldi hann aldrei framar éta blóðmör sem honum þótti auðvitað bestur matar. Eftir landbarninginn dróst hann örþreyttur til bæjar og þar fagnaði eiginkonan honum með nýsoðnum ilmandi blóðmör. 

Þetta þótti Molbúanum skelfileg hefnd forsjónarinnar og hugsaði nú ráð sitt glorsoltinn við ilminn af kræsingunum. Og honum tókst að blekkja forsjónina með klókindum. Það var allt í lagi að éta blóðmörinn ef hann sleppti vömbinni sem var utan um keppinn og nú reif hann i sig slátrið. En auðvitað sárlangaði hann í vömbina því honum hafði alltaf þótt hún öllu betri en slátrið. Keppurinn hafði verið þræddur saman með mjórri spýtu sem enn hékk við vömbina og nú leysti Molbúinn sig frá heitinu með því að heimfæra það á blómörsspýtuna og gleypti í sig keppinn með góðri lyst. Eftir lá blóðmörsspýtan og glotti kalt.

 Glæsileg og skelegg kosningabarátta Steingríms J. Sigfússonar nýliðið vor skilaði Vinstri grænum gæstri útkomu og fylgisaukningu langt umfram væntingar. Enginn efaðist um að einörð andstaða hans við aðildarumsókn í ESB átti þar ríkasta þáttinn og kom reynda engum á óvart þar sem þessi flokkur var eina stjórnmálaaflið sem sýndist einhuga í málinu. En nú tók við alvara lífsins þegar mynduð hafði verið "norræn velferðarstjórn" undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur sem hafði stýrt Samfylkingunni með inngöngu í ESB sem heitasta kosningamálið.

Og Steingrímur jarl af Gunnarsstöðum sem hafði vakið á sér þjóðarathygli og aðdáun þegar hann tók Davíð Oddsson til bæna og kallaði hann gungu og druslu úr ræðustól Alþingis settist auðmjúkur í kjöltu Jóhönnu Sigurðardóttur sem gerði honum það skiljanlegt að ef hjúskaparheit þeirra ætti að endast þá léti hann umsvifalaust af öllum rembingi útaf ESB umsókn Alþingis.

Steingrímur kom í ræðustól Alþingis fimmtudaginn 16. júlí 2009 og tilkynnti þjóðinni að hann væri enn einarður andstæðingur inngöngu Íslands í ESB en hann hefði ákveðið nauðugur og eftir langa innri baráttu að éta blómörskepp Jóhönnu Sigurðardóttur ásamt vömbinni-að sjálfsögðu. Hann sæi sig knúinn til að styðja aðildarumsókn Íslands til ESB.

Margir spá því nú að þessi pólitíski blóðmörskeppur verði sá síðasti sem hann étur í boði íslenskra kjósenda og nú muni hann fyrr en hann grunar verða látinn naga blóðmörsspýtuna. 


mbl.is Búið að sækja um ESB-aðild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Velkominn á bísann Björgólfur!

Öll þjóðin stendur agndofa yfir þeirri fregn að Björgólfur Thor Björgólfsson hafi lagt fram beiðni til Kaupþings banka þess efnis að bankinn gefi eftir þriggja milljarða skuld þeirra feðga vegna kaupanna á Landsbankanum. Þjóðin er agndofa vegna þess hroka og þeirrar siðblindu sem lýsir sér í þessari málaleitan feðganna sem horfðu aðgerðalausir á að allt fram á síðustu daga fyrir hrun bankans fóru starfsmenn hans-og þeirra hamförum við að ryksuga innistæðureikninga fólks og jafnvel líknarstofnana víðs vegar um heim. Hvað af þessum peningum varð veit enginn í dag en bankinn fór í þrot og rannsókn er í gangi.

Um allt það mál mætti skrifa bækur og reyndar hefur það nú þegar verið gert.

Það sem ekki minni furðu vekur er það að stjórn bankans er enn að skoða "tilboð" þeirra feðga en engin ákvörðun hefur ennþá verið tekin eins og fram kom í samtali fréttamanns Rúv við Finn Sveinbjörnsson bankastjóra í kvöldfréttum.  Þetta gengur ólíkindum lengra og erum við þó orðin ýmsu vön Íslendingar. Fólkið á götunni skilur nefnilega ekki hvað veldur því að Björgólfur Thor var ekki leiddur út úr bankanum með kurteisi eftir að hafa sýnt af sér slíkan hroka.

Upphæð sú sem um ræðir er að jafngildi því sem nægja myndi eitt þúsund heimilum til að rétta af skuldastöðu þeirra og gefa þeim framhaldslíf í samfélagi okkar. 

Eru fjölskyldur þeirra feðganna jafngildi meira en þúsund venjulegra fjölskyldna?

Þegar einstaklingur lendir í greiðsluþroti þá gildir sú einfalda regla að eftir að öllum innheimtuaðgerðum hefur verið fullnægt eru eignir seldar. Dugi þær ekki til að fullnusta kröfur er viðkomandi úrskurðaður gjaldþrota. Flóknara er málið ekki, það veit sá sem þetta ritar fullvel.

Þjóðin mun ekki horfa þegjandi á verði orðið við þessu tilboði Björgólfsfeðga, en orðalagið eitt og sér er blaut tuska í andlit þeirra einstaklinga sem beiðst hafa griða eftir afleiðingarnar af kollsteypu bankanna en verið synjað.

Ég tala ekki fyrir annara munn en eigin en ég hlýt að krefjast þess að banki í eigu ríkisins mismuni ekki fólki eftir stöðu eða stétt. Ég hlýt að krefjast þess að þeir Björgólfsfeðgar hljóti sömu meðferð og aðrir skuldugir Íslendingar. Og ég hlýt að krefjast þess að þeir, eftir öll þessi ár standi skil á öllu kaupverði Landsbankans og tel ekki seinna vænna. Dugi eignir þeirra ekki til eftir hefðbundnar innheimtuaðgerðir hlýt ég að krefjast venjulegra fullnustuaðferða og segi með orðalagi Bjartmars Guðlaugssonar söngvaskálds:

Velkominn á bísann Björgólfur! 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband