Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
1.10.2010 | 19:47
Átök við endurreisn samfélagsins eða átök við ríkisstjórnina
Það urðu fjöldamótmæli við setningu Alþingis í dag. Það var brotin rúða í Dómkirkjunni við ævagamla helgiathöfn. Alþingismenn, ráðherrar og annað tignarfólk fékk eggjaslettur á viðhafnarfatnaðinn og okkar indæla Dorrit eiginkona forseta lýðveldis varð óttaslegin og ráðvillt.
Líklega eru svona uppákomur ekki venjubundin viðbrögð bresku þjóðarinnar við þingsetningar.
Enda eiga svona atburðir ekki að tengast löggjafarþingi.
Alþingismenn eiga ekki að þurfa að óttast að ganga til helgistundar í Dómkirkjunni og þeir eiga ekki að þurfa að ganga inn í Alþingishúsið bakdyramegin vegna hræðslu og það á ekki að vera þörf á að fresta setningu Alþingis á meðan alþingismenn og tignargestir þurrka fúlleggjaslettur af fatnaði sínum.
Og það er raunalegt að fyrsta skjaldborgin margumrædd varð skjaldborg lögreglunnar til varnar alþingismönnum og ríkisstjórn fyrir þjóðinni.
Ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms fylgdu miklar væntingar í upphafi og þjóðin vonaði að þeim orðum þeirra mætti trúa að nú yrði stjórnað með þarfir þeirra verst settu að leiðarljósi.
Ríkisstjórn sem á upphafdögum kenndi sig við norræna velferð sveik öll sín loforð og þá þó verst sem hún hét að byggja um skjaldborg og halda verndarhendi yfir.
Það varð efnahagshrun af óhugnanlegri og óþekktri stærð. Það urðu hamfarir líkastar þeim sem náttúruöflin hafa valdið þegar hamfarir elds og ísa gerðu þetta land nær því óbyggilegt.
Þessar hamfarir urðu af völdum stórglæpamanna sem fengu ráðrúm til að fara ránshendi um eigið samfélag.
Þjóðin vissi þetta og hún var reiðubúin til að takast á við það að byggja þetta land sitt upp að nýju.
Þjóðin var vissulega reiðubúin til að taka á með þeim stjórnvöldum sem hún hafði kallað til starfa.
En það var ekki boðið upp á þá leið.
Þess í stað er þjóðinni skipað að taka á fyrir Alþjóðagjaldeyrissjóðinn; taka á fyrir Samfylkinguna og ESB drauma hennar. Taka á fyrir pólitíska tignar - og valdastöðu Steingríms J. Sigfússonar.
Og taka á fyrir stórþjófana sem hafa keppst um það sín á milli hver fengi mest niðurfellt af þeim milljarðaskuldum sem þeir stukku frá í felur til útlanda.
Þetta ætlar íslenska þjóðin ekki lengur að láta yfir sig ganga.
Sá fjöldi sem fylkti liði á Austurvelli framan við Alþingishúsið í dag var að senda ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar þau skilaboð frá þjóð sinni að nú væri þolinmæði hennar þrotin. Og að dagar ríkisstjórnar þessa gæfusnauða fólks væru taldir.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (29)
29.9.2010 | 14:07
Samtal Þórhalls og Lilju Mósesdóttur
Lilja Mósesdóttir alþingismaður gat gengið upprétt frá viðtalinu við Þórhall Gunnarsson í gærkvöld á Stöð 1. Þar kom margt fram um vinnubrögð norrænu velferðar... sem gagnlegt var að vita.
Í stuttu máli: Aðild AGS að uppbyggingu samfélagsins eftir bankahrunið var samkvæmt ósk þáv. ríkisstjórnar og dagsetningin er í nóv. 2008. Gert var ráð fyrir að þegar þeim samstarfssamningi lyki hefði náðst sá árangur að byggja upp gjaldeyrisvarsjóð Seðlabankans að 700 milljörðum.
Nú hefur þetta markmið náðst og Lija spurði að vonum; - eftir hverju er beðið?
Af hverju kveðja engir alþingismenn sér hljóðs og krefja ríkisstjórnina svara um þetta mikilvæga mál?
Lilja Mósesd. taldi eins og ég að tillögur Sjálfstæðisflokks um að skattleggja viðbótarsparnaðinn strax hefðu reynst það bjargræði fyrir ríkissjóð ef sú leið hefði verið valin að það hefði verið réttlætanlegt sem neyðarráðstöfun til bráðabirgða.
Sömu augum leit hún á tillögur Framsóknarflokks um 20% niðurfellingu skulda.
Þessar tillögur voru báðar hunsaðar vegna þess að þær komu frá stjórnarandstöðunni!
Hún vék sér ekki undan þeirri erfiðu spurningu Þórhalls, hvort hún teldi að hún myndi taka sér stöðu með mótmælendum við Alþingishúsið ef hún sæti ekki inni á Alþingi.
Og hún svaraði því játandi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (57)
27.9.2010 | 18:15
Er þá makrílsmölun ekki næsta verkefni ESB?
Megum við ekki búast við því á næstu dögum að María sjávarútvegsstjóri ESB skrifi gagngnaseðilinn í hvelli og blási til smölunar á makrílnum út úr íslenskri fiskveiðlögsögu?
Eða hefur þetta mikilvæga samband á vegum friðar og jafnréttis kannski hugsað sér að nýta búsvæði íslenskra nytjastofna til beitar fyrir hafbeitarstofna Skota og Norðmanna?
Hvað ætli þessi hótun um að beita hörku leiði af sér fyrir okkur?
Varla getur aðgerðin verið svo heiftúðug að það standi til að taka Össur í gíslingu og krefjast lausnargjalds!
Hvar stöndum við þá?
ESB lætur hart mæta hörðu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.9.2010 | 17:09
Mannauðurinn á Alþingi-nýjasta sýnishornið
Ég álpaðist til að hlusta á viðtal fréttamannsins við þennan drengstaula sem nú á að prýða einn af stólum löggjafarþingsins.
Varla þarf að óttast það að auðmýktin fyrir hlutverkinu verði honum fjötur um fót.
Og ég velti því fyrir mér hvort hárin hafi ekki risið á fleirum en mér þegar þeir fylgdust með málfarinu og málsnilldinni. Ég sé fyrir mér svipinn á félögum hans í þingflokknum þegar hann tekur til við ræðuflutninginn. Fáir þingflokkar eiga betur talandi fulltrúa á Alþingi en þingflokkur D listans að mínum dómi.
Ég legg til að þeir Einar Kr. og Árni Johnsen taki hann nú í rækilega kennslustund.
Heiður að setjast á Alþingi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.9.2010 | 12:36
Pólitísk siðferðisröskun skerðir alltaf dómgreindina
Alþingi Íslands gafst upp við að afgreiða siðferðislegt prófmál. Þetta varð ýmsum efni til vonbrigða en auðvitað var aldrei við því að búast að löggjafarþingið kæmist óskaddað frá þessum átökum nú fremur en áður á næstliðnum árum.
Ekki þurfti langan tíma til að hlýða á umræður gærdagsins á Alþingi þar sem rædd var afgreiðsla þingmannanefndarinnar á málskoti til Landsdóms.
Málið fékk dramatíska umræðu þar sem höfðað var til samúðar með meintum sakbornigum. Nokkrir leyfðu sér þó að grípa til rökhyggjunnar. Einn þekktasti skylmingaþræll Sjálfstæðisflokksins minnti á að nafngreindir ráðherrar hrunstjórnarinnar hefðu axlað sína ányrgð með því að hverfa af vettvangi stjórnmála.
Þetta viðhorf á ég afar erfitt með að samþykkja.
Ég minni á það að enginn þessara tilgreindu fyrrverandi ráðherra hefur viðurkennt nokkra ábyrgð.
Af öllum þein 147 einstaklingum sem rannsóknarnefndin spurði þeirrar spurningar hvort þeir teldu sig seka um einhver þau efni sem tengja mætti við aðdraganda hruns íslenska fjármálakerfisins svaraði enginn játandi- enginn!
Hvernig axlar maður ábyrrgð á ógæfu sem hann neitar að hafai valdið?
19.9.2010 | 23:11
Vor háborna skömm
Það er málvenja í tali þjóðarinnar að þetta og hitt sé til háborinnar skammar. Það er rík skylda og undanbragðalaus á Alþingi að ávarpa þingmenn og ráðherra Háttvirta og Hæstvirta úr ræðustóli.
Nú eru taldar líkur á að Alþingi heykist á að vísa ákærum á fyrrverandi Hæstvirta ráðherra úr hrunstjórninni svonefndri til Landsdóms sem þá yrði kvaddur saman fyrsta sinn í allri sögu hans en tilvist hans og tilgangur hefur verið öllum ljós og valdsvið hans skýrt frá því að lög um hann voru fest.
Nú er þess að gæta að málskot um sekt umræddra ráðherra sem af mörgum eru taldir hafa brotið gegn lögum um ráherraábyrgð hófst með umræðu á Alþingi sem leiddi til þess að með atkvæðagreiðslu var talið rétt að hefja þetta ferli og til þess kjörin nefnd þingmanna.
Nú er komið að því að fullnusta vinnu umræddrar nefndar og nú stendur allt þversum í koki fjölmargra þingmanna.
Jafnframt hafa meintir sakborningar tjáð sig og vísað ti þess að eftir 2006 hafi verið ógerningur að bjarga íslensku bönkunum. Því séu þeir saklausir. Og þetta komast þeir upp með og þetta er reyndar viðurkennt sem kjarni málsins í hugum vina og vandamanna þessa vesalings fólks.
Mest öll umræðan um alvarleika hrunsins hefur beinst að heilsufari banka og fésýslustofnana. Sama gildir um viðhorf þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr og mest orka hennar fer í að styrkja bankakerfið.
Fólkið í landinu og örlög þess í lengd og bráð er auðvitað nokkuð rætt þar þegar tími vinnst til og mikill skilningur ríkisstjórnar á því að taka þurfi vel á vanda heimila og jaðarhópa svonefndra þegar búið verði að treysta fjármálakerfið og afskrifa nægilega af milljarðaskuldum þeirra sem mestu tókst að stela frá bönkunum innan- sem utanfrá eftir því sem betur lá við þetta og þetta sinnið.
Og þess vegna skiptir líklega engu máli um sekt eða sakleysi ráðherranna umræddu og lafhræddu hversu miklu var rænt af fólkinu í þessu landi á þeim tæpl. tveim árum sem þeim tókst með guðshjálp að hjálpa bönkunum við þá iðju með því að forða þeim frá hinu illræmda run sem hefði þá stoppað alla veisluna.
Margir spá því að háttvirtir alþingismenn og hæstvirtir ráðherrar muni hjálpast að við að samþykkja þann skilning að eftir 2006 hafi verið ógerningur að barga bönkunum og ástæðulaust að sjálfsögðu að ákæra fyrir að vanrækja skyldur við þjóðina.
18.9.2010 | 15:31
Íslendingar munu borga!
Um hvaða Íslendinga er mannfjandinn að tala?
Skulda Íslendingar Hollendingum eitthvað??
Hvað varðar mig um það þótt einhver Steingrímur sé í basli vegna þess að einhver hópur sem hann er í forsvari fyrir skuldar einhverjum útlendingum?
Flest er nú orðið fréttnæmt á Íslandi, ég segi nú ekki annað.
En meðal annara orða: Hvur er eiginlega þessi Steingrímur J Sigfússon?
Steingrímur: Íslendingar munu borga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.9.2010 | 21:09
Voru þá útrásarvíkingar allan tímann að "barna á kostnað hreppsins?"
Mikil og orkufrek kappsemi ungra manna til ábata og velsældar hefur stundum verið kölluð gredda. Þetta er auðvitað yfirfærð merking og þá vísað til óseðjandi og orkufrekrar fíknar í kynlíf sem lengi vel var skilgreind með þessu groddalega málfari.
Enn einu sinni berast fréttir af "afrekum útrásarvíkinganna" þar sem milljarðahundruðum hefur verið týnt í bókhaldflækjum sem enginn botnar ennþá í.
Nú sýnist mér að ótrúlega margir þessara garma sem í dag mega flokkast til dreggja samfélagsins hafi stundað þá iðju sem vísað er til í titli þessarar færslu.
Þegar sveitarómagar fóru að þreyta hreppsnefndir með óhóflegri frjósemi var haft á orði að þeir væru að barna á kostnað hreppsins.
Orkan/gredda útrásarþjófanna kom nefnilega aldrei innan frá en var öll sótt til hreppsins og kostnaðurinn við afleiðingarnar að sama skapi hirtur úr vösum gjaldenda.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.9.2010 | 15:07
Vondur sannleikur fær vonda niðurstöðu sem ekki er hægt að hnekkja
Nú logar samfélagið stafna á milli rétt eina ferðina. Nú á að koma réttlátri reiði þjóðarinnar í farveg ákæru og dómtöku.
Hvað er málsefnið?
Hvort ráðherrar eigi að bera ábyrgð á hruni bankanna.
Nú er það upplýst að þeir 147 einstaklingar sem mest bar á í þeim hlutverkum stjórnsýslu og fjármálastarfsemi eru allir blásaklausir að eigin dómi. Því hafa þeir allir lýst yfir við rannsóknarnefndina.
Og eftir að þingmannanefndin svonefnd skilar áliti þar sem fjórir fyrrv. ráðherrar eru taldir af meirihluta eiga að sæta dómseðferð hjá Landsdómi þá koma þeir hver af öðrum fram og tísta um það að þeir séu ekki ábyrgir fyrir hruni bankanna!
Ég held að þetta megi að nokkru til sanns vegar færa í einhverjum skilningi.
En tímasetningin 2006 sem talin er vera dauðalínan í endanlegum afdrifum bankanna er í mínum huga alls ekki dýrasti sannleikurinn.
Ég tel að viðbrögð ráðherranna og seðlabankans, aðgerðarleysi og klaufaleg mistök eftir 2006 og fram til haustsins 2008 þegar hrun bankanna varð staðfest hafi verið alvarlegur stjórnsýsluglæpur og alvarlegasti hluti bankahrunsins.
Þetta álit mitt er byggt á þeirri vitneskju að yfirvofandi hruni bankanna var haldið leyndu fyrir þjóðinni og dólgslegar yfirlýsingar viðhafðar um trausta stöðu fjármálakerfisins.
Það gaf glæpamönnum bankanna færi á að ræna saklaust fólk á Íslandi sem erlendis af slíkri kappsemi að flestum sortnar fyrir augum við að lesa þann þátt rannsóknarskýrslunnar.
Mér þykir ekki ólíklegt að málsvörn pólitíkusanna í þá veru að þeir hafi ekki megnað að stöðva bankahrunið eftir 2006 bara eftir atvikum fremur líkleg til að standast fyrir dómstólum.
Og þá er komin sú elskulega niðurstaða að þjófnaður hryðjuverkamanna inni í heimilum fólks í tvö ár með fullri vitund stjórnvalda hafi eiginlega ekki verið á ábyrgð nokkurs manns annars en fólksins sjálfs.
Vegna þess að tveim árum fyrir hrun voru bankar og efnahagskerfi þjóðarinnar komið inn í brimskaflinn og brotlendingin óhjákvæmileg!
Og fjármálaspekingurinn breski sem sagði okkur í hvern voða við værum að stefna þurfti bara alls ekki að fara heim og læra fræðin sín betur.
Hver var það nú aftur sem sagði það?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
15.9.2010 | 09:59
Landslög þurfa víst ekki að þjóna réttlætiskennd meirihlutans
Ég leyfi mér að halda því fram að stór meirihluti þjóðarinnar telji að fella eigi niður ákærur á hendur þessum hópi.
Ég styð þessa ályktun því viðhorfi að við meint lögbot þessara einstaklinga hafi það verið ljóst að þeir hafi átt stuðning meirihlutans. Og ég held því fram að þarna hafi lýðræðislega kjörið Alþingi verið komið í það ámælisverða hlutverk að beita vinnubrögðum sem kalla má lýðræðislegt ofbeldi og þarf varla að skýra nánar það hugtak.
Lára talin hæf | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |