Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
4.7.2009 | 21:51
Lýst eftir þjófum!
Ætli nokkrum blandist hugur um þá einföldu staðreynd að þegar þjófnaður er framinn þá er þjófur í spilinu, einn eða fleiri. Nú stöndum við Íslandingar frammi fyrir því að ríkisstjórn okkar leggur fyrir Alþingi til staðfestingar samning um greiðslu til erlendra ríkja vegna skuldar sem myndaðist við þjófnað á peningum hundruða þúsunda borgara þessara ríkja. Þeir sem stálu þessum peningum voru íslenskir fjárglæframenn sem véluðu fólk til að leggja peninga inn í útibú íslensks banka.
Allt er þetta mál með slíkum ólíkindum að því verða ekki gerð viðhlítandi skil af leikmanni, enda blandast þarna inn í margir atburðir og gerningar sem teygja sig inn í stjórnsýslu okkar og opinber embætti.
Á morgun, sunnudaginn 6. júlí eru liðnir 9 mánuðir frá þessum atburði og þriðja ríkisstjórnin við völd. Enginn þjófur hefur verið tekinn fastur og settur í gæsluvarðahald. Þjóðinni er farið að skiljast að klókir menn á Íslandi geti með stuðningi óskiljanlegra laga um bankastarfsemi, bankaleynd og trúnað við vörslu mikilvægra upplýsingagagna stolið almannafé um hábjartan dag á milli kl. 9 og 16 án þess að nokkur sé fundinn sekur að lögum og dæmdur því samkvæmt.
Mér er ómögulegt að fallast á þennan skilning.
Nú vil ég að áður en íslenska ríkið samþykkir að borga Bretum og Hollendingum þá peninga sem íslenskir þjófar stálu af borgurum þessara ríkja verði þjófarnir leitaðir uppi, eignir þeirra gerðar upptækar til ríkisins og þeir dæmdir í nokkurra áratuga tugthús.
17.6.2009 | 10:28
17. júní
Gleðilegan þjóðhátíðardag!
Nú mun ríkisstjórn okkar senda grínara sinn á Austurvöll til að minnast frelsishetjunnar Jóns Sigurðssonar. Hvernig þar muni takast til með að segja frá því að nú sé búið að ákveða að selja fullveldi þjóðarinnar fyrir baunadisk? - það fáum við senn að heyra.
11.6.2009 | 16:53
Ansans misskilningur hjá Evu Joly
Þessi síðasta heimsókn Evu Joly sérstaks ráðgjafa við rannsókn á meintu misferli tengdu bankahruninu hefur vakið nokkurn óróa. Rétt er að rifja það upp að þessi kona var nær óþekkt á Íslandi fyrr en eftir að Egill Helgason bauð henni til viðtal í Silfrið og átti allt frumkvæði þar sjálfur. Eftir þetta viðtal þeirra Egils bauðst Eva til að hjálpa til við rannsókn þeirra mála sem tengdust hruni fjármálakerfisins en þeim rannsóknum hafði lítt miðað sem kunnugt er.
Stjórnvöld sáu sér ekki annað fært en að þiggja þetta boð enda voru þau farin að finna fyrir óróa í samfélaginu vegna þess að síendurteknar yfirlýsingar þeirra, digurbarkalegar um að hverjum steini yrði velt við í þessari rannsókn og það yrði gert snöfurmannlega báru engan árangur Því auðvitað gerðist ekki neitt enda ekki við að búast í samtryggingasamfélagi okkar. Stjórnvöld sáu þarna leið til að lægja þennan óróa og töldu nú óhætt að varpa öndinni léttar. Nokkrir sjálfstæðismenn ærðust að vísu við þau tíðindi að þessi voðamanneskja yrði látin fjalla um okkar viðkvæmu fjármálaviðskipti. Og nokkrir fóru skrefi fram fyrir þær almennu kurteisisreglur sem venjulega gilda um ritaðan texta á opinberum miðlum, í lýsingum sínum á þessu kvendi. Nokkrir halda enn uppteknum hætti eins og glöggt má sjá hér á þessum samskiptavettvangi.
En nú er Eva Joly komin til Íslands einu sinni enn og hefur haft orð á því að þessi ferð geti vel orðið hennar síðasta í þessum erindum. Hún komst nefnilega loksins að þeirri niðurstöðu sem þeim er þetta ritar er búin að vera ljós fyrir margt löngu og er þessi:
Það var aldrei til þess ætlast af íslenskum stjórnvöldum að vinna hennar skilaði neinu öðru en því að gefa rannsókninni þann trúverðuga stimpil sem á hana hafði skort frá fyrsta degi.
Það er þó vert að meta það í þessu sambandi að eigendur Stöðvar 2 lyftu hulunni frá andliti sínu í umfjöllun fréttamanna stöðvarinnar í gær. Eva Joly er ekki þeirra kærasti vinur.
Við því bjuggust reyndar fáir.
![]() |
Eva Joly er dínamítkassi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
4.6.2009 | 17:35
Hverjir eiga að hafa vit fyrir hverjum?
Sá maður er daufdumbur sem sér ekki hvílikt ástand er að þróast á Íslandi þessa dagana. Ég efast reyndar um að svo fatlaðir einstaklingar finnist. Færustu hagfræðingar innlendir sem erlendir takast á um það hvort skuldir ríkissjóðs séu yfirstíganlegt verkefni við hagstæð skilyrði. Vonandi að þeir bjartsýnu hafi rétt fyrir sér. En það þarf reyndar enga hagfræðinga til að sjá að til þess að það megi takast þarf tekjur, en með hverjum degi rýrna tekjur ríkissjóðs og skuldir aukast.
Hagræðing í rekstri þjóðarbúsins er sögð þurfa að vera 170 milljarðar á þessu ári og ríkisstjórnin er búin að hækka gjöld á eldsneyti og munaði sem talið er að auka muni tekjur ríkissjóðs um tvo milljarða ef vel tekst til með neyslu. Fyrir skuldug heimili kostar þetta 8 milljarða í hækkun vísitölu og verðbóta og biðja nú flestir Guð að hjálpa sér ef öll þessi 170 milljarða hagræðing skilar neytendum efnahagsvoða í hlutfalli við fyrstu tvo milljarðana.
Stýrivextir Seðlabankans lækkuðu um 1% í morgun sem segir okkur það að hraði gjaldþrota hjá fyrirtækjum og einstaklingum mun aukast á næstu vikum og var þó ærinn fyrir. Það bætir lítið stöðuna þó á svipuðum tíma hafi löngu dauður eðalkrati vitnast forsætisráðherra vorum í draumi og sannfært hana um að skuldir heimilanna væru nú bara hreint ekki svo skelfilegar!
Margir horfa nú til aukningar á strandveiðum fyrir deyjandi sjávarþorp og eins fyrir þá fjölmörgu sem leita nú leiða til að bjargast á eigin spýtur í verstu kreppu þjóðar vorrar á seinni tímum. Menn töldu sig hafa ástæðu til að trúa orðum núverandi og fyrrverandi sjávarútvegsráðherra sem hétu þessu í aðdraganda kosninga og fengu að líkindum nokkurt fylgi að launum.
Bent hefur verið á verulega aukningu þorskgengdar á grunnmið og það svo að kvótaskipting tegunda er orðin óleysanlegt vandamál fyrir sjómenn því þorskur yfirtekur öll veiðarfæri hvað sem reynt er til að ná öðrum tegundum. Bent hefur jafnvel verið á að nú eigi að gefa þessar veiðar frjálsar og án þess að innkalla kvóta í staðinn. Þessi ábending kom frá reyndum fiskifræðingi sem Hafró gat að vísu ekki notað vegna ágreinings um mikilvæg atriði. Á þeim sama tíma sem okkar fiskifræðingum tókst ekki að auka aflaheimildir hvað þá halda þeim í horfi kom þessi íslenski fiskifræðingur, Jón Kristjánsson Færeyingum til aðstoðar en þeir stóðu ráðþrota með þessa höfuðgrein atvinnu sinnar og lífsbjargar frá upphafi sinnar tilveru.
Færeyingar sem höfðu prófað íslenska kerfið í tvö ár skiptu yfir og tóku ráðgjöf Jóns Kristjánssonar alvarlega. Nú eru þeir búnir að byggja sína stofna vel upp og allir eru himinlifandi, jafnt stjórnvöld sem samtök sjómanna. Þeir minnast með hryllingi þeirra tveggja ára sem þeir nutu brottkasts-og tortímingarstefnu Hafró.
Nú stendur upp á Jón Bjarnason sjávarútvegs-og landbúnaðarráðherra. Hann hefur fengið tölvupóst frá mér um þessi mál en ekki svarað þeim Hann hefur fengið grein Jóns Kristjánssonar senda en svarar honum ekki einu orði svo mér sé kunnugt. Mér kemur í hug að hann hafi talað við einhverja aðra sem hafi sagt honum að láta það ógert að ræða við þennan voðamann. Þetta sé nefnilega allt saman lygi og nú séu allir stofnar að hrynja í Færeyjum. Það er pólitískt hagsmunamál að henda fiski í hafið á Íslandi. Og það er pólitískt hagsmunamál nokkurra kvótaeigenda að halda skortstöðu í aflaheimildum svo kvóti falli ekki í verði. Og kannski tekst þeim í dag í Vestmannaeyjum að telja Jóni Bjarnasyni trú um að Færeyingar hafi enga hugmynd um hvað þeim sé fyrir bestu.
Ég held að vanhæf ríkisstjórn sé ekki rétt orðalag um ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms. Ég tel hana mjög vel hæfa til að koma því í framkvæmd sem ég er farinn að trúa að sé hennar ætlunarverk. Ég leyfi mér ekki að skýra það nánar en ég sé það fyrir mér að haldi fram sem horfir þá muni ríki ESB koma til með að þakka þessum stjórnmálamönum og IMF að verðleikum fyrir vel unnin störf.
12.4.2009 | 20:28
Sigurður Gísli Pálmason með páskahugvekju
Þetta sinnið ætla ég ekki að reyna að vera gáfulegur á eigin forsendum. Ég vil hinsvegar vekja athygli á viðtali í laugardagsblaði Fréttablaðsins. Þar ræðir Björn Þór Sigurbjörnsson við Sigurð Gísla Pálmason framleiðanda heimildarmyndarinnar Draumalandsins. Sigurður Gísli er sem kunnugt er sonur Pálma í Hagkaup og auk þess vel þekktur um langt skeið úr íslensku fjármála-og viðskiptalífi.
Í viðtalinu fer Sigurður Gísli ítarlega yfir helstu þætti þeirrar hugmyndafræði sem unnið var eftir á landi voru á útrásarskeiðinu svonefnda og í aðdraganda þess allt til þessa dags. Þetta er eins konar Íslandssaga 21. aldarinnar á breiðum grunni. Í stuttu máli gleggsta og skarpasta úttekt um þetta flókna efni sem ég hef séð. Og þó viðtalið nái yfir nokkuð á þriðju síðu í blaðinu er þar hvergi orði né setningu ofaukið. Lengst staldraði ég við stuttar hugleiðingar S.G. um hagvöxtinn, þetta skondna hugtak sem grínarar í hagfræði fundu upp til að glæða pólitík græðginnar vísindalegu yfirbragði og alþjóðlegu.
Meistaraleg og auðskilin leiðsögn til skilnings á aðalatriðum þegar horft er yfir rústir efnahags þjóðar með sjálbærar leiðir til þróttmikils samfélags í öllum góðum skilningi.
Þessi grein er skyldulesning og það á að lesa hægt og vandlega orði til orðs.
Þetta eru lög og þeim á að hlýða skilyrðislaust.
10.4.2009 | 21:12
Hvaða leikrit er í gangi?
