Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
25.1.2011 | 16:15
Um hvað snýst málið?
Hér eru þrír tugir afbragsfólks að samræma tillögur sínar um breytingar á stjórnarskránni. Þessi vinna byggir að nokkru á þjóðfundinum þar sem saman kom 1000 manna hópur til að segja álit sitt á þeim gildum í samfélagi okkar sem mestu ráða um framvindu mannlífs.
Þegar þetta stjórnlagaþing hefur komist að niðurstöðu verður hún lögð fyrir Alþingi til álits og þá breytinga ef þurfa þykir á þeim bæ. Síðan er þessi breytta stjórnarskrá lögð fyrir þjóðina til synjunar eða samþykktar.
Hefði það einhverju breytt að haga kosningum á annan veg?
Af hverju þola sjálfstæðismenn ekki nýja stjórnarskrá með opnara lýðræði?
Svarið er auðvitað öllum ljóst.
Stjórnlagaþingskosning ógild | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.1.2011 | 16:41
Vitnað í karlinn í brúnni
Ég var að lesa athyglivert viðtal í Fiskifréttum. Rætt var við Snorra Snorrason skipstjóra á Klakki S H sem fiskaði fyrir 1,150 milljónir á s.l. fiskv. ári. Þetta eru mestu aflaverðmæti íslensks ísfisktogara á því ári.
Ég leyfi mér að vitna beint í viðtalið:
"Víðast hvar á Vestfjarðamiðum og úti fyrir Norðvesturlandi hefur verið hægt að fátonn af þorski á togtímann. Þegar þess er gætt að nóg er af þorski út um allt er harla öfugsnúið að ekki skuli vera gefinn út meiri kvóti. Það mætti hiklaust veiða 220- 240 tonn af þorski án þess að skaða stofninn. Ég hef enga trú á togararallinu sem aðferð til að mæla stærð þorskstofnsins. Sem dæmi get ég nefnt að þegar eitt rallskipana, Jón Vídalín, var á Vestfjarðamiðum vorum við á svipuðum slóðum að fá 4-5 tonn í holi í hitaskilum sem fiskurinn sækir í. Rallskipið átti hins vegar togslóð sem var 700-800 föðmum utan við okkur og þar fékk það 400-500 kíló í holi enda var það í ísköldum sjó............"
Hér er að sjálfsögðu aðeins sá hluti viðtalsins sem snýr að þorskveiðikvótanum og því sleppt sem Snorri skipstjóri segir um innköllun aflaheimildanna, en þar er hann á öndverðum meiði við mig og mín skoðanasystkini.
17.1.2011 | 15:41
"Sláðu aldrei í folann fyrr en þú ert kominn á bak"
Góð þingbyrjun hjá Jóhönnu.
Mér hugnast betur að ríkisstjórnin stýri nýtingu á fiskistofnum okkar en hagsmunasamtök. Þessi hroki formanns Vinnuveitendasambandsins er ósköp hvimleiður og mun þó líklega fremur en hitt hraða því að stjórnvöld taki af skarið í deilunni um framsalið á kvótanum.
Fyrirsögnin er frá Gesti Einarssyni alþ.m. á Hæli en svona ávarpaði hann ungæðingslegan mótframbjóðanda sinn að loknum framboðsfundi snemma á öldinni sem leið.
Ólíðandi að tengja saman kjarasamninga og kvótakerfið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
11.1.2011 | 17:45
Stendur iðnaðarráðherra fyrir náttúruspjöllum?
Nú hefur verið ákveðið að hefja tilraunaboranir í Gjástykki og talað um kostnað sem nemi hundruðum milljóna. Þetta er gert í óþökk umhverfisráðherrans og í trássi við fyrirhugaða friðun svæðisins.
Er ekki orðin ástæða til að stjórnvöld taki sig á og láti meta þau svæði sem friða skal? Það er óþolandi að í hvert sinn sem atvinnuleysi gerir vart við sig sé ráðist á nærliggjandi virkjunarkost með stóriðju að áformi. Rétt eins og aðrar þjóðir verðum við að sætta okkur við að leysa atvinnuþörf með öðrum ráðum en orkufrekum iðnaði.
Mótmælir rannsóknarleyfi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.12.2010 | 16:04
Gleðileg jól!
Sendi öllum bloggvinum mínum sem og öðrum landsmönnum óskir um gleðilega og farsæla jólahátíð.
Gleðileg jól!
24.12.2010 | 13:35
Skotið á hurð með haglabyssu
Skotið á hurð í Bústaðahverfi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.11.2010 | 15:26
Áfram Jón Bjarnason!
Veiðiheimildir gegn gjaldi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.11.2010 | 16:26
Gott að sjá lífsmark með alþingismönnum
Árni Johnsen vill láta Alþingi hafa eitthvað fyrir stafni á meðan hann er í veikindafríinu. Tólf þingsályktunartillögur og tvö lagafrumvörp er verkefnið sem hann setur fyrir Alþingi. Flest eru þetta afar þörf verkefni og sannarlega kominn tími á að skoða áhrif Schengen á íslenskt samfélag.
Mikið vorkenni ég nafna mínum að þurfa að umgnagast alla þessa moðhausa þarna á Alþingi.
Lagði fram 12 tillögur og tvö frumvörp | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.11.2010 | 14:57
Eitthvað annað en álver á Bakka?
Nú hefur Skipulagsstofnun rekið fleyg í öll áform um álverið á Bakka við Húsavík.
Þetta gæti þýtt á mannamáli að eitthvað annað en álver þurfi nú að birtast í hugskoti þeirra sem ekki sjá aðra kosti fyrir Íslendinga en stóriðju og álver.
Mér brá svolítið áðan þegar ég hlýddi á gufuna mína í bínum. Þar var maður nokkur að upplýsa í spjalli við Ævar Kjartansson að ef allt mannkynið leyfði sér neyslu okkar Íslendinga dygði jörðin ekki til að uppfylla þær þarfir. Nei, það þyrfti 13,- þrettán jarðir!
Þetta álit Skipulagsstofnunar mun líklega ekki breyta áformum um álver á Bakka. Nú mun hefjast hávær barátta heimamanna og pólitíkusa sem heimta að þetta álit verði að engu haft.
Nú fer að styttast í að stórbóndinn á plánetunni Jörð verði heylaus og hvað er þá fram undan annað en fellirinn illræmdi. Þá verður tilgangslaust fyrir hjörðina að góla: "En á hverju eigum við að lifa?"
Álver á Bakka út af borðinu? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.11.2010 | 16:47
Þjófaumræðan í fjölmiðlum
Næstum daglega berast okkur fréttir af fólki sem staðið hefur verið að þjófnaði. Þetta hefur færst nokkuð í aukana undangengin missiri og um ástæðurnar komið fram ýmsar ágiskanir. Stundum er líka greint frá hvort "þýfið" eða hluti þess hafi náðst.
Fyrir rúmum tveim árum hrundi íslenska hagkerfið til grunna og er sá atburður flokkaður undir heimssögulega stærð. Nú nýlega hefur sá grunur verið nær því staðfestur að ástæðan fyrir þessu hruni hafi að meginhluta verið sú að bankarnir okkar voru rændir innanfrá!
Það munaði þá ekki um það,- barasta rændir innan frá! Og hverjir voru það svo sem komust þarna inn og rændu? Það hefur ekki verið upplýst til hlítar en grunur leikur á að það hafi verið fólkið í æðstu stöðunum. Það hefðu einhvern tímann verið talin tíðindi.
Sá er munurinn á umræðunni um ránin í bönkunum og þjófnuðum úr sjoppum og sumarbústöðum að þegar rætt er um það síðarnefnda er ævinlega talað um þjófa og þýfi. Þegar hins vegar er rætt um fyrrnefndu athafnamennina þá eru nafngreindir einhverjir tignarmenn og grunur um vafasama gerninga, undanskot fjármuna til aflandseyja, kennitöluflakk, afskrifaðar skuldir og hvaðeina sem íslensk tunga hefur þróað til að breyta alþýðumáli í viðskiptalegt tungutak.
Samfélagið er orðið sljótt og meðvitundarlaust í þessu ástandi og næstum enginn trúir því lengur að þessi mál lendi nokkurn tímann fyrir dómstólum.
Þetta er íslenskt fyrirbæri sem á rætur aftur í aldir þegar embættismenn flugust á dauðadrukknir á Alþingi og urðu jafnvel mannsbani. Og komust upp með það af því enginn var þeim æðri.
En í dag er reyndar svo komið á Íslandi að þegar fólk ræðir um þetta eða hitt stórfyrirtækið eða glæsihýsið og nefndur er eigandi þá spyr fólk svona upp í vindinn:
Hvernig gat hann stolið þessu?
Og spurningin á fullan rétt á sér.
Enginn leyfir sér þó að segja: Þarna sé ég hann Jón Jónsson framkvæmdastjóra og þjóf!
Ekki af því að fólki finnist hann minni þjófur en hún Jóna Jóns sem stal kexinu í Nettó.
Nei, ástæðan er sú að maðurinn er nú einu sinni framkvæmdastjóri fyrir miklum umsvifum og hefur mikið umleikis.