Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
7.11.2010 | 18:24
Afi minn fór á honum Rauð
Það var farið vandlega yfir pólitísk viðfangsefni í Sifri Egils í dag. rétt einu sinni. Það varð hrun á Íslandi í stóru samhengi 6. október 2008 og nú erum við á ríkisstjórn nr. 2. Hversu oft er búið að taka þessi mál til umfjöllunar á hinum ýmsa vettvangi; útvarpi, sjónvarpi allra rása og á fjöldafundm um allt land síðan og hvað hefur unnist- hvar stöndum við í dag?
Það kom í ljós að ríkisstjórn Geirs Haarde var með viðbragðsáætlun tilbúna síðan í maí 2008! En á þeim klukkustundum sem hrunið varð að veruleika var allt- blátt áfram allt unnið vitlaust, af heimsku, örvæntingu og í þokkabót einhverri undarlegri bjartsýni um að Guð væri nú þrátt fyrir allt með þessari þjóð og með hans hjálp og Davíðs Oddssonar hlyti nú allt að fara vel að lokum.
Enn erum við að bögglast með Icesave bullið sem við gátum losnað við fyrstu viku okt. 2008 fyrir 40 milljarða íslenskra króna.
Og enn er skuldavandi heimilanna óleystur, enn er blátt áfram andskotann allt í rugli og enn eru blikur á lofti um að óleysanlegum greiðslukröfum verði hellt inn á sameiginlegan sjóð landsmanna.
Hvað er eiginlega í gangi? Höfnin við Bakkafjöru er líklega sá viti sem þjóðin getur miðað við alla okkar stjórnsýslu í dag. Að dæla sandi til að mynda pláss fyrir meiri sand. Bakkabræður voru miklu betri verkfræðingar en verkfræðingar Siglingamálastofnunar á Íslandi en þó hlær þjóðin enn að Bakkabræðrum- af hverju?
Þegar ég var srákur og áratugum fyrr og áratugum síðan lærðu öll börn á Íslandi vísuna: "Afi minn fór á honum Rauð/ eitthvað suðrá......." Þetta var notalegt og börn róuðust við að hlusta á það raulað.
Í dag er komið annað stef inn á heimili Íslands. Þetta stef er stirt og klúðurslegt; það byrjar svona: "Skuldavandi heimilanna." Ég held að þetta rói engin börn og þó allra síst foreldrana.
Það eru 23 mánuðir síðan hrunið varð á Íslandi.
Birgitta: Almennar aðgerðir fyrir suma | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
4.11.2010 | 11:15
Yfirlýsing! Mæti ekki á Austurvöll í dag
Þrátt fyrir að vera sammála þeirri kröfu að rikisstjórnin lýsi yfir uppgjöf við að leysa aðsteðjandi verkefni hef ég ákveðið að sitja heima í dag. Ég nenni einfaldlega ekki að taka þátt í skrípaleik.
Það er alls ekki útilokað að þúsundir fólks með tunnur, barefli, hávaða og kröfuspjöld nái fram þeirri kröfu að ríkisstjórnin hrökklist frá á næstu vikum en það bara nægir mér ekki. Við þurfum nefnilega starfhæfa ríkisstjórn sem nýtur meirihluta Alþingis og að auki nýtur trausts þjóðarinnar.
Er það í boði?
Nei, það er ekki í boði í dag. Mér er það óskiljanlegt að þúsundir kjósenda vefji sig dúðum til að krefjast nýrra og heiðarlegra vinnubragða í stjórnsýslu en sýni hvorki vit né burði til að sameinast um nýtt forystufólk.
Hvað sjáið þið fyrir ykkur að komi í staðinn fyrir þessa ríkisstjórn? Starfsstjórn mun ekki verða skipuð til langrar framtíðar enda mun hún ekki gera nein kraftaverk. Margir óttast það í dag að verði kosið til Alþingis fljótlega þá muni Sjálfstæðisflokkurinn ná meirihlutaaðstöðu og allt frjálshyggjusukkið með tilheyrandi einkavinavæðingu hefjast á ný. Þetta finnst mér eðlilegur ótti.
Fólk sem hefur þrek til að standa á Austurvelli berjandi tunnur og öskrandi ókvæðisorð til stjórnvalda hefur ekki þrek til að koma saman á fundi og stofna ný stjórnmálasamtök! Nei, fólk vill bara fá eitthvað óljóst, öðruvísi, kannski einhvern Jón Gnarr.
Já, eða kannski bara Sjálfstæðisflokkinn aftur.
Öskrið nú bara ykkur til hita í dag og að loknu góðu dagsverki farið þá heim.
Og skammist ykkar!
28.10.2010 | 00:23
Að loknum opnum borgarafundi á vegum Hreyfingarinnar
Það er ný og ánægjuleg lífsreynsla að koma glaður og bjartsýnn af fundi á þessum tíma eymdar, ráðleysi og vonleysi. Fundurinn sem Hreyfingin boðaði til í kvöld á Kornhlöðuloftinu við Lækjarbrekku var vel sóttur og þar voru ekki háværastar raddirnar um svartnætti fjölskyldna og neyðarviðbrögð.
Vissulega fór þó fyrsti hluti fundarins í þessa umræðu ásamt því að kallað var eftir fulltingi forseta Íslands til að forða þjóðinni frá því dæmalausa vandræðaliði sem nú situr til þess eins að sitja.
Það sem gladdi mig mest var að hlusta á þær mörgu og fjölþættu hugmyndir til atvinnusköpunar sem þarna komu fram og þá bjargföstu trú fólksins að tækifærin væru óþrjótandi. Enginn ræðumaður minntist orði á stóriðju eða álver nema þá sem úreltar hugmyndir sem í dag væru ekki umræðunnar virði. Þarna var breiður hópur fólks af báðum kynjum og allt frá æskufólki til ellilífeyrisþega. Þarna var fólk úr öllum stéttum og hugmyndirnar voru fleiri en svo að umræða gæti skapast um þær að nokkru ráði.
Mikið óskaplega var þetta ánægjuleg reynsla.
Ég leggst bjartsýnn til svefns í kvöld og þakka af alhug öllu því ágæta fólki sem deildi með mér þessum tveim klukkutímum djarfhuga baráttuvilja.
Hreyfingin er komin til að vera sem stjórnmálaafl á Íslandi.
21.10.2010 | 21:29
Land tækifæranna
Ísland er greinilega orðið spennandi viðfangsefni fyrir þá útlendu gesti sem við buðum svo hjartanlega velkomna með innleiðingu Schengen aðildarinnar.
Fyrirheitna landið! Land tækifæranna!
Nú er bara eftir að sjá hvernig Hells Engels gengur að fóta sig með dyggri aðstoð Fáfnismanna.Við erum líklega bráðum orðin nokkuð vel stödd í hinum metnaðarfulla draumi um fjölmenningarsamfélagið.
Fjórir í gæsluvarðhald | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.10.2010 | 14:19
Innrás í helgidóm sanntrúaðra
Allt of sjaldan gefst kostur á því að lesa góða og vel skrifaða pistla hér á blogginu. Það var því hressandi að sjá psitil Rúnars Kristjánssonar góðvinar míns frá Skagaströnd sem brosti við mér þegar ég opnaði tölvuna mína núna fyrir hádegið. Þessi pistill ber yfirskriftina:
Um skammtímaminni og skynsemisrof
Ég ráðlegg sem flestum að leita þennan pistil uppi og lesa vandlega.
Síðast þegar ég leit á síðuna hans Rúnars voru 11 búnir að líta inn. Eiginlega finnst mér að sú tala þyrfti að hækka upp í 11 hundruð fyrir kvöldið.
Sanntrúaðir sjálfstæðismenn eru þó varaðir við.
12.10.2010 | 22:40
Er ekki einhver bilun í gangi?
Nú er hver fréttatíminn af öðrum bólginn af yfirlýsingum frá lánastofnunum og lífeyrissjóðum. Allar þessar yfirlýsingar eiga það sameiginlegt að útilokað sé að afskrifa nokkuð af kröfum í íbúðir eða aðrar eigur fólks sem hætt er að geta greitt af lánum sínum.
Og þessu til staðfestingar eru birtar hinar og þessar tölur og margskonar útreikningar sem í raun eru tilgangslausar. Og ríkisstjórnin er nánast verklaus og lömuð til annara verkefna en að ráða fram úr þessum "krefjandi" vanda.
Ofar allri þessari gífurlega orkufreku umræðu blakar vængjunum hinn óhagganlegi sannleikur.
Sá sannleikur að þegar forsendur lántakans til greiðslu eru brostnar af öllum þeim fjölmörgu samverkandi ástæðum sem allri þjóðinni hafa verið ljósar um nokkurra mánaða skeið þá er einhver hluti krafnanna nú þegar tapaður.
Og það verða allir að skilja það að sögur Sölva Helgasonar um að hann hafi reiknað tvíbura í stúlkuna úti í Kaupmannahöfn - annað barnið svart og annað hvítt - þetta var bara skemmtileg lygi.
Þess vegna verða bæði lánastofnanir og ríkisstjórn að sætta sig við það að reiknikúnstir og yfirlýsingar um stórtjón ef skuldir verða afskrifaðar skipta bara ekki minnsta máli og eru bara tímasóun.
Töpuð skuld er einskis virði og því fyrr sem þessu guðsvolaða fólki er það ljóst- því betra.
7.10.2010 | 21:33
Hvers konar stjórnsýsla er þetta?
Þegar forsætisráðherra flytur stefnuræðu sína á Alþingi mótmæla 8000 einstaklingar á Austurvelli og Alþingishúsið er víggirt. Forsætisráðherra er skipaður lífvörður að því búnu. Forsætisráðherra kemst að þeirri merkilegu niðurstöðu að það þurfi að gera eitthvað fyrir heimilin í landinu!
Góðan daginn!
Forsætisráðherra heldur stefnuræðuna sama daginn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn fagnar því í opinberri yfirlýsingu að hann hafi fengið staðfest hjá ríkisstjórn Íslands að nú eigi ekki að fresta uppboðum á íbúðum fólks í skuldavanda nema til mánaðamóta!
Hvur andsk. er eiginlega að þessari manneskju; varð hún allt í einu fyrir þeirri vitrun að eitthvað hefði farið úrskeiðis og að ríkisstjórn hennar hefði einfaldlega skyldur til að bregðast við?
Hefur JÓHANNA sIGURÐARDÓTTIR á yfir 30 ára stjórnmálaferli sínum kannski heyrt talað um að fjölskyldurnar,- heimilin væru hornsteinar samfélagsins,- og hefur hún kannski einhvern tímann borið sér þau orð í munn sjálf?
Hrár samanburður og ekki smekklegur:
Bóndi verður fyrir því að fjárhúsið, hlaðan og heyið brennur á haustnóttum og allt er ótryggt. Hann gerir það upp við sig að annað hvort fargi hann fénu og bregði búi eða byggi upp að nýju og kaupi hey.
Ef hann tekur seinni kostinn er hann þá að gera það fyrir blessaðar kindurnar af því hann er svo góður?
Íslensk stjórnvöld þurfa ekki að "gera neitt fyrir" fjölskyldurnar í þessu landi.
Íslenskum stjórnvöldu ber skylda til þess að vernda fjölskyldurnar, heimili og börn fyrir hörmungum sem þau urðu fyrir af annara völdum. Og m.a. af völdum íslenskra stjórnmálamanna sem buðust til- báðu, grátbáðu um að þeim væri sýnt það traust að halda dyggan vörð um þetta samfélag.
Lítur ríkisstjórn Íslands kannski eftir allt svo á að hornsteinar samfélagsins séu pólitíkusarnir, bankarnir og embættismennirnir?
Það skyldi þó aldrei vera?
5.10.2010 | 16:13
Geir Jón Þórisson var hetja mótmælanna við Alþingishúsið
Mótmæli fólksins við Alþingishúsið voru fjölmennustu fjöldamótmæli í sögu þessarar þjóðar. Þau voru hvorki vel undirbúin né heldur undir neinni stjórn frá skilgreindri fjöldahreyfingu. Það ríkti því mikil óvissa um framkvæmdina og margir bjuggust jafnvel við slysum eða blóðsúthellingum.
Það nálgast undur eða kraftaverk að ekkert slíkt gerðist og aðeins örfáum vanþroska kjánum tókst að valda meiðslum á lögreglumönnum sem sinntu þarna sínum lögboðnu skyldustörfum.
Í mínum huga var það snjöll hugmynd að reisa þessa girðingu milli lögreglunnar og Alþingishússins annars vegar og mótmælendanna hins vegar. Þetta auðveldaði lögreglunni það að halda fólkinu í hæfilegri fjarlægð en það dró engan veginn þróttinn úr þeim skilaboðum sem þessi mikli fjöldi beindi til Alþingis og ríkisstjórnar.
Geir Jón Þórisson yfirlögregluþjónn var á staðnum. Hann ræddi við fréttamenn yfirvegaður og óttalaus. Engum tókst að fá hann til að sýna kvíða eða öryggisleysi. Hann tók fram að þetta væri réttur fólksins og aðspurður hvort þarna væri mættur meginþorri löggæslumanna kvað hann ekki svo vera. Aðeins væri þarna sá fjöldi sem talið væri að þörf yrði á við þessar aðstæður. En auðvitað væri lögreglan við hverju því búin sem upp kynni að koma óvænt líkt og venjulega.
Snilld!
Og þessi mótmæli fólksins höfðu þau áhrif sem líkja má við kraftaverk. Stefnuræða forsætisráðherra var öll lituð af óttanum við það sem hún svo greinilega hafð búist við á síðustu stundu. Hún var lituð af hræðslunni við eigin þjóð.
Og slíkur var ótti þessarar reisnarlitlu konu í ræðustól Alþingis að hún fann sig knúða til að draga til baka þá frétt sem verið hafði aðalfrétt dagsins í fjölmiðlum.
Sú frétt sneri að ánægju talsmanns Alþjóðagjaldeyrisjóðsins með þá sameiginlegu ákvörðun AGS og ríkisstjórnarinnar að nú yrði ekki frestað nema til mánaðarmóta fyrirhugaðri sláturtíð skuldsettra fjölskyldna á Íslandi.
Jóhanna var ráðvillt á flóttanum frá eigin verkum. Hún þóttist vera undrandi á því að bankarnir hefðu ekki staðið við einhverja samninga sem þeir hefðu gert við ríkisstjórnina?
Hverjir vissu um þessa samninga og um hvað snerust þeir? Og hafði hún ekkert frétt um að neitt hefði þá farið úrskeiðis með þessa samninga fyrr en korteri fyrir stefnuræðuna og hafði hún ekkert af þeim frétt þegar ríkisstjórnin átti þennan sameiginlega ánægjufund með AGS?
En fjármálaráðherrann ræddi um það afrek ríkisstjórnarinnar að hafa endurreist bankana með slíkri reisn að aðdáun vekti hjá alþjóðasamfélaginu!
Misskildi ég eitthvað, ganga þessar tvær ræður upp í einhverjum samnefnara?
Hafi svo verið þá finnst mér að það verði að virða mér til vorkunnar þótt ég skilji ekki þetta undarlega fólk.
Grýttu hnullungi í lögreglu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.10.2010 | 18:07
Svo sárt, svo sárt, en það má ekki tala um það!
Nú verður uppi fótur og fit. Ætla nú prestarnir að taka til máls um pólitík? Hvað er eiginlega á seyði?
Eiga prestanir ekki að vera hljóðir og spakir og láta sér nægja að biðja fyrir öllum?
Ég er afar hræddur um að nú verði blásið til hernaðar gegn þessum voðalegu guðleysingjum sem hafa gengið fram fyrir skjöldu og sagt að þjóðin þurfi á pólitísku uppgjöri við fortíð sína að halda og þá neyð sem af "einhverjum orsökum blasir" við stórum hluta þjóðarinnar og þeim þó mest sem minnstar hafa varnirnar.
Hversu margir skilja að starf prestins er pólitískasta starfið af öllum opinberum störfum? Það er nefnilega svo að flest það sem snertir daglegt líf fólksins í þessu landi er pólitíks eðlis og í beinum tengslum við pólitískar ákvarðanir eða pólitíska samfélagsblindu og þar með pólitíska þögn og aðgerðarleysi.
Þess vegna er það er mikill misskilningur að afskipti prestanna af samfélagshræringum séu utan við þeirra verksvið.Og það er nefnilega ekki nokkur flokkspólitískur broddur í þessari ályktun.
Af því góður prestur finnur til með söfnuðinum þegar honum líður illa og hann finnur til skyldu sinnar þegar hann tekur til máls.
Prestar furða sig á niðurstöðu um landsdóm | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
2.10.2010 | 09:47
H.K. Laxness 1967
Nú í morgun opnaði ég sem oftar eina af bókum Nóbelsskáldsins og staðnæmdist við eftirfarandi kafla í bókinni: Yfirskygðir staðir
--------------------------------------
HEIMUR PRJÓNASTOFUNNAR
Sett saman að beiðni leikstjórnarnámskeiðsins norræna í Reykjavík 1967
...............................................................................................................
........."Hverskonar pláss er þetta? Það er heimur Prjónastofunnar og siðan ekki söguna meir. Og hver er gángur leiksins? Að upphafi leiks er ljóst að þessi heimur er heldur en ekki farinn að líta upp á landið. Þó til sé kvaddur ýmiskonar liðsauki sitt úr hverri áttinni, þá heldur Heimsendir áfram að vera á næstu grösum. Fegurðarsamkepnin og Örkumlamannafélagið eru komin í hár saman. Styrjöldin skellur á. Þessi heimur geingur upp fyrir eldi. Og einsog í öðrum styrjöldum er aðeins einn sigurvegari: næturgalinn. Lokaatriðið gerist daginn eftir ragnarök þegar einn og sérhver finnur sálarmaka sinn um aldir alda. Næturgalinn er að sýngja, - það er reyndar aðeins einn íslenskur þröstur; en þetta er Himnaríki og tjaldið fellur...................................."
Auðvitað á það að vera bannað að slíta sundur texta Halldórs Laxness og hirða bestu bitana en:-
Þurfum við að hafa séð leikritið á tjaldi til að skilja þetta í dag?
En þetta er ritað 1967 !