Fáeinir dagar eru liðnir síðan þjóðin var upplýst um að Sjálfstæðisflokkurinn hefði þegið tugmilljóna styrki frá Landsbankanum og Fl Group. Engum kom þetta á óvart en í herbúðum Flokksins var því líkast sem Valhöll hefði orðið fyrir árás hryðjuverkamanna. Andstæðingar í pólitík héldu þessu líka mjög á lofti og höfðu á orði meira en venjulega að þarna hefði hin spillta ásýnd Sjálfstæðisflokksins loksins verið afhjúpuð fyrir allra augum. Allir Íslendingar hafa vitað svo lengi sem ég man til að pólitískt starf þessa flokks hefur verið fjármagnað af auðmönnum og stórfyrirtækjum í verslun og atvinnulífi.
En tímasetningin var grábölvuð. Flokkurinn er í sárum vegna beinnar pólitískar aðildar að hruni þjóðarbúsins þar sem hugmyndafræði hans beið skipbrot á meðan formaður flokksins svaf á verði og sinnti ekki viðvörunarbjöllum. 81 milljón nokkrum dögum áður en stjornmálaflokkar höfðu bundist samtökum um að setja huggulegt hámark á greiðslur frá fyrirtækjum og einstaklingum var auðvitað ekki gott innlegg í kosningabaráttu flokks með nýjan foringja og hvítskúrað stofugólf.
Nú þurfti einhver að axla ábyrgð! Fráfarandi formaður ringlaður eftir svæfingu á erlendum spítala sagðist einn og óstuddur bera ábyrgð á þessum ósköpum öllum og nú róuðust menn um stund. Auðvitað hafði enginn, ekki nokkur maður vitað af þessum hræðilegu hlutum nema gamli Geir. Nýi formaðurinn gaf tímamótayfirlýsingu. Hann sagðist telja að þetta gengi alltof langt, svona lagað ætlaði hann ekki að líða. Og hann sagðist ætla að skila öllu helvítis milljónadraslinu eins og skot. Flokksmenn táruðust og sögðu að Bjarni væri höfði hærri en aðrir menn, þrjár álnir og ein þrjú kvartil um herðarnar.
Ekki dugði þessi hvatleiki formannsins og óhagganleg hárgreiðsla því nú fóru flokksmenn að æmta og sögðust ekki trúa að enginn hefði vitað um þetta nema einhverjir bjánar sem svo segðust ekkert hafa vitað og nýi framkvæmdastjórinn sem tók við um áramótin þegar greiðslurnar bárust vissi ekkert hver hefði beðið um þessar fjandans milljónir sem betur hefðu farið í gám. Hann skammaðist sín svo mikið fyrir að hafa ekki vitað um ábyrgðarmenn glæpsins að hann sagði umsvifalaust af sér. Gamli framkvæmdastjórinn sagðist ekki hafa komið nálægt þessu árans móverki og sagðist nú fyrir stundu vera búinn að upplýsa allt, dauðþreyttur úr vorverkum á búi sínu vestur á Barðaströnd. Spurður um hver hefði undirritað reikninga fyrir umrætt ár sagði hann endurskoðendur hafa gert það og hans undirritun- sem hefði að vísu verið á blaðinu hefði ekki náð yfir lengri tíma en þann sem hann stýrði framkvæmdum.
Nú fundar nýi formaðurinn með þingflokknum og þjóðin bíður með öndina í hálsinum eftir því að "fá að vita" hverjir báðu um þessar milljónir og hverjir vissu barasta um þær!!!!!
Og brátt mun það koma í ljós að í stærsta stjórnmálaflokki landsins sem fékk nokkra tugi milljóna kominn í sára fjárþröng vissu bara ekki nema svona einn eða tveir menn um að flokknum höfðu áskotnast 60 milljónir frá tveimur góðvinum. Og þeir munu fá stranga áminningu frá grandvörum stjórnarmönnum flokksins. Og svo verða þeir auðvitað látnir axla ábyrgð!
Auðvitað er þetta þvílík hringavitleysa mótsagna og heimskulegra skýringa að enginn maður mun nokkru sinni trúa neinu orði í hvítbókinni sem nú er hraðrituð. Og maður hlýtur að spyrja sig til hvers og fyrir hverja menn eru að eyða tíma í svona misheppnað leikrit.
6.4.2009 | 21:36
Vítaverð fréttafölsun.
![]() |
Þingfundur hafinn á ný |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.3.2009 | 00:49
Að axla ábyrgð
Ábyrgð er gildishlaðið orð umfram flest önnur orð íslenskrar tungu. Þetta orð sem flestum ætti að vera auðskilið hefur þó verið misnotað og merking þess ómerkt svo hroðalega í pólitískri umræðu undangengin missiri að undrun sætir. Þessi flutningur orðsins frá raunverulegri merkingu er þá bundin ályktuninni um að einhver tilgreindur stjórnmálamaður hafi axlað ábyrgð.
Nú eru þess fá dæmi að íslenskur stjórnmálamaður hafi axlað pólitíska ábyrgð og reyndar svo fá að nöfn þeirra manna hafa geymst í hugum fólksins. Ábyrgð merkir að sjálfsögðu það að sá sem hana undirgengst tekur umsvifalaust afleiðingum ef á hann fellur ábyrgð vegna vanrækslu eða þá að utanaðkomandi aðstæður hafa varnað honum þess að standa undir ábyrgðinni.
Flestir kannast við ábyrgð skipstjóra og annara yfirmanna á skipum sem bera í raun ábyrgð á afdrifum skips og áhafnar. Það hefur lengi verið þekkt að í skipsskaða gengur skipstjóri síðastur frá borði. Hann axlar ábyrgð. Margir muna enn til þess er Carlsen stýrimaður á flutningaskipinu Flying Enterprise fylgdi skipinu á reki eftir að það hafði laskast og rak stjórnlaust á rúmsjó dægrum saman. Hann neitaði að yfirgefa skipið á meðan enn væri von um að því mætti bjarga.
Sögnin "að axla" merkir það að maður tekur upp byrði og leggur hana á öxl sér eða axlir. Stjórnmálamaður sem gerir afdrifarík mistök í starfi og viðurkennir mistök sín undanbragðalaust jafnframt því að biðjast afsökunar og stíga til hliðar og afhenda umboð sitt refjalaust axlar ábyrgð. Sá stjórnmálamaður sem gerir mistök en neitar að viðurkenna þau og þumbast við þar til hann að einhverjum tíma liðnum hrekst úr pólitíkinni eins og laminn rakki hefur ekki axlað neina ábyrgð. Sú persóna hefur orðið stétt stjórnmálamanna til vansæmdar.
Og ekki má svo gleyma þeim tilvikum þegar stjórnmálamður er dreginn til ábyrgðar eftir langa og hrokafulla afneitun. Dæmi eru um að það sé af flokksvináttu kallað að axla ábyrgð.
Í aðdraganda þeirra efnahagslegu hörmunga sem yfir þjóðina dundu síðastliðið haust gerðu margir stjórnmálamenn og opinberir embættismenn mörg og afdrifarík mistök. Þar hafa þó flestir móast við að viðurkenna neitt í þá veru. Nokkrir eru nú að hverfa frá pólitískum störfum og aðrir hafa dregið sig út úr mesta sviðsljósinu ósköp hljóðlega. Mánuðir liðu þar til einn og einn fór að tínast fram og viðurkenna að hann hefði kannski verið í hópi þeirra fjölmörgu sem hefðu líklega átt að gera einhverja hluti svona einhvern veginn öðruvísi!
Íslenskir stjórnmálamenn, stjórnmálaskýrendur og fjölmiðlastarfsfólk þurfa hið bráðasta að kynna sér merkingu þess að axla ábyrgð áður en þetta hugtak verður misnotað meira en orðið er.
10.3.2009 | 00:34
Umhverfis sannleikann á 80 dögum Jóhönnu og Steingríms og spjall Evu Joly við Egil Helgason
Viðtal Egils Helga við Evu Joly á Silfrinu var ein opinberunin enn um vanburði íslenskra stjórnvalda við rannsóknina á efnahagshruninu. Óþarft er að rekja þetta samtal sem öll þjóðin fylgdist með. Upp úr stóð að í enda samtalsins lýsti rannsóknarlögmaðurinn því yfir að hún væri reiðubúin til að koma að rannsókn á aðdraganda málsins og gæti auk þess sent okkur menn með yfirgripsmikla þekkingu og reynslu við rannsókn hliðstæðra mála. Fram kom að hún hygðist ræða við stjórnvöld okkar og þá aðila sem nú stýra þessu verki.
Látum okkur dreyma! Sjálfur hef ég ekki minnstu trú á að þetta boð verði þegið. Og ástæðan er einfaldlega sú að íslenskir pólitíkusar óttast ekkert meira en það að þessi mál verði upplýst. Eva Joly greindi frá því að reynslan sýndi að algengast væri að stjórnvöld tefðu fyrir rannsóknum með allskyns girðingum og meintir sakamenn í efnahagsbrotum væru verndaðri en sjálfur páfinn.
Íslenska þjóðin stóð agndofa yfir tómlætinu við rannsókn bankahrunsins í tíð fyrrverandi ríkisstjórnar. Öll þau endemi eru líklega heimsmet.
Fróðlegt verður að fylgjast með því hvernig Heilög Jóhanna og Steingrímur erkibiskup af Öxarfirði bregðast við þessu höfðinglega boði um raunverulega rannsókn á umfangsmestu efnahagsbrotum í gervallri Evrópu á sögulegum tíma.
7.3.2009 | 18:39
Af Kambránsmönnum, Þorleifi á Háeyri og þjófaættum.
Eitt umtalaðasta sakamál nítjándu aldar var Kambránsmálið svo nefnt og vísar til þess er þrír ræningjar brutust inn í bæinn á Kambi skammt frá Eyrarbakka nóttina 9. febrúar árið 1827 og rændu peningum bóndans eftir að hafa bundið heimilisfólkið. Eftir langar vitnaleiðslur upplýstist hverjir þar voru að verki og voru þeir allir dæmdir til langrar refsingar í Kaupmannahöfn. Tveir þessara manna, þeir Hafliði og Jón Kolbeinssynir voru bræður hins þekkta kaupmanns Þorleifs á Háyri á Eyrarbakka.
Þorleifur, sem lengst af var nefndur Þorleifur ríki f. 1799, d. 1883 var lengi nafnkenndur maður á Suðurlandi og reyndar frægur í sögum um land allt. Þorleifur rak lengi verslun á Eyrarbakka og auðgaðist vel eins og viðurnefnið bendir til enda talinn fégjarn og harðdrægur í viðskiptum. Af viðskiptum hans gengu sögur auk þess sem mörg tilsvör hans urðu fleyg.
Í fyrsta bindi ævisögu Árna prófasts Þórarinssonar er stuttlega greint frá Þorleifi, en Ingunn móðir hans Magnúsdóttir (langamma mín) var í húsmennsku hjá Þorleifi árið eftir að hún missti eiginmann sinn.
"Ræddu þau þá margt saman. Meðal annars bar á góma Kambránsmálið. Þorleifur sagði að það hefði verið heimska af bræðrum sínum að fara í Kambsránið.- "Þeir báðu mig að vera með. Ég vildi það ekki. Það var ekki ef samviskusemi, heldur af hyggindum. Ég vildi verða ríkur. En ég hef tekið eftir því að þjófar verða aldrei ríkir. Þeir afla mikils og hætta svo að vinna og bíða eftir nýju tækifæri. Þetta gefur enga hamingju. Svo leggst þetta í ættir. Og það myndast þjófaættir, og þær verða fátækar og hamingjusnauðar. Ég vil verða ríkur. En ég vil verða það fyrir allra augum. Öll leynd er fyrirlitleg".
Öll leynd fyrirlitleg sagði Þorleifur ríki og grunaði þá ekki að að eftir meira en hálfa aðra öld skjóta auðmenn á Íslandi milljörðum króna undir bankaleynd á afskekktum eyjum í fjarlægum löndum. Hvort þetta fé var allt vel fengið á eftir að koma í ljós við frekari rannsókn. En hvernig sem dómstólar koma til með að dæma í þeim málum þá munu margir hafa efasemdir um ókomna tíð.
En óskaplega er ég hræddur um að nú séu að myndast þjófaættir á Íslandi.
Það væri mikil ógæfa.
![]() |
Lánuðu sjálfum sér milljarða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |