Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Um erlenda fjárfesta og kínverska sægreifa á Álftanesi

"Við þurfum að leggja allt kapp á að laða til Íslands erlenda fjárfesta!" Þessi þula er auðlærð enda virðist engin umræða um uppbyggingu hagkerfisins vera talin marktæk nema þulan sé höfð yfir í það minnsta einu sinni og þetta er farið að minna á ályktun Catos gamla um örlög Karþagó.

Auðvitað gildir um þuluna þá arna eins og flestar þulur að hún er ætluð fólki með bernskan hugarheim.

Við eigum banka sem geyma 2000 milljarða og lífeyrissjóði sem nálgast þá sömu upphæð hratt. Hvað um fjárfestingar í atvinnuskapandi fyrirtækjum sem fjármagnaðar væru með þessum krónum?

Það er ástæða til að spyrja þá sem berjast hvað harðast fyrir þessari hugsjón um erlenda fjárfesta en jafnframt gegn inngöngu okkar í ESB og vísa AGS út í ystu myrkur hvað þeir meini eða hvort þeir viti yfirleitt hvað þeir meina?

Nú hafa Kínverjar orðið við þessari ósk um erlenda fjárfesta og keypt sig inn í útgerðarfélag á Álftanesi! Og nú er íslenska þjóðin ráðvillt og agndofa einu sinni enn og sjávarútvegsráðherra sestur yfir málið áhyggjufullur. En nú er ástæða til að rifja það upp að lögin um stjórnun fiskveiða geyma varnir við svona spákaupmennsku.

Úthlutun aflaheimilda myndar ekki eignarrétt enda er aflaheimildum úthlutað til árs í senn. Einfalt svar við "erlendri fjárfestingu" í fiskveiðiauðlindinni er að svipta umrætt skip aflaheimildum og málið er leyst.

Og lausnin einföld. 


Nú er fjárausturinn til okkar byrjaður. Hvar endar þetta?

Þetta eru mikil tíðindi. Nú loksins fer ég að leggja við hlustir þegar hann Árni Björn hringir á Útvarp Sögu. Hann er lengi búinn að halda því fram að Brusselið sé svona nokkurs konar huggulegt útibú frá Himnaríki þar sem allir hafi það gott og elski hvern annan.

Mikið óskaplega er þetta nú annars gott fólk svona án gamans!

Ég vona bara að þetta endi ekki með ósköpum eins og þegar bændurnir af Reykjaströndinni fóru til Hofsóss á sexæringi til að sækja gjafakorn frá blessuðum kónginum í nóvember 1859.

Sú ferð endaði með því að ofsaveður rak á með stórhríð og við lendingu brotnaði báturinn. Flestir skipverjar komust við illan leik til bæja en einn hvarf í sortann og fundust bein hans að því talið var sextán árum síðar. Þarna króknaði líka úr kulda og vosbúð, langa- langafi minn Ólafur Kristjánsson smiður frá Ingveldarstöðum rúmlega sextugur.

Ekki fara sögur af nýtingu á gjafakorninu frá Brus !---nei frá kónginum.


mbl.is Ísland á nú rétt á ESB-styrk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú er íslenska þjóðin áreiðanlega hætt að undrast

Svo er nú komið að það má teljast útilokað að heimska og vanburðir stjórnsýslu og opinberra embættismanna geti orðið aumkunarverðari en orðið er. Sögulegar ambögur forsætisráðherrans á þjóðhátíðardaginn hafa verið aðhlátursefni fólks síðastliðna viku og vonandi verður það met ekki slegið í bráð.

Nýfallinn er dómur Hæstaréttar um ólögmæta lánasamninga og ríkisstjórnin er lömuð af angist. Fyrirsjáanlegt sýnist að bankar og fésýslustofnanir riði til falls öðru sinni á tveim árum og yfirvofandi fjöldi skaðabótamála á hendur ríkinu vegna fullnustugerninga embætta á dómkröfum vegna uppgjörs ólögmætra lánasamninga.

Valgerður Sverrisdóttir fyrrverandi viðskiptaráðherra upplýsir að hún og flestir aðrir fulltrúar stjórnsýslu hafi vitað að bankarnir voru að lána einstaklingum peninga með löglausum skilmálum!!!

Fjármálaeftirlitið var í þessum efnum sem öðrum eins og hrossaflugan í súrmjólkurskálinni og vissi ekkert í sinn haus fremur en fyrri daginn. Sama gilti um Seðlabankann og viðskiptaráðherra ásamt á seinni stigum sýslumannsembættin eins og fyrr segir.

Nú velta íslenskir embættismenn og bankastjórnendur því fyrir sér hvernig megi hnika sér milli stafs og hurðar svo enginn taki eftir og finna sérleiðir framhjá dómi Hæstaréttar!!!!

Og núna í morgun lætur Már seðlabankastjóri "það vaða" í útvarpsviðtali að ef! - ef þessum dómi Hæstaréttar verði fylgt eftir þá verði íslensku bankarnir næstum örugglega settir í þrot! 

Og nú er helst að skilja á yfirmönnum peningastofnana að Hæstiréttur verði að segja til um hvaða samningar eigi að koma í stað þeirra samninga sem hann hafi dæmt ólögmæta!

Er þetta hægt?

Nú er svo komið að það vekur hvorki undrun fólks né umræðu þótt sjávarútvegsráðherra lýsi því yfir að eitt dýrasta kosningaloforð ríkisstjórnarflokkanna, innköllun aflaheimilda verði ekki uppfyllt á hausti komanda. 

Fer þessum ósköpum ekki að linna og getum við ekki fengið gömlu hreppsnefndina í Grímsey til að taka við af þessari guðsvoluðu ríkisstjórn?

Svo mætti hugsa sér að fá gjaldkera kvenfélagsins á Raufarhöfn til að stýra Seðlabankanum.


Er þetta nú áreiðanlega rétt frá sagt?

Ekki hef ég handbærar upplýsingar en man ekki betur en að helsti hvata - og baráttumaður fyrir því að styrkja Kolbeinsey hafi verið sá ágæti Skagfirðingur Stefán Guðmundsson alþingismaður.

Í það minnsta man ég betur eftir baráttu hans fyrir Kolbeinsey en aðkomu Steingríms J. að málinu.


mbl.is Þyrlupallurinn í Kolbeinsey er horfinn og eyjan sjálf mun brátt heyra sögunni til
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Siðareglur fyrir opinbera starfsmenn

Þessi tillaga er góðra gjalda verð. Mikils er vert að vel takist til við þetta verk og því sýnist mér að siðareglurnar þurfi að vera í senn einfaldar og auðlærðar.

Mér kemur þá fyrst í hug að til að byrja með mætti stilla þessum kröfum upp með fyrirmælum um einfalda og góða mannasiði í samskiptum við okkur borgarana. Mér hefur sýnst að stærsta vandamálið sem snýr að þessum fjölmenna hópi sé einfaldlega skortur á mannasiðum sem flestum börnum eru þó kenndir allt frá fyrstu sporum.


mbl.is Frumvarp um siðareglur samþykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverslags endemis bull er þetta í næstum því fullorðnum manni?

Er ég eini maðurinn sem er búinn að fá nóg af þessu endemis bulli Hafró og LÍÚ klíkunnar? Það þarf að fara aftur til fyrstu áratuga síðustu aldar til að finna aflatölur á borð við þær sem veiðiráðgjöf Hafró leggur til árið 2010 !

Og við erum búin að hlíta fiskveiðilöggjöf með aflaskerðingar til verndar fiskistofnum okkar í meira en fjórðung aldar þegar fyrrverandi ráðherra sjávarútvegs kyrjar dýrðarsöng um árangur! þessarar vísindalegu stýringar á afla!

Er virkilega svo komið að sú fræga áróðurstækni Jósefs Göbbels að hamra nógu lengi á lygi og blekkingum til að smíða nýjan sannleika sé nú viðurkennd á Íslandi?

Hinn bitri sannleikur er auðvitað sá að friðun og aflastýring Hafró hefur mistekist og það er fyrir löngu orðið ljóst hverjum þeim sem skoðar allt það ferli án hagsmunabundinnar leiðsagnar.

Stærstur hluti íslensks samfélags er ónæmur fyrir allri rökræðu um stjórnun fiskveiða og þeim fer fækkandi sem þekkja sundur fisktegundir. Það gerir hinum svonefndu vísindamönnum blekkingarleikinn auðveldari.

Og vegna þess hefur Hafró tekist að þróa friðunarfasisma á borð við það að stöðva drengstaula við að veiða þyrskling á stöng af bryggjusporði úti á landi. Um það veit ég sjálfur dæmi.

Það er auðvitað næstum kraftaverk að Hafró hefur ekki ennþá tekist að drepa þorskstofninn við Ísland úr hor vegna ofsetinna fiskimiða í hlutfalli við fæðuframboð. 


mbl.is Hrygningarstofn þorsks stækkað um 66% frá 2007
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ný vinnubrögð í borgarstjórn?

Mig langar til að trúa þessari frétt. Það er kominn tími til að kjörnir fulltrúar í sveitastjórnum og á Alþingi skilji það að til þess er ætlast af þeim að þeir sameinist um að vinna sem einn maður fyrir umbjóðendurna.

Ekki kæmi mér á óvart þótt þarna væri að koma í ljós fyrstu vísbendingar um ný og breytt vinnubrögð sem engar líkur eru til að aðrir en Besti flokkurinn hefði haft þroska og pólitískan kjark til að innleiða í stjórnmálavinnu á Íslandi. 


mbl.is Bjóða Hönnu Birnu að taka sæti forseta nýrrar borgarstjórnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að bjarga ærinni!

Fréttamenn eru ekki alltaf öfundsverðir. Í það minnsta ekki þegar þeir þurfa að skrifa frétt sem þeir ráða ekki við vegna slakrar íslenskukunnáttu.

Ég hef enga trú á því að þessum vaska sigmanni takist að bjarga "ærinni" eins og fréttin segir.

En ég leyfi mér að vona að honum takist að bjarga ánni og helst lambinu líka.


mbl.is Ær í sjálfheldu í Krísuvíkurbjargi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjósendur virðast hafa ákveðið að refsa fjórflokknum. Fyrir hvað á að refsa Ólafi F. Magnússyni borgarfulltrúa?

Nú virðist það liggja fyrir að kjósendur séu búnir að átta sig á samspillingu og ráðleysi fjórflokksins svonefnda. Reykvíkingar hafa sýnt þetta ítrekað í hverri skoðanakönninni af annari undanfarnar vikur þar sem framboð Jóns Gnarr og félaga hans í Besta flokknum virðist vera búið að ná afgerandi forystu í borgarstjórnarkosningunum á laugardaginn.

Mér finnst þetta ánægjulegt og í raun fyrstu vísbendingar um að þeim sé að fjölga sem láta ekki aka sér eins og malarhlössum á kjörstað eftir ábendingu. Og að þeim sé farið að fjölga verulega sem láta ekki spillta pólitískusa ljúga að sér ítrekað.

Framoð Jóns Gn. er andsvar við spillingu og lygum gömlu stjórnmálaflokkanna.

En hér eru reyndar fleiri listar í framboði og fleiri valkostir þar með. Ég nefni lista Frjálslynda flokksins og svo framboð Ólafs F. Magnússonar. Frjálslyndi flokkurinn hefur aldrei verið í aðstöðu til að láta til sín taka við að koma sínum málefnum til fullnustu. Hann virðist ekki vera valkostur ef marka má skoðanakannanir. Spyrja má hvers vegna? Eru þar ótrúverðugri frambjóðendur en hjá Besta flokknum?

Og síðan má nefna hinn reynslumikla borgarfulltrúa Ólaf F. Magnússon. Fyrir hvaða spillingu á að refsa Ólafi F. Magnússyni eftir 20 ára farsæl og heiðarleg störf fyrir Reykjavíkurborg?


Söfnunarsjóður pólitískra vitsmuna?

Marga dreymir um heimsfrægð og ekki síst á það við um okkur Íslendinga. Hér hefur það lengi tíðkast að slá upp fréttum af hinu og þessu fólki sem hafi náð heimsfrægð og vakið athygli alþjóðasamfélagsins á þessari merkilegu þjóð norður í Dumbshafi.

Þetta hefur gjarnan verið tengt við uppruna okkar sem erum afkomendur víkinganna norsku sem jöfnum höndum unnu sér frægð í útlöndum með því að drepa fólk og rita um afrekin dýrari bækur en annars staðar eru dæmi um.

Nú erum við enn einu sinni búin að endurnýja heimsfrægðarkortið og eitt öflugasta ríkjasamband heimsins stendur agndofa vegna ótrúlegrar heimsku og skorsts á virðingu íslensku ríkisstjórnarinnar í garð annara ríkja.

það er að renna upp fyrir forystumönnum ESB að Alþingi Íslands sendir inn aðildarumsókn sem engin líkindi eru til að þjóðin samþykki!

Og auðvitað hafa blessaðir mennirnir rétt fyrir sér og þetta veit meiri hluti íslensku þjóðarinnar líka.

Hinsvegar þykir þetta bara ekki lengur neitt furðulegt því fólk þekkir ekki öðruvísi stjórnsýslu. 

Nú höfum við haft tvær ríkisstjórnir í röð þar sem pólitískir og ábyrgðarlausir hálfvitar hafa stýrt flestum ráðuneytum og þjóðin komin á vonarvöl. 

Er ekki hægt að finna eitthvert ráð til að velja pólitíska og jafnframt hættulausa forystu?

Mér dettur í hug einhverskonar söfnunarsjóður pólitískra vitsmuna. Þar gæti fólk sótt um aðild og lagt inn staðfestan vitnisburð um að hafa ítrekað og um nokkurt árabil staðist próf í eðlilegum viðbrögðum við aðsteðjandi verkefnum.

Þegar þessi persóna hygðist sækja um pólitískt forystustarf kæmi saman nefnd sem skoðaði hvort viðkomandi einstaklingur væri kannski "normal" og hættulaus fyrir þjóðina í eitt ár svona til prufu.

Það er nefnilega nóg komið af pólitískri heimsku og lýðræðisofbeldi á Íslandi.

Ég er farinn að óttast þessa heimsfrægð og vil að henni ljúki sem allra fyrst. 


mbl.is ESB efast um umsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband