Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
25.7.2008 | 21:46
Sínum augum lítur hver á silfrið
Ólöf Nordal sem mig minnir að sé varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í N-A kjördæmi skrifar hugljúfa grein og rómantíska í gær í Morgunblaðið. Þar segir hún frá ferðalagi sínu til Akureyrar og því sem þar bar merkilegast fyrir augu. Hún sá seglskútu úti á Skjálfandaflóa og þetta fannst henni notaleg upprifjun á sögú gamalla tíma fiskveiða við Ísland. Notaleg grein að sönnu og góður texti að vonum.
Degi fyrr segir Jón Kristjánsson fiskifræðingur ferðasögu í Fréttablaðinu. Sú saga var ekki síður merkileg og bráðvel skrifuð sem hin. En þar skorti alveg hinn rómantíska hugblæ í innihaldið. Í stuttu máli hófst sagan á Breiðdalsvík þar sem trillurnar móktu við bryggju, engin sást úti á miðum í blíðunni. Sömu sögu var að segja á öllum fjörðum alla leið til Akureyrar. Alls staðar hafði hin dauða hönd fiskveiðistjórnunar okkar borið þann árangur sem hver stjórmálamaður hefur undir annars hönd gengið til að lofa og lýsa pólitískum kjarki sjávarútvegsráðherra að viðhalda.
Nú er svo komið að flest fiskimið okkar eru full af vænum þorski. Vonandi fer ekki svo illa að fiskitorfurnar kafni úr súrefnisskorti líkt og í fyrra á Arnarfirði.
Jón fiskifræðingur leggur til að nú stóraukum við veiðar á þorski. Hann bendir á að við eigum að reka þjálfarann! Knattspyrnulið reka þjálfara sína eftir slakt gengi. En Íslendingar hafa sterkari skoðanir á knattspyrnu en fiskveiðstjórn í dag. Og varaþingmaður Sjálfstæðisflokks hefur meiri áhuga á seglskútu með ferðamenn en lífsbjörg fólksins í kjördæminu.
23.7.2008 | 16:42
Pólitísk vitrun ungra frjálshyggjumanna opinberast í viðtali
´"Markaðurinn" er nafnið á kálfinum sem fylgir Fréttablaðinu í dag. Þar eru birtar hinar margvíslegu fréttir um ástand makaðsmála og jafnframt stöðuna í dag í efnahagsmálum þjóðarinnar. Þar er meðal annars viðtal Björns Inga Hrafnssonar við tvo unga þingmenn Sjálfstæðisflokksins, þá Illuga Gunnarsson og Bjarna Benediktsson. Margt er þarna auðvitað athyglivert eins og gefur að skilja þar sem þarna eru í viðtali þeir tveir fulltrúar markaðshyggjunnar sem flestra sjónir beinast að sem álitsgjafa um hinn eina sannleika í fjármálapólitík. Ekki nennti ég að leggjast yfir þetta spjall en las nóg til að sjá að þeir viðurkenndu þá bitru staðreynd að hagstjórnarmistökum væri um að kenna hvernig komið væri. Ekki nennti ég að lesa nógu langt í þessum pistli til að sannfærast um að þessi hagstjórnarmistök væru Vinstri grænum og/eða Frjálslynda flokknum að kenna. Minni bara á það hér að þingmenn beggja þessara flokka vöruðu margsinnis við því á Alþingi hvaða hætta væri yfirvofandi. Þessar viðvaranir byggðust ekki á vitrunum heldur skynsamlegu mati á ástandi. Öllu þessu höfnuðu þeir Illugi og Bjarni með alvörusvip. Nú bíð ég þess að flokksbræður þessara pilta taki til máls og mæri þá fyrir ábyrgan málflutning í blaði markaðsins!
Líkt og venjulega munu þeir einir sem engan þátt áttu í þessum "mistökum" verða að bera þungann af þeim í versnandi lífskjörum og fjöldagjalþrotum heimila.
18.7.2008 | 23:14
Hagspeki, kvótabrask og Einar í Hvalnesi
"Ásgeir sagði í samtali við Fréttablaðið eftir málþingið að allar tilraunir til að þröngva sjávarútvegi í þann farveg að viðhalda núverandi byggðamynstri myndi hola atvinnuveginn að innan.-" Af hverju er það slæmt að fimm stór fyrirtæki eigi 80% af aflaheimildunum? Ef þau geta borgað sæmileg laun, borgað sína skatta, geta skilað sínu og búið til verðmæti er ekkert að því," sagði Ásgeir þá.
Þá sagði hann enga skynsamlega ástæðu fyrir banni í fjárfestingum erlendra aðila í sjávarútvegi. Óþarfi væri að óttast að sjávarútvegsfyrirtæki yrðu stór, kraftmikil og alþjóðleg."
Hér er vitnað í fréttaskýringarpistil í Fréttablaðinu á dag um sjávarútveg og byggðamál. Ásgeir þessi er Ásgeir Jónsson forstöðumaður greiningardeildar Kaupþings.
Einar Eiríksson frá Hvalnesi var þóðsagnapersóna og hálftröll. Hann létti búskap í Hvalnesi í Lóni og gerðist umsvifamaður í verslun og fiskverkun á Hornafirði. Í viðtali hans við Stefán Jónsson fráttamann um efnahagsmál þjóðarinnar á breiðum grundvelli sagði hann hagfræðingana vera vitlausustu menn þjóðarinnar. Þessi skilgreining Einars var rétt í mörg ár eða allt þar til fiskifræðingarnir tóku sér sæti við hlið hagfræðinganna.
Ásgeir Jónsson er í starfi hjá Kaupþingi sem á þinglýst veð í óveiddum fiski kvótagreifanna. Hvernig ætli fólki yrði við ef vopnasérfræðingur hjá voldugum vopnaframleiðanda færi að skrifa lærðar greinar um friðarmál?
14.6.2008 | 20:33
Kraftur frumkvöðlanna
Háskólinn í Reykjavík er framsækin menntastofnun að sögn þeirra sem stjórna. Þaðan útskrifuðust með próf í dag 423 nemendur. Þúsundir nemenda útskrifast nú árlega úr Háskólum okkar og er það vissulega gleðiefni. Menntun er besta fjárfesting þjóðarinnar að flestra dómi og því ætla ég að vera sammála. Stundum velti ég því reyndar svolítið fyrir mér hvort ævinlega sé tryggt að akademiskur lærdómur sé ávísun á menntun í góðum skilningi. Ég er ekki ennþá alveg sannfærður um að svo sé.
Á einni hlið húsnæðis Háskóla Reykjavíkur standa letruð stórum stöfum orðin:
Frumkvöðlakraftur er góður starfskraftur
Nú leyfi ég mér að vona að þeir tímar séu bráðlega að baki eins og ljótur draumur að íslenskir háskólaborgarar sjái ekki aðra kosti fyrir okkur Íslendinga til framtíðar en þessa þrjá sem svo lengi hafa verið í umræðunni.
Álver, olíuhreinsunarstöð eða fjallagrasatínslu.
5.6.2008 | 16:47
Glæpir borga sig aldrei
Komin er niðurstaða í Baugsmálið og í ljós kom eftir 6 ára baráttu réttvísinnar að hinir ákærðu eru sekir.
Ekki treysti ég mér til að taka til nákvæmra lögskýringa og ber fyrir mig sömu ástæðu og hlutaðeigandi lögmenn; semsagt það að ég hef ekki lesið dóminn ennþá!
Þó sýnist mér að afleiðingin geti verið sú fyrir Jón Ásgeir að nú verði hann að gæta sín næstu 3 mán. og stilla sig um að hnupla súpu í Bónusverslun.
En í alvöru talað:
Mitt mat er það að í yfirfærðri merkingu jafngildi þessi dómur opinberri hýðingu á beran bossa þeirra sem að ákærunni stóðu og hafa nú aflað þjóðinni tjóns upp á hundruð milljóna.
En auðvitað kláraði ég aldrei lögfæðina.
![]() |
Dómar staðfestir í Baugsmáli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
31.5.2008 | 08:18
Tilhlökkunarefni!
Og þá hefst hún á ný þessi menningarlega umræða um "hina svokölluðu náttúruverndarsinna."
Og hvort íslenska þjóðin eigi að snúa til baka inn í moldarkofana og rífa í sig fjallagrös.
Því auðvitað verða ekki aðrir kostir í stöðunni ef við hættum að virkja og byggja álver.
![]() |
Björk og Sigur Rós með útitónleika í Reykjavík |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.5.2008 | 22:31
Milljón á mánuði!
Ætli ég sé einn um það að koma ekki auga á árangur allrar þessarar þekkingar sem fulltrúar okkar í borgarstjórn sóttu út fyrir landsteinana á síðasta ári?
Þetta gæti hafa snúist um staðfestu í vinnubrögðum og trúnað milli manna.
Nú, eða kannski skipulagða uppbyggingu elstu borgarhverfa, bætta ásýnd og verndun ímyndar.
Útrásarátök borgarfyrirækja til vanþróaðra ríkja.
Jafnvel ákvörðunartöku um bættar samgöngur með mislægum gatnamótum!
En nú kemur mér í hug að líklega mætti bæta líðan nokkurra illa staddra barna fyrir milljón á mánuði!
![]() |
Ferðakostnaður borgarfulltrúa 12,2 milljónir í fyrra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.5.2008 | 23:47
"Trúverðugleikinn skiptir öllu."
Í spjalli Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur við blaðamann Fréttablaðsins, sem birtist í dag og snýst um framboð Íslands til setu í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna er þetta niðurlag:
"Það er afar mikilvægt að við sem þjóð séum trúverðug, og ímynd landsins sé góð út á við. Við sjáum það bara nú þegar óróleiki er á fjármálamörkuðunum. Þetta snýst allt um trúverðugleika, ímynd og ásýnd. Það verðum við að passa upp á."
Það gleður mig að lesa þetta, því það segir mér að nú muni ríkisstjórnin bregðast hratt við úrskurði Mannréttindanefndar S.þ. í máli sjómannanna tveggja. Það er nefnilega hárrétt hjá utanríkisráðherranum að við verðum að halda trúverðugleika okkar hjá alþjóðastofnunum.
Fyrst og fremst hlýtur það að vera mikilvægt ef við ætlumst til þess að einhver taki mark á framboði okkar i öryggisráðið.
4.5.2008 | 21:02
Eldfim umræða sem gæti framlengt harmleikinn
Þessi skelfilegi harmleikur hefur yfirtekið umræðu fjölmiðla síðan fréttin barst og undrar víst engan. Og þó flestum hljóti að vera það ljost að í rauninni ná engin orð að tjá það sem flýgur í gegnum hugann þá verður að gefa þessum atburði það rúm sem hann þarfnast. Það kynni að minnka líkurnar á að hann endurtaki sig. Það er nefnilega óhugnanlegt til að vita að þetta gerist nánast í viðurvist nágranna og leigjenda á 24 ára tímabili.
Þarna hefur brenglast skilningurinn á því hvað er hnýsni og hvað samfélagsleg eftirlitsskylda.
Nú er það dapurleg staðreynd að þvi dýpri sem þjáning og ógæfa fólks er, þeim mun meira þurfa fjölmiðlar á því fólki að halda.
Þess vegna óttast ég nú mjög að fréttaljósmyndarar sitji eins og hrægammar um þessi vesalings börn og móður þeirra í því skyni að gera þau að söluvöru.
Fátt er þeim dýrmætara en að fá tækifæri til að hverfa í fjöldann og gleymast.
![]() |
Fjölskylda Fritzls á valdi óttans |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
30.4.2008 | 13:24
Að afþíða smokkfisk
Eftir mínum málskilningi er ferlíkið ófrosið ef á að afþíða það. Þar með sýnist mér að vísindamennirnir ætli að frysta skepnuna til að geta skoðað hana betur!
En auðvitað er þetta útúrsnúningur hjá mér eða stríðni, því þessi vitleysa er orðin föst í málinu.
Svona ámóta og að fæst er núna þítt í versluninni eða ísskápnum heldur þiðið, sem er auðvitað málbrenglun. Og sumum verður þessi vileysa að yrkisefni eins og eftirfarandi saga greinir frá:
Hjálmar Freysteinsson læknir frá Vagnbrekku í Mývatnssveit er góður hagyrðingur og voðamaður ef hann beitir þeirri íþrótt af ógætni. Eitt sinn kom hann inn í matvörubúð og bað afgreiðslustúlkuna um frosið nautahakk. Stúlkan upplýsti hann um að frosið hakk væri ekki til því það væri allt orðið þiðið.
Innræti Þingeyskra hagyrðinga kemur alltaf best í ljós ef þeir geta beitt varnarlaust fólk þessum hæfileika sem auðvitað er jafn vandmeðfarinn og kvensemin. (Af henni eiga þeir nú reyndar líka nóg.) En Hjálmar kvaddi stúlkuna með eftirfarandi vísu:
Merkilegt er málfarssviðið,
má það teygja breitt og vítt.
Nautahakkið þitt er þiðið
og þér hefur sjálfsagt verið rítt.
Bloggari ritar vísuna eftir minni og ber ábyrgð á leturbreytingum.
![]() |
Risasmokkfiskur affrystur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |